Pistillinn | 15. okt. 2002 |
Tónminjasetur Íslands Erindi flutt á Stokkseyri 12. október 2002 á afmælisdegi Páls Ísólfssonar Bjarki Sveinbjörnsson <bjarki@musik.is> Heiðruður alþingismenn; heiðruður gestir! Spurningin er þessi: Hvað getur tónminjasetur gert fyrir íslenskt þjóðfélag og menningu þess? Menn töluðu um það úti í heimi í kringum árið 800 að tónlist yrði að geyma í hugskotum manna því seint yrðu hún á bókfell skráð. Á árhundruðum sem á eftir komu fundu menn upp ritmál fyrir tónlistina þar sem hægt var, líkt og með hið talaða orð, að skrá niður tóntákn sem menn skildu og gátu lesið sér til fróðleiks og lærdóms, og varð mönnum leiðarvísir í því hvernig læra mætti ný lög af bók. Þetta er um það leyti þegar landlausir norskir bændur fylgdu kompásnum til vestur - til Íslands og námu hér land. Á Íslandi, eins og á meginlandinu þótti mönnum ástæða til að þróa og þroska kirkjuveldið í samfélaginu og varð Ísland yfirlýst kristið land árið 1000. Það skilaði okkur vel menntuðum íslenskum prestum og biskupum á árunum sem eftir komu enda höfðu þeir siglt til meginlandsins til að nema hin miklu fræði hinnar kaþólsku kirkju er sneri að hinu talað orði til Guðs og söngmennt sem því passaði - og fór allt fram á latínu. Það hefur verið skráð í bækur að annað tímabil tónlistarsögu miðalda í Evrópu hafi hafist í kringum 1100 þegar hinn veraldlegi söngur alþýðunnar klauf sig frá kirkjuveldinu og til varð músíkum þar sem menn sungu á móðurmálinu í stað hins hefðbundna textaforms kaþólsku kirkjunnar, latínu. Í suður- og norður Frakklandi komu fram alþýðlegir söngvarar er fluttu drápur af ýmsum toga og voru þeir kallaðir túbadúrar og trúverjar. Til eru ýmsar upplýsingar um þetta fólk fyrir 1000 árum, ættir þeirra og þjóðfélagsstöðu, textana og lögin og hvað allt þetta fjallaði um. Með það í huga að íslenskir prestlærðir menn á miðöldum sem stunduðu sitt nám í klaustrum kaþólsku kirkjunnar í Evrópu hafi fært okkur messuformið og texta messunnar í handritum til landsins, þá getum við alveg eins ímyndað okkur að frásagnir af veraldlegum söng trúbadúranna hafi einnig borist hingað til lands með þessum mönnum eða aðstoðarmönnum þeirra. Það sem ég er að reyna að nálgast hér er uppruni alþýðusöngsins á Íslandi - Túbadúrar suður Frakklands voru af aðalsættum - gæti Egill Skallagrímsson ekki alveg eins hafa haft í huga það form þegar hann flutti sínar drápur. Getur ekki sá menningarhópur íslensk samfélags sem umorti fagurbókmenntirnar yfir í rímur ekki alvegs eins hafa haft þetta form miðevrópu í huga- verið hinir íslensku trúbadúrar. Eitt er víst að hér á Íslandi sem og í öðrum löndum Evrópu finnast helstu heimildir um tónmenninguna í kirkjubókum og um kirkjutónlist. Við hér á Íslandi getum okkur aðeins til um sönghætti alþýðunnar og helst vegna þess að boðskapur prestanna var að banna hitt og þetta sem alþýðan hefst að. Til eru ýmsar upplýsingar um tónmenningu þjóðarinnar á miðöldum og fram að siðaskiptum sem við höfum valið að staðsetja við 1550 þegar Jón Arason Hólabiskup og synir hans voru hálshöggnir í Skálholti. Um það leyti hófst prentun hér á landi - prentaðar sálmabækur, sálmabókin að Hólum árið 1589 sem hefur að geyma fyrstu nótnaprentun hér á landi og Grallarinn, sálmasöngsbókin frá árinu 1594 höfðu að geyma þær laglínu sem þjóðin söng næstu 200 árin. Um 1800 ruddist Magnús Stephensen fram hér á landi með upplýsingastefnuna, vildi uppfærða alþýðuna - vildi gera það einhvers virði að vera til, njóta lífsins með þekkingu og nýjum söngvum. Fram að þeim tíma voru árhundurð þar sem menn lifðu eftir því lífsmottói að hver dagur ætti að vera öðrum líkur. 19. öldin fór í það hér á landi að skipta algerlega um klæði í músíkölskum skilningi. Grallarasöngurinn sem hér hafði verið við líði í um 200 ár við í sumum tilfellum jafngömlum ortum sálmum tilheyrði brátt sögunni og Magnús Stephensen, Pétur Guðjohnsen og Jónas Helgason báru hingað heim lifandi og léttar laglínur norræns- og norður-evrópsks samfélags sem hin upprennandi þjóðskáld okkar ortu við ættjarðar og áhrínistexta til fossa og lækja, til hlíða og grösugra akra sem og til heimasætunnar og nálgun sveitapiltsins við hana. Í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. vaknaði samfélagið til lífsins við frásagnir nokkurra einstaklinga sem höfðu siglt með dönskum kaupskipum til Danmerkur, England og Þýskalands af tónlistariðkun þessara landa - menntaðir söngvarar, sónötur og konsertar, söngleikir og kórsöngur, karla- drengja og ekki síst blandaðir kórar. Einsöngvarar með aðstoð hljóðfæraleikara - Einleikarar á hljóðfæri. Þetta voru ný hugtök í máli þjóðarinnar enda má sjá þegar maður ber saman blaðaskrif þeirra er fjalla um tónlist samtímans í Evrópu og skrif íslenskra velunnara tónlistarinnar hér á landi hve málið var fátækt af hugtökum um efnið. Það fréttist af óperusöngvara í Þýskalandi - Hvað var ópera?, Ari Jónsson í Þýskalandi, Einar Hjaltested var í Ameríku, Pétur Jónsson handan sundsins í austri, Jón Norðmann lærði píanóleik á meginlandinu, Haraldur Sigurðsson frá Kaldaðarnesi þekkti úr langri fjarlægð í hvaða tóntegund kýrnar í Flóanum bauluðu, enda reyndi Sveinbjörn Sveinbjörnsson að leggja fyrir hann músíkalska gildur að mig minnir árið 1907 á heimili hans í Kaldaðarnesi þegar hann var að reyna músíkalska hæfileika drengsins að ósk foreldra hans. Haraldur Sigurðsson var í framahaldi af því sendur til tónlistarnáms til Kaupmannahafnar og endað þar sem prófessor píanóleik við Tónlistarháskólann þar. Sigfús Einarsson á Eyrarbakka fór líka til Kaupmannahafnar og að námi loknu kom hann heim að mig minnir 1906 með Valborgu sína og áttu þau eftir að leiða tónlistarlífið hér á landi í áratugi. Á Akureyri var á þessum tíma Magnús organisti. Hann fór fyrstu íslenskra kórstjóra með kór sinn til Noregs árið 1905 og hélt þar tónleika í mörgum bæjum. Þar brann áhuginn og löngunin til afreka í hverju hjarta. Þeir sigldu svo til náms í Þýskalandi, Páll Ísólfsson, og varð hann styrk hönd þeirra Jóns Leifs og Sigurðar Þórðarson er þeir ári síðar sigldu með honum, einnig til náms í Þýskalandi. Þórarinn og Eggert Guðmundssynir fóru til Kaupmannahafnar, Þórarinn Jónsson úr Mjóafirðinum fór til Þýskalands, Árni Kristjánsson, Björn Ólafsson, Rögnvaldur Sigurjónsson og fleiri og fleiri skiluð sér heim til að taka þátt í uppbyggingu tónlistarlífsins um og eftir 1930. Stofnun Tónlistarskólans í Reykjavík var hárrétt ákvörðun áhugamanna árið 1930. Alþingishátíðin varð sú hvatning sem til þurfti og sú framkvæmd sem gerði mönnum fyrir alvöru grein fyrir stöðunni eins og hún var, og með aðstoð góðra manna eins og Franz Mixa og fleiri gerðu menn sér grein fyrir því sem þurfti að gera. Ragnar í Smára var utan af Bakka eins og sagt er hér á Stokkseyri. Ég veit ekki hvort menn gera sér almennilega grein fyrir því að hér eru aðeins þrjár áttir. Hér á planinu fyrir framan þessa byggingu eru hrein áttaskipti, sennilega af því að rútan í gamla daga stoppaði hér einverstaðar, hér er frystihúsið, gamla og nýja kaupfélagið, pósthúsið og hér var Keli rafvirki. Allt þetta skipti sköpum fyrir samfélagið. Frystihúsið var lifibrauðið, rútan kom með Vikuna og Fálkann, Kaupfélagið seldi hveiti, áburð, fóðurblöndu bensín og 5 tommu nagla og Keli sagði fólki eins og Finnu á Bakka að rafmagnseyðslan hjá henni væri með eindæmum því rafmagnsstaurinn fyrir utan væri hærri en húsið og flæddi því rafmangið inn. Hann varaði hana líka við útvarpstegundinni sem hún væri með - hún segði tóma lygi. Ég sagði að Sigfús Einarsson væri utan af Bakka. Hér finnast bara Austurúr, Uppúr og Vesturúr. Þeir sem fór lengra en Vesturúr voru yfirleitt að fara suður. Þannig að áttirnar eru hér ekki nema þrjár. En Einar Sturluson stórsöngvari, nú á níræðisaldri laug engu að mér í síðustu viku þegar hann sagði mér að skemmtilegustu tímar hans í tónlistinni hafi verið hér þegar hann æfði og söng með karlakórnum á Stokkseyri árið 1946. Menn áttu að róa kl. 5 um nóttina og fóru því um 9 leytið í koju. Þeir voru sko rifnir fram úr rúminu - þeir skyldu mæta á æfingu. Hinrik Bjarnason frá Ranakoti sagði mér að þetta hefði verið um það leyti sem Rafmagnið kom til Stokkseyrar og um leið hurfu héðan draugarnir - flúðu ljósið. En það er með draugana eins og mennina, þegar þeir stíga úr myrkrinu inn í bjart herbergi tekur dálítinn tíma að venjast ljósinu. Það má fullyrða það hér og nú að draugarnir hér í flóanum eru löngu orðnir vanir birtunni enda stendur það fyrir dyrum að þeim verði byggt draugaalþingi hér handan við vegginn. Við bjóðum þá velkomna í návist væntanlegs tónminjaseturs. Það er heldur engu logið í frásögnum manna um ferðir þeirra til leik- og kóræfinga í þessu héraði, uppsveitum Árnessýslu né öðrum héruðum landsins þegar þeir riðu tugi kílómetra á æfingar. Menn drógu hér orgel yfir Hellisheiðina á sleða í lok janúar til að leika í kirkjunni í Kaldaðarnesi eftir mánaðarnám hjá Jónasi Helgasyni í Reykjavík. Lauk þessi ágæti maður þessu mánaðar orgelnámi hjá Jónasi með þeirri umsögn að hann væri orðinn kirkjuklár. Það er engu logið um það að hin dönsku menningaráhrif á Eyrarbakka hafi meðal annars orðið þess valdandi að alþýða manna þar kunni að dansa lancer - það var haft á orði að sjómenn á Eyrarbakka hafi haft glæstasta göngulag á landinu þegar þeir komu í verin - enda lærðir samkvæmisdansarar eftir hefðum hámenningar Evrópu. Það var á þeim árum þegar smáatriðin í danssporunum voru jafngildi mikillar þekkingar. Hér mætti nefna og telja upp svo margt merkilegt og fróðlegt í sögu íslenskrar tónmenningar sem er svo fræðandi og skemmtilegt, ekki bara atriði í uppbyggingu samfélagsins í Reykjavík, ekki bara af suðurlandi heldur og úr öllum héruðum landsins. Uppbyggingin er oft á tíðum persónutengd, hún er einnig tengd stöðum, bæjum, héruðum, aðstæðum, möguleikum einstaklingsins, fordómum samtímans, tækifærum og tækifæraleysi hvers umhverfis og einstaklings. Tónlistarskólinn í Reykjavík, Ríkisútvarpið, Tónlistarfélagið, einstaklingar og hópar um allt land hafa verið sá grunnur Hverra herðar vér nú stöndum á ! Einstök smáatriði skipta ekki máli í þessu sambandi. Það urðu til félög, Tónlistarfélagið, Félag íslenskar hljóðfæraleikara, Félag íslenskra tónlistarmanna, Tónskáldafélagið, Stef, Sinfóníuhljómsveitin, Musica Nova með nútímatónlistina, áhugafélög og kórar um land allt, og einstaklingar sem urðu til að byggja upp hvert á sínu sviði íslenskt tónlistarlíf og íslenska tónmenningu í þéttum og dreifðum byggðum landsins. Tónlistarfélagið flutti inn helstu tónlistarstjörnur samtímans og færði okkur með því á senur hinna stóru borga meginlandsins. Árið 1970 tóku listahátíðarnar við þessu hlutverki og má segja að Ísland sé heimsborg þar sem tónlistarlífið blómstrar, ekki aðeins með starfi heimamanna heldur og streyma hingað bestu erlendu listamenn sem völ er á, á hverjum tíma, bæði í hinum klassíska heimi sem og í poppinu. OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ? Jú, Þess vegna erum við meðal annars stödd hér í dag!!! Fyrir skömmu lauk hér í þessu þorpi ákveðnu tímabili í þessari menningarsögu. Pálmar Þ. Eyjólfsson, tónskáld og tónlistarfrömuður hnýtti endanlegan pokahnút eftir 52 ára starf sem organistinn á staðnum, á 122 ára menningarsögu sem hófst með Selsbræðrum á síðari hluta 19. aldar. Hér er ekki hægt að telja upp þau víðfeðmu og merkilegu áhrif á íslenska tónmenningarsögu sem afkomendurnir frá Seli höfðu á samtímann. Einn af þessum afkomendum hefði orðið 109 ára í dag hefði hann lifað. Dr. Páll Ísólfsson var menntaður á við best menntuðu menn samtímans í Vestur-Evrópu. En hann hafði annað sem íslenskt samfélag þurfti virkilega á að halda á þessum uppvaxtarárum sínum í tónlist sem Páll kom inn í. Páll var alþýðlegur. Staða menntunar hans skipti hann í rauninni engu máli á tali við alþýðumanninn. En hann hafði þann félagslega þroska að láta hana ekki skipta máli í samskiptum við almenning en um leið leyfa henni að blómstra í umhverfi jafningjanna. Þetta er einstakur hæfileiki sem íslenskt samfélag þurfi á að halda í þroskaskeiði tónmenningar sinnar á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Ég hef stundum sagt að fyrir vel menntaðan mann og hæfileikaríkan þurfi ótrúlega samfélagslega hæfileika til að geta bæði kropið niður til barnsins til að líta í augu þess og einnig litið uppréttur í augun á tröllinu. Páll gat og kunni þetta. Þess vegna virðum við minningu hans og þess vegna höldum við henni á lofti. Aðeins til að undirstrika þessa virðingu langar mig að bregða á loft smá sögu. Það var austur í Rangárvallasýslu rétt fyrir 1950. Páll var með mjög vinsæla þætti í ríkisútvarpinu undir heitinu Takið undir. Í þessu þáttum kynnti Páll fólki um dreifðar byggðir landsins - með aðstoð úrvalssönghóps útvarpskórsins - ný lög, erlend og innlend. Á bæ þessum í Rangárvallasýslunni hafði sonurinn tekið við búinu, gamli maðurinn látinn en kona hans enn á lífi og bjó á bænum. Það er komið kvöld og þáttur Páls að byrja eftir kvöldmatinn. Unga konan á bænum var búin að kalla heimilismenn til kvöldverðar en gamla konan kom ekki niður í mat. Hún fór því að leita eftir henni. Ég er alveg að koma! - kallaði hún. Unga konan leit inn til hennar til sjá hvað tefði þá gömlu. Jú, Hún var kominn í sparikjólinn sinn, búinn að breiða hvítan dúk á borðið fyrir framan útvarpið og stilla upp þremur kertum tilbúin að kveikja á. Hvað stendur nú til? varð þeirri ungu að orði. Jú, sagði sú gamla - Þetta er til heiðurs honum Páli. Þessi litla saga segir allt um það hverrar virðingar Páll Ísólfsson naut í íslensku samfélagi. Tónminjasetur Íslands hefur það markmið að segja sögu þessa fólks, þessara félaga, þessa umhverfis, í texta, hljóðritunum og myndum. Ég bjó sjálfur í Danmörku í tæp 9 ár. Á þeim tíma fór mikil umræða fram um sameiningu þeirra landa er mynda Evrópu. Nokkur lönd stukku á sleðann í upphafi og lögðu út í rennslið niður eða uppávið eftir því sem málin þróuðust. En eitt af því sem upp kom við þessa sameiningu var að fólk hóf að spyrja sig þeirrar spurningar sem við hér á landi erum alltaf að spyrja - Hvurra manna ert þú? - Eða eins og spurt var hér á einum bæ í Flóanum er tveir menn komu í hlaðið - Eruð þið báðir frá ukkur? Það sem ég á hér við er það að svo margar þjóðir og þjóðabrot með svo mismundandi menningaráherslur voru settar í sama umslagið við sameiningu Evrópu að fór fólk að gera sér grein fyrir uppruna sínum, menningu sinni og sérkennum. Það má vel vera að við í framtíðinni hoppum í þetta umslag og lendum í sameiginlegum potti með kostum og göllum þess. Ein ástæða þess sem við m.a. viljum stofna hér á þessum stað Tónminjasetur Íslands er að geta svarað í fyrsta lagi afkomendum okkar spurningunni um hvaðan tónmenningin okkar er upprisin og um leið hinum stóra heimi - hvers vegna syngja Hreppamenn svo vel í réttunum - Hvaðan komu Páll Ísólfsson, Pálmar Eyjólfsson, Sigurður í Birtingarholti og Björk? Hvaðan kom plötuspilarinn úr skipsstrandinu við Vík upp úr aldamótunum 1900? Hverjir voru Þórarinn Jónsson úr Mjóafirði og Ingi T. á Austurlandi? Þróun tónlistarlífsins á Langanesi, Norðurlandi - á Akureyrir, Vestfjörðum, Vesturlandinu og á suðvesturhorninu. Hvernig var þróun dægurtónlistar á Íslandi - Og kannski líka - tónmenning íslendinga í Vesturheimi - Kunni Eyvindur útilegmaður að rappa? Þessa sögu viljum við segja með sýningu, með kennslustundum, með námskeiðum, með greinaskrifum, með sértækum sýningum um einstaklinga, hópa, héruð og jafnvel um einstaka viðburði. Hér viljum við hvetja til listrænnar sköpunar með aðstöðu fyrir tónskáld og fræðimenn. Hér viljum við vera samnefnari upplýsinga um íslenska tónmenningu í fortíð og nútíð. Við viljum samstarf við einstaklinga, sveitarfélög og söfn á landinu öllu til að geta veitt upplýsingar um þá gögn er þau varðveita heima í héraði, jafnvel fá að varðveita afrit af bréfum og myndir af munum er þar er að finna. Við viljum mikið og jákvætt samstarf við Ríkisútvarpið um hljóðritanir af íslenskri tónlist, fá að varðveita afrit til hlustunar af íslenskum verkum - við viljum stefna að því að skrá í Sarp, sameiginlegan gagnabanka allra safna á landinu, upplýsingar um muni og gögn er tengjast íslenskri tónlist - Við viljum taka Netið í okkar þjónustu og svara um leið kröfum samtímans og vaxandi kynslóðar. Ég hef orðið var við það hjá Ríkisútvarpinu að ef fólk finnur ekki hljóðritun á geisladiski þá telur það að hún sé ekki til. Sama mátti heyra Eirík Guðmundsson hjá Þjóðskjalasafni segja í útvarpsviðtali í gær þegar hann talaði um að Þjóðskjalasafn legði aukna áherslu á miðlun upplýsinga á Netinu. Sumt ungt fólk í dag telur að ef það sem það leitar að er ekki á Netinu þá er það ekki til. Við þurfum kannski ekki að moka öllu á Netið, en þar má birta upplýsingar um hvar hlutinn er að finna. Tannfé þessara upplýsinga er að finna í Pálsstofu sem opnuð var í dag með höfðinglegu framlagi ættingja Páls Ísólfssonar til Tónminjaseturs Íslands. Opinber stuðningur þessara hugmynda birtist í Þingsályktunartillögunni sem til er á Alþingi Íslendinga lögð fram undir forystu Ísólfs Gylfa Pálmasonar og Ólafar Arnar Haraldsson auk þingmannanna Margrétar Frímannsdóttur, Drífu Hjartardóttur, Magnús Stefánsson, Katrín Fjeldsted, og án efa allra annarra þingmanna bæði þeirra sem eiga eftir að bera uppi heiður og hróður Suðurkjördæmis í komandi kosningum og hinna er valdir verða til forystu fyrir önnur kjördæmi landsins. Við munum kjósa þetta góða fólk til forystu fyrir okkur í vor, ekki síst fyrir væntanlegt framlag þeirra til Tónminjasetur Íslands á Alþingi. Nú ef okkur líst ekki á einstaka frambjóðendur þá getum við altént sagt við þá eins og einn alþýðumaður hér á Stokkseyri svaraði athafnamanni hér sem bauð sig fram til sveitastjórnar en komst ekki inn. Þú kaust mig ekki, sagði framámaðurinn. Þá svarði hinn: Nei ég kaus þig ekki, en styð þig samt! Fyrir hönd okkar strandvarðanna - þeirra er standa í forsvari menningarmála héraðsins og komandi áhugamanna um allt land um tónmenningu þjóðarinnar vil ég þakka heimamaönnum hér á Stokkseyri fyrir ómetanlega hugsun og hughrif sem þeir hafa veitt okkur í dag með framlagi sínu til þessarar stundar. Takk fyrir. |
|