Músík og saga ehf.
20.06.2008
English

— Á DÖFINNI
— MÚSÍKIN
— ÞJÓNUSTA
— VERKEFNI
— VERKEFNI SEM LOKIÐ ER
 
10. okt. 2005
Fyrirtækið Lausn hugbúnaður ehf. hefur nú tekið við forritun og hýsingu á Ísmús af Vefsýn hf. Miklar tafir hafa orðið á þróun verkefnisins sem nú má ætla að séu að baki. Vinnu er að mestu lokið við að koma hinu merka riti sr. Bjarna Þorsteinssonar Íslensk þjóðlög í Ísmús. Einnig er langt komin vinna við að endurhanna gagnagrunn verkefnisins þannig að leita megi í öllum hlutum verkefnisins samtímis. Þannig gæti t.d. leit að tilteknu lagi skilað niðurstöðum úr þjóðlagasafni sr. Bjarna, flutningi lagsins í Munnlegri geymd eða úr hljóðritasafninu og jafnvel myndum úr handriti eða handritum. Hér er því að verða til tæki sem ekki á sinn líka og opnar leikum sem lærðum gríðar öflugan aðgang að tónmenningu þjóðarinnar.

Endurbættur Ísmús verður kynntur opinberlega fyrir árslok.

1. maí 2004
Í dag opnaði Jón Þórarinsson tónskáld og fræðimaður Munnlega geymd, gagnagrunn sem veitir aðgang að þjóðfræðaefni Árnastofnunar. Um er að ræða 2000 klst. af hljóðupptökum þar sem rætt er við ríflega 2000 aldraða Íslendinga úr öllum landshlutum. Heimildarmennirnir segja sögur, kveða rímur, syngja sálma og gefa innsýn í samfélag og menningu sem nú er horfin. Búið er að skrá yfir 90% af þessu efni, um 38.000 færslur, og er þessi skráning þegar aðgengileg á Netinu. Unnið er við að setja hljóðupptökurnar sjálfar í grunninn og má þegar heyra hljóð við um 900 færslur.

Ekki er fráleitt að tala hér um nýja Íslendingabók því fullyrða má að nær allir geti fundið skyldmenni í svo miklum fjölda heimildarmanna. Auðveldur aðgangur að þessu efni er mikilvægur fyrir skólakerfið og fræðimenn fá hér aðgang að öflugu tæki til rannsókna á menningararfi og sögu þjóðarinnar.

Munnleg geymd er hluti af Ísmús verkefninu og bætist við tvo gagnagrunna sem þar eru fyrir: Handrit og prent, sem birtir músíkhandrit varðveitt í íslenskum söfnum, og Hljóðrit þar sem hlíða má á elstu hljóðritanir sem gerðar voru á Íslandi og varðveist hafa.

Unnið er við að koma Þjóðlagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar í gagnagrunn sem ætlunin er að tilheyri Ísmús. Þar með er komin gátt að músík- og menningararfi þjóðarinnar en ekki á sinn líkan.

23. apríl 2004
Eins og fræðast má um á verkefnasíðu Músu, hefur undanfarið ár verið unnið við að hanna gagnagrunn utanum Þjóðfræðaefni Árnastofnunar, verkefni sem hlotið hefur nafnið Munnleg geymd. Þjóðfræðaefnið er alls um 2000 klst. af hljóðritunum. Búið er að skrá mest af þessu efni á vegum Árnastofnunar og er sú skráning þegar aðgengileg á Netinu. Vinnan nú felst aðallega í að klippa hljóðritin niður og tengja þau við fyrirliggjandi skráningu.


  Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar.

Ef horft er til hinnar löngu og litríku vestrænu tónlistarhefðar er íslensk tónlistarsaga fremur stutt og fátækleg. Samt er mikil íslensk tónlistarsaga ósögð og mikil vinna framundan við að bjarga frá gleymsku og glötun menningarsögulegum verðmætum af ýmsum toga. Rannsóknir á íslenskri tónlist og tónlistarsögu eru hverfandi, íslenskri tónlistarsögufræðslu er lítið sinnt og útgáfustarfsemi og miðlun er fátækleg.

Músík og saga ehf.Músa vill breyta þessu. Fyrirtækið varð til utanum ýmis verkefni um íslenska tónlist, tónlistarsögu og rannsóknir sem í gangi voru og þau óþrjótandi verkefni sem við sjáum fyrir okkur framundan. Af verkefnum sem eru tímabundin og því að mestu lokið má nefna vef um tónlistarhátíðina Art2000, Þjóðsöngsvefinn og Tónlist á Íslandi á 20. öld. Önnur verkefni, til að mynd Tónlist á Íslandi í 1000 ár, Tónlistarskólar á Íslandi og CAPUT-vefurinn eru viðvarandi og því reglulega uppfærð.

Flest verkefni verða aðgengileg á <musik.is>, sem þegar er nær tæmandi vefur um íslenska tónlist á Netinu – sjá nánar.

Músa bíður einstaklingum, félögum og samtökum, fyrirtækjum, skólum og sveitarfélögum þjónustu og ráðgjöf varðandi uppsetningu efnis á Vefinn. Við bjóðum fyrirlestra og námskeið, t.d. varðandi upplýsingatækni og tónlist, íslenska tónlistarsögu og tónlistarfræðslu, og tökum að okkur gerð námsefnis og hvers kyns rannsóknir er varða tónlist.

Íslenskar tónlistarrannsóknir eru afskiptar:

  • Að hverju ber að hyggja þegar ætlunin er að kenna fólki að greina milli hina ýmsu tónlistarstíla og hvaða aðferðir eru líklegri en aðrar til að skila árangri? Þetta hefur verið kannað.
  • Orgel komu smátt og smátt í íslenskar kirkjur á seinni hluta 19. aldar. Hvaða breytingar hafði þetta í för með sér fyrir sönglífið í landinu og hver var sú hefð sem vék við komu hljóðfæranna? Þetta væri fróðlegt að skoða.
  • Tónlistarlífið í landinu á margt og mikið að þakka fjölmörgum vel menntuðum erlendum tónlistarmönnum sem hingað komu á 20. öldinni, margir á flótta undan ófriði og ofsóknum. Þessa sögu á eftir að skoða og gera aðgengilega.
  • Hver er jazzsaga Íslands?

Upptalningu sem þessa má hafa langa og mikla. Músa býr að mikilli menntun og reynslu varðandi tónlistarrannsóknir. Einstök verkefni eru þegar nefnd, en af öðrum stórum verkefnum sem nú eru í vinnslu má nefna Ísmús, Tónlistarsögu Reykjavíkur, og Íslensk tónfræðarit. Fjölmörg áhugaverð verkefni bíða og lýsir Músa yfir vilja til samstarfs við einstaklinga, félög og samtök, fyrirtæki, skóla og sveitarfélög um framgang þeirra og / eða annarra verkefna eða rannsókna sem tengjast íslenskri tónlist, tónlistar-fræðslu, -rannsóknum eða -sögu.

Allar fyrirspurnir og ábendingar er varða íslenska tónlist og tónlistarlíf eru vel þegnar sem og fyrirspurnir um starfsemi Músu.

Músík og saga <musik@musik.is>
Jón Hrólfur Sigurjónsson Vox: 821 6413
Bjarki Sveinbjörnsson Vox: 824 6413

  ©  2000 – 2004  Músík og saga