|
Enn er barist um arfleifð pönksins Valur Gunnarsson <valurgunnars [hjá] gmail.com> Johnny Rotten og illa fengið fé Hið eiginlega pönk gerði fyrst vart við sig í London sumarið 1976, þó að það ætti sér fyrirrennara í Bandaríkjunum. Meginhljómsveitir pönksins voru tvær, Sex Pistols og The Clash. Þessar hljómsveitir, þó að þær ættu margt sameiginlegt, voru þó á öndverðum meiði hvað pólitík varðaði. Sex Pistols voru ýmist tengdir við nýhilisma eða anarkisma, þó að hljómsveitarmeðlimirnir virðist hafa verið á móti öllum stefnum. Rotten sagði að þeir væru að reyna að „eyðileggja allt“, en þeir urðu landsþekktir á Bretlandseyjum fyrir að blóta opinberlega í sjónvarpinu. Brottrekstur Glens Matlock (sem þótti „of miðstéttarlegur“) og ráðning Sid Vicious í hans stað sýndi þó að þeir lögðu meira upp úr ímynd en innihaldi, Vicious kom vel út í mynd en var ekki spilandi á neitt hljóðfæri. Árið 1978 lagði hljómsveitin upp laupana, Vicious drap kærustu sína og lést af of stórum skammti eiturlyfja í fangelsi. Ferill Johnny Rotten undanfarið hefur heldur ekki verið beint glæsilegur, hann leikur í raunveruleikasjónvarpsþáttum á milli þess sem hann dregur Sex Pistols aftur á svið. Þegar hann er ásakaður um að spila með hljómsveitinni peninganna vegna svarar hann því með að játa á sig allar sakir, og var tónleikaferðin 1996 kölluð „Filthy Lucre Tour“, eða „illa fengið fé“. Hann hefur þó ekki enn selt tónlistina í auglýsingar. Christopher Nolan, leikstjóri nýju Batman-myndarinnar, segir persónu Jókersins vera byggða á Johnny Rotten: „Hann er ekki bankaræningi eða venjulegur glæpamaður sem er að reyna að efnast. Hann er frekar eins og anarkisti.“ Ólíkt Pistols höfðu The Clash pólitík á stefnuskrá sinni frá upphafi. Fyrsta smáskífa þeirra hét „White Riot“, og breiðskífan var skreytt myndum af óeirðum í Norður-Írlandi. Lög þeirra fjölluðu meðal annars um atvinnuleysi, kynþáttahatur og ofbeldi lögreglu. Ferill Clash var eilítið lengri en Pistols, hljómsveitin lagði upp laupana árið 1985. Forsprakkinn Joe Strummer lést árið 2002 úr hjartasjúkdómi en hljómsveitin náði að spila á Íslandi árið 1980, með Utangarðsmenn sem upphitun. Með The Clash og The Sex Pistols má greina tvo meginstrauma pönksins, annars vegar þá sem grúska í pólitík og „hafa eitthvað að segja“ og hinsvegar þá sem „gefa skít í allt“. Það vildi reyndar svo til að þeir sem höfðu áhyggjur af stéttabaráttunni voru oftar úr miðstétt, Joe Strummer var sonur diplómata meðan Johnny Rotten ólst upp í fátækrahverfi. Clash voru innblásnir af verkalýðsbaráttu og hugmyndum '68 kynslóðarinnar meðan Sex Pistols höfnuðu þeim. Pönkið kom seint til Íslands en hinir tveir angar þess áttu augljósa fylgjendur hér eins og kom fram í Rokk í Reykjavík . Utangarðsmenn fluttu kraftmikið pólitískt rokk í anda Clash, og hvort sem það var af þeim ástæðum eða öðrum voru það þeir sem mestra vinsælda nutu. Flestum hinna fannst „mussuliðið“ og hugsjónir '68 kynslóðarinnar hallærislegar. Þó tóku pönkararnir á endanum upp margar af hugsjónum hennar. Arfleifð íslenska pönksins er fyrst og fremst sú að því tókst eitthvað sem rokkurum '68 kynslóðarinnar tókst ekki, að búa til eitthvað séríslenskt úr erlendum áhrifum. Og fyrir vikið var það nýbylgjubandið Sykurmolarnir sem var fyrsta íslenska bandið til að sigra heiminn með afgerandi hætti. Björk hélt áfram sem sólólistamaður árið 1993 og varð einn helsti áhrifavaldur hinnar svonefndu „krúttkynslóðar“, sem má segja að hafi verið ráðandi í íslensku listalífi á 10. áratugnum. Krúttkynslóðin var ekki beint skítsama um allt né heldur hafði hún neinar sérstakar hugsjónir fram að færa. Nafn hennar er tilkomið af því að aðalatriðið var að vera sniðugur, en það hvort hlutirnir hefðu einhverja sérstaka merkingu eða ekki skipti varla lengur máli. Því má segja að hugmyndafræðilega skildi pönkið eftir sig sviðna jörð, þar sem ekkert hefur vaxið síðan. Eða hvað? Ein helsta hljómsveit krúttkynslóðarinnar var hin framúrstefnulega og mjög svo frumlega Sigur Rós. Ekki gerði hljómsveitin þó út á beinskeytta texta, enda voru textar þeirra á tilbúnu tungumáli og nánast óskiljanlegir. Það er ekki hægt að segja annað en að íslenskri textagerð hafi hrakað frá því í upphafi 9. áratugarins, þegar Bubbi, Megas, Bjartmar, jafnvel Stuðmenn, kepptu hver við aðra í hnyttnum textum sem endurspegluðu og gagnrýndu samtímann. Margir hófu aftur að syngja á ensku, og líklega spilaði draumurinn um heimsfrægðina þar inn í, en á sama tíma hættu þeir að beina sjónum að vandamálum samtímans. Þar sem ekkert hafði neina sérstaka merkingu lengur var farið að þykja í lagi að selja list sína í auglýsingar. Stærstu nöfnin, svo sem Björk og Sigur Rós, fóru þó ekki þá leið. Björk sagði í viðtali við blaðið Grapevine sumarið 2004: „Undanfarin þrjú ár hef ég farið inn á fréttasíður á hverjum degi til þess að komast að því hvað er að gerast. Og ef ég, af öllum, er að koma mér upp áhuga á stjórnmálum þá hljóta margir aðrir að vera að gera það einnig.“ Afraksturinn af þessum nýfundna áhuga á umhverfinu kom fram á tónleikum í janúar 2006, og aftur í sumar, þar sem bæði Björk og Sigur Rós héldu tónleika ásamt fleirum til að andæfa virkjunarstefnu stjórnvalda. Þarna má nánast segja að pönk og krúttkynslóðirnar hafi runnið saman í eitt við að reyna að koma hugsjónum '68 kynslóðarinnar um umhverfisvernd á framfæri. Kárahnjúkavirkjun vs. umhverfisvernd var eitt af helstu deilumálum fyrsta áratugar 21. aldar. Annað var fjölmiðlamálið svokallaða, sem var stundum lýst sem átökum ríkisvalds og auðmanna. Árið 1986 var ríkiseinokun á fjölmiðlum gefin frjáls, og í upphafi 21. aldar voru margir gamlir pönkarar farnir að vinna hjá hinum einkareknu fjölmiðlum. Anarkismi og frjálshyggjukapítalismi eiga það jú sameiginlegt að vera á móti ríkisvaldinu og líklega var það sumum pönkurum ljúft að geta rembst gegn ríkisvaldinu, en nú á góðum launum. Þetta voru betri kjör en þau sem gamla '68 kynslóðin bjó við, þar sem ríkisvaldið og auðvaldið var lagt að jöfnu, og það að vera á móti var ávísun á kennarastöður og fátækt. Sú kynslóð leit á það sem sitt helsta markmið að ná tökum á ríkisvaldinu frekar en að leggja það niður. Hún kaus því Alþýðubandalagið og stofnaði löngu síðar Kvennalistann. Pönkararnir voru hinsvegar flestir á móti öllum stjórnmálaflokkum jafnt, og höfðu því lítinn áhuga á að reyna að bæta samfélagið með þátttöku í stjórnmálum. Þessar deilur Sex Pistols og Clash, Fræbbblanna og Bubba, '68 og '76, teygja anga sína víða. Það má jafnvel sjá eima eftir af þeim í sjónvarpsþáttunum Simpsons og South Park . Simpsons eru með mjög skýra pólitíska afstöðu, helsti skúrkur þáttanna er Montgomery Burns sem á kjarnorkuver og er meðlimur í Repúblikanaflokknum, ásamt Drakúla greifa. Í South Park er hinsvegar á yfirborðinu ekkert heilagt en eitt það versta sem hægt er að kalla menn þar er „You damn hippie“. Líklega má segja að Simpsons séu hippar og South Park pönk. Enda eru þeir til sem kalla sig með stolti „South Park Republicans“, og skaparar þáttanna viðurkenndu á ráðstefnu árið 2001 að þeir væru Repúblikanar og frjálshyggjumenn.
|
|