Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 17. feb. 2006
Skemmdarverk í íslenskum tónlistarskólum

Sigurður Flosason, tónlistarmaður og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla FÍH

Málefni íslenskra tónlistaraskóla eru komin í þvílíkt öngþveiti að ég fæ ekki lengur orða bundist. Árangur skólanna lofa allir sem til þekkja og þegar svo ber undir vilja allir Lilju kveðið hafa. Framkoma stjórnmálamanna í garð þessar menntastofnana er hinsvegar með öllu óskiljanleg. Reyndar er háttarlag þeirra ekki síður slæmt gagnvart nemendum skólanna, aðstandendum þeirra, kennurum skólanna og stjórnendum. Vegna aðgerða stjórnvalda hefur skapast óvissa um ýmsa þætti starfseminnar, óásættanlegt ástand sem getur af sér óöryggi og óánægju allra sem í skólunum starfa. Og til hvers höfum við þá gengið götuna sem Dr. Gylfi Þ. Gíslson fyrrverandi menntamálaráðherra ruddi árið 1963? Er það til að upplifa þann glundroða og þá niðurlægingu sem nú blasir við okkur?

Reykjavík er meinið

Eitt sveitarfélag hefur leitt þá óheillaþróun sem nú er uppi. Reykjavíkurborg hefur ýtt af stað afdrifaríku ferli sem kallað hefur á misgæfuleg viðbrögð annarra sveitarfélaga. Þannig hefur meinið dreift sér um landið. Stjórnartíð R–listans í Reykjavík hefur hægt og rólega breyst í samfellda þrautargöngu tónlistarskólanna. Þetta segi ég sem fagmaður og foreldri, án þess að leggja á nokkurn hátt mat á önnur störf þessa ágæta stjórnmálafls. Þetta er líka skoðun allra tónlistarkennara sem ég þekki - og þeir eru all nokkrir.

Deilur við ríkið og önnur sveitarfélög

Ríkjandi öfl í borgarstjórn hafa látið sverfa til stáls í deilum, annarsvegar við ríkið um kostnaðarskiptingu vegna nemenda á framhaldsskólaaldri og hinsvegar við önnur sveitarfélög vegna nemenda sem stunda nám í öðrum bæjarfélögum en sínu eigin. Margt má segja um þessi tvö deiluefni og eflaust má sjá sannleiks- og sanngirniskorn í kröfum Reykjavíkurborgar. Sömuleiðis má finna mótrök, eins og þá einföldu staðreynd að með verkaskiptalögunum 1989 tóku sveitarfélögin við tónlistarskólum landsins án skilyrða eða athugasemda; öllum aldursflokkum og námsstigum. Þó svo allir deiluaðilar hafi eitthvað til síns máls skiptir mestu að af hálfu Reykjavíkurborgar hefur verið gengið fram af hörku og mér liggur við að segja fruntaskap í þessum málum til að knýja fram niðurstöðu. Nú er bæði sjálfsagt og eðlilegt að ríki og borg deili um ýmis mál. Það er aftur á móti algerlega óafsakanlegt að láta deilurnar bitna á saklausum nemendum og lúalegt að láta stjórnendur skólanna súpa seyðið af karpinu, en þeir fá misvísandi skilaboð og starfa við vægast sagt ruglingslegar aðstæður. Þessar deilur hafa sem sagt bitnað á þeim sem síst skyldi og sú staðreynd er til háborinnar skammar fyrir þá sem ábyrgðina bera.

Aldurstakmarkanir

Nýlega hefur verið sett aldursþak á tónlistarskólana í Reykjavík og því miður virðast aðrir ætla að fylgja því fordæmi. Þannig verða 25 ára nemendur að hætta niðurgreiddu námi í hljóðfæraleik, 27 ára í söng. Þetta er ömurleg misréttisregla sem á ekkert skylt við raunveruleika náms sem er í eðli sínu óaldurstengt. Ljóst er að möguleikar margra munu skerðast og efnisfólk mun hverfa frá námi. Fjölmörg dæmi má nefna, bæði innlend og erlend, um þekkta söngvara og hljóðfæraleikara sem hófu nám sitt seint. Hefðu hinar nýju reglur Reykjavíkurborgar verið við lýði undanfarna áratugi ættum við engan Kristinn Sigmundsson. Kontrabassaleikarinn Tómas R. Einarsson hefði heldur aldrei komist á legg í list sinni, en hann hóf nám 27 ára gamall, svo að tvö ólík innlend dæmi séu nefnd. Strax á næsta ári munu efnilegir nemendur þurfa að hverfa frá vegna þessa. Hér er verið að stíga stórt skref afturábak.

Fjölgun skóla

Á undanförnum árum hefur tónlistarskólum í borginni fjölgað talsvert. Þetta gæti verið lofsvert ef ekki væri fyrir þá staðreynd að góðverkið hefur einkum verið fjármagnað á kostnað annarra, þ.e. með niðurskurði hjá þeim stofnunum sem fyrir voru. Fyrir vikið hafa orðið til fleiri en minni skólar en áður. Þetta þætti ekki skynsamleg hagfræði í viðskiptalífinu, nú á tímum hagræðingar og sameiningar. Hin augljósa afleiðing er sú að stjórnunarkostnaður hækkar hlutfallslega og stjórnendum í tónlistarskólum borgarinnar fjölgar. Um leið takmarkast möguleikar minnkandi skóla á að halda úti mikilvægu námsframboði, einkum varðandi fjölbreyttar tónfræðagreinar og lifandi samspil. Samdráttur á því sviði hjá leiðandi skólum er því miður klár rýrnun á gæðum tónmenntar þjóðarinnar. Hér hefði verið nær að halda í hina áttina.

Áhuga- og skilningsleysi

Það er einhvernvegin eins og að þeir sem um þessi mál véla hjá Reykajvíkurborg hafi ekki mikinn áhuga á þessum málaflokki og enn minni skilning á starfsemi skólanna. Við erum hinsvegar klárlega látin skilja að þeim finnst þetta nám voðalega dýrt. Í því sambandi er rétt að benda á að á undanförnum áratugum hefur borgin þanist út, en fjölgun plássa í tónlistarskólum hefur því miður ekki verið í réttu hlutfalli við fólksfjölgunina – langt því frá. Þó að Reykjavík telji sig eyða rúmlega 700 milljónum í tónlistarskólarekstur þegar allt er talið, er ljóst að hlutfallslegt framlag borgarinnar í þennan málaflokk er með því lægsta sem gerist á landinu. Einnig er ljóst að fjöldi nemenda í reykvískum tónlistarskólum er hlutfallslega með því lægsta sem gerist á landinu (skv. könnun Félags tónlistarskólakennara á starfsemi tónlistarskóla frá 2002-3). Þegar afrek stjórnenda borgarinnar eru tekin saman í málefnum tónlistarskólanna kemur eftirfarandi upp: fjölgun og minnkun skóla, átthagafjötrar, aldurstakmörk, fyrirvaralaus niðurskurður, einhliða ákvarðanir og miðstýring. Sem sagt; allt neikvætt og ekkert jákvætt. Ekkert hefur verið gert til að efla starf skólanna, hvetja starfsmenn eða þakka góðan árangur. Áfram vinna þó kennarar og stjórnendur störf sín af metnaði og áhuga. Árangurinn talar fyrir sig sjálfur, en samt kemur alltaf aftur í andlit okkar hin sama blauta tuska vanþakklætisins. Hvað höfum við gert til að verðskulda hana?

Hvað segja frambjóðendur?

Nú standa borgarstjórnarkosningar fyrir dyrum og því tilvalið fyrir flokka og frambjóðendur að gera grein fyrir sinni afstöðu í þessum málum. Það væri til dæmis afar forvitnilegt að vita hvort stefna Samfylkingarinnar í þessum málum verður samhljóða stefnu hins sáluga R-lista. Er það í raun, eins og margir tónlistarskólakennarar virðast hyggja, að formaður menntaráðs, Stefán Jón Hafstein sé potturinn og pannan í þessari sorglegu stefnu? Mun hann áfram leiða þennan málaflokk ef Samfylkingin sigrar komandi kosningar? Er núverandi borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir honum sammála og sátt við stefnuna eða hefur hún aðra skoðun? Og síðast en ekki síst; hvar stendur nýbakaður sigurvegari prófkjörs Samfylkingarinnar, Dagur B. Eggertsson? Ekki væri síður athyglisvert að vita skoðanir fulltrúa annarra flokka, þó sérstaklega Sjálfsæðismanna, þar sem nokkrar líkur virðast benda til að þeir muni fara með lyklavöld ráðhússins á næsta kjörtímabili. Hvað hefur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að segja við nemendur, foreldra og kennara tónlistarskóla borgarinnar? Hvers eigum við að vænta af Sjálfstæðismönnum i þessum málaflokki? Verður stefnan tekin upp á við eða bara enn lengra niður á við ef þeir komast til valda? Hvað segja forystumenn annarra flokka?

Við skiptum máli

Þessi grein er ekki upphafið á blaðadeilu og ég ætla mér ekki að munnhöggvast við neinn um þessi mál. Greinin er skrifuð til að vekja athygli á bágri og versnandi stöðu tónlistarmenntunar í Reykjavíkurborg og til að kalla eftir því að frambjóðendur til Borgarstjórnarkosninga kynni stefnu sína í þessum málum fyrir borgarbúum til að auðvelda þeim valið. Við erum stór flokkur; nemendur, foreldrar, kennarar, starfsfólk og stjórnendur reykvískra tónlistarskóla – enn stærri ef áhugafólk um þessa vinsælu listgrein er talið með. Við skiptum máli og atkvæði okkar telja, þó svo að við hvorki spörkum né köstum boltum. Ég fullyrði að nú er svo fram af okkur gengið að mörg okkar eru tilbúin til að greiða atkvæði gegn pólitískri sannfæringu til að sjá breytingar á stjórn þessa málaflokks.

Að lokum

Nú eru íslensku tónlistarverðlaunin nýafstaðin. Þar var margt fyrirmenna komið til að fagna velgengni íslenskrar tónlistar af öllum gerðum. Þegar vel gengur vilja nefnilega allir dansa með og reyndar virðist vera vaxandi skilningur á stuðningi við tónlistarlífið almennt, bæði hjá ríki og borg. Skilningur á orsakatengslum tónlistarskólanna og tónlistarlífsins virðist hinsvegar enn vera af skornum skammti. Það er eins og menn átti sig ekki á því að það er nauðsynlegt að hlúa að rót þessa fagra trés. Ef hún er ekki vökvuð visnar tréð. Íslensk tónlistarflóra er fjölbreytt og viðkvæm, rétt eins og fjallagróðurinn. Hún vex hægt og það er fljótlegt að eyðileggja. Það eru ljót eftirmæli að hafa rifið upp mosann.


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2006.


25. febrúar 2006 svaraði Stefán Jón Hafstein þessari grein Sigurðar í Morgunblaðinu – sjá Tónlistarskólarnir í borginni.


 ©  2006  Músa