Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 25. apríl 2007
Tónlistarnám á Íslandi árið 2007
Framsöguerindi flutt í Öskju, Háskóla Íslands 24. apríl 2007. Samfélagið, félag diplóma-, meistara- og doktorsnema félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, stóð fyrir hádegisfundi undir yfirskriftinni: Tónlistarnám aðeins fyrir útvalda?

Sigurður Flosason
<sivi at simnt.is>

Sigurður Flosason Góðir fundarmenn,

Formleg tónlistarkennsla er ekki gömul grein á Íslandi. Það er varla nema tæpur mannsaldur síðan Tónlsitarskólinn í Reykavík var stofnaður árið 1930. Enn styttra er síðan fyrrverandi menntamálaráðherra Dr. Gylfi Þ. Gíslason, framsýnn maður jafnaðar, menningar og mennta, gekk fram fyrir skjöldu og mælti fyrir lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Það var árið 1963 og áhrifin létu ekki á sér standa. Tónlistarskólar spruttu upp til sjávar og sveita og eru nú um 80 talsins. Í dag eru fá pláss svo óbúsældarleg og aum að þar sé ekki tónlistarskóli.

Hinir dugmiklu og nýjungagjörnu Íslendinar tóku á málefnum tónlistarmenntunar og boðskap tónlistarskólanna af sama eldmóði og þeir buðu tölvur og farsíma velkomna nokkrum árum síðar; við hentumst inn í nútímann og náðum árangri sem aðrar þjóðir öfunda okkur af. Við byggðum upp tónlistarmenntun og tónlistarskóla sem hafa skilað frábærum árangri. Er það svo ekki dæmigert fyrir okkar þjóð að einmitt á þessum punkti þurfum við að byrja að skemma fyrir sjálfum okkur?

Árangur tónlistarskólanna lofa allir sem til þekkja og þegar svo ber undir vilja allir Lilju kveðið hafa. Framkoma stjórnmálamanna nokkur undanfarin ár í garð þessar menntastofnana er hinsvegar með öllu óskiljanleg. Háttarlag þeirra er ekki síður slæmt gagnvart nemendum skólanna, aðstandendum þeirra, kennurum og stjórnendum. Vegna margvíslegra aðgerða stjórnvalda sem tíundaðar verða hér á eftir hefur skapast óvissa um ýmsa þætti starfseminnar, óásættanlegt ástand sem getur af sér óöryggi og óánægju allra sem í skólunum starfa.

Reykjavíkurborg

Eitt sveitarfélag hefur leitt þá óheillaþróun sem nú er uppi. Reykjavíkurborg hefur ýtt af stað afdrifaríku ferli sem kallað hefur á misgæfuleg viðbrögð annarra sveitarfélaga. Þannig hefur meinið dreift sér um landið. Stjórnartíð R–listans í Reyjavík breyttist hægt og rólega í samfellda þrautargöngu tónlistarskólanna. Þetta segi ég sem fagmaður og foreldri, án þess að leggja á nokkurn hátt mat á önnur störf þessa ágæta stjórnmálafls. Ég get reyndar opinberað skoðanir mínar enn frekar og sagt að sem stuðningsmaður og kjósandi bæði R-listans og Samfylkingarinnar skammast ég mín fyrir framgöngu vinstri vængsins á þeim sviðum sem mér standa næst.

Ríkjandi öfl í borgarstjórn létu sem sagt sverfa til stáls í deilum, annarsvegar við ríkið um kostnaðarskiptingu vegna nemenda á framhaldsskólaaldri og hinsvegar við önnur sveitarfélög vegna nemenda sem stunda nám í öðrum bæjarfélögum en sínu eigin. Margt má segja um þessi tvö deiluefni og vissulega má sjá sannleiks- og sanngirniskorn í kröfum Reykjavíkurborgar. Sömuleiðis má finna mótrök, eins og þá einföldu staðreynd að með verkaskiptalögunum frá 1989 tóku sveitarfélögin við tónlistarskólum landsins án skilyrða eða athugasemda; öllum aldursflokkum og námsstigum. Þó svo allir deiluaðilar hafi eitthvað til síns máls skiptir mestu að af hálfu Reykjavíkurborgar var gengið fram af hörku og mér liggur við að segja fruntaskap í þessum málum til að knýja fram niðurstöðu. Nú er bæði sjálfsagt og eðlilegt að ríki og borg deili um ýmis mál. Það er aftur á móti algerlega óafsakanlegt að láta deilurnar bitna á saklausum nemendum og lúalegt að láta stjórnendur skólanna súpa seyðið af karpinu. Þessar deilur hafa sem sagt bitnað á þeim sem síst skyldi og sú staðreynd er til háborinnar skammar fyrir þá sem ábyrgðina bera. Það að grípa til aðgerða sem skaða námsmenn og stofnanir áður en deilur ólíkra stjórnvalda hafa verið settar niður er einfaldlega með öllu óverjandi. Ég spyr: Er eðlilegt að skólarnir og nemendur þeirra líði fyrir deilur tveggja félaga sem tæpur helmingur landsmanna tilheyrir báðum; sveitarfélaginu Reykjavík og íslenska ríkinu?

Aldurstakmarkanir

Eitt af afrekum Reykjavíkur var að setja aldursþak á tónlistarskóla borgarinnar og því miður fylgdu mörg önnur sveitarfélg fordæminu. Þó að núverandi meirihluti í Reykjavík hafi afnumið þessu óheillareglu stendur hún eftir óbreytt víða um land. Þannig verða rúmlega tvítugir nemendur víða að hætta niðurgreiddu tónlistarnámi. Þetta er ömurleg misréttisregla sem á ekkert skylt við raunveruleika náms sem er í eðli sínu óaldurstengt. Ljóst er að möguleikar margra hafa skerst og efnisfólk horfið frá námi. Aðrir hafa kosið að greiða sjálfir allan námskostnað við sérhæft nám í fjarlægu sveitarfélagi. Þegar sá kostnaður er orðin 5-600 þúsund á ári má spyrja hvað sé orðið af jafnrétti til náms, hugsjónum íslenskra jafnaðarmanna og stórri sýn þeirra gamla leiðtoga. Ég leyfi mér að minna á boðskap aðalnámskrár tónlistarskóla, en hún var gefin út af menntamálaráðuneytinu árið 2000. Þar er á blaðsíðu 13 talað um að „skólarnir þjóni öllum þeim sem sækjast eftir tónlistarnámi“. Staðreyndin er því miður orðin önnur.

Átthagafjötrar

Annar bautasteinn fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík eru átthagafjötrarnir, þ.e.a.s. sú staðreynd að Reykvískir tónlistarskólar taka nú ekki við nemendum annarra sveitarfélaga nema að staðfesting kostnaðargreiðslu liggi fyrir frá heimasveitarfélagi nemandans. Þetta er auðvitað ekki óeðlileg krafa en því miður gekk Reykjavíkurborg fram með offorsi og hroka - og aftur bitnuðu hörkulegar einhliða aðgerðir fyrst og fremst á nemendum. Þó að þeir sem ábyrgðina bera hafi reynt að víkja sér undan er dagljóst að niðurfelling greiðslna með nemendum annarra sveitarfélaga – oft afburða fólki á viðkvæmu skeiði menntunarinnar – er skýr ákvörðun Reykjavíkurborgar en ekki annarra sveitarfélaga. Þetta er breyting á þeirri stöðu sem áður var og sú breyting er klárlega að frumkvæði Reykjavíkurborgar. Hér hefði þurft að ganga betur frá samningum á milli sveitarfélga og tryggja hag nemenda áður en boltanum var þrumað af stað. Í dag greiða sum sveitarfélög með sínu fólki, önnur ekki. Neitun um stuðning til náms er því í sumum tilfellum stórskaðlegt inngrip í nám lofandi listamanna. Í höfuðborginni eru sérhæfðu skólarnir sem framhaldsnámsnemar sækja í – og þeir eiga í flestum tilfellum ekki í önnur hús að venda. Tónlistarnám fyrir alla?

Framhaldsskólanemar

Málefni framhaldsskólanema hafa verið sérstaklega í brennidepli að undanförnu. Nú liggur fyrir álit umboðsmanns Alþingis þess efnis að framhaldsskólum beri að greiða fyrir tónlistiarnám þegar það er metið sem hluti framhaldsskólanáms. Þetta er að mörgu leyti rökrétt og auðvitað í takt við kröfur Reykjavíkurborgar. Ég er ekki nægilega lögfróður til að vita hverjar afleiðingar álits umboðsmanns verða. Trúlega í þá veru að ríkið taki á endanum að sér framhaldsnám í tónlist. Verði svo vil ég leggja til að það verði ekki eingöngu fyrir þá nemendur sem eru á listnámsbraut eða einhverskonar tónlistarkjörsviði  framhaldsskóla, heldur fyrir alla sem stunda tónlistarnám á þessu stigi, sem sagt líka fyrir framhaldsskólanema sem nýta tónlistarnám sitt til valeininga eða jafnvel alls ekki til eininga. Sömuleiðis fyrir ungmenni sem eru á framhaldsskólaaldri, en ekki í framhaldsskóla - og einnig fyrir eldri og yngri nemendur sem stunda tónlistarnám á því stigi sem í aðalnámskrá tónlistarskóla heitir framhaldsnám. Eina rökrétta skrefið væri sem sagt að binda stuðninginn við framhaldsnámsáfangann eins og hann er skilgreindur í aðalnámskrá, óháð öllu öðru. Ef þetta skref verður stigið  þarf að gera það almennilega og ekki með neinum smásmugulegheitum. Við þurfum að muna að tónlistarnám er ekki nema að litlu leyti bundið við aldur og þurfum að ganga í takt við aðalnámskrá tónlistarskóla.

Fjölgun skóla

Á undanförnum árum hefur tónlistarskólum í Reykjavík fjölgað talsvert. Þetta gæti verið lofsvert ef ekki væri fyrir þá staðreynd að góðverkið hefur einkum verið fjármagnað á kostnað annarra, þ.e. með niðurskurði hjá þeim stofnunum sem fyrir voru. Fyrir vikið hafa orðið til fleiri en minni skólar en áður. Þetta þætti ekki skynsamleg hagfræði í viðskiptalífinu, nú á tímum hagræðingar og sameiningar. Hin augljósa afleiðing er sú að stjórnunarkostnaður hækkar hlutfallslega og stjórnendum í tónlistarskólum borgarinnar fjölgar. Um leið takmarkast möguleikar minnkandi skóla á að halda úti mikilvægu námsframboði, einkum varðandi fjölbreyttar tónfræðagreinar og lifandi samspil. Samdráttur á því sviði hjá leiðandi skólum er því miður klár rýrnun á gæðum tónmenntar þjóðarinnar. Hér hefði verið nær að halda í hina áttina.

Áhuga- og skilningsleysi

Lítil reynsla er komin á störf núverandi borgarstórnarmeirihluta gagnvart tónlistarskólunum, önnur en blessunarlegt og þakkarvert afnám aldursþaksins. Því er best að fullyrða sem minnst og vona það besta. Hvað fyrri meirihluta varðar var eins og þeir sem um þessi mál héldu hefðu lítinn áhuga á málaflokknum og enn minni skilning á eðli og starfsemi skólanna. Við vorum hinsvegar klárlega látin skilja að þeir töldu útgjöld til málaflokksins óheyrilega há. Í því sambandi er rétt að benda á að á undanförnum áratugum hefur Reykjavíkurborg þanist út, en fjölgun plássa í tónlistarskólum hefur því miður ekki verið í réttu hlutfalli við fólksfjölgunina – langt því frá. Þó að Reykjavík telji sig eyða rúmlega 700 milljónum í tónlistarskólarekstur þegar allt er talið, er ljóst að hlutfallslegt framlag borgarinnar í þennan málaflokk er með því lægsta sem gerist á landinu. Einnig er ljóst að fjöldi nemenda í reykvískum tónlistarskólum er hlutfallslega með því lægsta sem gerist á landinu samkvæmt könnun Félags tónlistarskólakennara á starfsemi tónlistarskóla frá 2002-3.

Afrekin tekin saman

Þegar afrek síðustu stjórnenda borgarinnar eru tekin saman í málefnum tónlistarskólanna kemur eftirfarandi upp: fjölgun og minnkun skóla, átthagafjötrar, aldurstakmörk, einhliða ákvarðanir, fyrirvaralaus niðurskurður og aukin miðstýring. Sem sagt; allt neikvætt og ekkert jákvætt. Ekkert var gert til að efla starf skólanna, hvetja starfsmenn eða þakka góðan árangur. Aftur og aftur kom hinsvegar í andlit okkar hin blauta tuska vanþakklætisins og hvað gerðum við nú eiginlega til að verðskulda hana? Í heildina tekið hafa reykvísk menntayfirvöld hagað sér líkast fíl í postulínsbúð þegar kemur að brothættu umhverfi tónlistaruppeldis.

Tónlist og íþróttir

Fjöldi rannsókna sýnir fram á góð áhrif tónlistarnáms til almenns þroska og félagsfærni, enda skortir ekki eftirspurn eftir þessu námi. Þessum góðu áhrifum skilar tónlistarnám ekki síður en íþróttir. Af hverju er þá svo að flestir stjórnmálamenn eru tilbúnir til að tala endalaust fyrir íþróttum, en engir fyrir tónlistarmenntun? Af hverju spretta íþróttahús og sparkvellir upp út um allar koppagrundir? Af hverjur rúlla krónurnar með boltunum og af hverjur eru íþróttir eins og heilög kýr, hafin yfir alla gagnrýni? Góðir fundarmenn, ég hef alls ekkert á móti íþróttum en mikið vildi ég óska þess að örfáir sveitastjórnar- eða alþingmenn hefðu sambærilegan áhuga á tónlistarámi og væru tilbúnir til að tala fyrir okkar málstað.

Orsakatengsl

Ég held reyndar að stjórnmálamenn, eins og aðrir Íslendingar, séu ánægðir með íslenskt tónlistarlíf og jafnvel stoltir af því. Skilningur á orsakatengslum tónlistarskólanna og tónlistarlífsins virðist hinsvegar enn vera af skornum skammti. Það er eins og menn átti sig ekki á því að það er nauðsylegt að hlúa að rót þessa fagra trés. Ef hún er ekki vökvuð visnar tréð. Íslensk tónlistarflóra er fjölbreytt og viðkvæm, rétt eins og fjallagróðurinn okkar. Hún vex hægt og það er í senn auðvelt og óafturkræft að eyðileggja.

Að lokum

Einhverjum kann að finnast að ég hafi hér talað með nokkuð gagnrýnum hætti um fyrrverandi borgarstjónarmeirihluta og er það að sönnu rétt hvað þennan tiltekna málaflokk áhrærir. Svo ég snúi mér nú að hinni hliðinni í íslenskum stjórnmálum langar mig að benda á að undanfarið ár hafa hægri öflin ráðið borginni, verið í ríkisstjórn og stýrt ráðuneyti mennta og menningar. Hefði þetta ekki verið gullið tækifæri fyrir þá til að semja um málefni tónlistarskólanema á framhaldsstigi? Þar sem áður mættust stálinn stinn, frá vinstri í borg og frá hægri hjá ríki, hefur undanfarið bara verið við sjálfan sig að semja, ef svo gróflega má að orði komast. Hvað tefur?

Íslenskir stjórnmálamenn þurfa að taka utan um málefni tónlistarskólanna af metnaði, áhuga og skilningi. Sín á milli þurfa þeir að semja um það sem semja þarf um, án þess að merja fólkið í skólunum á milli sín. Þeim ber að hafa í huga jafnræði til náms, óháð búsetu, aldri og skólastigi – og þeim ber að taka mið af aðalnámskrá tónlistarskóla.

Aðkallandi er að leysa úr málum nemenda í framhaldsnámi. Við þurfum að rífa niður girðingarnar sem búið er að reisa á milli sveitarfélaga og við þurfum að losna við aldursþökin allstaðar á landinu. Síðast en ekki síst þarf að efla skólana og stækka í stað hins gagnstæða.


Lokabón mín til íslenskra stjórnmálamanna er að þeir gefi okkur frið til að vinna okkar störf óáreitt á okkar hljóðláta hátt. Það væri nefnilega svo fínt ef að við sæum um kennsluna en þeir um deilurnar. Er það ekki einmitt fyrir úrlausn svona mála sem við greiðum stjórnmálamönnunum laun?


Höfundur er tónlistarmaður.

Að hluta til byggt á tveimur eldri greinum höfundar sem birtust í Morgunblaðinu 17.2 og 1.3. 2006.


 ©  2007  Músa