Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld Grein III: Breytt heimsmynd í kjölfar velmegunar
Ingibjörg Eyþórsdóttir <ingibjorge at ruv.is>
Stofnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands markaði tímamót í íslensku tónlistarlífi
og hingað kom talsverður fjöldi manna, aðallega frá Austurríki, gagngert til
að hægt væri að manna hana. Á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar undir
því nafni voru 13 af 40 spilurum erlent fólk með mislanga dvöl að baki hér á
landi. Það eru 32,5% hljómsveitarinnar og lengst af hefur það verið á svipuðu
róli. Núna er það 23.5%.
Á árunum eftir Seinni heimsstyrjöldina blasti við gjörbreytt heimsmynd frá því
fyrir stríð. Ísland var ekki lengur fátæk smáeyja langt frá öllum mannaferðum,
heldur hafði þjóðin hagnast ágætlega og var nú svo gott sem í alfaraleið. Sú
sérkennilega staða var komin upp að Reykjavík var allt í einu orðin að áningarstað
margra tónlistarmanna. Flug yfir Atlantshafið var nýhafið og þótt flestir vildu
heldur sigla fór hlutur flugsins vaxandi ár frá ári. Tónlistarmenn með þétt skipað
dagatal höfðu ekki tíma í siglingar en flestar flugvélar þurftu að lenda á leiðinni
yfir Atlantshafið til að taka eldsneyti. Hér millilentu því ýmsar frægar stjörnur
og komu fram á tónleikum í stoppinu, oftast hjá Tónlistarfélaginu eða með nýstofnaðri
Sinfóníuhljómsveit og spiluðu fyrir þyrsta tónleikagesti. Þannig fengu Íslendingar
að heyra í stjörnum eins og Adolf Buch fiðluleikara, Rudolf Serkin píanóleikara,
Dietrich Fischer-Dieskau baritónsöngvara, Andrés Segovia gítarleikara, og Isaak
Stern fiðluleikara svo fáeinir séu nefndir.
Sinfóníuhljómsveit Íslands Stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar árið 1950 markaði þáttaskil þótt hér hafi raunar verið starfandi hljómsveit undir ýmsum nöfnum allt frá árinu 1921, að vísu með hléum. Hér var loksins kominn fastur vettvangur fyrir flutning allra stærri tónverka og þótt hún ætti eftir að eiga í nokkrum brösum næstu árin er þetta ár talið stofnár hennar.
Þegar hljómsveitin var stofnuð var ljóst að til að hægt yrði að manna allar stöður
þyrfti að fá krafta að utan, jafnvel þótt stærð sveitarinnar væri haldið í lágmarki.
Hún var mönnuð 40 hljóðfæraleikurum sem telst algert lágmark fyrir fullskipaða
hljómsveit og raunar varla hægt að flytja öll sinfónísk verk skammlaust með þessari
áhöfn, að minnsta kosti ekki sinfóníur frá síðustu árum 19. aldarinnar, þegar
hljómsveitir voru orðnar ákaflega útbólgnar.
Fjórir blásarar voru strax ráðnir erlendis frá: Willy Bohring flautuleikari,
Paul Pudelski óbóleikari, Adolf Kern fagottleikari og Alois Spach hornleikari
komu allir frá Þýskalandi. Íslendingurinn Egill Jónsson klarinettuleikari sem
var nýkominn til landsins frá námi í Manchester á Englandi var ráðinn í stöðu
fyrsta klarinettuleikara. Erwin Koeppen, kontrabassaleikari var einnig ráðinn
til hljómsveitarinnar þetta ár. Fyrir voru á landinu nokkrir erlendir menn
sem höfðu starfað hérlendis í mislangan tíma og slógust nú í hópinn. Þetta var
fólk eins og Jósep Felzmann og Erika Schwiebert, fiðluleikarar, Hans Stephanek,
sem nú lék á víólu en hafði áður kennt á fiðlu í Tónlistarskólanum, Heinz Edelstein,
sem leiddi sellóin, Jan Morávek, sem lék á fagott, Páll Pampichler trompetleikari
sem hafði komið hingað til lands stuttu áður til að stjórna Lúðrasveit Reykjavíkur,
Wilhelm Lanzky-Otto, sem kom árið 1945 frá Danmörku og Albert Klahn, pákuleikari.
Í 40 manna hljómsveit voru því 13 hljóðfæraleikarar sem höfðu komið hingað sem
erlent vinnuafl, en hvílíkur liðsstyrkur! Án þessara hljóðfæraleikara hefði ekki
verið hægt að koma upp Sinfóníuhljómsveit á Íslandi. Strax árið eftir bættust
Hans Ploder fagottleikari og Adolf Ferber hornleikari í hópinn og Herbert Hriberschek
árið þar á eftir. Þegar horft er yfir það mannval sem fluttist til Íslands á
árunum eftir stríð, undrast menn kannski hvað hafi dregið allt þetta hæfileikafólk
hingað upp á klakann, þar sem ekki einu sinni var til almennileg Sinfóníuhljómsveit,
hvað þá meira. Þá er vert að minnast þess að Evrópa eftirstríðsáranna var í rúst
en hér var allt í uppsveiflu.
Saga klassískrar tónlistar á Íslandi eftir 1950 er mjög samofin sögu Sinfóníuhljómsveitarinnar
eins og vonlegt er. Hún gerir það líka að verkum að eftir stofnun hljómsveitarinnar
jókst mjög straumur erlendra tónlistarmanna til landsins, til að hægt væri að
halda henni fullskipaðri. Þeir fengu samning í skamman tíma í senn, en ótrúlega
margir settust hér að til frambúðar að þeim samningstíma liðnum. Forvitnilegt
er að fletta félagatali hljómsveitarinnar sem birtist í bókinni Sinfóníuhljómsveit
Íslands; saga og stéttatal eftir Bjarka Bjarnason, sem kom út árið 2000, á 50
ára afmæli hennar. Þar sést svart á hvítu hversu fjöldinn hefur verið mikill
og augljóst að rekstur hljómsveitarinnar hefði verið ógerlegur ef þessara krafta
hefði ekki notið við. Margir stoppuðu stutt og hurfu héðan eftir að samningstímanum
lauk en aðrir fluttu sig yfir í þann hóp sem kalla mætti tengdabörn Íslands.
Blásaraþáttur Blásarasveit hljómsveitarinnar hefur alltaf þurft á nokkrum styrk að halda erlendis frá, nema kannski nú á allra síðustu árum. Strax á árunum fyrir stofnun sveitarinnar komu hingað frábærir blásarar. Árið 1945 kom hingað maður sem síðar átti eftir að verða einn af helstu hornleikurum Norðurlandanna; Wilhelm Lanzky-Otto. Hann var fæddur árið 1909 í Kaupmannahöfn, inn í mikla tónlistarfjölskyldu. Hann fór ungur að læra á píanó, síðar bættist fiðla við og loks hornið að áeggjan föður hans, sem vissi sem var að góðir horneikarar eru ekki á hverju strái. Tveimur árum síðar var hann farinn að vinna fyrir sér sem hornleikari í hljómsveitum, en hélt samt áfram píanónáminu. Í árslok árið 1945 var honum boðin staða sem píanókennari við Tónlistarskóla Íslands og sem hornleikari við Hljómsveit Reykjavíkur eins og hún hét þá. Hann var af sumum talinn hafa haft fullnáið samstarf við þýska hernámsliðið í Danmörku og þurfti því að komast í burtu. Hér var hann fram til ársins 1951, eða í sex ár, kenndi á píanó og horn í Tónlistarskólanum í Reykjavík og spilaði fyrsta horn í hljómsveitinni. Þegar hann fór kom Herbert Hriberchek í staðinn, fyrir atbeina Franz Mixa, sem hélt uppteknum hætti við að senda hingað frábæra tónlistarmenn. Herbert kom frá Graz í Austurríki og ætlaði að taka sér stutt frí frá störfum þar og spila á Íslandi. Það frí stendur ennþá; hann var fyrsti hornleikari hljómsveitarinnar í áratugi, og kennari og skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík auk þess sem hann hefur sinnt tónsmíðum. Nafnið breyttist í Herbert H. Ágústsson.
Jan Morávek kom til Íslands árið 1948 og var fyrst hljómsveitarstjóri hjá Skemmtifélagi
Templara í Gúttó. Þar spilaði hann á klarinett, en hann virðist reyndar hafa
getað spilað á flestöll hljóðfæri. Victor Urbancic bað hann um að læra á fagott,
þar sem fagottleikara vantaði í Sinfóníuhljómsveitina við stofnun hennar. Það
gerði hann á undraskömmum tíma og spilaði á það í hljómsveitinni fyrst um sinn,
en síðar á selló. Hann hafði lagt stund á hljómsveitarstjórn, klarinettuleik
og fleiri greinar við Tónlistarháskólann í Vínarborg áður en hingað kom. Hér
á landi spilaði hann auk klarinetts, fagott og sellósins á harmonikku, fiðlu,
píanó og margt fleira. Hann mun hafa gert tilraun til að taka upp lag eftir sjálfan
sig þar sem hann spilaði á öll hljóðfærin sjálfur, en tæknin réði ekki við svo
flókið verkefni. Jan Morávek er sagður hafa spilað á um 20 mismunandi hljóðfæri
og lék jöfnum höndum klassíska tónlist og dansmúsík. Auk þess var hann liðtækur
stjórnandi, stjórnaði lúðrasveitum og kórum og stjórnaði jafnvel Sinfóníuhljómsveitinni
á tvennum tónleikum árið 1956. Hann var auk þess mjög stórtækur við útsetningar.
Morávek var í hljómsveit landa síns og vinar Carls Billich, sem spilaði á Naustinu
allt frá stofnun hennar árið 1955 til dauðadags árið 1970 og þar spilaði hann
á þau hljóðfæri sem þörf krafði hverju sinni.
Páll Pampichler kom til landsins árið 1949. Segja má að hann hafi verið sendur
hingað af Franz Mixa til að stjórna Lúðrasveit Reykjavíkur og spila á trompet
í Sinfóníuhljómsveitinni sem þá var í undirbúningi. Hann spilaði á trompetinn
þar í 9 ár, en sneri sér eftir það alfarið að hljómsveitarstjórn og tónsmíðum.
Páll stjórnaði Sinfóníuhljómsveitinni oft á rúmlega 20 ára tímabili frá 1972
en nú er hann hljómsveitarstjóri í heimalandi sínu, Austurríki en kemur hingað
annað slagið til að stjórna. Samlandi Páls, fagottleikarinn Hans Ploder kom fyrir
áeggjan hans hingað í hálfsárs leyfi frá Sinfóníuhljómsveitinni í Graz í Austurríki,
en ílentist eins og fleiri og er hér enn.
Síðar komu hingað menn eins og Daði Kolbeinsson fyrsti óbóleikari SÍ frá 1973
kom frá Skotlandi, Joseph Ognibene, fyrsti hornleikari frá 1981 sem kom frá Bandaríkjunum
og Englendingurinn Bernharður Wilkinson, sem kom hingað árið 1975 til að spila
á flautu í hljómsveitinni, en átti þá fortíð að hafa verið kórdrengur í Westminster
Abbey. Eins og allir kórsöngvarar vita er sú baktería ódrepandi og hann var fljótlega
orðinn einn af helstu kórstjórum landins, stjórnaði Söngsveitinni Fílharmóníu
og Hljómeyki við góðan orðstír. Hann hefur auk þess getið sér gott orð sem hljómsveitarstjóri
og nú er hann einn af þeim hljómsveitarstjórum sem reglulega stendur á stjórnendapallinum
hjá SÍ. Þeir þremenningarnir stofnuðu Blásarakvintett Reykjavíkur ásamt Einari
Jóhannessyni klarintettuleikara og Hafsteini Guðmundssyni fagottleikara árið
1981 og starfa í honum enn. Martial Nardeu flautuleikari sem nú er meðal annars
kennari við Listaháskóla Íslands og var lengi fyrsti flautuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar
kom hingað 1982 frá Frakklandi. Hann var margverðlaunaður fyrir flautuleik sinn
og hafði bæði starfað sem einleikari og með hljómsveitum áður en hingað kom.
Það er ekki nokkur vegur að telja alla erlenda hljóðfæraleikara hljómsveitarinnar
upp á þessum vettvangi en núna eru 94 fastráðnir hljóðfæraleikarar hjá hljómsveitinni
og þar af eru 24 sem hafa komið að utan, eða 23,5% en það hlutfall hefur heldur
farið lækkandi í áranna rás, eftir því sem íslenskum hljóðfæraleikurum hefur
vaxið fiskur um hrygg.
Söngvaraþáttur Á sjötta og sjöunda áratugnum komu hingað nokkrir söngvarar sem áttu það sammerkt að vera sterkir persónuleikar og skilja djúp spor eftir sig hér á landi.
Sigurður (Vincenz) Demetz sem kenndi hálfri þjóðinni að syngja og uppgötvaði
ýmsa stórsöngvara, kom hingað árið 1955 fyrir tilviljun eftir því sem hann hefur
sjálfur sagt frá. Sigurður var frá Suður-Týról, sem var hluti af Austurríki þar
til eftir Heimsstyrjöldina fyrri en tilheyrði Ítalíu eftir það. Sigurður lærði
söng fyrst og fremst á Ítalíu og kynntist óperulífinu af eigin raun, bæði þar
og í Dresden í Þýskalandi. Hann starfaði í virtum óperuhúsum, en hörð lífsbarátta
á Ítalíu á stríðsárunum og fyrstu árunum eftir stríðið færði hann Íslendingum.
Hann kynntist íslenskri konu, Svanhvíti Egilsdóttur söngkonu sem sótti söngtíma
hjá sama kennara og hann, en var fljótlega farin að læra hjá Sigurði sjálfum.
Segja má að hún hafi flutt hann inn, því hún safnaði saman hópi fólks sem vildi
læra að syngja heima á Íslandi og gerðist nemendur hans. Sigurður varð fljótlega
mjög ástsæll kennari, kenndi fyrst í Reykjavík í nokkur ár og stofnaði hér Söng-
og óperusöngskólann, en flutti síðan til Akureyrar og starfaði þar í rúman áratug.
Þar var hann meðal annars kennari Kristjáns Jóhannssonar stórtenórs og hann kom
honum til náms á Ítalíu. Eftir að hann fluttist aftur til Reykjavíkur kenndi
hann meðal annars þeim bræðrum Gunnari og Guðbirni Guðbjörnssonum tenórum og
Guðjóni Grétari Óskarssyni, bassa.
Engel eða Gagga Lund fæddist á Íslandi árið 1900 og bjó hér fyrstu ellefu ár
æfi sinnar. Faðir hennar var apótekari sem hafði flust hingað frá Danmörku og
þangað flutti fjölskyldan aftur. Í Danmörku gekk Gagga í skóla og þar lærði hún
að syngja. Hér á landi hafði hún aftur á móti lært mörg þjóðlög sem hún flutti
með sér og síðar, þegar hún var orðin útlærð söngkona ferðaðist hún víða um lönd
og flutti þjóðlög frá um 20 löndum. Hún söng alltaf á frummálunum og mun hafa
verið snillingur í að ná réttum framburði á sérhverju máli. Hún söng alltaf íslensk
þjóðlög á ferðum sínum og endaði hverja tónleika á íslensku lagi. Þegar hún var
sextug ákvað hún að snúa aftur til Íslands og hér bjó hún til dauðadags, en hún
lést 96 ára gömul. Því má segja að hún hafi átt annan fullan starfsferil hér
á landi. Áhrif hennar eru ómetanleg – hún safnaði íslenskum þjóðlögum og kynnti
þau víða um lönd – og fyrir Íslendingum sjálfum – og eftir að hún hætti flakkinu
gerðist hún einn mest elskaði söngkennari þjóðarinnar. Hún kenndi í Tónlistarskóla
Reykjavíkur langt fram yfir eðlilegan eftirlaunaaldur og eftir að hún hætti þar
kenndi hún heima hjá sér fram í andlátið. Hún var glæsileg kona, stór og mikil
og gekk alltaf svartklædd – hún leit út eins og nítjándu aldar kona á göngum
Tónlistarskólans, en augnaráðið var eins og í ungri stelpu, sterkt og fjörlegt.
Allir söngvarar syngja lög sem hún safnaði og söng ásamt austurríska píanóleikaranum
Ferdinand Rauter, en hann útsetti lögin á mjög látlausan hátt og drekkti þeim
ekki í rómantískum hljómum, eins og oft gerðist fyrr á árum. Bókin sem þau gáfu
út kom fyrst út árið 1960, en var síðan endurútgefin af Ísalögum árið 1998.
Rut L. Magnússon kom hingað til landsins uppúr 1960, þá þegar gift Jósef Magnússyni
flautuleikara. Hún er fædd í Englandi en fluttist hingað kornung. Hún hafði lært
í Guildhall, og útskrifast þaðan árið 1959 og hafði strax getið sér gott orð.
Hún hafði unnið til verðlauna fyrir söng sinn og víða sungið í óratóríum, og
konsertuppfærslum á óperum. Þegar hún kom hingað var lítið um söngkennslu í tónlistarskólum
landsins, líklega hefur Sigurður Dementz verið einn af fáum kennurum auk Guðmundar
Jónssonar og Gagga kom til landsins á svipuðum tíma og Rut. Hún tók strax til
við að raddþjálfa kóra og tók söngnemendur heim til sín, auk þess sem hún söng
í ýmsum uppfærslum, ýmist á vegum Tónlistarfélagsins eða með Sinfóníuhljómsveitinni.
Segja má að þetta fólk hafi fært sönglistina til Íslendinga, því áður en þau
fluttust hingað urðu langflestir sem höfðu áhuga á að læra söng að einhverju
marki að fara til útlanda; eftir að þau komu hingað gat fólk notið kennslu þeirra
og reynslu áður en haldið var út í heimsmenninguna. Sieglinde Kahmann sópransöngkona
fluttist til landsins með manni sínum Sigurði Björnssyni tenór árið 1977 og hóf
þegar að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík, en hafði áður staðið á óperusviðum
í Þýskalandi og átt þar farsælan feril í rúm tuttugu ár. Hún bættist í þennan
fríða hóp. John A. Speight sem bæði er söngvari og tónskáld fluttist til Íslands
árið 1972 og hefur starfað ötullega að tónlistinni síðan á báðum sviðum. Hann
hefur líka skipt sér að félagsmálum tónlistarmanna; hann hefur t.d. verið formaður
Tónskáldafélagsins, Norræna tónskáldafélagsins.
Tengdabörn þjóðarinnar Fyrir utan þann fjölda sem kom hingað og ætlaði að stoppa stutt, en fann óvart ástina á Íslandi, voru margir sem komu hingað upphaflega með maka sínum. Þennan bálk fylla ótrúlega margir tónlistarmenn og margir þeirra frábærir. Manuela Wiesler flautuleikari kom hingað kornung, aðeins 18 ára gömul með þáverandi manni sínum og varð stórkostleg vítamínsprauta fyrir íslenskt tónlistarlíf. Íslensk tónskáld kepptust við að semja fyrir hana verk og hún tók þátt í því að stofna til Sumarhátíðar í Skálholti með hugmyndasmiðnum og semballeikaranum Helgu Ingólfsdóttur. Ungir flautuleikarar urðu að sjálfsögðu fyrir djúpum áhrifum frá Manuelu og við búum enn að því.
Vladimir Ashkenazy er hvað frægastur þeirra sem telja má til tengdabarna þjóðarinnar.
Kona hans Þórunn Jóhannsdóttir fluttist reyndar með fjölskyldu sinni til London
sex ára gömul þar sem hún sjálf var undrabarn á píanó og þurfti að komast
í almennilegan skóla, en hún hélt við tungumálinu og rótunum og leit á sig sem
Íslending, enda var hún með íslenskan ríkisborgararétt fyrir utan þau fáu ár
sem hún var sovéskur þegn. Áhrif Ashkenazys eru víðtæk. Hugmyndin að Listahátíð
í Reyjavík er frá honum komin og fjöldi frábærra tónlistarmanna sem hingað kom,
sérstaklega á fyrstu árum hátíðarinnar var beinlínis á hans vegum eða kom hingað
vegna þess að fólk þekkti til hans sem píanósnillings. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt
árið 1972 og bjó hér í einn áratug, á árunum 1968-1978 þar sem þau hjónin höfðu
fengið nóg af erlinum sem fylgdi því að búa í London. Héðan fluttu þau síðan
til Luzern í Sviss og sameinuðu með því friðsældina frá Íslandi og það að búa
í hjarta Evrópu. Ashkenazy hefur einnig lengi veirð mjög öflugur hvatamaður að
byggingu tónlistarhúss í Reykjavík og ósmeykur við að láta í ljós vanþóknun sína
á seinaganginum við að koma þeirri framkvæmd af stað. Nú þegar hillir undir húsið
er hann strax farinn að nefna að koma hingað með erlendar gæðasveitir.
Í næstu grein, sem verður sú síðasta í þessum flokki, verður farið vítt og breytt
um sviðið; vikið verður að kennurum sem hafa unnið sín störf í ró og spekt í
fjörðum og dölum landsins, rætt um hóp tónlistarmanna sem fluttist hingað frá
löndum Austur-Evrópu á árunum í kringum 1980 og dreifðist víða um land, fjallað
um þá tónlistarmenn sem komið hafa hingað reglulega til að vinna án þess að hafa
hér fasta búsetu og síðast en ekki síst verður reynt að draga einhverjar ályktanir
af þessu öllu.
Höfundur lauk BA-prófi í tónlistarfræði frá LHÍ vorið 2005 og starfara í Ríkisútvarpinu.
Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 29. apríl 2007.
Heimildir |