Pistillinn

25. nóv. 2002
Tónlistarhús

Jón Hrólfur Sigurjónsson
<hrolfur@musik.is>

Föstudaginn 22. nóvember stóðu FÍH (Félag íslenskra hljómlistarmanna) og FÍT (Félag íslenskra tónlistarmanna) fyrir ákaflega vel heppnuðu, og vel sóttu, málþingi í sal FÍH við Rauðagerði um Tónlistarhús í Reykjavík. Þarna höfðu framsögu ýmsir máttarstólpar tónlistargeirans auk Þórunnar Sigurðardóttur, stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík, sem var sérstakur gestur.

Íþróttamannvirki
Framsögumenn fluttu mál sitt vel og kom eitt og annað merkilegt þar fram sem og í umræðum sem fylgdu. Björn Th. Árnason, formaður FÍH, vakti athygli á hve vel ríki og sveitarfélög standa að mannvirkjagerð fyrir íþróttastarfsemi í landinu, sem auðvitað er fagnaðarefni. Að mínu viti verðskuldar þessi stórkostlegi árangur íþróttahreyfingarinnar sérstaka skoðun samtaka tónlistarinnar. Á örfáum árum hafa til að mynda risið fjórir yfirbyggðir knattspyrnuvellir auk fjölmargra annarra veglegra mannvirkja víða um land. Björn benti á Mannvirkjavef isisport.is þar sem finna má ítarlegar skýrslur um íþróttamannvirki af öllum mögulegum gerðum auk tölfræðilegra upplýsinga, svo sem um fjölda mannvirkja, gerð þeirra og dreifingu um landið.

Ef leitað er til samanburðar að mannvirkjum sérbyggðum fyrir tónlistina er hægt að benda á Hljómskálann við tjörnina, sem Lúðrasveit Reykjavíkur lét byggja 1922, Tónlistarhús Kópavogs, sem tekið var í notkun snemma árs 1999 og svo Ými, nýlegt hús Karlakórs Reykjavíkur, punktur! Bygging Tónlistarhúss hefur samt verið í umræðunni a.m.k. frá 1940 þegar Páll Ísólfsson mælti fyrir hugmyndinni í útvarpserindi. Af hverju er svona erfitt að byggja Tónlistarshús?

Annað áhugavert atriði sem fram kom er að ekki er bara mikið og vel byggt fyrir íþróttirnar heldur er þar oftar en ekki byggt af stórhug. Björn nefndi hér sem dæmi að Laugardalsvöllur rúmar nú 14000 gesti. Gestafjöldi á fótboltaleik á vellinum ku þó aðeins vera um 4.500 að meðaltali – stórleikur Íslands og Frakklands, sem fram fór fyrir nokkrum árum, dró að um 8.000 gesti. Annað dæmi um hve stórt er hugsað er stólalyftan „Fjarkinn“ sem vígð var í Hlíðarfjalli í janúar 2002. Mannvirkið nýtist sennilega í um 3 mánuði yfir árið, afkastagetan er hins vegar sögð 2000 manns á klukkutíma.

Bíó eða íþróttahús?
En aftur að Tónlistarhúsinu. Þó enginn ætli stóra sal hússins að rúma alstærstu tónlistarviðburði þarf hann að geta rúmað stórtónleika. Í þessu sambandi sagði Þórunn Sigurðardóttir frá því að aðstandendum Listahátíðar væri ekki skemmt þegar umboðsaðilar þekktra erlendra listamanna spyrðu hvort halda ætti tónleikana í bíóinu (Háskólabíó), eða íþróttahúsinu (Laugardalshöll). Þórunn fræddi viðstadda líka á því að það kostaði 5 - 6 miljónir að undirbúa Laugardalshöll, t.d. fyrir popp-tónleika, og lágmark 10 miljónir kostaði að færa þar upp stórviðburði á borð við Baldur eftir Jón Leifs. Hér er ekki verið að tala um húsaleigu, heldur þann kostnað sem felst í að byggja tónleikaaðstöðu inn í Höllina hverju sinni. Þrátt fyrir þennan tilkostnað fyrir hvern viðburð er Laugardalshöll ómögulegt tónleikahús, eins og allir vita.

Hús fyrir tónlistina
Framsögumenn voru nokkuð einhuga á þeirri skoðun að Tónlistarhús ætti að byggja fyrir tónlistina fyrst og fremst og þá væri hljómburðurinn atriði númer 1, 2 og 3, eins og Joseph Ognibene, hornleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, komst að orði. Hér höfðu menn áhyggjur af þeirri hugmynd sem nú er ofaná; byggja ætti tónlistarhús í tengslum við hótel og ráðstefnumiðstöð. Þórunn Sigurðardóttir og Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi töldu þann tíma liðinn að hægt væri að bakka frá þessari hugmynd. Tónlistar-ráðstefnu-hótel hugmyndin hefði komið verulegum skrið á málið. Nú væri viturlegra að ganga alla leið, efna t.d. til samvinnu við ferðaþjónustuna eða þá sem um ráðstefnuhald munu véla og ganga þannig frá málum að tónlistin hefði ákveðin forgang. Vigdís Esradóttir, forstöðumaður Tónlistarhúss Kópavogs, benti á að nýting Salarins væri í dag 80% tónleikar, 20% ráðstefnur. Ráðstefnur gæfu tekjur sem skiptu rekstur hússins verulegu máli.

Þessi ábending er sennilega rétt. Hætt er við að málið dragist enn á langinn ef tónlistarmenn settu sig nú upp á móti þeim plönum sem fyrir liggja. Tónlistarmenn ættu fremur að fylkja sér um að hagur tónlistarinnar verði tryggður sem allra best.

Annað atriði sem Þórunn vakti máls á var nauðsyn vandaðrar undirbúningsvinnu hvað varðaði hönnun og rekstur Tónlistarhúss. Allt of mörg slys væri hægt að benda á þar sem farið hefði verið fram meira af kappi en forsjá, eða eins og hún orðaði það, þar sem allt of margir með mikinn vilja en litla þekkingu hafa ráðið ferð.

Egill Ólafsson taldi ákveðna hættu því samfara að einkaaðili ræki húsið. Tónlistin gæti þá þurft að víkja fyrir hreinum hagnaðarsjónarmið – yrði of oft látin víkja fyrir gróðavænlegum ráðstefnum eða öðrum uppákomum: Benny Hinn trúarsamkomum, sirkussýningum eða hver veit hvað. Til að koma í veg fyrir þetta ætti nefnd tónlistarmanna að móta stefnu og koma að skipulagi rekstrar. Í Tónlistarhúsi yrði tónlistin að sitja í öndvegi.

Ýmislegt fleira bar á góma, t.d. komu enn upp vangaveltur, jafnvel ágreiningur, um staðsetningu væntanlegs Tónlistarhúss – gamall draugur sem ég hélt að löngu væri búið að kveða niður. Einnig undirstrikuðu óperuáhugamenn nauðsyn þess að húsnæðisvanda Óperunnar þyrfti að leysa.

Ályktanir
Undir lok fundarins voru bornar upp ályktanir sem undirstrika sumt af því sem mest var rætt. Eftir nokkrar umræður og smávægilegar breytingar á orðalagi, var eftirfarandi texti borinn upp lið fyrir lið og samþykktur einróma (texti tekinn úr Morgunblaðinu, 24. nóvember 2002):

  1. Tónlistarfólk fylkir sér að baki þeirrar réttmætu kröfu að Tónlistarhús verði byggt til að hýsa tónlistina fyrst og fremst. Nauðsynlegt er að Tónlistarhúsið njóti listrænnar stjórnunar með fulltrúum fagfólks, þannig að allir tónlistarhópar og einstaklingar eigi aðgang að húsinu.
  2. Tónlistarfólk lýsir þeim eindregna vilja að ríki og borg standi að og tryggi rekstur Tónlistarhússins, eins og þessir aðilar standa að rekstri annarra opinberra menningarstofnana, svo sem Þjóðarbókhlöðu, Þjóðleikhúss, listasafna, leikhúss og Laugardalshallar.
  3. Tónlistarfólk skorar á stjórnvöld að endurskoða áætlaðan sætafjölda, með það í huga að sæti í aðalsal verði 1.500 – 1.700 framan við svið. Það mun auka notagildi hússins til muna og mæta enn frekar þörfum tónleikahaldara eins og Listahátíðar og fleiri aðila.
  4. Tónlistarfólk leggur til að framtíðarhúsnæði Íslensku óperunnar verði í minni tónlistarsal Tónlistarhússins.
Tónlistarmenn tali einni röddu
Að lokum er vert að koma að einu atriði sem nokkrir frummælenda nefndu beint og aðrir töluðu utaní: Nauðsyn samstöðu tónlistarmanna, að þeir kæmu fram sem ein rödd – einhver nefndi jafnvel þá hugmynd að stofna nefnd, félag eða eitthvað álíka.

Þeir sem til þekkja vita að tónlistina skortir ekki félög og samtök. Hins vegar vantar að komist verði til botns í hvað því veldur að heildarsamtök á borð við Tónlistarráð Íslands eru ekki öflugri og virkari en raun ber vitni. Tónlistarráð var stofnað fyrir 10 árum uppúr Tónlistarbandalagi Íslands. Það bandalag var stofanð sem sameiginlegur vettvangur tónlistar í landinu og starfaði í um 10 ár. Undirritaður hefur ítrekað spurst fyrir um hvers vegna Tónlistarráð virkar ekki eins og til var stofnað. Viðhlítandi svör hafa ekki fengist. Ef listi aðildarfélaga Tónlistarráðs er skoðaður (aðgengilegur á vef ráðsins) getur ástæðan varla verið sú að helstu samtök tónlistarinnar séu þar ekki aðilar. Varla er ástæðan heldur sú að skortur sé á brýnum hagsmunamálum tónlistarinnar í landinu.

Hér er formlega lýst eftir hugmyndum sem leitt gætu til þess að Tónlistarráð, sem heildarsamtök, virki í samræmi við þau lög sem það hefur sett sér (aðgengileg á vef ráðsins). Næg eru verkefnin, eða hvað? Til að mynda er ég þeirrar skoðunar að upplýsingarskortur standi tónlistinni fyrir þrifum. Okkur vantar tölfræði tónlistarinnar. Reglulega söfnun og útvinnslu upplýsinga er varðar tónlistarlífið: fjölda tónleika, tónleikagesta, dreifingu eftir landshlutum, tölfræðilegar upplýsingar um tónlistarfræðsluna, sölustarfsemi og markaðsmál ýmiskonar, og svona mætti áfram telja. Aðgengilegar og ýtarlegar upplýsingar af þessu tagi myndu auðvelda alla baráttu til mikilla muna. Heildarsamtök eins og Tónlistarráð ættu svo að sjálfsögðu að beita sér af alefli fyrir Tónlistarhúsinu, stuðningi við tónlistarflytjendur, hvernig hlú má að tónlistarfræðslu í landinu, styðja við útrás íslenskra tónlistarmanna, og styrkja kynningarstarf og upplýsingamiðlun sem mjög er ábótavant. Svo væri verðugt verkefni að leggjast yfir og kryfja velgengni íþróttahreyfingarinnar. E.t.v. gæti tónlistarlífið í landinu eitthvað af slíkri skoðun lært? Hér er verk að vinna.


Jón Hrólfur Sigurjónsson

Á Vefnum frá nóv. 2002©  2002  Músa