Er Garðar Thór poppari?
Jónas Sen <senjonas [hjá] gmail.com>
Í pistli sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 12. júlí leggur Helgi Snær Magnússon út af dómi um geisladisk með Garðari Thór Cortes, en á honum er að finna bæði sígilda tónlist og dægurlög. Diskurinn fékk fremur slæma dóma hjá Orra Harðarsyni, sem hingað til hefur ekki verið þekktur fyrir að skrifa gagnrýni um klassíska tónlist. Enda er Orri heldur ekki að gera það hér, hann er að skrifa um popparann Garðar, um poppmúsíkina sem hann syngur og hvernig honum tekst til.
Gróðahyggja?Helgi segir: „Ætti Bono að syngja „Nessun dorma“ og „Vesti la Giubba“? Eða kannski Bruce Springsteen, George Michael eða Michael Jackson? Nei, það væri skelfilegt. Af hverju? Af því þeir kunna það einfaldlega ekki og geta það ekki. Þeir eru ekki óperusöngvarar og óperusöngvarar eru ekki poppsöngvarar. Þetta er einhver tíska á seinustu árum sem ég veit ekki hver átti upptökin að, að hræra saman óperuaríum og popplögum og skella á hljómplötur. Oftar en ekki eru þessir klassísku söngvarar huggulegir og sjálfsagt er það stór hluti ástæðunnar fyrir því að fjöldi manns kaupir plöturnar, myndirnar af söngvurunum selja. Sjálfsagt er ein ástæða þessa popparíubræðings hrein og klár gróðahyggja, gert til að stækka hlustendahópinn, selja fleiri plötur, ná til fólksins sem hlustar aldrei á klassík.“
Úr sögu óperunnar Helgi segir að óperusöngvarar séu ekki poppsöngvarar. En er það svo? Eru óperuaríur eitthvað annað en popplög? Hvað er popp annars? Og hvað eru óperuaríur?
Eitt megineinkenni popptónlistar er að hún krefst engrar sérstakrar menntunar, það geta allir notið hennar. Orðið popp er stytting á „popular“, sem þýðir vinsæl. Poppmúsík er vinsæl tónlist, tónlist fjöldans, meirihlutans. Þannig tónlist hefur alltaf verið til í einhverri mynd. Þar á meðal eru óperuaríur.
Lítum aðeins á brot úr sögu óperunnar. Í bók sinni Performance Rites segir Simon Frith að í byrjun nítjándu aldarinnar hafi þýsk tónlist á borð við þá sem Mozart, Schubert og Beethoven sömdu verið talin „æðri list“ eða hámenning. Ítalskar óperur og tónleikar píanósnillingsins og tónskáldsins Franz Liszt hafi hins vegar verið flokkaðir sem „vinsæl list“, þ.e. poppmúsík þess tíma.
Óperan var svo sannarlega ekki alltaf hámenningarlist, þvert á móti. Um miðja nítjándu öldina var hún afar vinsæl meðal þorra almennings í Bandaríkjunum – m.ö.o. popp – en undir lok aldarinnar tók áhugi alþýðunnar á henni að dvína. Þá varð hún að einhverju sem var alls ekki popp.
Dægurflugur inn Í bók sinni Highbrow Lowbrow segir Lawrence W. Levine ástæðuna vera breytingar sem áttu sér stað á sýningarformi óperunnar, frá alþýðlegum skemmtunum til sýninga sem fremur þröngur áheyrendahópur hafði áhuga á. Um miðbik aldarinnar hefði verið algengt að afar frjálslega væri farið með óperurnar á ýmsan hátt, t.d. hefði sumum hlutum gjarnan verið sleppt og vinsæl lög, nokkurs konar dægurflugur þess tíma, sett í staðinn. Þessi lög hefðu í sjálfu sér ekki komið efni óperunnar við.
Upphafleg hugsun tónskáldsins, sem hefði haft það að markmiði að segja sögu á sérstakan hátt og á tilteknu tungumáli (oftast ítölsku eða þýsku) hefði skipt minna máli en að sýningin félli í kramið á áheyrendum. Skemmtunargildi sýningarinnar hefði verið aðalatriðið, ekki vilji tónskáldsins.
Þar sem óperur í sinni upprunalegu mynd þóttu minna á gamla heiminn sem innflytjendurnir í Bandaríkjunum höfðu sagt skilið við, hefði verið talið sjálfsagt að „alþýðuvæða“ óperurnar. Slík meðhöndlun hefði á vissan hátt verið táknræn fyrir vonina um betra, réttlátara þjóðfélag.
Að fága smekk Undir lok nítjándu aldar tók þetta að breytast og má rekja það til þess að æ algengara var að óperur væru fluttar í stórum húsum á borð við Academy of Music og Metropolitan Opera House, en þeim var yfirleitt stjórnað beint eða óbeint af fólki úr efri stéttum þjóðfélagsins.
Þessu fólki þótti ósmekklegt að flytja óperurnar á þann hátt sem áður tíðkaðist; það leit á það sem hlutverk sitt að mennta alþýðuna, fága smekk hennar, gefa henni tækifæri til að njóta „æðri listar“ í sinni hreinustu mynd. Þetta hafði þær afleiðingar að óperurnar voru sífellt oftar sýndar á frummálinu og að öllu öðru leyti eins nálægt því hvernig tónskáldin upphaflega hugsuðu þær. Þá urðu þær í leiðinni ekki eins skiljanlegar – hafa ber í huga að textavélar eru tiltölulega nýlegt fyrirbæri í óperuheiminum – og fyrir vikið glötuðu þær vinsældum sínum meðal alþýðunnar sem yfirleitt kunni ekki önnur tungumál en sitt eigið.
Þannig varð óperan, sem var popptónlist í Bandaríkjunum á fyrri hluta nítjándu aldarinnar að hámenningarlist er almenningur bar yfirleitt lítið skynbragð á, vegna breytinga á þjóðfélagslegum aðstæðum.
Garðar Thór Cortes Í dag get ég ekki séð annað en að margar einstakar óperuaríur séu á svipuðum stalli og poppmúsík, þ.e. ofurvinsæl músík sem allir geta skilið.
Frábært dæmi um samruna óperuheimsins og poppgeirans er þegar Katherine Jenkins og Garðar Thór komu fram á tónleikum í Laugardalshöllinni hinn 29. apríl 2006. Þarna voru hámenntaðir klassískir söngvarar sem fluttu bæði óperuaríur og poppmúsík við góðar undirtektir. Sumt kom verulega á óvart; á efnisskránni var lag eftir sjálfa Dolly Parton, í óperuumgjörð og meira að segja sungið á ítölsku! Hið athyglisverða var að lagið, sem heitir I Will Always Love You og var flutt af Jenkins, var undarlega líkt „Nessun dorma“ úr Turandot eftir Puccini eða „Habanerunni“ úr Carmen eftir Bizet, sem einnig voru á dagskránni á tónleikunum. Hvort tveggja samanstóð af grípandi melódíum, uppmagnaðri rödd og litríkum hljómsveitarleik.
Mörkin eru óljós Vissulega á popptónlist sér ákveðin séreinkenni sem aðgreinir hana frá óperuaríunum. Takturinn í poppinu er mjög áberandi og oftast niðurnjörvaður; takturinn í óperuaríum er óljósari og lúmskari. Venjulegt popplag skiptist í nokkur erindi sem eru fleyguð með viðlagi. Viðlögin er yfirleitt ekki að finna í aríunum. Hjómsveitarsamsetningin er líka öðruvísi.
Það sem vinsælar óperuaríur eiga sameiginlegt með poppmúsík er samt fleira. Aríurnar og popplögin eru stuttar tónsmíðar og hvort tveggja er sungið. Efnið er yfirleitt um ástina í einhverri mynd. Hljómsveitarmeðleikurinn er krassandi og laglínurnar sykursætar. Uppbygging tónefnis, hljómræn framvinda, eða hljómagangur eins og það er stundum kallað, er einföld svo áheyrandinn sé alltaf með á nótunum.
Auðvitað er raddbeitingin í poppi og óperum ólík, en samt ekki svo ólík þegar betur er að gáð. Söngstíllinn í óperum til komin vegna þess að röddin er ekki mögnuð upp, ef hún á að heyrast yfir heila hljómsveit er nauðsynlegt að beita henni á sérstakan hátt. Í dag þarf þetta ekki lengur þótt það tíðkist enn í óperugeiranum. Núna er röddin mögnuð upp rafleiðis. Því leggja poppsöngvarar ekki á sig jafnstranga raddþjálfun og óperusöngvarar. En í báðum tilvikum er röddin mögnuð upp, ýmist með náttúrulegri aðferð eða tæknilegri.
Mín niðurstaða er sú að þegar þetta er allt skoðað í samhengi er í rauninni furðulítill munur á óperuaríum og popplögum. Sumar aríurnar eftir Verdi eru t.d. svo takmarkaðar að allri framvindu og uppbyggingu að þær gætu allt eins verið samdar af ABBA. Og ég er viss um að hæfileikaríkir popparar gætu vel flutt þær á sinn hátt og útkoman orðið síst verri en hjá Garðari.
Strengjakvartett með Sigur Rós Já, hvað er popp og hvað er það ekki? Eins og áður sagði var Franz Liszt einu sinni poppari. Í dag telst tónlist hans til hámenningar. Einu sinni voru Bítlarnir popparar. Núna spila strengjakvartettar útsetningar á lögum þeirra og viti menn: Þau hljóma eins og Schubert hafi samið þau!
Sannleikurinn er sá að mörg popplög eru frábærar tónsmíðar og oft er það aðeins búningurinn sem þau eru í sem gera þau að poppi í huga fólks, en ekki að óperuaríum, strengjakvartettum eða prelúdíum. Þegar tónlistin skiptir um búning sér maður hana stundum í alveg nýju ljósi.
Kronos strengjakvartettinn er t.d. þekktur fyrir að blanda saman á tónleikum sínum „akademískri“ nútímatónlist og sérstaklega útsettri tónlist úr dægurlagaheiminum. Oft með góðum árangri eins og á tónleikum á Listahátíð fyrir nokkrum árum síðan. Þá hljómuðu tvö lög eftir Sigur Rós eins og hver önnur klassík. Maður skynjaði tónlist þeirra á allt annan hátt en venjulega. Og það var síst verri upplifun en á tónleikum með Sigur Rós sjálfri.
SÁ ekki, á ekki... Helgi Snær segir að óperusöngvarar eigi ekki að syngja popptónlist. Ég er ekki sammála. Popplögin eiga svo margt sameiginlegt með aríunum að það er nánast sjálfgefið að óperusöngvararnir syngi þau. Auk þess held ég að það sé óheppilegt þegar mönnum er sagt hvernig þeir EIGI að vera. Að minnsta kosti í listaheiminum. Stjórnmálamenn hafa oftast vit á þessu; hið opinbera styrkir listirnar en stjórnar því ekki hvernig list er sköpuð eða iðkuð. Ef stjórnvöld færu að skipta sér að því værum við ekki betur sett en þegnar Stalins eða Hitlers á sínum tíma.
Nú er ég auðvitað ekki að líkja Helga Snæ við Hitler! En tónlist er flókið fyrirbæri og maður skyldi varast að flokka hana á einhvern billegan máta.
Þar fyrir utan eru óperusöngvarar ekki bara óperusöngvarar, þeir eru tónlistarfólk. Óperusöngvari sem elskar alls konar tónlist og þorir að koma á framfæri sinni eigin túlkun á henni er skapandi listamaður. Ég óska Garðari til hamingju með frelsið.
Höfundur er tónlistargagnrýnandi við Morgunblaðið.
Greinin birtist fyrst Lesbók Morgunblaðsins 2. ágúst 2008. |