Músík.is: Forsíða Viðburðir í íslensku tónlistarlífi 1960 - 200013.02.2015
 Efnisyfirlit1056 - 1839  |  1840 - 1929  |  1930 - 1959  |  1960 - 2000Heimildir 

Allar ábendingar um göt, villur eða gallaða framsetningu eru vel þegnar <musik[at]musik.is>.
1960
  • 10. febrúar: Fyrstu tónleikar Musica Nova. Efnisskráin samanstóð af tónlist eftir Hugo Wolf, Beethoven, Ibert og Prokofieff. (Bjarki, 148-50)
  • 11. apríl: Aðrir tónleikar Musica Nova. Flutt var tónlist eftir Jón Ásgeirsson (1928), Leif Þórarinsson (1934-98), Magnús Blöndal Jóhannsson, Fjölni Stefánsson og Þorkel Sigurbjörnsson (1938). Hér var frumflutt fyrsta elektróníska tónverkið samið af Íslendingi, Elektrónísk Stúdía með blásarakvintett og píanói eftir Magnús Blöndal, samið árið áður. (Bjarki, 150-56)
  • 16. júlí: Stúlkan syngur og stjórnar sinni eigin hljómsveit - Sigrún þar með fyrst hér á landi. Þannig hljóðar fyrirsögn fréttar í Alþýðublaðinu (bls. 6) um að söngkonan Sigrún Jónsdóttir hafi tekið við hljómsveitarstjórn fyrst kvenna á Íslandi.

    Nýlega lét Magnús Ingimarsson af hljómsveitarstjórn og tók þá Sigrún Jónsdóttir við hljómsveitinni, er sjálfsagt leikur mikið af útisetningu Magnúsar. Hljómsveit Sigrúnar Jónsdóttur er skipuð Jóni Möller póanó, Pétri Jónssyni saxofón, Gunnari Sigurðssyni bassa og Gunnari Mogensen á trommur.

  • Kafli (7 blaðsíður) um tónlist (tónmennt) birtist í fyrsta skipti í Námskrá fyrir nemendur á fræðsluskyldualdri, útgefinni af menntamálaráðuneytinu.
  • Íslenskir tónar gefa út fyrstu LP plöturnar á Íslandi en það voru tvær plötur er hétu Lög frá liðnum árum –  Söngvar frá Íslandi 1-2.  Þarna var um safnplötur að ræða. Flest laganna voru endurútgáfur af 78 snúninga plötum auk nokkurra áður óútgefinna laga.
1961
  • Þorkell Sigurbjörnsson kemur heim frá námi í Bandaríkjunum og gerist mjög virkur í tónlistarlífinu sem kennari, hljóðfæraleikari og tónsmiður.
  • 6. desember: Samstirni (Constellation) eftir Magnús Blöndal frumflutt á fjórðu tónleikum Musica Nova. „Verkið Constellation eftir Magnús Blöndal Jóhannsson verður að teljast eitt höfuðverk elektrónískrar tónsköpunar á Íslandi, bæði vegna sögulegs gildis þess og einnig þess hlutverks sem verkið hefur haft við að kynna íslenska elektróníska tónlist um árabil, bæði á Íslandi og erlendis.“ (Bjarki, 209) Á þessum sömu tónleikum voru einnig frumflutt 15 tóndæmi eftir Magnús Blöndal, sem var hendingatónsmíð (aleatorík) og Leikar 3 eftir Þorkel; sem eins og Samstirni Magnúsar var elektróník flutt af segulbandi. Raftónlistin hafði sterk áhrif á Björn Franzson gagnrýnanda Þjóðviljans: (Bjarki, 157-58)
  • ...en þeir sem heyrðu hin ekektrónísku 'tónverk' þessa kvölds, - hljóta þeir ekki flestallir að gera sér þess grein, að hér með er öfugþróun listarinnar komin á leiðarenda? Héðan af á hún ekki nema um tvennt að velja: Lokaskrefið út í tómið kalt og dimmt og dautt eða afturhvarf að hinum lifandi uppsprettulindum allrar sannrar listsköpunar. (Björn Franzson: Tímarit Máls og menningar. 4.-5. hefti 1962. Bls. 391-404.)

1963
  • Lög samþykkt á alþingi að frumkvæði Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra, um að ríki og sveitarfélög styrki stofnun og rekstur tónlistarskóla. Þessi lög urðu til þess að tónlistarskólum í landinu fjölgaði hratt.
  • 5. október: Hljómar frá Keflavík leika í fyrsta skipti opinberlega: Gunnar Þórðarson gítar, Rúnar Júlíusson bassa, Erlingur Björnsson gítar, Eggert V. Kristinsson trommur og Einar Júlíusson söngur. „Útlitið og stíllinn voru í anda Shadows, þótt nokkur bítlalög flytu með“ (Gestur, 68).
  • Atli Heimir Sveinsson (1938) kemur heim frá námi í Þýskalandi.
  • Savannatríóið tekur til starfa; „lék einkum íslensk sönglög í svipuðum útsetningum og bandarískar þjóðlagasveitir höfðu notað um 1960.“ Tríóið hætti störfum 1967. (GG. 97)
1964
  • Febrúar: Karlakór Reykjavíkur syngur á stereo-plötu:

    Fyrir nokkru er komin út í Bandaríkjunum ný hljómplata með Karlakór Reykjavíkur og er hún gerð eftir fyrstu „stereo“- upptöku, sem gerð hefur verið hérlendis.
        Það er fyrirtækið Monitor í New York, sem gefur þessa plötu út, og er hún aðallega ætluð bandarískum markaði og þá sérstaklega fyrir fólk af skandinaviskum uppruna. Platan er kölluð „Songs form Scandinavia“ en á henni eru 10 íslenzk lög, tvö dönsk, eitt norskt, eitt sænskt og eitt finnskt. Á kápusíðu er mynd af fólki í þjóðbúningum frá Norðurlöndum og einnig fylgja þýðingar á textum.
        Sigurður Þórðarson er stjórnandi kórsins á þessari plötu, en einsöngvarar með kórnum eru Guðmundur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson og Sigurveig Hjaltested. Monitor gaf einnig út plötu með Karlakór Reykjavíkur í sambandi við síðustu för kórsins til Bandaríkjanna og gekk salan svo vel að útgáfa þessarar plötu var ákveðin skömmu siðar, og komið hefur til mála að gefa út þriðju plötuna ef um semst. (Tíminn. 16. febrúar 1964)

  • Ágúst: „Bítlamyndin Hard Day's Night sýnd í Tónabíói við álíka fagnaðarlæti og þegar rokkmyndirnar voru sýndar rúmlega sjö árum áður.“ (Gestur, 81)
  • Fyrsta íslenska óperan frumflutt. Þetta er kammerópera eftir Þorkel Sigurbjörnsson og er efnið sótt í Gunnlaugs sögu Ormstungu. (Páll Kr., 139)
1965
  • 7. janúar: Fyrsta erlenda bítlahljómsveitin, Swinging Bue Jeans, kemur til Íslands. (Gestur, 80)
  • 7. febrúar: Louis Armstrong kemur til Íslands og heldur þrenna tónleika í Háskólabíói.
  • Mars: Hljómar „gefa út fyrstu íslensku bítlaplötuna - og það sem meira var: Lögin voru eftir þá sjálfa alveg eins og hjá Bítlunum frá Liverpool. Bæði lögin, Fyrsti kossinn og Bláu augun þín, fóru sigurför í dægurlagaþáttum og plötuverslunum og síðarnefnda lagið er eitt sígildra laga frá þessum tíma“. Platan seldist í um 5000 eintökum og þar með höfðu Hljómar „ekki einungis tryggt sér sess heldur um leið sýnt fram á að stór markaður hafði skapast fyrir bítlatónlist.“ (Gestur, 82)
  • Maí: Nam June Paik tónskáld og Scharlotte Moorman sellóleikari héldu tónleika á vegum Musica Nova að tilstuðlan Atla Heimis og listamannsins Dieter Roth (1930-98). Tónleikarnir vöktu mikla hneykslan og Musica Nova birti afsökunarbeiðni í dagblöðum. (Bjarki, 158-59)
  • September: Breska hljómsveitin Kinks heldur sína fyrstu tónleika á Íslandi; íslensku hljómsveitirnar Bravó og Tempó hituðu upp. (Gestur, 81)
1966
  • Nóvember: Breska hljómsveitin Hollies heldur nokkra tónleika í Háskólabíói. (Gestur, 84)
1967
  • Hljómar verða fyrsta bítlahljómsveitin til að gefa út stóra plötu (LP). Svavar Gests var útgefandinn og platan var tekinn upp í London, 12 lög á 15 tímum, við betri aðstæður en þá voru tiltækar á Íslandi. (Gestur, 95)
1968
  • 17. janúar: Íslensk tónverkamiðstöð (ITM) stofnuð. Hugmyndin hafði verið á kreiki frá því upp úr 1960 en tilgangur stöðvarinnar var og er að kynna íslenska tónlist erlendis. (Bjarki, 135-42)
1969
  • Hljómsveitin Trúbrot stofnuð. Þetta var íslensk „ofursveit“, eins og tíðkaðist í útlöndum á þessum tíma. Sveitin starfaði til 1973 gaf út um 6. stórar plötur, þar á meðal „stórvirki hippatímans í íslenskri tónlist“, Lifun, 1971. (Gestur, 131)
1970
  • Listahátíð í Reykjavík haldin í fyrsta sinn. Hátíðin er haldin annað hvert ár.
  • 22. júní: Led Zeppelin leika fyrir fullu húsi í Laugardalshöll. Tónleikarnir voru liður í listahátíð. Þekkt erlend hljómsveit hafði ekki leikið á Íslandi frá því 1967 þegar Hollis komu (Gestur, 123-24)
  • Hljómsveitin Stuðmenn stofnuð (Gestur, 279). Sveitin kom fyrst fram á skólaskemmtun í Menntaskólanum við Hamrahlíð þetta sama ár. Hljómsveitin starfar enn og hefur ávalt verið ein öflugasta sveit landsins (Egill).
1971
  • Trúbrot flytur Lifun, „helsta stórvirki hippatímans á sviði tónlistar“, fyrir fullu húsi í Háskólabíói. Tónlistin var tekin upp í London og gefin út á stórri plötu. (Gestur, 131-32)
  • Vor: Fyrsta „trúbadúraplata“ Harðar Torfa kemur út.
1972
  • Fyrsta plata Megasar kemur út. „Uppvaxandi maóistar í Osló aðstoðuðu Megas [við útgáfuna]... og þau fáu hundruð eintaka sem seldust hér heima urðu helgir dómar hjá ofurróttæklingum og forhertum hippum.“ (Gestur, 151
1973
  • Útvarpsþátturinn Áfangar tekur til starfa í umsjá Ásmundar Jónssonar og Guðna Rúnars Agnarssonar. Þátturinn, sem var á dagskrá til 1983, kynnti framsækna dægurtónlist. (Gestur, 267)
1974
  • Þrymskviða Jóns Ásgeirssonar frumflutt í Þjóðleikhúsinu. Þetta er fyrsta íslenska óperan í fullri lengd. (Bjarki, 115)
  • Ung íslensk tónskáld taka í fyrsta sinn þátt í Ung Nordisk Musik (UNM) hátíðinni í Svíþjóð. Hátíðin er haldin árlega til skiptis á Norðurlöndunum.
  • Fyrsta smáskífa Stuðmanna kemur út með lögunum „Honey will you merry me?“ og „Whoop schoopie doopie“. Seinna sama ár kom svo út önnur smáskífa sveitarinnar með lögunum „Draumur okkar beggja“ og „Gjugg í borg“. Útgefandi var Ámundi Ámundason (Egill).
  • Hljómsveitin Spilverk þjóðanna stofnuð (Egill).
1975
  • Janúar: Hljóðriti tekur til starfa „og hafði í fyrstu 16 rásir en fljótlega 24 og var brátt fullbókað, jafnvel allan sólarhringinn.“ (Gestur, 145). Hljóðriti var fyrsta alvöru hljóðverið á Íslandi utan Ríkisútvarpsins. Hljómsveitin  Diabolus in musica  nýtti sér rásirnar 24 sumarið 1976 fyrst íslenskra hljómsveita. (Bárður)
  • 3. febrúar: Gunnar Þórðarson fær listamannalaun fyrstur popptónlistarmanna.
  • Vor: Spilverk þjóðanna kemur fyrst fram á tónleikum í Menntaskólanum og Háskólanum. (Gestur, 155)
  • Ríkisútvarpið tekur í fyrsta sinn þátt í hinu árlega tónskáldaþingi í París (Rostrum of Composers) þar sem útvarpsstöðvar allsstaðar úr heiminum kynna ný tónverk landa sinna og skuldbinda sig til að flytja þau 10 verk sem flest atkvæði hljóta.
  • Gunnar Þórðarson, Tómas Tómasson og Björgvin Halldórsson taka upp plötuna Einu sinni var eða „Vísnaplötuna“ í London. Þetta er sú plata sem náð hafði mestri sölu á Íslandi, yfir 20.000 eintök. (Gestur, 282)
  • Haust: Spilverk þjóðanna gefur út sína fyrstu plötu (Egill).
1976
  • Atli Heimir Sveinsson hlýtur tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, fyrstur Íslendinga fyrir flautukonsert.
  • Tónskáldafélag Íslands heldur tónlistarhátíð sem kennd er við ISCM (International Society of Contemporary Music) og var það í fyrsta sinn sem sú hátíð var haldin á Íslandi. Þarna heyrðist elektrónísk tónlist á Íslandi í fyrsta sinn við bestu fáanlegar aðstæður (á Kjarvalsstöðum) þar sem Svíar sendu hingað fjögurra rása hljóðflutningskerfi ásamt 12 hátölurum og tæknimanni.
  • Bubbi Mortens kemur fyrst fram á Jazz-kvöldi í veitingahúsinu Glæsibæ. (www.bubbi.is)
1977
  • Hljómsveitin Mezzoforte stofnuð. Sveitin hefur gefið út fjölda hljómplatna og hefur ásamt Sykurmolunum og Björk náð hvað lengst allra íslenskra sveita í útlöndum.
  • Björk, fyrsta LP plata Bjarkar Guðmundsdóttur (1965) kemur út - Björk var þá 11 ára og einum mánuði betur. Platan seldist í um 7000 eintökum en gengur nú kaupum og sölum fyrir hátt verð. (Lester, 9). Björk er fyrsti íslenski popptónlistarmaðurinn sem slær í gegn á alþjóðavettvangi. Í skýrslu einni frá því í febrúar 1997 er fullyrt að plötur Bjarkar, Debut og Post hafi selst í um sex milljón eintaka í heiminum. (Íslenskur tónlistariðnaður, 10)
1978
  • 25. nóvember: Fræbbblarnir spila á skólaskemmtun í Kópavogi „og mun það vera í fyrsta sinn sem íslensk hljómsveit leikur pönk opinberlega....“ (Gestur, 175)
  • Gunnar Þórðarson tekinn inn í Tónskáldafélag Íslands fyrstur dægurtónlistarmanna.
  • Íslenska Óperan stofnuð. „Aðal hvatamaður þess var Garðar Cortes. Fyrsta verkefnið var konsertuppfærsla á I Pagliacci eftir Leoncavallo.“ (Páll Kr., 139)
  • Þursaflokkurinn stofnaður og gefur út sína fyrstu hljómplötu sem innheldur að stórum hluta nýjar útsetningar Egils Ólafssonar á íslenskum þjóðlögum (Egill).
1979
  • 11. febrúar: Dizzy Gillespie heldur tónleika í Háskólabíói. „Enginn venjulegur jazzgaur.“ Leifur Þórarinsson. Dagblaðið. 12. febrúar 1979, bls. 7.
1980
  • Myrkir músíkdagar haldnir í fyrsta sinn. Tónskáldafélagið stendur fyrir hátíðinni sem haldin er annað hvert ár í febrúar.
1981
  • Apríl: Ásmundur Jónsson, Guðni Rúnar Agnarsson, Einar Örn Benediktsson, Björn Valdimarsson og Dóra Jónsdóttir stofna Grammið. „Hlutverk Grammsins var að gefa út plötur, gangast fyrir tónleikum og flytja inn nýja og spennandi tónlist.“ (Gestur, 183)
1982
  • 10. apríl: Kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík frumsýnd. „Kvikmyndin er ekki einungis stórmerk heimild um mesta gróskutímabil íslenska rokksins [um 1980], heldur hafði hún bein áhrif á það.“ (Gestur, 207) „Sú mynd sem dregin var upp í Rokk í Reykjavík varð í einu vetfangi að viðurkenndri söguskoðun.“ (Gestur, 208)
  • Fyrsta íslenska dans- og söngvamyndin lítur dagsins ljós: Með allt á hreinu eftir Ágúst Guðmundsson og Stuðmenn. (Egill)
1986
  • Júlí: Hljómsveitin Sykurmolarnir stofnuð. (BB, 244)
  • Hafliði Hallgrímsson hlýtur tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Poemi fyrir fiðlu og strengi.
  • Strax/Stuðmenn halda í fjögra vikna tónleikaferð til Kína og eru þar með í öðru sæti yfir vestrænar rokkhljómsveitir sem spilar opinberlega í Kína. Hljómsveitin lék 14 tónleika í stærstu tónlistarhúsum helstu borga í landinu allt frá Kanton til Peking og var uppselt á alla tónleika sveitarinnar. Heimildarmynd var gerð um ferðalagið með þáttöku BBC, myndin var sýnd á íslandi í nóvember, sama ár. (Egill)
1987
  • Ágúst: Birthday, plata Sykurmolanna kjörin plata vikunnar í Melody Maker. (Gestur, 246) Í framhaldi af því náði hljómsveitin lengra á alþjóðavettvangi en nokkur íslensk hljómsveit eða popptónlistarmaður hafði áður gert.
1990
  • Hljómsveitin Stjórnin hafnar í 4. sæti í Eurovision söngvakeppninni. Þetta var besti árangur sem Íslendingar höfðu náð í þessari keppni.
1992
  • Stórsveit Reykjavíkur stofnuð. Aðal hvatamaður að stofnun sveitarinnar var Snæbjörn Jónsson sem stjórnaði henni til 2000. Sveitin hefur starfað ötullega frá stofnun, fengið til sín þekkta listamenn, innlenda jafnt sem erlenda, stjórnendur og sólóista. Sveitin hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin 2005 sem besti djass flytjandi ársins.
1995
  • BÍL hefur forgöngu um stofnun félags um listaháskóla. 150 manns mættu á stofnfundinn. (MBL, 3. maí 1998, bls. 37)
1996
  • Menntamálaráðuneytið gefur út Aðalnámskrá tónlistarskóla í fyrsta sinn. Um er að ræða bráðabirgðaútgáfu sem er ætlað að taka gildi þegar greinanámskrár hafa verið skrifaðar eða endurskoðaðar, haustið 1999.
1997
  • Björk Guðmundsdóttir hlýtur tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrst dægurtónlistarmanna.
    1998
  • 28. apríl: Félag um Listaháskóla Íslands fær heimild menntamálaráðherra til að skipa fyrstu stjórn skólans sem vinna skal að ráðningu rektors, deildarstjóra og nánara skipulagi stofnunarinnar. Fulltrúar félagsins voru kosnir Karólína Eiríksdóttir tónskáld, Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður og Pétur Einarsson leikari. Ráðherra skipaði í stjórn Sigurð Nordal og Stefán P. Eggerts verkfræðing en hann verður formaður stjórnar.
1999
  • 2. janúar: „Salurinn, Tónlistarhúsi Kópavogs, fyrsti sérhannaði tónleikasalur landsins, var tekinn í notkun 2. janúar 1999. Tónlistarhús Kópavogs er hluti af menningarmiðstöð bæjarins sem stendur á Borgarholtinu við hlið Gerðarsafns og í nágrenni Kópavogskirkju, en hún er eitt helsta tákn bæjarfélagsins.“ (Af vef Salarins <www.salurinn.is/>). Hér voru liðið 77 ár frá því síðast var byggt hús yfir tónlistina en Hljómskálinn við Tjörnina var byggður 1922.
  • 23. febrúar: Anne Manson stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrst kvenna. Nýtt! [17. apríl 2012]
  • 29. maí: Lagið „All Out Of Luck“ eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson, flutt af Selmu Björnsdóttur lendir í öðru sæti Evrovision söngvakeppninnar sem haldin var í Ísrael. Þar með var slegið fyrra met sem sett var þegar Stjórnin lenti í 4. sæti sömu keppni 1990.
  • 16. október: Fyrsta Iceland ariwavers hátíðin haldin í flugskýli 4 á Reykjavíkurflugvelli. Um var að ræða fjögurra klukkustunda tónleika í samstarfi Flugleiða, Flugfélags Íslands og EMI-útgáfurisans og hugmyndin var að koma á framfæri hæfileikaríkum og efnilegum íslenskum hljómsveitum, auk þess að kveikja áhuga ungs fólks um allan heim á Íslandi.
2000
— 1. júní: Elton John heldur tónleika á Laugardalsvelli. Tónleikahaldarar höfðu látið Gallup gera könnun til að reyna að meta hugsanlega aðsókn. Eitthvað fór úrskeiðis því um 10 miljón króna tap varð á tónleikunum samkvæmt útvarpsfréttum RÚV, 16 júní 2001.
2001
  • 15. júní: Austu-berlínska rokksveitin Rammstein heldur tónleika í Laugardagshöll. Aðgöngumiðar á tónleikana seldust upp á innan við klukkustund. Ákveðið að halda aðra tónleika daginn eftir, 16. júní. Allt fór á sömu leið, miðar á þessa seinni tónleika seldust jafn hratt upp og á fyrri. Þessar vinsældir þýskumælandi þungarokkara virtust koma tónleikahöldurum jafnt sem öðrum í opna skjöldu.
2004
  • 7. júní: Haukur Tómasson tónskáld hlýtur tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir óperuna Fjórði söngur Guðrúnar. Þremur Íslendingum hefur áður hlotnast þessi heiður. Atli Heimir Sveinsson hlaut verðlaunin 1976 fyrir flautukonsert, Hafliði Hallgrímsson 1986 fyrir fiðluverkið Poemi, og Björk Guðmundsdóttir 1997 en það var í fyrsta sinn sem dægurtónlistarmaður hlaut verðlaunin.
  • 4. júlí: Fjölmennustu innanhússtónleikar Íslandssögunnar haldnir þegar þungarokkssveitin Metallica spilar í Egilshöll í Reykjavík fyrir um 18.000 manns.
2006
  • 9. mars: Skrifað undir samkomulag ríkis, borgar og Portus hópsins um byggingu tónlistarhúss í Reykjavík. Þar með hefjast framkvæmdir við tónlistarhús sem talað hefur verið fyrir í rúma hálfa öld.
  • 20. mars: FL Group veitir Sinfóníuhljómsveit Íslands 40 milljón króna styrk.
  • 23. mars: Ian Anderson úr Jethro Tul, ásamt eigin hljómsveit og meðlimum Sinfóníuhljómsveitar Ísland, hélt tónlika fyrir fullu húsi í Laugardalshöll.
  • 12. júní: Roger Waters, fyrrum forsprakki Pink Floyd, heldur tónleika í Egilshöll. Fjöldi tónleikagesta var áætlaður um 15.000 sem gerir tónleikana þá næst fjölmennustu sem haldnir hafa verið innandyra á Íslandi.
  • 30. júlí: Hljómsveitirnar Sigur Rós og Amína halda útitónleika á Miklatúni í Reykjavík (túnið hét áður Klambratún). Áætlað er að um 15.000 manns hafi verið á túninu þegar mest var; í kvöldfréttum Sjónvarpsins 31. júlí voru gestir sagðir hafa verið tæplega 20.000. Viðburðurinn var hluti af tónleikaferð sveitanna um landið þar sem leikið var á ýmsum stöðum án þess að auglýsa hverja uppakoma sérstaklega. Afrakstur ferðarinnar verður gefinn út á mynddiski seinna á árinu. Tónleikarnir á Miklatúni gætu verið fjölmennustu útitónleikar sem haldnir hafa verið í Reykjavík. Góð stemningin og það hve allt fór friðsamlega fram þótti fréttnæmt; veðrið var enda sérstaklega gott. Ekkert umferðaröngþveiti skapaðist, hvorki fyrir, á meðan, né eftir tónleikana
2008
  • 8. ágúst: Um tólf þúsund manns voru á tónleikum breska rokkar- ans Eric Clapton í Egilshöll. „Clapton í rífandi góðum gír,“ sagði Morgunblaðið. „Stjörnutilþrif,“ sagði Fréttablaðið.
2012
  • 3. nóvember: Þýska tölvupopphljómsvetin Kraftverk leikur í Eldborgarsal Hörpu og uppsker mikið lof. Tónleikarnir lokuðu 14. Iceland airwaves hátíðinni sem staðið hafði frá 30 september og tótti takast vel í alla staði.

Efnisyfirlit1056 - 1839 | 1840 - 1929 | 1930 - 1959| 1960 - 2000 musik@musik.is
Heimildir
© Músa