Pistillinn

15. apríl 2002
Hvernig æfa nemendur sig heima?

Fjóla Dögg Sverrisdóttir, Gunnar Leó Leosson, Katrin Jørgensen og Tröndur H. Enni; nemendur í Blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík

Við sem þetta ritum lukum í vor [2001] námi í kennslufræði í blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Í fyrsta sinn lauk námi í þessari grein með rannsóknarverkefni, þar sem kannaðar voru æfingaaðferðir 15 hljóðfræanemenda í miðnámi í nokkrum tónlistarskólum á Reykjavíkursvæðinu. Æfingaaðferðir eru margvíslegar og geta bæði verið misjafnar eftir einstaklingum og eftir því hve langt fólk er komið í námi. Þótt taka beri með varúð niðurstöðum rannsóknar sem byggist á svo fámennu úrtaki, styður það niðurstöðurnar að þær eru að flestu leyti samhljóða fjölmennum erlendum rannsókum á sama sviði. Þar sem efnið er forvitnilegt og snertir dagleg störf tónlistarkennara og nemdenda þeirra, báðum við ritstjóra fréttabréfsins að birta þessa stuttu frásögn.*

Hver nemandi fékk æfingu sem hann æfði í einrúmi í 10 mínútur og var æfingatíminn hljóðritaður. Auk þess var nemendunum skipt í þrjá hópa á grundvelli þess hve vel þeir léku æfinguna í lok æfingatímans. Niðurstöður voru byggðar á greiningu á æfingaaðferðum nemendanna í 10-mínútna æfingatímanum og á viðtali við þá varðandi það hvernig og hve mikið þeir æfðu sig yfirleitt. Einnig var spurt um hvort þeir spiluðu annað en það sem kennarinn setti þeim fyrir, um stuðning foreldra og vina, og hvort þeim þætti gaman að spila. Varðandi æfingaaðferðirnar var lögð áhersla á að bera saman það sem nemendur sögðust gera við það sem þeir raunverulega gerðu í æfingatímanum.

Meðal þess sem kom í ljós var að nemendur í besta hópnum æfðu frekar erfiða staði, leiðréttu frekar villur, hlustuðu betur og lásu einnig réttar heldur en nemendur lakari hópanna tveggja. Athyglisvert er að lakari nemendurnir sögðust (eins og þeir betri) æfa erfiða staði og laga villur heima en gerðu það hins vegar ekki í æfingatímanum. Flestir töldu kennara sína hafa talað um hvernig þeir ættu að æfa sig heima.

Á óvart kom hversu margir æfa sig oft í viku. Flestir æfa í 30-60 mínútur í senn og oftar en þrisvar í viku. Aðeins tveir sögðust æfa sig sjaldnar en þrisvar í viku og sjö æfa í 30-60 mínútur 6-7 sinnum í viku. Þeir sem segjast æfa sig mest eru þó ekki endilega bestir, en góðir nemendur beittu vandaðri og þroskaðri aðferðum í æfingatímanum heldur en þeir lakari. Þannig virðast gæði æfingatímans skipta meira máli en heildartíminn, jafnvel í miðnámi.

Allir nema einn töldu sig fá góðan eða meðalgóðan stuðning frá foreldrum, og allir sögðu gaman eða miðlungi gaman að leika á hljóðfærið. Athyglisvert er að þeim mun betri sem nemendur eru á hljóðfærið því minna virðast þeir háðir stuðningi vina. Til dæmis kom í ljós að eini nemandinn sem gengur ekki vel en hefur mjög gaman af því að spila á hljóðfæri, fær mikinn stuðning heima og á marga vini í tónlist. Þetta leiðir hugann að því hvort félagsskapurinn hafi meira að segja heldur en geta nemandans varðandi það hvort hann kýs að hætta eða halda áfram í hljóðfæranámi. Um það verður ekkert sagt út frá þessari rannsókn þar sem svo fáir slakir nemendur tóku þátt í henni.

Að lokum voru nemendur um það spurðir hvort þeir lékju eftir eyra, hvort þeir spiluðu utanbókar, hvort þeir semdu lög og hvort þeir spynnu. Með aðeins einni undantekningu kom fram, að nemendur æfa hvorki spuna né leik eftir eyra. Þetta þykir okkur merkilegt í ljósi nýútkominnar aðalnámskrár tónlistarskóla. Í almennum hluta henna segir, undir leikni- og skilningsmarkmiðum, að nemendur eigi að æfast í að leika og syngja eftir heyrn og minni, eigi að læra og þjálfast í að setja saman hefðbundnar eða óhefðbundnar tónsmíðar, eigi að læra og þjálfast í að spinna út frá gefnu upphafi, hljómferli eða öðrum aðferðum (bls. 15).

Þetta er eitthvað sem við tónlistarkennarar þurfum að bæta og það strax þar sem komin er út ný námskrá, sem við þurfum að vinna eftir.

Þeir sem áhuga hafa geta skoðað skýrsluna í heild í Bókasafni TR. Leiðbeinandi okkar við rannsóknina var Þórir Þórisson. Kennurum sem hvöttu nemendur sína til þátttöku eru færðar bestu þakkir.


* Greinin birtist fyrst í Fréttabréfi Félags tónlistarskólakennara, tbl. 36, september 2001.


Á Vefnum frá apríl 2002©  2002  Músa