Þó svo Listahátíðin sem telja má allt frá upphafi alþjóðlega listahátíð,
hafi verið haldin tvisvar sinnum á þessum tíma (1970 og 1972),
þá fór lítið fyrir svokallaðri nútímaleg tónlist á efnisskránni.
Því var ISCM (International Society for Contemporary Music) hátíðin
sem haldin var í Reykjavík sumarið 1973 kærkomin tilbreyting.
Þar sem starfsemi Musica Nova var að fjara út á þessum árum voru
virkir útverðir nýrrar tónlistar fáir – ólíkt því sem verið hafði
allan áratuginn á undan.
Félag íslenskra tónlistarmanna hafði verið meðlimur í alþjóðlega
ISCM félagsskapnum frá 1938 og Tónskáldafélagið gerðist aðili
árið 1948. Sameinuðust þessi félög þá aðild sína undir heitinu
Íslandsdeild ISCM.
Ísland hafði alltaf sent fulltrúa sinn eða beðið fulltrúa erlendra
félaga að mæta fyrir sína hönd á aðalfund I.S.C.M. Það var því
ekki óeðlilegt, eins áhugasamur og Jón Leifs var um að halda alls
kyns tónlistarhátíðir, að stjórn Tónskáldafélagsins samþykktu
eftirfarandi tillögu árið 1965:
Samþykkt var að heimila formanni [J.L.] að leggja fram á aðalfundi
ISCM í Madrid í þessum mánuði formlegt boð frá Tónskáldafélagi
Íslands, sem Íslandsdeild ISCM, til að halda tónlistarhátíð Alþjóðasambandsins
í Reykjavík í lok júní 1967.
Ekkert varð úr þessari hátíð. Málið var tekið fyrir að nýju árið
1972, og til að gera langa sögu stutta er birta hér samantekt
sem lögð var fyrir stjórnarfundi Tónskáldafélagsins í september
1973:
Undirbúningur að aðalfundi ISCM hófst í september 1972. Leitað
var fjárstyrkja til ýmissa aðila hér á landi til fundarins og
tónlistarhátíðar þeirrar sem ráðgert var að halda. Stuðst var
við fjárhagsáætlun sem Gunnar Larsson í Stokkhólmi hafði gert.
Sótt var um styrk til Fjárveitinganefndar Alþingis, Menntamálaráðuneytisins,
Reykjavíkurborgar og Menntamálaráðs. Auk þess var unnið að því
að tryggja atkvæði Íslands í Norræna menningarsjóðnum, og fékkst
að lokum munnlegt loforð menntamálaráðherra fyrir því. En svo
fóru leikar að sameiginleg umsókn allra norrænu deilda ISCM var
felld á fundi Norræna menningarsjóðsins í Kaupmannahöfn í desember
1972, og þar með voru allar umsóknir um fjárstyrk heima fyrir
úr sögunni. Hafði danska deildin beitt áhrifum sínum til að spilla
fyrir afdrifum málsins eins og sjá má af Dansk Musiktidsskrift
frá þeim tíma.
Stjórn T.Í. var því í erfiðri aðstöðu og varð að aflýsa mótinu,
og senda bréf til allra deilda ISCM þar að lútandi. Jafnframt
var ákveðið að leggja ekki árar í bát og var ritað bréf til stjórnar
ISCM og boðið að halda aðalfundinn hér á vegum íslenzku deildarinnar
ásamt takmörkuðu tónleikahaldi. Var það boð þegið og fór Þorkell
Sigurbjörnsson á stjórnarfund ISCM í janúar 1973, sem haldinn
var í Búdapest, þar sem hann gerði grein fyrir málinu. Stjórn
ISCM styrkti fyrirtækið með ráðum og dáð frá upphafi.
Var nú sótt um fjárstyrk á nýjan leik hér heima til Reykjavíkurborgar,
Menntamálaráðuneytis og Menntamálaráðs. Veitti Reykjavíkurborg
60.000.00 og Menntamálaráðuneyti 50.000.00 kr, en Menntamálaráð
felldi umsókn um styrkveitingu. Tónmenntasjóður STEFs og Tónskáldasjóður
Ríkisútvarpsins lögðu sitt af mörkum og báru þunga kostnaðarins.
Var haft náið samband við forráðamenn STEFs varðandi öll fjármál.
Auk þess var leitað til annarra deilda ISCM um stuðning og gekk
það greiðlega. Kanadíska deildin sendi The Lyric Arts Trio, hollenzka
deildin Gaudeamus kvartettinn, þýzka deildin tríó og einleikara
á sinfóníutónleika, Norðmenn sendu blásarakvintett og jazzista,
Svíar sendur Harpans Kraft og hljómflutningstæki ásamt tveimur
tæknimönnum. Auk þess kom fjárstyrkur frá Japan svo unnt var að
flytja japanskt verk. Voru þar að verki Hempke og Harris frá USA.
Sinfoníuhljómsveitin sá um eina tónleika undir stjórn Páls P.
Pálssonar. Musica Nova reyndist ekki dauð úr öllum æðum og kostaði
tvenna tónleika: flutning á The Tea Symphony og tónleika í Árnesi,
þar sem Bob Aitken lék ásamt íslenzkum hljóðfæraleikurum. Íslenska
deildin sá um tvenna tónleika, opnunartónleika og tónleika þar
sem flutt var úrval af þeim verkum sem send höfðu verið inn. Einnig
valdi íslenzka deildin verk fyrir sinfóníutónleika en hafði að
öðru leyti engin áhrif á efnisskrá. Þó beindi hún þeim tilmælum
til hinna erlendu gesta að spila ekki eingöngu eftir tónskáld
frá sínu landi.
Borgarstjóri tók á móti gestum að Höfða að loknum opnunartónleikunum,
og Strætisvagnar Reykjavíkur fluttu fólk á milli, hvað ber að
þakka gjaldkera vorum. Tónskáldafélagið hafði móttöku að Hótel
Loftleiðum að lokum tónleikum The Lyrick Arts Trio... Ýmsir félagar
lögðu einnig hönd á plóginn og hjálpuðu til við skipulagningu
t.d. Jónas Tómasson, Fjölnir Stefánsson og Páll P. Pálsson, auk
Sigurðar Markússonar fulltrúa Musica Nova, en allir unnu þeir
frábært starf.
Stjórn T.Í. annaðist allan undirbúning og skipulagningu músíkdaganna.
Voru margir fundir haldnir, þótt ekki væru þeir bókaðir, enda
ekki fjallað um stefnumótandi mál, heldur einstök framkvæmdaratriði.
Fram að þessu höfðu eftirtalin íslensk verk verið flutt á ISCM
hátíðum: Sónata fyrir trompet og píanó eftir Karl O. Runólfsson
(Salzburg 1952), Fiðlusónata eftir Leif Þórarinsson (Stokkhólmi
1956) Sönglög við Tímann og vatnið eftir Fjölni Stefánsson (Vín
1961), Flökt fyrir hljómsveit eftir Þorkel Sigurbjörnsson (Amsterdam
1963), Óró nr. 2 fyrir kammersveit eftir Leif Þórarinsson (Stokkhólmi
1966) og Spectacles fyrir slagverk og tónband eftir Atla Heimi
Sveinsson (Basel 1970). Af þessu má sjá að Íslendingar höfðu verið
virkir þátttakendur í starfsemi félagsins í um tuttugu ár.
Bjarki Sveinbjörnsson ©
11. október 1998