3. júní 2010             
Hollvinur
Tónlistarsafns Íslands

Gagnvirk upplýsingamiðlun milli almennings og stofnunar eins og Tónlistarsafns Íslands er mikilvæg. Áhugahópur um safnið hefur því stofnað hollvinasamtök sem stutt gæti við starfsemi þess og tilveru.

Mikilvægt er að hollvinir segi frá safninu, t.d. í þeim tilgangi að fólk leiti til safnsins eftir upplýsingum eða komi þangað gögnum sem hugsanlega eru merkileg hvað varðar tónlistarsöguna, fyrr og nú.

Tónlistarsafn Íslands opnaði 9. maí 2009 og hefur á einu ári sannað sig svo um munar!

  • Fjórar sýningar hafa þegar verið haldnar – sjá einnig myndasafn og video sem unnin hafa verið í safninu.
  • Dýrmætir munir og gögn hafa borist frá velunnurum og fólki sem trúir á gildi safnsins. Aðföng þessi verða flokkuð og gerð aðgengileg eftir því aðstæður leyfa.
  • Fjölda fyrirspurna til safnsins frá tónlistarfólki og almenningi hefur verið sinnt.
  • Stórir og umfangsmiklir gagnagrunnar hafa verið þróaðir til utanumhalds og miðlunar menningarverðmæta þjóðarinnar í tónlist, sögu og þjóðfræði - sjá hér í frumútgáfu, og hér í enn eldri tilraunaútgáfu. Viðmótið er í vinnslu og verður uppfært innan tíðar.
  • Loks má nefna sögulegan fróðleik af ýmsu tagi sem safnið vill koma á framfæri, sem og önnur verkefni sem safnið vinnur að.
  • Markmið safnsins ættu líka að vera áhugaverð.
    Í janúar 2011 verður opnuð stór sýning um Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld og höfund þjóðsöngsins. Í maí 2011 er svo stefnt að tveggja daga alþjóðlegri ráðstefnu í Salnum, Music and Nature, með þátttöku tónvísindamanna frá Evrópu, Ameríku og Ástralíu, auk Íslands.

Sýningin safnsins, Fúsi á ýmsa vegu, sem opnuð var á Kópavogsdögum nú í maí, hefur fengið frábærar viðtökur! Í sumar verður sýningin sérstaklega kynnt eldri borgurum og í haust skólafólki. Áhugahópur tengdur safninu vinnur að vandaðri heildarútgáfu á tónlist Sigfúsar á nótum og er útgáfudagur áætlaður 7. september nk., en þá hefði Sigfús orðið 90 ára.

Okkur sem stöndum að stofnun Hollvinasamtaka Tónlistarsafns Íslands þætti heiður af því að hafa þig sem hollvin safnsins, taka á móti þér í heimsókn og bjóða þér á sýningar eða aðra viðburði tengda safninu. Einnig eru allar hugmyndir frá hollvinum vel þegnar.

Þátttaka er án skuldbindinga nema hvað hollvinir þiggja nokkrum sinnum á ári upplýsingapóst um starf safnsins og viðburði því tengda. Þú getur hvenær sem er afþakkað að vera hollvinur.

Safnið er opið virka daga milli 10:00 og 16:00 – og er boðið uppá kaffi. Þess utan er hægt að hafa sambandi með tölvupósti. Nánar um safnið á www.tonlistarsafn.is.

Fyrir hönd hollvina Tónlistarsafns Íslands;
Hreinn Valdimarsson <heidrein [hjá] simnet.is>