Músík.is: ForsíðaViðburðir í íslensku tónlistarlífi 1840 - 192930.12.2011
 Efnisyfirlit1056 - 1839  |  1840 - 1929  |  1930 - 1959  |  1960 - 2000Heimildir 

Allar ábendingar um göt, villur eða gallaða framsetningu eru vel þegnar <musik[at]musik.is>.
1840
— Pétur Guðjohnsen (1812-1877) kemur heim frá námi við Jonstrup kennaraskólann í Danmörku eftir þriggja ára nám. (Hallgrímur 1992, 51).

— Pípuorgel kemur í Dómkirkjuna í Reykjavík. Þetta var fyrsta hljóðfæri sinnar tegundar á landinu og organisti var Pétur Guðjohnsen.
1854
— 2. apríl: Pétur Guðjohnsen efnir til „fyrsta samsöngs á Íslandi, með kór Latínuskóla-pilta“. (Hallgrímur 1992, 171)
1855
— Ari Sæmundsson (1797-1876) gefur út „fyrsta tónmenntarit Íslendinga, LEIÐARVÍSIR til að spila á langspil og til að læra SÁLMALÖG eptir nótum, og NÓTUR með BÓKSTÖFUM til allra sálmalaga, sem eru í messusöngbók vorri, og þaraðauki til nokkurra fleiri SÁLMALAGA, handa unglingum og viðvaningum“ (Hallgrímur 1992, 50). Ari hafði ásamt prentiðn lært almenna sönglist og hljóðfæraleik hjá Magnúsi Stephensen í Viðey; hann tileinkar bókina Pétri Guðjohnsen. (Hallgrímur 1992, 44-46)
1861
— Pétur Guðjohnsen gefur út „einraddaða kóralbók (sálmasöngbók)... og aðra, þríraddaða árið 1878 og þar með var 'nýi söngurinn' [sem Magnús Stephensen hafði hafið baráttu fyrir - sjá 1801] orðinn alls ráðandi í kirkjum landsins.“ (Páll Kr., 133)
1862
— Jónas Helgason (1839-1903) stofnar Söngfélag Reykjavíkur. Þetta var karlakór iðnaðarmanna til ársins 1875 þegar nafninu var breytt í Harpaog kórnum í blandaðan kór. „Þetta var fyrsti félagsbundni kór höfuðstaðar og einnig alls lands.“ (Hallgrímur 1992, 61)
1868
— „Í Norðanfara haustið 1868 er sagt frá tónleikum, sem skipverjar á Fyllu höfðu á Akureyri um sumarið [26. júlí]. Af sjálfu orðalagi frásagnarinnar, þótt fáorð sé má glöggt sjá, hve algert nýnæmi hér var um að ræða: „ ... 6 af skipverjum spiluðu á hljóðfæri, er að nokkru leyti voru í lögun sem lúðrar, og blásið í þá og leikið á þeim (sic) með fingrunum sem á flautu eða víólín... “ (Jón Þórarinsson 1969, 95)
— Frekar var tónlistarlífið fábreytt á Íslandi fram á síðari hluta 19. aldar:
Árið 1868 töldust allir Íslendingar tæp 70 þúsund og voru dreifðir um annes og afdali. Í Reykjavík bjuggu í árslok tæplega tvö þúsund sálir. Það er ekki fyrr en um og eftir 1870, sem bærinn fer að vaxa talsvert, bæjarbragurinn að breytast og lifna, og þá fer líka að glæðast sönglíf og áhugi á tónlist. Þjóðhátíðin 1874 átti sinn merka þátt í því eins og margri annarri vakningu, sem yfir landsfólkið gekk á þessum árum, og verðu vikið að síðar.
    En fram að þessu var sönglðif að finna „aðeins inni, þar andinn góður býr sér sumar til,“ – á einstöku heimilum, og einkum í Reykjavík. (Jón Þórarinsson 1969, 96)
1870
— Pétur Guðjohnsen gefur út „fyrstu tónfræði Íslendinga.... Hér er á íslensku í fyrsta sinn ráðist í að skilgreina músík-fræðikerfi í frumdráttum: Músík, tónn, hljómur, hljómblær, lag, taktur, tónlega, nóta, nótnaskrift, lykill, forteikn, tóntegund, tónstigi, tóngildi, þögn, tónstyrkur, söngflýtir, þríhljómur, ferhljómur, raddskipan o.fl. Er þetta risastökk frá fyrstu tilraunum Þórðar Þorlákssonar, Magnúsar Stephensen og Ara Sæmundsen.“ (Hallgrímur 1992, 53)
1872
Fyrsta orgel í kirkju utan Reykjavíkur og Viðeyjar:
Það hefir frjetzt hingað, að sjera Ólafur prófastur Pálsson á Melstað, hafi nú í sumar ásamt Melstaðarkirkjusóknarfólki útvegað sjer Orgel í nefnda kirkju. Annarstaðar hjer á landi vitum vjer eigi til að Orgel hafi komið í kirkjur, en Viðeyjar- og Reykjavíkur-kirkjur. Vjer ímyndum oss, að margar kirkjusóknir hjer á landi sjeu eins fólkríkar og efnugar, sem Melstaðarkirkjusókn, og þeim eins mögulegt að útvega sjer Orgel í sínar kirkjur, og þar á meðal Akureyrar kirkjusókn. (Norðanfari. 11. árangur 1872, 111)
1873
— Lagið Andvarp eftir Jónas Helgason birtist í vikublaðinu Göngu-Hrólfur í Reykjavík. Þetta er fyrsta veraldlega sönglagið eftir íslenskt tónskáld sem birtist á prenti (Páll Kr., 133)
1874
— Þjóðhátíð á Íslandi. Í kjölfarið reis í fyrsta skipti mikil söngvakningaralda í landinu. (Hallgrímur 1992, 171) 2. ágúst var þjóðsöngurinn frumfluttur við þjóðhátíðarmessu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Höfundur söngsins, Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1927) „var fyrsta menntaða tónskáld Íslendinga á nútímavísu.“ (Páll Kr., 134)
1875-1888
Söngvar og kvæði(Hörpuheftin) í 7 bindum koma út í umsjá Jónasar Helgasonar. Alls voru þetta „190 lög, 2-, 3- og 4-radda“. Söngfélagið Harpa gaf út fyrsta heftið en Jónas sjálfur hin síðari. „Hér er fylgt góðri reglu uppeldisfræðings: Menn eiga að æfast í hinu auðvelda áður en þeir verða hinu erfiða vaxnir,eins og Jónas segir í formála, 1977. Hér er í fyrsta skipti minnzt á heimilissöng, og í hverskyns sönglist eru menn hvattir til þess að taka sér fram í þessari fögru íþrótt, sem allt of lengi hefir verið vanrækt meðal vor eins og fleira, sem til menntunar heyrir.Með söng býr fegurð, og hann er menntagrein.Þessvegna er framtak og framför nauðsyn. Þeir, sem engu sá, hljóta enga uppskeru. Ísland er óræktarakur, en góðir hæfileikar gefa bjartar framtíðarvon um þjóðlegt sönglíf,þátttöku allra landsbúa í alþýðlegum söng. Þetta er í stuttu máli stefnuskrá Jónasar.“ (Hallgrímur 1992, 67)
1876
— Helgi Helgason (1848-1922), bróðir Jónasar, kemur heim frá námi í Kaupmannahöfn.
Eftir heimkomuna stofnar hann fyrsta hornaflokk Íslands, Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur, stjórnaði honum í 26 ár samfleytt og kennir mörgum þeim að þeyta horn, er síðar koma á fót eða gerast liðsmenn í lúðrasveitum víðsvegar um land.... Upp rísa nú hornaflokkar á Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Eyrarbakka, í Vestmannaeyjum og Hafnarfirði. (Hallgrímur 1992, 89)
Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur var ekki aðeins fyrsti hornaflokkur landsins heldur líka fyrsta hljómsveit á Íslandi. (Jón Múli, 216)
1880
— 4. maí: Þjóðhetjan Jón Sigurðsson og Ingibjörg kona hans jarðsungin frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Þessi jarðarför var merkur tónlistarviðburður. Lúðurþeytarafélagið lék sorgarmars sem Helgi Helgason hafði samið, og er það vafalaust eitt fyrsta íslenska tónverkið sem samið er fyrir hljóðfæraflokk. Í kirkjunni var svo flutt kantata eftir Olufu Finsen, landshöfðingjafrú. Olufa var dönsk og hafði upphaflega samið kantötuna 1863 í Danmörku fyrir minningarathöfn um Friðrik VII Danakonung. Fyrir jarðarför Jóns Sigurðssonar samdi Matthías Jochumsson nýjan texta við kantötuna og Olufa stjórnaði sjálf flutningi á henni, og lék með á orgel. Tvöfaldur kvartett söng, auk tveggja einsöngvara, barítón og sópran. Tónverkið vakti mikla hrifningu, enda var svo vandaður tónlistarflutningur sjaldheyrður á Íslandi á þeim tíma. Auk þess mun þetta hafa verið í fyrsta skipti sem sunginn var einsöngur við jarðarför. (Gils, 166-7)
1882-1901
Söngkennslubók Jónasar Helgasonar (Jónasar heftin) kemur út í 10 heftum. Heftin voru ætluð börnum og byrjendum þar sem byrjað er á að útskýra nótnaskrift. (Hallgrímur 1992, 66-67)
1885
— Þingvallafundur 27. júní. Félagar úr Lúðurþeytarafélaginu frumflytja lagið „Öxar við ána“ eftir Helga Helgason. Þetta var fyrsti íslenski marsinn. (Atli, 47-8)
1887-1903
Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur 1-IV sem Jón Árnason og Ólafur Davíðsson tóku saman kemur út í Kaupmannahöfn. Hér birtir Íslendingur í fyrsta sinn á prenti íslensk þjóðlög. Í ritinu má finna „11 almenn þjóðlög og 15 kvæða- eða rímnalög. Þar er einnig að finna frásagnir af söng og hljóðfæraleik. Nefnd eru hljóðfærin harpa, gígja, simphonia, organa, salteríum, pípa, fiðlaog langspil. Litlar sögur fara af hljóðfærum þessum utan hinna tveggja síðastnefndu.“ (Páll Kr., 132). Kvæða- eða rímnalög höfðu ekki áður komið út á prenti. (Njáll)
1888
— „Árið 1888 tóku iðnaðarmenn í Reykjavík sig saman og stofnuðu sinn eigin kór og var Halldór Þórðarson bókbindari formaður kórsins, en stjórnandi hans var Jónas Helgason“. (Inga Dóra 2001, 23)
1902
— Árni Thorsteinsson (1870-1962) stofnar karlakórinn Káta pilta.
[Sama] ár hélt 'Músíkfélagið' hljómleika í Iðnó þar sem [kórinn] söng, frk. E. Steffensen og Árni Thorsteinsson sungu einsöngva, Þorsteinn Jónsson járnsmiður lék á fiðlu og 10 manna hljóðfæraflokkur lék 'Sóló og kór úr Júdasi Makkabeusi' eftir Händel. Helstu stjórnendur kóra um þessar mundir voru Brynjólfur Þorláksson dómkirkjuorganisti, Árni Thorsteinsson og Sigfús Einarsson síðar Dómkirkjuorganisti. Einn helsti píanóleikari á þessum árum var Kristrún Hallgrímsdóttir, sem oft kom fram á tónleikum sem einleikari og undirleikari. (Páll Kr., 134)
1905
— Fiðluleikarinn Paul O. Bernburg sest að í Reykjavík. Bernburg hafði komið til Íslands um 1900 og fyrst búið á Eskifirði og síðar á Akureyri. Í Reykjavík stofnaði Bernburg fljótlega hljómsveit „sem spilaði á kaffihúsum í bænum, þá fyrstu sinnar tegundar. Hann mun einnig hafa verð í tríói sem spilaði undir kvikmyndasýningum í Gamla bíói þegar mikið lá við en venjulega var aðeins spilað undir á píanó. Paul Bernburg virðist hafa spilað alls staðar sem vantaði fiðluleikara og honum bregður fyrir í ýmsum myndum. Hann var sjálfur með hljómsveit sem lék á dansleikjum í Bárubúð – um 1913 er vita að hann var með 9 manna hjómsveit þar – og hann spilaði í öllum þeim hljómsveitum sem reynt var að stofna til að spila klassísku tónbókmenntirnar.“ (Ingibjörg, bls. 4-5)
1906
— Sigfús Einarsson (1877-1939) kemur heim frá námi í Danmörku. Sigfús er fyrsti Íslendingurinn sem hefur sönglist að ævistarfi. Hugur Sigfúsar er mikill og hyggst hann
...kenna söngkennurum í skólum raddbeitingu og orgelleik, söngfræði og söngstjórn; söngstjórum vill hann leiðbeina við kórstjórn; hann ætlar að stofna til samsöngva og annast útgáfu á hæfilegum tónmenntaritum; og hann fýsir að sameina alla kóra landsins í félagslegum samtökum og kveðja þá til söngmóta. Mest af þessu framkvæmdi hann, einkum sem söngkennari við Kennaraskólann frá 1908 til dauðadags. (Hallgrímur 1992, 177)
1907
— Konungurinn kemur í heimsókn. Að því tilefni eru fluttar kantötur eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson. „Töluverð gróska var í músíklífi höfuðstaðarins á árunum eftir konungskomuna.“ (Páll Kr., 134)

— Sigfús Einarsson gefur út þrjú hefti skólasöngva með 54 lögum (1907-11). (Hallgrímur 1992, 173)
1908
— Sveinbjörn Sveinbjörnsson heldur tónleika með eigin verkum. (Páll Kr., 134)
1909
— Bræðurnir Eggert og Þórarinn Guðmundssynir koma fram í fyrsta sinn en þeir „luku báðir prófi við konservatóríið í Kaupmannahöfn, Eggert í píanó- og orgelleik og Þórarinn í fiðluleik“. (Páll Kr., 134) Þórarinn var fyrsti íslenski fiðluleikarinn. (Páll Kr., 141)

— Pétur Á. Jónsson syngur óperuaríur á tónleikum. „Hann varð síðar víðkunnur óperusöngvari og starfaði lengst af í Þýzkalandi“. (Páll Kr., 134)

— Þjóðlagasafn Bjarna prests Þorsteinssonar (1861-1938) gefið út af Carlsberg-sjóðnum í Kaupmannahöfn.*** Bjarni segir í formála: „Þar eð þetta má heita hin fyrsta tilraun til þess að rita íslenzka söngsögu, að rita um íslenzk þjóðlög og hinar ýmsu tegundir þeirra, eðli og einkenni og að gefa út nokkurn veginn fullkomið safn íslenzkra þjóðlaga, þá gefur að skilja, að við töluverða erfiðleika hefur verið að stríða, þar sem lítið og ósamstætt efni var til að byggja á.“ Bjarni hafði unnið að söfnun laganna í rúm 25 ár. (Bjarni, I-XI)
*** Bjarni lýsir því í fróðlegum formála hvernig þeir íslensku aðilar sem hann leitaði til um stuðning við útgáfu bókarinnar drógu lappirnar og lögðu sig fram um að þvælast fyrir útgáfu verksins. T.d. 'týndist' hluti handritsins í yfirlestri svo Bjarni varð að vinna hann aftur upp úr afriti og skissum; einnig gerðu Íslendingar kröfu um að Bjarni afsalaði sér öllum ritlaunum af verkinu og þegar verkið var að lokum gefið út á kostnað Dana gerði Bókmenntafélagið í Reykjavík kröfu um að Bjarni afhenti þeim '500 eintök af hinu prentaða þjóðlagasafni til útbýtingar meðal meðlima sinna, fyrir að eins 75 aura hvert eintak.' (Bjarni, VIII)
1910
— Oscar Johansen, danskur fiðluleikari, kemur til landsins. Hann „dvaldi hér í 2-3 ár, kenndi á fiðlu og stjórnaði samleik“. (Páll Kr., 134)
— 23. ágúst: Pétur Á. Jónsson hljóðritar þrjú lög í Kaupmannahöfn hjá fyrirtækinu Gramophone and Typewriter Ltd. (seinna His Masters Voice). Lögn voru Dalavísa (Árni Thorsteinsson / Jónas Hallgrímsson), Augun blá (Sigfús Einarsson / Steingrímur Thorsteinsson) og Gígjan (Sigfús Einarsson / Benedikt Gröndal) og voru þau gefin út á þremur plötum, eitt lag á hverri plötu eins og þá var algengt (single sided record) og var platan auð hinu megin. Þetta var í fyrsta sinn sem Íslendingur syngur inn á hljómplötu. Eftir nám í Kaupmannahöfn starfaði Pétur sem söngvari í Þýskalandi við góðan orðstír og tók þar upp nokkurn fjölda platna. (Ólafur Þorsteinsson)
1911
Fyrsti vísir að músíkskóla stofnaður á Ísafirði af Jónasi Tómassyni organista. Skólinn starfaði í nokkur ár. (Páll Kr., 137)
1913
— 9 manna hljómsveit undir stjórn Poul Bernburg (eldri) leikur á dansleikjum í Bárubúð. „Allmikið var um kaffihúsa- og dansmúsík á þessum árum.“ (Páll Kr., 135)
1914
— „Eggert Stefánson hóf feril sinn... og fleiri söngvarar fylgdu á eftir: Benedikt Elfar, Sigurður Skagfield, Sigurður Birkis, Einar Markan.“ (Páll Kr., 135)
1915-16
Íslenskt söngvasafn (300 lög) kemur út í umsjá Sigfúsar Einarssonar. Þetta „var sú gjöf sem þjóðin þakkaði Sigfúsi einna mest og bezt. [Þessi] útgáfa var stórt skref, til þess að efla heimilissöng á hverjum bæ, þar sem hljóðfæri þekktist, er oftast var harmóníum.“ (Hallgrímur 1992, 172)
1918
— „Elsti kvennakór sem vitað er um, 'Erlur' í Hafnarfirði, starfaði á árunum 1918-23, söngstjóri var Friðrik Bjarnason“ (1880-1962). (Páll Kr., 138)
1920
Páll Ísólfsson (1893-1974) kemur „í fyrsta sinn fram með sjálfstæða orgeltónleika, Bach-tónleika, í Dómkirkjunni.“ (Páll Kr., 135) „Hann var fyrsti organleikarinn með ítarlega menntun... og talinn með fremstu Bach-túlkendum á sinni tíð.“ (Páll Kr., 140)
1921
— Emil Thoroddsen (1898-1944) kemur fram sem píanóleikari. (Páll Kr., 135)
— Páll Ísólfsson kemur heim frá námi í Þýskalandi og gerist mikilvirkur brautryðjandi í tónlistarlífi Íslendinga.
— 26. september: Hljómsveit Reykjavíkur formlega stofnuð af Þórarni Guðmundssyni fiðluleikara (1896-1979). Áður hafði þessi hljómsveit m.a. leikið við Íslandsheimsókn Kristjáns konungs X. sama ár. Í hljómsveitinni voru 20 hljóðfæraleikarar og var hljóðfæraskipanin píanó, harmonium, flautur, klarínettur, fagott, trompetar, og strengjahljóðfæri. „Það var með öðrum orðum notað það sem til var.“ (Bjarki, 2) Kjarni hljómsveitarinnar spilaði til 1930 í kjallara Nýja bíós þar sem var Café Rosenberg frá 1920 þegar bíóið tók til starfa. (Bjarki, 1-4)

— Hjónin Annie og Jón Leifs halda píanótónleika á Íslandi. (Páll Kr., 135)
1922
— Hljóðfæraskólinn í Reykjavík stofnaður. Aðalkennari var Ottó Böttcher. „Í skólanum var kennt á strokhljóðfæri, blásturs- og slátthljóðfæri, píanó var aukagrein.“ (Páll Kr., 137)

— Hljómskálinn við Tjörnin í Reykjavík byggður að tilstuðlan Lúðrasveitar Reykjavíkur sem stofnuð var þetta ár með sameiningu lúðrasveitanna Gígju og Hörpu. Stjórnandi sveitarinnar fyrstu tvö árin var Ottó Böttcher. Hljómskálinn mun vera fyrsta húsið á Íslandi sem byggt er sérstaklega yfir tónlistina. 77 ár liðu þar til næst var byggt hús yfir tónlistina en Tónlistarhús Kópavogs komst í gagnið 1999. (Guðjón Friðriksson 1994, 217)
1923
— Sigfús Einarsson og Friðrik Bjarnason stofna söngmálablaðið Heimi. [1923-25] „Inngangsorð þess sýna vel, hvað vakti fyrir Sigfúsi sem ritstjóra. Hann segir: Við viljum söng yfir landið. Við viljum söng um allt Ísland, jafnt fámennar og afskekktar sveitir eins og fjölmenna kaupstaði! Við viljum vaxandi kunnáttu á öllum sviðum tónlistarinnar! Við viljum sönggleði og söngvit inn á hvern bæ!“(Hallgrímur 1992, 171-72). Fyrsta tónlistartímaritið sem hér kom út hét Hljómlistin (1912-13) og sá Jónas Jónasson um útgáfuna. Þau tónlistartímarit sem síðan hafa komið út hafa flest orðið fremur skammlíf:
Freyjan kom út 1926, ritstjóri Emil Thoroddsen. Heimirhinn yngri kom út á árunum 1935-37 undir stjórn Páls Ísólfssonar og 1937-39 undir stjórn Baldurs Andéssonar. Tónlistin,tímarit Félags ísl. tónlistarmanna hóf göngu sína 1942 og hélt út 5 árganga, til ársins 1946. Jazz kom út 1947 og Jazzblaðið 1948. Drangeyjarútgáfan gaf út Musicaá áurunum 1948-50, Félag ísl. hljóðfæraleikara gaf út Tónlistarblaðiðárið 1956 og Tónamál 1971. Félag ísl. organleikara hóf útgáfu Organistablaðsins 1968 og kemur það enn út (1980). (Páll Kr., 142)
1925
Jón Leifs (1899-1968) fer í fyrstu rannsóknarför sína til Norðurlands. „Hann gerir margar þjóðlegar upptökur og fær staðfestingu á kenningum sínum um þjóðlaga-söng: Skráð dæmi fyrirrennara hans (Árni Beinteinn Gíslason, Bjarni Þorsteinsson) voru of sléttfelld, of mikið af viðhafnartónum kom ekki fram“. (Hallgrímur 1993, 98) Hallgrímur segir um Jón Leifs:
Enginn annar hérlendur tónlistarmaður hafði nokkru sinni verið íslenzkari en hann (í rauninni veigra ég mér við að nota orðið tónlistarmaður, þegar nú tíðkast að viðhafa það um sérhvern maðkafjöru-snáða, sem skælir sig og skimpast í fjölmiðlum með fáein páfagauks-grip á gítarbretti; svo hrapallegt er á okkar afsiðunar-tímum orðið verðfall (= matsfall) þessa annars göfuga hugtaks). (Hallgrímur 1993, 97)
„Jón Leifs má telja upphafsmann að þjóðlegum stíl, hann sótti efnivið tónverka sinna í þjóðlögin, í safn Bjarna Þorsteinssonar... [Jón] var fyrstur íslenskra tónskálda til að benda á sérkenni þeirra og koma þeim á framfæri.“ (Páll Kr., 136) -- Væntanlega að Bjarna Þorsteinssyni sjálfum undanskildum.
— Þorsteinn Gíslason, þekktur fyrir sönglagútgáfu sína í tímaritinu Óðni, gefur út 11 einsöngslög eftir Jón Laxdal. „Textar eru þýddir á dönsku af Þórði Tómassyni og Þorsteini Gíslasyni, aðrir úr dönsku á íslenzku af Matthíasi Jochumssyni. Hér hefir Laxdal ráðizt í að lagsetja kvæði eftir Einar Benediktsson. Mun þetta vera fyrsta einsöngslag, sem birtist við ljóð þess höfundar, sem lengst af þótti þungur og torskilinn, þar eð hugsun hans kafaði einna dýpst allra íslenzkra skálda.“ [Lagið heitir Lognsær] (Hallgrímur 1992, 131)
1926
Hamburger Philharmonier heldur tónleika á Íslandi undir stjórn Jóns Leifs. Tónleikarnir voru liður í tónleikaferð til Noregs, Færeyja og Íslands þar sem haldnir voru
...17 konsertar í Osló, Bergen, Thorshavn, Reykjavík og Hafnarfirði. Á efnisskrá eru symfóníur eftir Beethoven (1.,2.,3.,7. og 8.) og Mozart (g-moll), ennfremur tvö verk eftir stjórnandann, Íslands-forleikur, op. 9 og músík við Galdra-Loft.
   Þessi heimsókn Hamborgar hljómsveitarinnar er einn mesti músíkviðburður aldarinnar. Hér sjá menn í fyrsta skipti vel skipaða symfóníu-hljómsveit. Máske hafði þessi flokkur hljóðfæraleikara aldrei fyrr leikið fyrir jafn forvitna og þakkláta áheyrendur. (Hallgrímur 1993, 99)
— Jazzband Reykjavíkur stofnað. Þetta var sjö manna áhugasveit sem spilaði „aðallega um helgar á böllum og á veitingastöðum, oft á Hótel Íslandi, en nafnið var stílað upp á flottheitin, þetta voru ekki djassmenn nema í viðlögum.“ (Jón Múli, 216) Væntanlega var þó hér á ferð fyrsta jazzband landsins. Í bandinu voru

...þrír Danir eða danskættaðir piltar, tveir þeirra uppaldir í Lúðrasveit Reykjavíkur, þrír reykvískir blásarar, einn úr L.R., og einn Norðmaður, Axel Wolf á trommur. Hr. Fredriksen, bróðir Freðriksens slátrara og kjötkaupmanns, lék á túbu, Holger Nilsen spilaði á fiðlu og Aage Lorange, sonur apótekarans í Sykkishólmi, á píanó. Eggert Jóhannesson blés á trompet, hann var líka ævinlega 1. trompet í sinfónískum tilraunum á þessum árum, Ingólfur Einarsson spilaði á tenórsaxófón og á altsaxófón Björn Jónsson, síðar ein aðaldriffjöður og stjórnarmaður í Tónlistarfélaginu, sem stóð að allri klassískri tónlistarvakningu fram á miðja öldina og hafði forgöngu um stofnun Sinfóníuhljómsveitar Íslnads árið 1950. (Jón Múli, 216)
— „Nýtt 32 radda orgel [kemur] í Fríkirkjuna í Reykjavík byggt af Sauer-Walcker verksmiðjunum í Þýzkalandi. Með því hófst eftirminnilegt og glæsilegt hljómleikahald Páls Ísólfssonar.“ (Páll Kr., 135)
1927
— 2. júní: Anna Pjeturss heldur opinbera píanótónleika fyrst íslenskra kvenna (Sjá viðtal við Önnu í Fálkanum, 10. janúar 1966, 14-17). Tónleikarnir fóru fram í Nýja bíói. Páll Ísólfsson ritaði í Morgunblaðið af þessu tilefni:
Ungfrú Anna Pjeturss leikur á píanó í Nýja bíó á fimtudaginn kemur. Hún hefir nýlokið prófi við sönglistaháskólann í Höfn með ágætri einkunn, og var Haraldur Sigurðsson frá Kaldaðarnesi aðalkennari hennar þar. Nám sitt hefir hún stundað þar í síðustu fjögur árin og var veitt ókeypis kensla, en það hlotnast fáum, og þeim einum, sem fram úr skara. Við burtfararprófið voru henni og veitt verðlaun fyrir prýðilega frammistöðu. Nú er hún hingað komin, og er það að eindregnum hvötum Haralds kennara hennar, að hún efnir nú þegar til hljómleika hjer í bænum. – Sjálfur hefi jeg hlýtt á hana spila tvö af þeim verkum, sem hún ætlar að flytja nú, c-moll-tilbrigði eftir Beethoven og eina af Etudum Chopin's. Leikur hennar er stílhreinn og fágaður, leiknin mikil og örugg, og leynir sjer ekki, að þar fer saman listræn gáfa og að hún hefir notið kenslu hjá frábærlega góðum og vandlátum kennara.
   Ungfrú Pjeturss mun vera sú fyrsta íslenska kona, sem heldur hjer píanóhljómleika, enda ein notið fullkominnar mentunar í þeirri grein. Hún er dóttir dr. Helga Pjeturss, en sonardóttir frú önnu Petersen, sem um langt skeið var eini píanókennari í bænum og allflestir þeirra, sem við píanóspil hafa fengist alt fram að síðustu tímum, hafa notið kenslu hjá.
   Þessar fáu línur vil jeg enda með því að ráða öllum söngvinum bæjarins til að hlusta á þessa gáfuðu og efnilegu stúlku. (Morgunblaðið. 29. maí 1927, 2)
— Söngvararnir Hreinn Pálsson, Einar Hjaltested, Kristján Kristjánsson halda sína fyrstu tónleika. (Páll Kr., 135)
1928
— 6. september: Bandalag íslenskra listamanna stofnað „af 43 listamönnum í ýmsum greinum, einkum að frumkvæði Jóns Leifs, tónskálds, til að styðja vöxt og viðgang íslenskra lista, gæta hagsmuna listamanna og efla samvinnu þeirra. Bandalagið var í upphafi eitt félag allra listamanna. Í fyrstu stjórn þess sátu þrír menn: Gunnar Gunnarsson, rithöfundur, forseti, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, myndlistarmaður og Jón Leifs.“ (Einar, I, 53).
— Jón Leifs fer í „upptökuferð til Norður- og Norðvesturlands. Til þess hlýtur hann bæði þýzkan og íslenzkan fjárstyrk. Fang Jóns úr þeirri för birti að nokkur leyti þýzki músíkvísindamaðurinn Eric von Hornboster í bókinni Deutsche Island-Forschung,1930.“ (Hallgrímur 1993, 99)
— Tékkneski prófessorinn Johann Velden kemur til Íslands til að halda námskeið fyrir Hljómsveit Reykjavíkur. Velden dvelur sem stjórnandi fram í mars 1929 og hefur góð áhrif á spilamennsku sveitarinnar. (Bjarki, 7-8)
— Píanóleikarinn Markús Kristjánsson (1902-31), efnilegur listamaður og sönglagahöfundur, heldur sína fyrstu tónleika „í Gamla Bíói, sem nú var orðið aðal tónleikahús Reykjavíkur.“ (Páll Kr., 135) Á undan Markúsi hafði Haraldur Sigurðsson (1892-19?) verið fyrsti íslenski atvinnupíanóleikarinn. (Páll Kr., 141)

 Efnisyfirlit1056 - 1839  |  1840 - 1929  |  1930 - 1959  |  1960 - 2000musik[at]musik.is 
Heimildir
©  Músa