Menntamálaráðherra brýtur á tónlistarnemum
Kjartan Eggertsson <tonharp at harpan.is>
Umboðsmaður Alþingis sendi frá sér það álit að menntamálaráðherra hefði brotið á tónlistarnemum. Þeir nemendur sem hafa fengið nám sitt í tónlist metið til eininga í framhaldsskóla áttu að fá tónlistarnámið ókeypis, en greiddu allan tímann skólagjöld upp á hundruð þúsunda.
Það að leiðrétta mál eins og þetta ætti að vera eitt lítið úrlausnarefni í menntamálum,
en menntamálaráðherrann Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur ekki getað leyst
það þó hún hafi haft til þess 4 ár. Hún segist hafa skoðun á málinu en
lætur Umboðsmann Alþingis dæma sig svo hún geti komið sér að verki. Nú
segir hún að málið sé til skoðunar hjá ráðuneytinu. Hvað ætli málið verði lengi
til skoðunar þar?
Menntamálaráðherrann lét hafa eftir sér í Blaðinu að hann leggi til að sveitarfélögin
sjái um grunn- og miðstig tónlistarnáms en ríkið sjái um framhaldsstigið óháð
aldri nemenda. Þetta fyrirkomulag segir hann að kosti ríkið 200 milljónir.
Nú er að sjá hvort ráðherrann stendur við þessi stóru orð. Að vísu kom fram hjá
honum í blaðaviðtalinu að hann gerði ráð fyrir að sveitarfélögin tækju að sér
eitthvert verkefni frá ríkinu í staðinn, en um það hefði ekki verið samið. Ætli
tónlistarnemar verði ekki bara áfram látnir greiða sína menntun upp í topp, fyrst
menntamálaráðherra getur ekki samið við sveitarfélögin?
Frjálslyndi flokkurinn hefur það á stefnuskrá sinni (sjá málefnahandbók www.xf.is)
að ríkissjóður kosti tónlistarnám nemenda á framhaldstigi í tónlistarskólum,
á sama hátt og annað nám sem stundað er í framhaldsskólum landsins. Málið
snýst nefnilega ekki bara um þá nemendur sem eru í námi á tónlistarbrautum framhaldskólanna,
heldur einnig þá nemendur sem eru ekki í framhaldskólum, en á framhaldsstigi
í tónlistarnámi í tónlistarskóla. Margir þessara nemenda hafa þegar lokið
framhaldskólanámi og stúdentsprófi. Þeir eru ýmist á framhaldstigi eða
háskólastigi. Flestir þessara nemenda hafa lagt tónlistina fyrir sig sem fag
og ætla að hafa hana að ævistarfi. Það er því ekki óeðlilegt að hið opinbera
kosti þetta nám alveg eins og annað fagnám í landinu.
Tónlistarnemendur á háskólastigi eru ekki allir í Listaháskólanum, heldur eru margir þeirra í almennum tónlistarskólum, svo sem eins og Tónlistarskóla Reykjavíkur, FÍH og Tónskóla Sigursveins og jafnvel víðar. Þessir nemendur greiða öll sín skólagjöld sjálfir, Reykjavíkurborg greiðir niður nám þeirra flestra og ekki allra jafnt.
Að lokum má minna á að börnum í tónlistarnámi á Íslandi er víða mismunað. Sum sveitarfélögin greiða niður tónlistarnám fyrir útvalin börn, en ekkert fyrir önnur og sum börn fá inni í tónlistarskóla á meðan önnur eru látin bíða, -stundum í mörg ár. Menntamálaráðherra er yfirmaður skólamála á Íslandi, -ætli honum sé kunnugt um þessa mismunun?
Kjartan Eggertsson er í 2. sæti á lista Frjálslynda flokksins til Alþingiskosninga
í vor í Reykjavík-suður. |