Pistillinn

14. mars 2002
Vettvangur fyrir tónlistina

Jón Hrólfur Sigurjónsson
<hrolfur@musik.is>

Ég hef um tíma velt fyrir mér hvort ekki megi nýta Músík.is betur sem vettvang fyrir tónlistina. Vefurinn er töluvert notaður, t.d. voru rúmlega 1000 síður sóttar að meðaltali hvern dag í febrúar. Spurningin er hvort grundvöllur er fyrir birtingu pistla eða annarra skrifa er varða tónlist eða tónlistarlífið. Hér má hugsa sér hvort heldur er fræðileg eða söguleg skrif, nú eða eitthvað af vettvangi dagsins.

Þeir sem þekkja til póstlistans <spjall@musik.is> kunna að hugsa sem svo að reynslan þaðan gefi vart vísbendingar um að mönnum sé mikið mál á ritvellinum. Má vera, en hugmyndin er þó svolítið annars eðlis hér:
  1. Pistlar verða aðgengilegir öllum sem hafa nettengda tölvu; <musik@ismennt.is> er einungis aðgengilegur þeim sem skráðir eru á listann – í dag rétt rúmlega 160 manns.
  2. Þó öllum verði frjálst að senda inn pistla og skrif, stendur ekki til að birta óskoðað allt sem berst. Innsent efni verður lesið yfir af 2-3 aðilum og athugasemdir gerðar ef þurfa þykir. Einungis er ætlunin að birta skrif sem eigi erindi og tengjast tónlist eða tónlistarlífinu beint eða óbeint – eins og áður segir: sögulega, fræðilega eða vettvangi dagsins.
Margir tónlistarmenn eru liprir pennar og hafa í gegnum tíðina víða skrifað. Einnig væri gaman að birta áhugaverð eldri skrif. Ef viðtökurnar verða góðar ímynda ég mér að birta megi 1-3 greinar á viku. Með tímanum gæti þannig safnast dágott greinasafn sem orðið gæti til gagns og gamans.

Ástæða þess að ég ákvað að gera þessa tilraun nú er að Atli Ingólfsson tónskáld sendi mér pistil, „Spurning um aðferð: Hugleiðingar um listamannalaun“, og spurði hvort ekki væri pláss á Músik.is fyrir svona skrif. Pistill Atla verður sá næsti sem birtist.

  ©  2002  Músa