Sinfónían vill vera þjóðarhljómsveit Þorkell Helgason, formaður stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands <thh@os.is>
Undanfarið hefur verkefnaval og stefna Sinfóníuhljómsveitar Íslands verið til umræðu á síðum Morgunblaðsins sbr. skrif Bergþóru Jónsdóttur 10. september, grein Jónasar Sen í Lesbókinni 11. og viðtöl við ýmsa 15. s.m. og síðast en ekki síst Reykjavíkurbréf sem birtist hinn 19. Það er vel að slík umræða fari fram; hún sýnir að mörgum er annt um hljómsveitina og stendur ekki á sama um hvernig hún sinnir hlutverki sínu.
Efling Sinfóníuhljómsveitarinnar Allir sem fylgst hafa með starfi Sinfóníuhljómsveitarinnar hljóta að vera sammála um að hún hefur eflst í hvívetna á undanförnum einum til tveimur áratugum, þannig að nú er hægt að bera hana saman við rótgrónar sinfóníuhljómsveitir í grannlöndum okkar. Í raun er það kraftaverki líkast að unnt sé að halda uppi slíku listrænu starfi í jafn fámennu samfélagi og því íslenska. Árangurinn er fyrst og fremst að þakka hljóðfæraleikurum og hljómsveitarstjórum sveitarinnar en jafnframt því að þeir sem að rekstri hennar standa, ríkið, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið og Seltjarnarnesbær, hafa búið henni mun betri starfsskilyrði en áður var. Þannig var unnt að fjölga hljóðfæraleikurum, bæta kjör þeirra og nú síðast var þungum bagga lífeyrisskuldbindinga létt af hljómsveitinni. Hér hefur hljómsveitin notið dugnaðar framkvæmdastjóra síns við að afla stuðnings meðal ráðamanna. Það er þó sífelld ögrun að reka menningarstofnun eins og sinfóníuhljómsveit og sjá til þess að reksturinn standi í járnum. Ekki má mikið út af bera svo að í óefni stefni. Þeir sem gagnrýna listræna stefnu hljómsveitarinnar verða að hafa í huga að fjármunir setja nýmælum skorður.
Til hvers rekum við Sinfóníuhljómsveit? Þessari spurningu er svarað á hnitmiðaðan hátt í lögum um hljómsveitina: “Starf Sinfóníuhljómsveitarinnar [skal miða] að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á æðri tónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar ...” Hér er notað orð sem tíðrætt er um í fyrrgreindum skrifum, orðið “menning”. Fóstra Steins Steinars sagði það vera rímorð sem þeir fyrir sunnan noti til að ríma á móti þrenningunni. Heimspekingurinn Páll Skúlason segir menningu vera allt sem mannar mennina, en öndverðan, ómenning, það sem skemmir þá. Í meginatriðum er auðvelt að skilgreina hvað er menningarlegt efni fyrir sinfóníuhljómsveit m.a. vegna þess að það er ekki á færi viðvaninga að semja tónlist fyrir slíkan hóp. Og þegar til lengdar lætur er samhljómur um það hvað sé bitastætt í þeirri tónlist.
Í ljósi þessa liggur beinast við að Sinfóníuhljómsveitin einbeiti sér að flutningi þeirra sinfónísku verka sem almennt hafa hlotið viðurkenningu sem meistaraverk. Þetta sjónarmið kann að flokkast undir það “að [Sinfóníuhljómsveitin] legg[i] æ meira upp úr því að hafa sígild verk sem flestir þekkja á efnisskránni ...” eins og Jónas Sen fullyrðir. Slík verk ber þó að flytja æ ofan í æ, þó ekki væri nema vegna þess að nýjar kynslóðir vaxa úr grasi. Þannig er það á ábyrgð þessarar einu atvinnuhljómsveitar landsins að ekkert ungmenni fari frá bernsku til fulls þroska án þess að eiga þess kost að heyra í lifandi flutningi öndvegistónverk vestrænnar menningar eins og t.d. hetjusinfóníu Beethovens.
Þáttur íslenskrar tónlistar Í lögum um hljómsveitina segir: “Sérstaka áherslu ber að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar, utan lands sem innan, ef tilefni gefast.” Í fyrrgreindum skrifum er staðhæft að hlutur íslenskrar tónlistar í tónleikaskrá hljómsveitarinnar hafi farið rýrnandi. “Færri og færri íslensk hljómsveitarverk eru að verða til,” segir Kjartan Ólafsson, formaður Tónskáldafélags Íslands, og bætir við “[að] þátttaka Sinfóníuhljómsveitar Íslands [hafi] mjög afgerandi áhrif á tilurð slíkra verka.” En kannski er minna um að stór hljómsveitarverk séu flutt vegna þess að færri séu skrifuð. Gagnrýna má að Sinfóníuhljómsveitin hefur ekki oft haft frumkvæði að samningu verka, heldur frekar látið það ráðast hvað íslensk tónskáld hafa haft fram að færa hverju sinni. Því hefur verið óskað eftir fjárveitingu til þess að geta ráðið tónskáld tímabundið og semja fyrir hljómsveitina, eins og heimilt er lögum samkvæmt. Vonir standa nú til bragarbótar í þeim efnum.
Stjórn hljómsveitarinnar hefur látið gera yfirlit um hlut íslenskra verka og kemur þá í ljós að flutt hafa verið 8-9 íslensk verk á hverjum vetri á almennum tónleikum sveitarinnar en á komandi vetri verða þau ívið fleiri eða 11. Á hinn bóginn er meiri breytileiki í tölu þeirra innlendu tónverka sem tekin eru fyrir með öðrum hætti; t.d. í sérstökum upptökum fyrir útvarp. Þannig hefur heildartala íslenskra verka verið allt frá 14 að 43 á ári hverju seinustu sex starfsárin. Af þeim hafa 7 til 16 verk verið frumflutt árlega. Í vetur hefur það æxlast svo að tala frumfluttra verka verður með lægsta móti. Í því felst ekki stefnubreyting heldur ráða þar tilviljanir. M.a. berast hljómsveitinni mismargar ábendingar um verk, innlend sem erlend. Þá geta upphafleg áform um skipan tónleika raskast á síðustu stundu vegna þess að skyndilega gefist tækifæri til að fá eftirsótta einleikara eða hljómsveitarstjóra.
Það er eindreginn vilji núverandi stjórnar hljómsveitarinnar að íslensk tónlist sé ekki fyrir borð borin. Á því geta þó stundum verið vandkvæði: Þannig var hér aðalhljómsveitarstjóri sem veigraði sér við að stjórna íslenskri tónlist og m.a. af þeim sökum var samningur við hann ekki framlengdur. Þeim stjórnendum sem til álita komu sem arftakar hans var gerð glögg grein fyrir skyldum hljómsveitarinnar gagnvart íslensku tónlistarlífi og íslenskri tónlist. Sá sem var ráðinn, Rumon Gamba, hefur með glöðu geði undirgengist þessar skyldur. Stjórn hljómsveitarinnar hefur og mun eiga frekari viðræður við Gamba um þetta hlutverk.
Það vill brenna við að áheyrendur láti á sér standa þegar flutt er íslensk tónlist. Auðvitað má aðsókn, eða skortur á henni, ekki verða til þess að skyldurnar við íslenska tónlist séu vanræktar, en hér verður þó að fara hæfilegan meðalveg. Margt hefur verið reynt í þessum efnum. Lengi vel var innlendum verkum komið fyrir t.d. í upphafi almennra tónleika. Nú í nokkur ár hefur þess verið freistað að setja íslenska tónlist í samhengi við samtíma hennar í tónlist heimsins. Þannig var sérstök tónleikaröð, bláa röðin svokallaða, þar sem einkum voru flutt verk tuttugustu aldar, innlend sem erlend. Að dómi flestra tókst hér listrænt vel til og margir af tónleikum í þessari röð voru meðal þeirra bestu sem hljómsveitin hélt, en aðsókn reyndist dræm. Seldir miðar voru eitt til tvö hundruð í þúsund sæta sal. Nú í vetur verður aftur horfið að fyrra fyrirkomulagi. En nýjar leiðir hafa og verið ræddar og þær hljóta að finnast, enda eru fordæmi þess í tónlistarhaldi hérlendis að það takist að laða áheyrendur ekki síður að nýrri tónlist en þeirri sem staðist hefur tímans tönn. Þannig mátti glögglega heyra að áheyrendur á tónleikum hljómsveitarinnar 16. september s.l. voru heillaðir af þeim tveimur samtímaverkum sem þar voru flutt, verkinu Grímu eftir Jón Nordal og fiðlukonsert Johns Adams í snilldarflutningi Leilu Josefowicz.
Að síðustu er að því að hyggja að tónlistarlífið íslenska er ekki aðeins fólgið í starfi Sinfóníuhljómsveitarinnar. Undanfarna áratugi og einkum seinustu ár hafa sprottið upp fjölmargir tónlistarhópar sem hafa margir hverjir lagt mikla rækt við íslenska tónlist. Nefna má Caput-hópinn, Kammersveit Reykjavíkur eða Sumartónleika í Skálholtskirkju, en þar hafa t.d. verið frumflutt um 150 íslensk tónverk á 30 ára ferli. Vera má að íslenskum tónskáldum henti betur að semja fyrir kammerhópa en stóra hljómsveit. Enda þótt Sinfóníuhljómsveit Íslands geti ekki þakkað sér stofnun og starf þessara hópa er það engu að síður svo að þetta starf væri gróskuminna ef hennar nyti ekki við, einfaldlega vegna þess að hún er hinn fasti starfsvettvangur flestra þeirra hljóðfæraleikara sem veita þessum hópum lið.
Skortir djörfung? Gagnrýnt er í margumræddum skrifum og viðtölum að það skorti djörfung og metnað í verkefnavali. Er það skortur á djörfung að flytja fyrrgreindan fiðlukonsert eða er metnaðarleysi að flytja allar hinar viðamiklu sinfóníur eins helsta tónskálds tuttugustu aldar, Dimitri Sjostakóvitsj? Nú eða að tefla saman Jóni Leifs og finnskri tónlist á tónleikum þar sem hinn heimsfrægi hljómsveitarstjóri Osmo Vänskä kemur á ný til að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands. Önnur ögrun andstæðna verður þegar þeir mætast Haydn og Ligeti. Það er metnaður í því að frumflytja á Íslandi óperuna Fordæmingu Fausts eftir Berlioz og djarft að frumflytja hér nýjan víólukonsert eftir Benjamin Júsúpov með sjálfum Maxim Vengerov. Þá eru á vetrardagskránni stórvirki eins og 8. sinfónía Bruckners og 9. sinfónía Mahlers. Þá er það djarft að taka flutnings tónverk með heitinu Kárahnjúkar, a.m.k. finnst stjórnarformanninum það! Þetta eru dæmi af handahófi og ekki tæmandi.
En stærsta “djörfungin” felst kannski í því að ráða fyrir nokkrum misserum ungan (þá 29 ára) og efnilegan en kannski ekki heimsþekktan aðalhljómsveitarstjóra, Rumon Gamba, og fela honum um leið listræna stjórn hjómsveitarinnar, sem hefur ekki alltaf fylgt í kaupbæti. Það er nú almannarómur að hér hafi vel til tekist, enda ákvað stjórn hljómsveitarinnar strax eftir fyrsta fulla starfsár Gamba að framlengja ráðningarsamning hans allt til ársins 2009.
“Undirleikur með popphljómsveitum” Einn af þeim sem gagnrýna verkefnavalið telur að Sinfóníuhljómsveitin eigi ekki að vera í undirleikshlutverki fyrir popphljómsveitir. Hugum að þessu nánar.
Það er hvarvetna í hinum vestræna heimi áhyggjuefni þeirra sem vilja veg klassískrar tónlistar sem mestan að þekking á slíkri tónlist virðist fara þverrandi. Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur bjuggu við það að hér var ein útvarpsstöð en nutu þar uppeldisstarfs Páls Ísólfssonar sem lét “sinfóníugargið”, sem sumir kölluðu svo, yfir alla ganga. Þótt ekki hafi allir hlustað af áfergju seytlaðist tónlistin inn í eyrun og skilaði sér a.m.k. í vitneskju um að fleira er til af tónlist en tímabundin afþreying. Nú er öldin önnur. Upp eru vaxnar kynslóðir sem aldrei hafa heyrt menúettinn eftir Boccerini sem iðulega var leikinn í morgunútvarpinu á árum áður. Þeim sem reka sinfóníuhljómsveitir og vilja ná til nýrra eða ungra áheyrenda er því vandi á höndum. M.a. hafa margir gripið til þess ráðs að brúa bilið og ná til nýrra áheyrenda að nokkru á þeirra eigin forsendum. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur reynt þetta með ýmsum hætti. Þannig hafa um langt árabil verið haldnir vinsælir Vínartónleikar. Um hríð var lögð nokkur áhersla á söngleikjatónlist, en hún verður reyndar fyrirferðarlítil í vetur. Efnt hefur verið til samstarfs við Kvikmyndasafn Íslands um flutning gamalla kvikmynda við lifandi tónlist. Síðasta tilraunin til þess að ná til breiðara hóps felst í því að bjóða völdum popphljómsveitum að koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni. Þetta er tilraun og sýnist sitt hverjum hvernig til hefur tekist og raunar er þessi stefna umdeild meðal ráðamanna hljómsveitarinnar.
Spyrja má um tilganginn með þessari “brúun”. Ég hygg að flestir þeir sem um málið véla telji tilganginn ekki felast í “undirleik með popphljómsveitum” heldur ekki síst að gefa þeim sem sækja í slíka tónlist tækifæri til að kynnast því sem stór sinfóníuhljómsveit hefur upp á að bjóða, enda hafa ætíð verið sinfónísk verk í og með á tónleikum þessum. Í þessu felst ekki e.k. markaðshyggja eins og sumir gagnrýnendurnir telja, enda hafa þessir tónleikar ekki nema rétt staðið undir sér. Þessi viðleitni til að ná til fjöldans er ekki fyrirferðarmikil í starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar og kapp hefur verið lagt á að hún íþyngi ekki hefðbundnu tónleikahaldi fjárhagslega.
Hvernig eru verk valin? Það er gagnlegt þegar deilt er á starf Sinfóníuhljómsveitarinnar að átta sig á því hvernig verkefnavalið fer fram. Í grófum dráttum koma fjórir aðilar að málum. Fyrst er það stjórn hljómsveitarinnar sem markar heildarstefnu; svo sem um fjölda tónleika og samsetningu og gerð tónleikaraða. Síðan tekur verkefnavalsnefnd við, en hún starfar lögum samkvæmt. Í henni sitja fulltrúar þeirra sem kosta hljómsveitina en líka fulltrúar Tónskáldafélags Íslands og hljóðfæraleikara og konsertmeistarar sveitarinnar og síðast en ekki síst aðalhljómsveitarstjórinn, hinn listræni stjórnandi. Fjórði aðilinn sem að málinu kemur er skrifstofa hljómsveitarinnar enda þurfa starfsmenn þar að útfæra tónleikaskrárnar, gera samninga og gæta að fjárhagsrammanum. En stjórnin ber lokaábyrgð á gerð tónleikaskránna.
Stjórn hljómsveitarinnar reiðir sig mjög á verkefnavalsnefndina ekki síst þar sem í henni sitja ýmsir “hagsmunaaðilar”, m.a. fyrir Tónskáldafélagið. Ef fram koma á þeim vettvangi ábendingar eða kvartanir um að einhverju sé ábótavant eða áherslur rangar tekur stjórnin að sjálfsögðu á því. Það var á hinn bóginn einkennilegt fyrir stjórnina að lesa slík skilaboð frá fulltrúum í verkefnavalsnefnd í Morgunblaðinu hafandi ekki fengið þau fyrr eftir innanbúðarleiðum. Greinilega þarf að bæta samskiptin!
Stefnumótun Stjórn og starfsfólk Sinfóníuhljómsveitarinnar hefur undanfarin misseri unnið að stefnumótun fyrir hljómsveitina en árangurinn má finna á vef sveitarinnar (www.sinfonia.is). Þar segir í inngangi um listræna stefnu sveitarinnar: “Markmiðið er að Sinfóníuhljómsveit Íslands eflist að listfengi og að hún standist samanburð við erlendar úrvalshljómsveitir um leið og hún haldi séreinkennum sínum sem íslensk þjóðarhljómsveit.”
Það mikla traust sem stjórnin setur á núverandi aðalhljómsveitarstjóra endurspeglast í eftirfarandi ákvæði í þessari stefnumótun: “Treyst verði í ríkari mæli á forystu listræns stjórnanda hljómsveitarinnar. Stjórnandanum verði eftir föngum skapað svigrúm til að ráða ferðinni jafnt í verkefnavali sem og varðandi kröfur til hljómsveitarinnar.” Og öndvert við það sem mætti halda af fyrrgreindri gagnrýni stendur ennfremur í þessari stefnumótun: “Áræðni á að ríkja í verkefnavali og flytja skal jöfnum höndum höfuðverk tónbókmenntanna sem og minna þekkt en áhugaverð verk svo og samtímaverk innlend og erlend.”
Þjóðarhljómsveitin Í skrifunum í Morgunblaðinu kemur réttilega fram að Sinfóníuhljómsveitin er máttarstólpinn í íslensku tónlistarlífi. Hún er nánast eini starfsvettvangur þeirra sem helga sig tónlistariðkun og hafa af því lifibrauð. Hljómsveitin hefur líka lagalegum og menningarlegum skyldum að gegna við íslenska tónsköpun. Sama á við um þær skyldur hennar að þjóna landinu öllu en ekki aðeins höfuðborgarsvæðinu. Þeim sem marka stefnu Sinfóníuhljómsveitarinnar er það fullljóst að þetta – og fleira – þarf til að hljómsveitin verði áfram þungamiðjan í íslensku tónlistarlífi og um leið þjóðarhljómsveit. Fyrrgreind gagnrýni verður vissulega gaumgæfð, enda þótt hún sé ekki studd sterkum rökum og – eins og gerist í íslenskri þjóðmálaumræðu – byggð á fullyrðingum sem hver hefur eftir öðrum. En ekki er að efa að þeir sem gagnrýna vilja hljómsveitinni vel og fyrir það ber að þakka.
Þess er vænst að langþráð tónlistarhús rísi innan fárra ára. Þar verður heimkynni Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í því húsi munu verk Jóns Leifs hljóma ekki síður en Beethovens!
Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 25. sept. 2004.
|