Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 23. nóv. 2010

Mannbætandi músík á vonarvöl

Ríkarður Örn Pálsson

Ríkarður Örn Pálsson Skæð merkingarbólga hefur hlaupið í list á síðari árum, ef marka má hvað fjölmiðlar gera öllu jafnt undir höfði. Myndlist virðist oftar en ekki fjalla um innsetningar eða gjörninga, og popp og rokk fær í dag margfalt meiri umfjöllun en þekktist fyrir bara tuttugu árum. Ekki sízt á kostnað beztu tónlistar Vesturlanda – tónlistar gömlu meistaranna. Jafnvel svo að talað er um bráðum tvær „glataðar kynslóðir“ sem af einhverjum ástæðum hafa farið á mis við glæstustu tóngersemar okkar heimshluta, allt frá miðöldum fram á 20. öld. Fólk sem þekkir aðeins popp og rokk. Það sem áður þótti helzt við hæfi unglinga teygist nú fram á fimmtugs ef ekki sextugsaldur. Eða eins og einhver orðaði það nýlega: pönkið fer senn að flytjast inn á Grund!

Maður ímyndaði sér fyrst að endurskoðun lífsgilda í kjölfar fjárhrunsins hlyti að bæta úr þeim málum. Enn fer þó lítið fyrir því í fjölmiðlum, og mætti halda að efnis- og gróðahyggja nýliðins eyðsluæðis skipti enn úrslitamáli. Fjölmiðlar eru háðir auglýsingatekjum sem aldrei fyrr, og auglýsendur vilja greinlega síður hlustendur með þroskaðan smekk sem gína ekki við hverju sem er. „Fólk er fífl“ sagði athafnamaður sem alræmt varð. Hann hefði getað bætt við: „...og þannig viljum við hafa það!!“

Kom kreppan of seint? Vonandi ekki. En ef fram heldur sem horfir, gæti líklega orðið erfitt að fylla 1800 manna sal Hörpu á vori komandi. Við eigum núna fleiri og betri hljómlistarmenn en nokkru sinni í sögu lýðveldisins, og þeim fjölgar stöðugt. Á sama tíma fækkar hlustendum gæðatónlistar. Samt virðist flestum standa á sama. Skammtímahyggjan – hér og nú hugsunarhátturinn – dafnar enn með tilheyrandi háværu hjómi og skrumi, eins og ekkert hafi í skorizt.

Svartsýnisraus þetta, ef svo kann að hljóma, spratt raunar af öllu sértækara dæmi úr íslenzku nútímasamfélagi. Dæmi sem sýnir – hvort sem ráðamenn eru fyllilega meðvitaðir um áhrif gerða sinna eða ekki – að öndvegistónlist þykir nú mæta afgangi í verðmætamati dagskrárefnis. Nefnilega í kynningum Ríkisútvarpsins á klassísku tónlistarefni frá samtökum evrópskra útvarpsstöðva sem sent hefur verið út að næturlagi allt frá marz 2008 undir samheitinu Næturtónar. En sem verður, að því er mér skilst, endanlega „sparað burt“ n.k. áramót.

Hérlendir útvarpshlustendur eiga sem stendur þeim munaði að fagna að geta valið á milli heilla tveggja klassískra rása. Hin eldri – Rondó – er í gangi allan sólarhringinn; efnið að vísu ókynnt með öllu, en gerir hlutfallslega minnst til um tónverkin þar eð þau eru yfirleitt í þekktara kanti (sumir kalla slíkt „létta“ klassík, en ekkert út á það að setja í nafni tilbreytingar), þó vart teljist til fyrirmyndar að láta jafnt höfunda, verk sem flytjendur liggja í fullkomnu þagnargildi.

Næturtónar bjóða upp á jafnt kunnug sem minna þekkt verk; ýmist hljóðvers- eða tónleikaupptökur hvaðanæva úr Evrópu í úrvalsflutningi. Dagskráin var talkynnt fram að hruninu í okt. 2008, en síðan látið nægja að kynna hana á heimasíðu RÚV. Vonandi sparaðist eitthvað við það sem ella hefði kostað niðurskurð annars staðar. Og eins og með Rondó var getspökum tónlistarunnendum nokkur íþrótt í því að leiða höfund og verk að líkum (þó örðugra reyndist að kenna flytjendur), unz vitja mátti spilunarlistans á heimasíðu RÚV. Eða svo hélt maður framan af, og sannarlega ekki ónýtt haldreipi þá óþekkt en frábært verk eða afburðatúlkun hélt fyrir manni vöku.

Því miður var sú lukka brigðul. Skemmst er frá að segja, að í a.m.k. fimm tilvikum á þessu ári reyndist allt í sukki á heimasíðu RÚV. Fátt ef ekkert stemmdi. Nýjast aðfaranótt s.l. laugardags, þegar a.m.k. sex verk er ég þóttist þekkja (og voru á BBC-spilunarlista upphaflegs dreifanda viku fyrr) fundust hvergi. Gæti annað eins því hæglega hafa gerzt mun oftar, enda ekki hlustað stíft á hverri nóttu.

Mér er því spurn: Hvers vegna fer útvarp allra landsmanna jafnömurlega með beztu tónlist fyrr og síðar? Tónlist sem umfram aðra er mannbætandi og siðferðisstyrkjandi á kvalræðistímum?

Og hvar eru viðbrögð tónlistarunnenda þessa hrjáða lands?

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 1. nóv. 2010.


 ©  Músa