Músík.is

Sjö sinnum það sagt er mér - Jón Júró

English
Jón Stefánsson frá Möðrudal á Fjöllum
Jón Stefánsson frá Möðrudal

Íslenzkar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur, er merkilegt rit sem Jón Árnason og Ólafur Davíðsson tóku saman á síðari hluta 19. aldar. Þar er fjallað um lotulengdarkapp (bls. 193-203):

„Orð þetta er ekki heppilegt, en ég finn ekkert betra í svipinn. J. Árn. nefnir sumar af romsum þeim, sem fara hér á eptir andartaksþulur, og má færa það til sanns vegar, en romsurnar sjálfar eru þó ekki mergurinn málsins, heldur andarteppan, eða sú list að halda andanum niðri í sér, og því eru romsurnar stundum kallaðar andarteppuþulur.“

Síðar í kaflanum er fjallað um eftirfarandi „vísunefnu“:

Sjö sinnum, það sagt er mér,
sýngi þetta versið hver;
þeim skal eg gefa
sjö tunnur rauðagulls.

Síðan segir:

Sagan segir, að kölski hafi komið þar að, er menn voru að reyna, hve þeir gætu verið lotulángir og heitið launum þeim, sem nefnd eru seinast í vísunni, ef hún væri súngin sjö sinnum í andartaki, þannig að hver vísa væri alltaf byrjuð einni nótu hærra en næsta vísa á undan.

G.D. [Guðmundur Davíðsson, bróðir Ólafs] segir, að það eigi að syngja vísuna sjö sinnum, hvað eptir annað, þannig að hver vísa sé byrjuð á sömu nótu og seinasta vísa endaði á, en ekki þurfi kvæðaskapurinn að fara allur fram í sama andartakinu. Ég hef fengið nótur til að kveða vísuna eptir frá bróður mínum, og eru þær á þessa leið:

Sjö sinnum það sagt er mér - Páll Melsteð
Lag Páls Melsteð

Önnur útgáfa lagsins er síðan tilgreind:

Seinni útgáfan af laginu var súngin í Bessastaðaskóla og komust fæstir það til enda, þótt þeir byrjuðu „niður í gori“, eða svo lágt sem þeir gátu. „Mig minnir þeir einir kæmust það: séra Arngrímur Halldórsson“ [prestur á Bægisá, d. 1863], séra Magnús Hákonarson og séra Jón Reykjalín [prestur á Þaunglabakka], skrifar Páll Melsted mér.

Sjö sinnum það sagt er mér - Guðmundur Davíðsson
Lag Guðmundar Davíðssonar

Sr. Bjarni Þorsteinsson fjallar um Sjö sinnum það sagt er mér í bók sinni Íslensk þjóðlög og segir þar (bls. 580) að Ólafur Davíðsson hafi í misgripum víxlað heimildarmönnum laganna. Fyrra lagið, sem Ólafur segist hafa frá Guðmundi bróður sínum, sé frá Páli Melsteð en seinna lagið frá Guðmundi og eru lögin birt þannig hér.

Ef vísan er sungin við þau lög sem gefin eru hér ofar mun söngurinn spanna 3 áttundir og hálftón betur nái söngvarinn að syngja lagið sjö sinnum.

Til er upptaka í þjóðfræðasafni Árnastofnunar þar sem Jón Stefánsson frá Möðrudal á Fjöllum spreytir sig á þessari þraut; lagið er þó ekki alveg það sama og gefið er hér ofar. Upptakan er gerð 1964 þegar Jón var 84 ára, og hljómar svo:

Í september 2010 komu nemendur Listaháskóla Íslands í heimsókn í Tónlistarsafn Íslands til að fræðast um starfsemi safnsins - m.a. um Ísmús, gagnagrunninn sem miðlar þjóðfræðaupptökum Árnastofnunar. Í lok kynningarinnar fengu gestirnir að heyra Sjö sinnum það sagt er mér í flutningi Jóns Stefánssonar. Jón sló að sjálfsögðu í gegn, svo mjög að einn nemenda, Einar Sverrir Tryggvason, gerði dansútgáfu af Jóni sem hljómar svona:

Útsetning Einars Sverris sló umsvifalaust í gegn. Í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 Ríkisútvarpsins 20. október 2010 var rætt við Einar Sverri og Bjarka Sveinbjörnsson, forstöðmann Tónlistarsafns Íslands, um Sjö sinnum það sagt er mér, flutning Jóns Stefánssonar og útsetningu Einars Sverris:

Kvöldfréttir Ríkisútvarpsins 25. okt. 2010 sögðu líka frá málinu:

Einar Sverrir Tryggvason hefur útsetti annað lag sem Jón Stefánsson flytur, Viltu mín vera? – Ekki síður flott !

Elfa Lilja Gísladóttir lék Sjö sinnum það sagt er mér fyrir nemendur sína í Dalskóla, bæði upprunalegur útgáfum Jóns Stefánssonar og útsetningu Einars Sverris. Elfa Lilja segir krakkana hafa haft gaman af og samið allar hreyfingar og spor þó að hún hafi hjálpað þeim að halda þessu saman og stutt þau í æfingaferlinu.

Segiði svo að þjóðlegur fróðleikur og íþróttir höfði ekki til ungu kynslóðarinnar !

Sjá nánar um Jón Stefánsson í Ísmús.