Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 23. sept. 2004
Samanburður á menntun íslenskra og austur-evrópskra tónlistarkennar

Bára Sigurjónsdóttir, Berglind Stefánsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir, Svafa Þórhallsdóttir, Þóra Gísladóttir

Við sem þetta ritum erum síðasti kennarahópurinn sem útskrifaðist frá Blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík, vorið 2004.  Eins og undanfarin ár lauk náminu í kennslufræði með rannsóknarverkefni sem unnið var undir handleiðslu dr. Þóris Þórissonar.  Hér verður sagt frá þessu verkefni í stórum dráttum.

Viðfangsefni okkar tók mið af því millibilsástandi sem nú ríkir í menntun tónlistarkennara á Íslandi þegar henni hefur verið hætt í Tónlistarskólanum í Reykjavík og er enn lítt mótuð innan Listaháskóla Íslands.  Á slíkum tímamótum er hollt að læra af reynslunni, jafnt okkar sjálfra sem af góðum erlendum fyrirmyndum.  Síðastliðið vor rýndu útskriftarnemar blásarakennaradeildar (BLKD) í þá menntun sem íslenskir tónlistarkennarar hafa hlotið við Tónlistarskólann í Reykjavík (Daníel Friðjónsson o. fl. 2003).  Þar sem gott orð hefur farið af þeim austur-evrópsku tónlistarkennurum sem hér starfa, þótti okkur lærdómsríkt að fræðast einnig um þá kennaramenntun sem þeir hlutu.

Markmið og aðferð

Meginmarkmiðið var að bera saman menntun austur-evrópskra tónlistarkennara við menntun íslenskra tónlistarkennara.  Til að auðvelda þennan samanburð lögðum við að miklu leyti sömu spurningar fyrir austur-evrópsku kennarana og þær sem lagðar voru fyrir íslenska tónlistarkennara í rannsókn BLKD síðast liðið vor.  Í megindráttum snérust spurningarnar um það, hve stór hluti austur-evrópsku kennaranna hefði notið sérstakrar kennaramenntunar í tónlist, inntak námsins, og hvað af því hafi nýst þeim best í kennslu.  Þar sem fjölhæfni austur-evrópskra kennara hefur vakið athygli, spurðum við sérstaklega um píanó sem aukahljóðfæri, aukahljóðfæri önnur en píanó, þátt sköpunar og spuna í náminu, og það hvort áhersla hafi verið lögð á annars konar tónlist en klassíska.  Til að samanburður yrði sem raunhæfastur gáfum við sérstakan gaum að grunnmenntun kennaranna áður en þeir hófu kennaranám.  Að lokum grennsluðumst við fyrir um líðan kennaranna í íslensku starfsumhverfi.

Sendur var spurningalisti til allra þeirra austur-evrópsku kennara sem við höfðum upplýsingar um;  samtals 33ja kennara sem búsettir voru víðsvegar á landinu.  Listanum svöruðu 20 kennarar (61%):  Ungverjar, Pólverjar, Tékkar, Slóvenar og Eistar.  Til að fá enn gleggri mynd tókum við símaviðtöl við 18 þeirra kennara sem svöruðu spurningalistanum og gáfu kost á viðtali.

Helstu niðurstöður og umræða

Nokkru hærra hlutfall austur-evrópsku tónlistarkennaranna hefur hlotið kennaramenntun heldur en gerist meðal íslenskra tónlistarkennara.  Niðurstöður sýndu ennfremur að tónlistarlegur undirbúningur austur-evrópskra kennara áður en þeir hófu kennaranám var mun meiri en við eigum að venjast.  Sem dæmi má nefna að útskriftarnemar úr tónlistarakademíum í Póllandi hafa að baki 17 ára strangt tónlistarnám:  fyrst 7 ára nám í sérhæfðum tónlistargrunnskólum, því næst 5 ár í tónlistarmenntaskóla og síðan önnur 5 ár á háskólastigi.  Hafa þarf þennan mikilvæga mun í huga þegar gæði tónlistarkennaranáms á Íslandi eru borin saman við Austur-Evrópu. 

Þegar litið er á inntak kennaranámsins sjálfs kom hins vegar í ljós að það er í meginatriðum líkt í Austur-Evrópu og á Íslandi.  Kennslufræði og æfingakennsla var efnislega lík því sem tíðkast hefur í Tónlistarskólanum í Reykjavík.  Nám austur-evrópsku kennaranna var með hefðbundnu sniði þar sem klassísk tónlist sat í öndvegi.  Til dæmis hlutu flestir austur-evrópsku kennaranna eingöngu klassískt nám í píanóleik.  Aðeins 3 þátttakendur nefndu lestur bókstafshljóma sem hluta af náminu, einn nefndi það að búa til einföld undirspil, og einn blaðlestur.  Sú praktíska hljómborðsfærni sem margir austur-evrópskir kennarar sýna, ásamt færni í rytmískri tónlist sem ýmsir þeirra búa yfir, virðist því ekki afsprengi þeirrar formlegu menntunar sem þeir fengu heldur áunnin utan hennar.

Aðalhljóðfæri fékk hæstu einkunn þegar kom að því að meta gagnsemi hinna ýmsu þátta námsins bæði hjá austur-evrópskum og íslenskum tónlistarkennurum. Austur-evrópskir tónlistarkennarar mátu kennslufræði, tónlistarsögu og tónbókmenntir hærra en íslenskir.  Sálar- og uppeldisfræði og kontrapunktur fengu hins vegar lægstu einkunn hjá báðum hópum.  Skiptar skoðanir voru meðal austur-evrópsku kennaranna á því, hversu vel menntun þeirra undirbúi þá til að takast á við breyttar áherslur í nýrri aðalnámsskrá tónlistarskóla (sköpun, spuna, fjölbreytta tónlist o.s.frv.).  Minnihlutinn taldi menntun sína veita góðan undirbúning til þess.  Stæði þeim til boða framhaldsnám, kváðust flestir kjósa aukna sérhæfingu á aðalhljóðfæri, spuna og skapandi þætti, ásamt notkun á tölvum og hugbúnaði.  Í meginatriðum er þetta í samræmi við viðhorf íslenskra tónlistarkennara 2003 og endurspeglar e.t.v. takmarkanir þeirrar klassísku kennaramenntunar, sem báðir hópar hlutu, við núverandi aðstæður.

Kennaramenntaðir tónlistarkennarar frá Austur-Evrópu telja almennt að nám í kennaradeild hafi gert þá hæfari til að takast á við hina ýmsu þætti sem tengjast daglegum störfum tónlistarkennara.  Þeim finnst kennaramenntun gagnast best, þegar reynir á að beita aðferðum sem hæfa þroskastigi hvers nemanda og við að skipuleggja kennslu. 

Flestir austur-evrópsku kennaranna töldu að þeim hafi verið vel tekið af íslenskum tónlistarkennurum, nemendum og foreldrum, en margir töldu >íslenskt starfsumhverfi lítt hvetjandi til að verða betri í starfi.  Langflestir voru hlutlausir varðandi ánægju með launakjör tónlistarkennara á Íslandi.  Meirihluti þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni og tóku afstöðu til þess, hvort þeir vildu búa á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni, vildu vera áfram á landsbyggðinni.

Lokaorð

Þar sem gæði tónlistarlífsins eiga svo mikið undir gæðum í tónlistarkennslu hvetjum við þá sem nú axla ábyrgð á menntun tónlistarkennara á Íslandi til að rækja það hlutverk af metnaði, og læra sem mest af innlendri og erlendri reynslu á því sviði.   Í ljósi þess hve mikinn undirbúning austur-evrópskir tónlistarnemar hafa umfram íslenska, erum við sammála hugmynd rektors Listaháskóla Íslands að koma ætti á fót menntaskóla listanna hér á landi (Hjálmar H. Ragnarsson, 2004, http://lhi.is/Forsida/FraSkrifstofu/nr/560).  Við  þökkum þeim austur-evrópsku kennurum sem sáu af tíma sínum til þátttöku í rannsókninni.  Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið nánar geta skoðað það á Bókasafni Tónlistarskólans í Reykjavík.


Á Vefnum frá júní 2004©  2004  Músa