Póstur 11.11.2005
Forsíða
10. okt. 2005
Fyrirtækið Lausn hugbúnaður ehf. hefur nú tekið við forritun og hýsingu á Ísmús af Vefsýn hf. Miklar tafir hafa orðið á þróun verkefnisins sem nú má ætla að séu að baki. Vinnu er að mestu lokið við að koma hinu merka riti sr. Bjarna Þorsteinssonar Íslensk þjóðlög í Ísmús. Einnig er langt komin vinna við að endurhanna gagnagrunn verkefnisins þannig að leita megi í öllum hlutum verkefnisins samtímis. Þannig gæti t.d. leit að tilteknu lagi skilað niðurstöðum úr þjóðlagasafni sr. Bjarna, flutningi lagsins í Munnlegri geymd eða úr hljóðritasafninu og jafnvel myndum úr handriti eða handritum. Hér er því að verða til tæki sem ekki á sinn líka og opnar leikum sem lærðum gríðar öflugan aðgang að tónmenningu þjóðarinnar.

Endurbættur Ísmús verður kynntur opinberlega fyrir árslok.

1. maí 2004
Í dag opnaði Jón Þórarinsson tónskáld og fræðimaður Munnlega geymd, gagnagrunn sem veitir aðgang að þjóðfræðaefni Árnastofnunar. Um er að ræða 2000 klst. af hljóðupptökum þar sem rætt er við ríflega 2000 aldraða Íslendinga úr öllum landshlutum. Heimildarmennirnir segja sögur, kveða rímur, syngja sálma og gefa innsýn í samfélag og menningu sem nú er horfin. Búið er að skrá yfir 90% af þessu efni, um 38.000 færslur, og er þessi skráning þegar aðgengileg á Netinu. Unnið er við að setja hljóðupptökurnar sjálfar í grunninn og má þegar heyra hljóð við um 900 færslur.

Ekki er fráleitt að tala hér um nýja Íslendingabók því fullyrða má að nær allir geti fundið skyldmenni í svo miklum fjölda heimildarmanna. Auðveldur aðgangur að þessu efni er mikilvægur fyrir skólakerfið og fræðimenn fá hér aðgang að öflugu tæki til rannsókna á menningararfi og sögu þjóðarinnar.

Munnleg geymd er hluti af Ísmús verkefninu og bætist við tvo gagnagrunna sem þar eru fyrir: Handrit og prent, sem birtir músíkhandrit varðveitt í íslenskum söfnum, og Hljóðrit þar sem hlíða má á elstu hljóðritanir sem gerðar voru á Íslandi og varðveist hafa.

Unnið er við að koma Þjóðlagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar í gagnagrunn sem ætlunin er að tilheyri Ísmús. Þar með er komin gátt að músík- og menningararfi þjóðarinnar en ekki á sinn líkan.

23. apríl 2004

Eins og fræðast má um á verkefnasíðu Músu, hefur undanfarið ár verið unnið við að hanna gagnagrunn utan um Þjóðfræðaefni Árnastofnunar, verkefni sem hlotið hefur nafnið Munnleg geymd. Þjóðfræðaefnið er alls um 2000 klst. af hljóðritunum. Búið er að skrá mest af þessu efni á vegum Árnastofnunar og er sú skráning þegar aðgengileg á Netinu. Vinnan nú felst aðallega í að klippa hljóðritin niður og tengja þau við fyrirliggjandi skráningu.

Munnleg geymd verður hluti af Ísmús verkefninu og bætist við þau tvö söfn sem þar eru fyrir: Handrit og prent og Hljóðrit. Áhugasamir geta kynnt sér prufuútgáfu verkefnisins <www.musik.is/mg> en formleg opnun er fyrirhugað 1. maí n.k. Allar ábendingar um villur eða betrumbætur á viðmóti eru vel þeganar.

1. mars 2004
Músík og saga gefur út Lim músík – Námsefni í tónlist fyrir framhaldsskóla. Efnið byggir á Aðalnámskrá framhaldsskóla – listir (1999) og er hér í fyrsta sinn reynt að bregðast við skorti sem verið hefur á íslensku námsefni sem þjónar þessum markmiðum hvað varðar tónlist og tengls hennar við aðrar listgreinar.

20. feb. 2004
Lim músík – Námsefni í tónlist fyrir framhaldsskóla er nú fáanlegt hjá Músú.

10. feb. 2004
Undanfarna mánuði hefur Músa, í samvinnu við Árnastofnun og fyrirtækið Vefsýn unnið að smíð- gagnagrunns sem geyma mun og birta hljóðritasafn Árnastofnunar – um 2000 klst. af þjóðfræðaefni. Samningur við Vefsýn um smíði grunnsins var undirritaður 5. sept. 2003 (sjá nánar) og er stefnt að formlegri opnun 29. þessa mánaðar. Búið er að skrá í grunninn upplýsingar um mest af hljóðritunum og eru þær upplýsingar aðgengilegar. Hljóðritin sjálf eru hins vegar enn ekki aðgengilega nema að litlum hluta.

15. jan. 2004
Í söguhluta nýrrar útgáfu af Gads Musikleksikon frá 2003 (bls. 1565) er getið um Ísmús í tengslum við umfjöllun um „solmisation“ – notkun solfa söngheita. Birt er mynd af Guidónísku höndinni úr Appendix handriti Ólafs Brynjólfssonar frá 1755 og þess getið að finna megi handritið í heild sinni í Ísmús.

13. okt. 2003
Organistinn“, fyrsta sýning Tónminjaseturs Íslands var opnuð við hátíðlega athöfn 12. október sl. í nýinnréttuðu húsnæði setursins að Hafnargötu 6 á Stokkseyri – sjá myndir frá opnunarhátíðinni á vef Tónminjaseturs. Sýningin markar tímaót, setrið er opanða og formlega tekið til starfa. Mikið verk er þó framundan við að styrkja of efla setrið, kynna starfsemi þes.

29. sept. 2003
Sunnudaginn 12. október næstkomandi verður Tónminjasetur Íslands formlega opnað á Stokkseyri með sýningunni „Organistinn“. Inntak sýningarinnar er starf frumkvöðla í hljóðfæraleik og tónlistarmálum á svæðinu.

Tónminjasetri Íslands er ætlað að skrá, varðveita og sýna tónminjar þjóðarinnar, gamlar sem nýjar, og auka meðvitund um gildi þeirra. Til þessa hefur enginn einn aðili sinnt þessum hluta menningarinnar sem skildi.

12. október er fæðingardagur Páls Ísólfssonar, eins merkasta frumkvöðuls íslenskarar tónmenningar á 20. öld en nú eru liðin 110 ár frá fæðingu hans. Í tilefni dagsins verður nýtt orgel vígt í Stokkseyrarkirkju.

30. sept. 2003:
Nú er Leiðarvísir Ara Sæmundssonar frá 1855 aðgengilegur í Ísmús <musik.is/ismus>. Þessa bók kallar Hallgrímur Helgason „fyrsta tónmenntarit Íslendinga“ (Sláið inn "leiðarvísir" (án gæsalappa) í Handritaleit undir Handrit & prent). Einnig eru handrit Þorlákstíða komið í grunninn og Lectionarium Romanum, sem sennilega er elsta músíkhandrit sem vitað er með vissu að var á Íslandi (talið frá 12. öld) – við getum ímyndað okkur að Richini hinn lærði, sem Jón biskup Ögmundsson réð til sín að Hólaskóla uppúr 1106, hafi haft rit þetta með sér frá Frakklandi (Sjá Tónlist á Íslandi í 1000 ár, undir árinu 1106). Loks má benda á að Músa er í ágætu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi um að setja músíkhandrit í vörslu stofnunarinnar í Ísmús.

5. sept. 2003:
Í dag var undirritaður samstarfssamningur Músu og Vefsýnar hf. <www.vefsyn.is> um gerð gagnagrunns sem halda mun utan um Munnlega geymd og gera efnið aðgengilegt á Vefnum. Á undanförnum mánuðum hafa tæplega 100 klst. af þjóðfræðaefni verið fluttir af segulböndum yfir á tölvutækt form og er stefnt að því opna almenningi aðgang að þessu efni fyrir áramót. Framhaldið – hve hratt mun ganga að koma öllu þjóðfræðaefni Árnastofnunar í grunninn – er háð þvi hve vel gengur að afla stuðning við verkefnið.

Í dag var undirritaður samstarfssamningur Músu og Vefsýnar hf. <www.vefsyn.is> um gerð gagnagrunns sem halda mun utan um Munnlega geymd og gera efnið aðgengilegt á Vefnum. Á undanförnum mánuðum hafa tæplega 100 klst. af þjóðfræðaefni verið fluttir af segulböndum yfir á tölvutækt form og er stefnt að því opna almenningi aðgang að þessu efni fyrir áramót. Framhaldið – hve hratt mun ganga að koma öllu þjóðfræðaefni Árnastofnunar í grunninn – er háð þvi hve vel gengur að afla stuðning við verkefnið.

22. apríl 2003:
Grallarinn kominn í Ísmús
Undanfarna mánuði hefur verið unnið við að setja Grallarann í Ísmús. <musik.is/ismus>. Verkinu er nú lokið og getur hver sem vill skoðað þessa einu messusöngsbók Íslendinga í liðlega 200 ár. Til að finna bókina er einfaldast að slá inn "Grallarinn" í „Handritaleit“ undir „Handrit & prent“.

16. feb. 2003:
Í gær kl. 14:00 var haldinn á Stokkseyri stofnundur Tónminjaseturs Íslands. Þar með líkur starfi undirbúningshóps sem í tæp tvö ár hefur unnið við að kynna hugmyndina um Tónminjasetur og afla henni stuðnings. Að undirbúningshópnum stóðu Músa , Björn Ingi Bjarnason og Einar S. Einarsson frá fyrirtækinu Hólmaröst ehf. á Stokkseyri og Sigurður Bjarnason, starfsmaður Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands á Selfossi. Tekist hefur að afla fjármuna, m.a. frá Alþingi, fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum til að vinna meigi áfram að framgangi málsins.

Á stofnfundinum voru eftirtaldir aðila kosnir í fimm mann stjórn Tónminjaseturs: Jónatan Garðarsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hinrik Bjarnason, Ægir Hafberg og Torfi Áskelsson. Stjórnin mun vinna að framgangi setursins fram að 12. október 2003 og var stofnfundi formlega frestað þangað til.

10. feb. 2003:
Í dag fékk Músa stuðning frá Alþingi til verkefnisins Munnleg geymd. Verkefni er unnið í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og hefur undirbúningur staðið yfir undanfarið ár.

1. des. 2002:
Í dag fékk Músa stuðning frá Landsbanka Íslands til að vinna að framgangi Tónminjaseturs á Stokkseyri; frekari frétta að vænta af málinu fljótlega. Músa fékk einnig í dag stuðning frá Kristnihátíðarsjóði til koma efni úr Árnastofnun og Þjóðskjalasafni í Ísmús. Vinna við verkið er hafin og er þegar búið að færa inn myndir af Þorlákstíðum, einum mesta dýrgrið sem þjóðin á frá kaþólskri tíð.

21. okt. 2002:
Mynd: Karlakórinn Þrestir flytur lög tónskálda frá ströndinni. Stjórnandi Jón Kristinn Cortez; Anna Guðný Guðmundsdóttir leikur með á píanó. Í baksýn sést „Brennið þið vitar“, listarverk Elvars Guðna, sem afhjúpað var á hátíðinni.

Óhætt er að segja að afmælishátíð Páls Ísólfssonar sem haldin var 12. október á Stokkseyri hafi tekist framar björtustu vonum en dagskrá var skipulögð frá morgni til kvölds. Pálsstofa var formlega opnuð en þar getur að líta muni sem fjölskylda Páls hefur lagt til, Bjarki Sveinbjörnsson flutti erindi þar sem hann færði rök fyrir ræktarsemi við tónminjar þjóðarinnar, Diddú og Anna Guðný Guðmundsdóttir fluttu sönglög eftir Pál Ísólfsson, Friðrik Bjarnason og önnur tónskáld ættuð frá svæðinu, karlakótinn Þrestir gerði slíkt hið sama og þingmenn héldu ræður. Hápunktur dagskrárinnar var þó án efa þegar Drífa Hjartardóttir, 1. þingmaður Suðurlands, afhjúpaði 30 fermetra listaverk, „Brennið þið vitar“, eftir Elvar Guðna Þórðarson staðarlistamann á meðan Þrestirnir þrumuðu hið magnaða lag Páls, Brennið þið vitar.

Aðstandendur áætla að um 700 manns hafi sótt hátíðina og var ekki annað að sjá og heyra á viðstöddum en hér væri á ferð mikill menningarviðburður. Að sögn Björns Inga Bjarnasonar, eins aðal-hvatamanns hátíðarinnar, var strax mikið spurt um opnunartíma hússins þannig að nú hefur verið ákveðið að hafa opið á laugardögum og sunnudögum milli kl. 14:00 og 17:00. Þá verður hægt að skoða Pálsstofu, upplifa „Brennið þið vitar“, líta við á vinnustofu og málverkasýningu Elvars Guðna og skoða muni leirlistafólks sem komið hefur sér fyrir í húsinu. Það má því segja að þetta fyrrum frystihús hefi nú fengið nýtt hlutverk sem menningarhúsi og er full ástæða til að hvetja fólk til að líta við.

Sjá nánar um afmælishátíðina í frétt á vef sveitarfélagsins Árborgar. Einnig má benda á að Morgunblaðið fjallaði um hátíðina í leiðara 16. október s.l.

12. okt. 2002:
Á sunnudagskvöldum er nú verið að sýna í Sjónvarpinu fjóra þætti um Flugsögu Íslands. Framleiðandi er Saga Film en Músa veitti tónlistarráðgjöf við gerð þáttanna.

11. okt. 2002:
Músa  kemur að afmælishátíð Páls Ísólfssonar sem haldin verður á Stokkseyri 12. október. Bjarki Sveinbjörnsson flytur erindi þar sem hann mun meðal annars reifar hugmyndir um tónminjasetur á Stokkseyri. Einnig verður Stofa Páls Ísólfssonar formlega opnuð en Músa hefur unnið að því að koma henni á fót.

8. okt. 2002:
Íslenska menntanetið velur Músík.is vef októbermánaðar.

5. okt. 2002:
Músa gerir vefsíðu og tekur þátt í skipulagi tónleikasyrpunnar "15:15" sem að standa CAPUT-hópurinn, tónleikaröðin Ferðalög, strengjakvartettinn Eþos og slagverkshópurinn Benda.

30. ágúst 2002:
Tónminjasafn Íslands er hugmynd sem Músu hefur talað fyrir um nokkurt skeið. Nú er meiri áhersla lögð á kynningu málsins er áður sem vonandi mun glæða áhuga og skila málinu áleiðis.

17. ágúst 2002:
Undanfarna mánuði hefur af kappi verið unnið við endurbætur á Ísmús gagnagnrunninum <musik.is/ismus> sem kynntar verða um næstu mánaðamót.

14. mars 2002:
Menntamálaráðuneytið veitir Músu styrk til verkefnisins Munnleg geymd og til að koma Þjóðlagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar á Netið.

Febrúar 2002:
Músa heldur utanum 15:15 tónleikaröð CAPUT-hópsins og Ferðalaga sem haldin verður í Borgarleikhúsinu 20. febrúar til 13. apríl 2002 – sjá <musik.is/caput>.

7. Febrúar 2002:
Músík.is umfjöllunarefni „Nærmyndarinnar“ í þættinum „Samfélagið í nærmynd“ á Rás 1 Ríkisútvarpsins.

31. janúar 2002:
Músík.is fær lofsamlega umfjöllun í sjónvarpsþættinum At. Þátturinn, „...sem er sýndur er í Sjónvarpinu á fimmtudagskvöldum er lifandi og óþvingaður þáttur fyrir ungt fólk á öllum aldri.“

Janúar 2002:
Opnuviðtal við Jón Hrólf í Skólavörðunni (1. tbl. 2. árg.), málgagni Kennarasambands Íslands, undir fyrirsögninni: „Maðurinn á bak við músík punktur is“.

Desember 2001:
Músa  heldur utanum MALAMELODIA, tónleikaröð CAPUT-hópsins, sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu – sjá <musik.is/caput>.

Nóvember 2001:
Músa vinnur álitsgerð fyrir menntamálaráðuneytið um miðlun upplýsinga um íslenska tónlist á Netinu.

Nóvember 2001:
Nordic Sounds (No. 3 / November 2001), sem gefið er út af NOMUS (Nordic Music Committee), birtir grein um Ísmús <musik.is/ismus> undir fyrirsögninni „Icelandic music heritage online“.

26. ágúst 2001:
Bjarki Sveinbjörnsson heldur fyrirlestur á vegum Músu á Holland Festival Oude Muziek <www.oudemuziek.nl> sem haldið er árlega í Utrecht í Hollandi. Í fyrirlestrinum, Iceland's early music in it's historical context, kynnti Bjarki m.a. Ísmús-verkefni Músu <musik.is/ismus>.

15. ágúst 2001:
Músa fær leyfi hlutaðeigandi aðila til að birta á vefnum bók Göran Bergendals, New Music in Iceland (1991). Með þessu framtaki verður að hluta til bætt úr tilfinnanlegum skortur á upplýsingum um íslenska músík á ensku. Músa leitar nú styrktaraðila við verkið.

11. ágúst 2001:

Músa opnar nýjan sérvef, Textar og skrif, þar sem m. a. er haldið utanum:

  • vísanir í alla íslenska texta varðandi tónlist sem við vitum af á vefnum (vísanir í nokkra erlenda vefi fljóta með)
  • lista yfir allar formlegar háskólaritgerðir sem tengjast tónlist og gerðar hafi verið af íslendingum
  • lista yfir þær skýrslur og nefndarálit varðandi tónlist sem við vitum til að gerðar hafi verið.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar.

21. júlí 2001:
Músa opnar vef um sr. Bjarna Þorsteinsson, tónlistarfræðing, tónskáld og prest á Siglufirði.

28. júní 2001:
Ísmús<musik.is/ismus>, gagnagrunnur Músu um íslenskan tónlistararf, formlega opnaður af menntamálaráðherra við hátíðlega athöfn í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni.

8. júní 2001:
Músu opnar vef um CAPUT-hópinn <musik.is/caput> með viðhöfn í sal Félags íslenskra hljómlistarmanna, Rauðagerði 27.

Desember 2000:
Músa hannar vef fyrir Tónlistarskólann í Reykjavík.

27. september 2000:
Netið, aukablað Morgunblaðsins, birtir grein um Músík.is og viðtal við aðstandendur Músu.

September 2000:
Bjarki Sveinbjörnsson kynnir Ísmús <musik.is/ismus> fyrir norrænum safnamönnum í stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn.

Ágúst 2000:
Bjarki Sveinbjörnsson kynnir Ísmús <musik.is/ismus> á þingi norrænna tónlistarfræðinga í Árósum í Danmörku.

1. maí 2000:
Músa opnar vef um íslenska þjóðsönginn. <musik.is/lofsaungur>

 Forsíða   ©  2000 – 2004  Músík og saga ehf.   musik@musik.is