Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 19. maí 2006
Tónlistarinnar vegna
Flestir skilja mikilvægi þess að í höfuðborg landsins sé starfrækt kraftmikið tónlistarlíf sem sækir nýliðun og sköpunargleði til vandaðra tónlistarskóla.

Júlíus Vífill Ingvarsson

Júlíus Vífill Ingvarsson Íslenskir tónlistarmenn vekja athygli á heimsvísu. Um þetta þekkja allir dæmi og vita að tónlistarmenn okkar sem láta að sér kveða erlendis flytja og semja bæði klassíska og dægurtónlist. Þeir sem setja vilja efnahagshagslegan stokk á flesta hluti vita að þessir listamenn eru landkynning sem seint verður að fullu metin til fjár. Af þessu getum við sem þjóð verið stolt en ættum jafnframt að hafa hugfast að tónlistarlíf fæðist ekki af sjálfu sér. Vegferðin að því að verða tónlistarmaður er löng. Hún krefst aga og sjálfsafneitunar en þó fyrst og síðast ástríðu fyrir listinni. Tónlistarlíf okkar hófst mörgum árhundruðum eftir öðrum þjóðum í Evrópu. Má færa fyrir því rök að það byrji í raun ekki fyrr en árið 1930 með stofnun Tónlistarfélagsins í Reykjavík og Tónlistarskólans í Reykjavík. Með skólanum var lagður grunnur að þeirri tónlistarmenningu sem við búum við í dag og teljum allt því sjálfsagðan þátt í lífi okkar hvort heldur við hlustum á Silvíu Nótt eða förum á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Nánast allir íslenskir tónlistarmenn sinfóníuhljómsveitarinnar frá upphafi hafa t.d. sótt nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Jafnrétti til náms án tillits til búsetu

Flestir skilja mikilvægi þess að í höfuðborg landsins sé starfrækt kraftmikið tónlistarlíf sem sækir nýliðun og sköpunargleði til vandaðra tónlistarskóla. Til að svo megi verða þarf aftur að koma á jafnrétti til tónlistarnáms þannig að nemendur sem búa utan Reykjavíkur og vilja sækja tónlistarnám til borgarinnar, þurfi ekki að sæta mismunun eftir því hvaða sveitarfélagi þeir tilheyra. Við eigum að gera kröfu til þess að höfuðborgin gegni leiðandi hlutverki í málefnum er varða tónlistarnám og hafi forgöngu um að tryggja samninga um fjárframlög annarra sveitarfélaga til þessa málaflokks, þannig að nemendur geti stundað nám af öryggi og á jafnréttisgrundvelli. Það hljómar eins og úr grárri forneskju en er þó staðreynd að tónlistarnemendur eru háðir samþykki frá sínu heimasveitarfélagi fyrir því hvort þeir mega sækja nám utan marka  sveitarfélagsins. Dæmi eru um að efnilegum nemendum hafi verið neitað um fjárframlög með tónlistarnámi sínu í Reykjavík vegna þess að í heimasveitarfélögum þeirra eru starfsræktir tónlistarskólar sem taldir eru full boðlegir. Á hvaða forsendum eru slíkar ákvarðanir byggðar? Ekki er heldur sæmandi að nemendur þurfi að grípa til þess að skipta um lögheimili til þess að hafa vísa heimild til að stunda tónlistarnám. Tónlistarskólar í Reykjavík eiga að sama skapi ekki að þurfa að innheimta fjárframlög með nemendum sínum til allra sveitarfélaga landsins. Það verður að leysa á vettvangi sveitarfélaga. Einhliða ákvörðun fræðsluyfirvalda án samráðs eða samvinnu við önnur sveitarfélög eða tónlistarskóla hefur skapað ójafnrétti sem verður að leiðrétta.

Styrkja þarf rekstrargrundvöllinn

Rekstrargrundvöll þeirra tónlistarskóla sem starfandi eru í Reykjavík þarf að styrkja og gera skólastjórnendum kleift að skipuleggja skólastarfið á hagkvæman og árangursríkan hátt með samningum til lengri tíma. Óvissa hefur fylgt þeirri ákvörðun fræðsluyfirvalda að hætta fjárframlögum með nemendum sem búa utan Reykjavíkur og velta því fyrirvaralaust yfir á nemendur og skólana að tryggja fjárframlög frá sveitarfélögum víðs vegar um landið. Það er ójöfn staða. Skólunum á jafnframt að skapa þær aðstæður að í borginni starfi tónlistarkennarar sem njóta a.m.k. sömu kjara og tónlistarkennarar í öðrum sveitarfélögum.

Sleppum hámarksaldri

Við mótun tónlistarnáms verður að taka mið af sérhæfingu og sérstöðu þessa náms í menntakerfinu og þeim ólíku kröfum sem gerðar eru til kennara og nemenda á mismunandi námsstigum. Þannig eru nemendur mislangt á veg komnir án tillits til aldurs og ljúka margir þeirra framhaldsstigi tónlistar á þrítugsaldri. Hámarksaldur á ekki að setja á tónlistarnám enda er námið krefjandi og ekki raunveruleg hætta á því að þeir nemendur sem stunda nám á framhaldsstigi séu að gera það með hangandi hendi. Auk þess eru mörg dæmi um að góðir tónlistarmenn hafi byrjað listferil sinn seint og á það einkum við um söngvara.

Endurmenntun og símenntun

Susanne Ernst skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið þann 3. maí sl. sem hún kallar Tónlistin tapar. Þar bendir hún á að á sama tíma og lögð er áhersla á endurmenntun og símenntun er verið að útiloka eldri nemendur frá því að hefja tónlistarnám eða að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Susanne sem er nemandi í Tónlistarskólanum í Reykjavík skorar á ábyrgðaraðila að taka málið til endurskoðunar því það sé tónlistin sem tapi á því að Reykjavíkurborg hefur sett 25 ára hámark á aldur tónlistarnemenda og hefur hafnað því að svo gamlir nemendur fái sama stuðning og aðrir til tónlistarnáms. Undir varnaðar- og hvatningarorð Susanne er heilshugar tekið. Listnám á ekki að setja í aldursramma.

Höfundur er formaður skólanefndar Tónlistarskólans í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 11. maí 2006.


 ©  2006  Músa