|
Tónninn eins og maðurinn, blíður og hæverskur Vernharður Linnet <linnet [hjá] simnet.is> Hvernig mátti það vera að Gunnar var talinn Dani af Ulrich og hver var ferill þessa rómaða saxófónleikara? Hvar lágu rætur hans og hvar mótaðist stíll hans? Gunnar Ormslev fæddist árið 1928 í Hellerup í Gentofteskíri, einni af útborgum Kaupmannahafnar. Móðirin var íslensk en faðirinn danskur og allt þar til heimsstyrjöldin síðari skall á var ekkert sem benti til þess að pilturinn yrði annað en ekta Dani af íslenskum ættum, svona eins og Thorvaldsen og fleiri mætir listamenn. En hann settist að í landi móðurinnar og kannski átti skorturinn er ríkti í Danmörku eftirstríðsáranna þátt í því. Nú er liðinn meira en aldarfjórðungur síðan Gunnar lést í blóma lífsins og er hann mörgum gleymdur í þessum heimi þar sem heimsfrægðin er stundarfyrirbrigði og meira að segja í nýlegum sjónvarpsþætti um íslenskan djass, þar sem ágætir djassleikarar voru teknir tali og auk þess sýnd myndbrot með ýmsum helstu djassleikurum landsins, var Gunnar Ormslev, sem fremstur var meðal jafningja frá því hann flutti til landsins 1946 til dauðadags 1981, hvergi nefndur né sýndur. „...borið af þeim öllum sem sólóist“
Þegar til Íslands er komið býr Gunnar í Hafnarfirði og kynnist þar Guðmundi Steingrímssyni, Eyþóri Þorlákssyni og félögum og síðan bætast Reykvíkingar eins og Óli Gaukur og Steini Steingríms í hópinn. Með þeim eru til nokkrar upptökur og Lesteráhrifin sterk í leik Gunnars. Svo stofnaði hann GO-kvintettinn sem lék í samkomusal Mjólkurstöðvarinnar veturinn 1946-47. Haustið 1947 leysir Gunnar nafna sinn Egilson af hólmi í hljómsveit Björns R. Einarssonar þar sem hann blés stutta stund því hann var ekki í FÍH. Á því var ráðin bót og í ársbyrjun 1948 gengur hann til liðs við KK-sextettinn, en þar sem hljómsveitarstjórinn Kristján Kristjánsson blés í altósaxófón varð Gunnar að skipta yfir á tenór. „Gunnar kunni ekkert að lesa þegar hann kom til mín,“ sagði Kristján síðar, „en ég hef aldrei vitað nokkurn eins fljótan að læra. Eftir viku las hann allt sem ég setti fyrir hann.“ Um haustið gengur Gunnar að nýju til liðs við Björn R. og leikur með honum þar til hann heldur til Svíþjóðar 1955. Á upptökum sem varðveist hafa með Gunnari frá árunum með KK og Birni má heyra að hann hefur færst nær Hawkinsskólanum, enda blésu allir helstu saxófónleikar landsins í Hawkinsstílnum, s.s. Sveinn Ólafsson, Ólafur Pétursson og Helgi Ingimundarson. Coleman Hawkins var tenórsaxófóninum það sama – þar til bíboppið kom til sögunnar – og Louis Armstrong trompetnum. Það voru aðeins einstaka framúrstefnumenn svingsins, eins og Lester Young og Roy Eldridge, sem brutust undan ægivaldi þeirra. „...gefur lítt eftir því bezta erlendis“ Til er grein um Gunnar, eftir Svavar Gests, í Jazzblaðinu 1951. Þar segir: „Gunnar lék á altó-saxófón og þótti leikur hans mjög líflegur. Hann hafði mikla tækni á hljóðfæri sitt, hafði þó aðeins verið með það í nokkra mánuði. Tónn hans var ekki að sama skapi góður. En er Gunnar fór að leika á tenór urðu mikil umskipti. Tónninn var mun betri og fór stöðugt batnandi. En ekki hefur Gunnar samt hinn mikla tón, sem á sínum tíma var talið nauðsynlegt að hafa, ef maður átti að teljast góður tenór-saxófónleikari, en þá líktu nú líka allir eftir Coleman Hawkins!... Gunnar er líklega sá hljóðfæraleikarinn, sem mestum og beztum framförum hefur tekið hér á landi undanfarin ár. Frá því að maður heyrði í honum sem litla altó-saxófónleikaranum með góðar hugmyndir og slæma tóninn, fyrir rúmum fjórum árum, hefur Gunnar breyzt í afburða tenór-saxófónsólóista með ennþá fjölbreyttari hugmyndir og miklu betri tón. Fyrir utan, að á þessum tíma hefur honum tekizt að yfirstíga hindrun flestra þeirra, sem orðið hafa að læra á hljóðfæri hjá sjálfum sér: hann les nótur viðstöðulaust.“ Vorið 1955 hélt Gunnar til Svíþjóðar til að leika með Simon Brehm-bandinu og það var ekki lítið ævintýri. Það var píanistinn Charles Norman, sem þekktastur er fyrir samvinnu við söngkonuna Alice Babs, sem mælti með Gunnari við Simon, en hann skrifaði um Gunnar eftir að hafa verið hér með Babs, að hann væri fremsti tenórsaxófónleikari í Evrópu. Svavar Gests skrifaði þá: „Aðeins þeir beztu komast í beztu hljómsveitirnar. Þess vegna réð sænski hljómsveitarstjórinn Simon Brehm Gunnar til sín.“
Gunnar kom heim eftir árið þótt Simon byði honum að leika með sér áfram og hann fengi tilboð um að leika með stórsveit trompetleikarans Thores Erlhings. Fljótlega stofnaði hann fræga hljómsveit er fékk gullverðlaun á Heimsmóti lýðræðissinnaðrar æsku og stúdenta í Moskvu 1957 sem besta djasshljómsveit festívalsins. Aðeins örfáar upptökur hafa varðveist með þessari hljómsveit, en auðheyrt er að hún tók öðru fram er heyrst hafði í djassi hérlendis, enda bárust ýmis atvinnutilboð að utan „en strákarnir vildu vera heima“, sagði Ormslev seinna. Eftir þetta lék Gunnar fyrst og fremst á Íslandi þótt hann hafi hljóðritað með Stórsveit danska útvarpsins og leikið nokkur sumur á Gotlandi. Af mögnuðustu hljóðritunum hans eftir Moskvuævintýrið má nefna er hann lék með austurríska píanóvirtúósnum Friedrich Gulda í Framsóknarhúsinu 1959 og hljóðritanirnar með tríói Jóns Páls Bjarnasonar gítarista þar sem Sigurbjörn Ingþórsson lék á bassann. Um það tríó segir Jón Páll: Hér hefur fyrst og fremst verið fjallað um árin frá því að Gunnar Ormslev kom til Íslands og þar til hann hélt til Svíþjóðar og brugðið upp mynd af því hvernig samtímamenn fjölluðu um saxófónleik hans. Saga Gunnars er saga einstaklings sem hafði allt til þess að bera að verða einn af fremstu djassleikurum Evrópu, en margskonar samspil persónugerðar hans og umhverfis komu í veg fyrir slíkt. Hann hefði eflaust átt betra gengi að fagna í tónlistinni hefði hann aldrei flust til Íslands, en þá hefðu Íslendingar líka farið á mis við hina mögnuðu hæfileika hans, sem öðru fremur lyftu íslenskum djassi í listrænar hæðir á árunum frá stríðslokum framundir 1960. Það er líka ómögulegt að segja hver hefði orðið þróun hans hefði hann lifað hina miklu endurreisn íslensks djass á árunum um og eftir 1980. Hann lést úr eitlakrabba aðeins 53 ára, en var þá farinn að kenna við Tónlistarskóla FÍH og stjórnaði djasssveit Hornaflokks Kópavogs. Hann hafði unun af kennslunni og að umgangast hina ungu hljóðfæraleikara og ekki er ótrúlegt að hann hefði gengið í endurnýjun lífdaganna sem djassleikari hefði honum enst aldur; líkt og Jón Páll Bjarnason hefur gert eftir að hann sneri aftur heim til Íslands. Í viðræðum við tvo frændur Gunnars og vini, píanistana Hrafn Pálsson og Ólaf Stephensen, kom ýmislegt fram um þá misvísun er m.a. má finna í sænsku dómunum um Ormslev og hvers vegna alltaf var talað um slæma tóninn er hann var að hefja ferilinn. Hrafn Pálsson segir: „Ormslev var einstaklega mikill húmoristi og hermikráka. Hann gat bókstaflega hermt eftir öllum. „Spilaðu eins og Maggi Randrup“ bað maður, og hann gerði það. Þess vegna er ekkert skrítið að hann skyldi bregða fyrir sig hinum ýmsu stílbrigðum, en það gerðist nú sjaldan eftir að hann heyrði Stan Getz. Það var hans maður.“ Og um tóninn segir Ólafur: „Hann hafði ekki ljótan tón, það er bölvuð vitleysa, en hann hafði öðruvísi tón; tón af Lesterskólanum; tónn Gunnars var eins og maðurinn, blíður og hæverskur.“
|
|