Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 22. apríl 2007
Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld
Grein I: Brautryðjendur – stóra stökkið


Ingibjörg Eyþórsdóttir
<ingibjorge at ruv.is>

Ingbjörg EyþórsdóttirTilviljanir eru merkilegt fyrirbæri, sérstaklega í sögulegu samhengi. Hvað ef Ingólfur Arnarson hefði ekki hitt á Ísland og endað á Grænlandi? Hvað ef honum hefði nú bara liðið ágætlega heima hjá sér og farið hvergi?

Þróun íslenskrar tónlistarsögu hefur verið endalausum tilviljunum háð og oft réði tilviljunin ein því hvaða erlendu tónlistarmenn höfnuðu hér en ekki einhvers staðar allt annars staðar. Við skulum hafa þetta á bak við eyrað þegar við veltum fyrir okkur áhrifum þeirra erlendu tónlistarmanna sem hingað fluttust á 20. öld, og ekki síður hafa það í huga að erlendir tónlistarmenn hafa að öllum líkindum verið hér álíka margir og íslenskir, ef ekki fleiri á ákveðnum skeiðum aldarinnar. Við eigum þessu fólki óendanlega margt að þakka.

Fræg er sagan af íslenskum hljóðfæraleikara sem var öllum lokið þegar erlendur hljómsveitarstjóri var að láta hljómsveitina endurtaka aftur og aftur sama kaflann til að láta tónlistina hljóma hreint. Íslendingurinn á að hafa lagt frá sér hljóðfæri sitt og sagt: „Ef það á að fara að spila eitthvað nauið hér þá er ég farinn.“

Ekki fylgir sögunni hvor þeirra þurfti að fara í það skiptið – Íslendingurinn eða sá útlenski en hitt er víst að það hefur ekki alltaf verið áhlaupaverk fyrir vel menntaða evrópska tónlistarmenn að aðlaga sig íslenskum aðstæðum.

Hér verður ekki fjallað um alla erlenda tónlistarmenn sem starfað hafa á Íslandi, til þess eru þeir einfaldlega of margir.  Hins vegar verður reynt að hafa uppá þeim tónlistarmönnum sem höfðu hvað mest áhrif með veru sinni hér, hvort sem hún var stutt eða löng.

Forsagan í stuttu máli

Hvernig væri íslenskt tónlistarlíf ef aldrei hefðu komið hingað erlendir tónlistarmenn og tónlistarkennarar? Spurningin er að sjálfsögðu útí hött þar sem Ísland hefur alltaf haft talsverð samskipti við umheiminn og aldrei búið við algera einangrun. Áhrif hafa því alltaf borist hingað erlendis frá, ýmist með því að innlendir menn hafa farið til annarra landa og komið heim með nýjungar af öllu tagi í farteskinu – hvort sem það hefur verið tískufatnaður eða nýjustu dægurlög hvers tíma – eða hingað hafa komið erlendir menn. Lengi framan af tíndist hingað einn og einn maður sem hafði víðtæk áhrif í kringum sig, hvort sem það var á tónlistarlífið eingöngu eða mannlífið allt. Þegar kemur fram á 20. öldina tekur öll heimsmyndin örum breytingum og íslenskt samfélag tók margra alda stökk á örfáum áratugum. Snemma á öldinni fara að koma hingað tónlistarmenn, ýmist í þeim tilgangi að kenna, stjórna og spila tónlist eða sem flóttamenn ofsókna og stríðs í heimahögum og fljótlega breiðast áhrif af starfi þeirra út eins og hringir í vatni. Áður en við skoðum þeirra forvitnilega og ómetanlega starf skulum við þó aðeins líta á forsöguna því það var löngu áður sem fyrsti maðurinn kom hingað í þeim tilgangi að kenna tónlist.

Rikini – fyrsti erlendi tónlistarkennarinn?

Árið 1106 var Jón Ögmundsson settur biskup á Hólum. Hann var gagnmenntaður maður og hafði mjög víða farið til að afla sér þeirrar menntunar. Vitað er að hann var mikill söngmaður og ýmsar sögur eru til af raddfegurð hans.  Hann tók auk þess upp hörpuleik eftir að Davíð konungur hafði vitjað hans í draumi þannig að líklegt er að hann hafi haft metnað til þess að kirkjutónlist í biskupsdæmi hans væri sómasamleg. Jón biskup stofnaði fljótlega prestaskóla við Hólastól en prestlærdómur fólst á þessum tíma fyrst og fremst í því að kunna latínu og Gregorsöng, það er hinn forna latneska kirkjusöng. Hann réð kunnáttumenn til kennslunnar, þar á meðal prestinn Ríkini, sem að öllum líkindum hefur verið franskur, til að kenna söng og ljóðagerð. Þannig var Jón biskup Ögmundsson fyrstur til þess að ráða sérstakan tónlistarkennara til landsins. Auðvitað er erfitt að greina beinlínis þau áhrif sem þessi ákveðni maður hefur haft á tónlistarlíf þjóðarinnar, en mjög líklegt er að honum hafi tekist að kenna prestefnunum latínusönginn almennilega og þar með ýtt undir að kirkjutónlist á Íslandi yrði flutt með sómasamlegum hætti. 

Fyrr á öldum er vitað að hingað komu af og til vel menntaðir menn til að kenna tónlist og kirkjusöng við latínuskólana. Við siðaskiptin urðu síðan mikil umskipti, þá hætti latínan að vera tungumál kirkjunnar og þjóðtungur hvers svæðis um sig tóku við því hlutverki. Hingað barst alveg ný tegund af tónlist, sálmasöngur lútherskrar kirkju sem að mestu leyti á rætur sínar að rekja til Þýskalands og umbreytti öllum kirkjusöng sem hér tíðkaðist. Nú átti söfnuðurinn sjálfur að syngja og þurfti að temja sér hina nýju tónlist á mettíma. Þau áhrif voru gríðarleg og mjög víðtæk, t.d. er augljóst að þessi nýja formfasta tónlist hefur haft óafturkræf áhrif á þá bragarhætti sem mönnum voru áður tamastir. Önnur erlend tónlistaráhrif bárust til landsins með ferðalögum Íslendinga til annarra landa. Héðan fóru menn í ýmsum tilgangi og komu til baka með ný lög og nýja dansa, og jafnvel hljóðfæri. Heldri manna stéttir hafa því fengið smjörþefinn af evrópskri tónlistarmenningu, þótt alþýðan hafi áfram kyrjað sinn forna sultarsöng. Og þó; rímnalögin eru að öllum líkindum einhvers konar bræðingur fornra laga og evrópskra laga sem sungin hafa verið við danskvæði, þótt söngstíllinn og allt yfirbragð virðist mjög fornlegt.

Olufa Finsen

Næsti erlendi nafngreindi tónlistarmaðurinn sem hafði veruleg áhrif hér á landi kemur úr óvæntri átt. Olufa Finsen, fyrst stiftamtmannsfrú og síðar landshöfðingjafrú, eiginkona Hilmars Finsen, var menntaður tónlistarmaður þótt tónlistarkennsla eða -flutningur hafa augljóslega ekki verið tilgangur hingaðkomu hennar. Hún lék á píanó og hafði fengist við tónsmíðar áður en hún fluttist hingað, líklega árið 1865 en Hilmar Finsen tók við embætti stiftamtmanns það ár. Vitað er að hún hafði samið sönglög við píanóleik áður enn hún fluttist hingað og við jarðarför þeirra heiðurshjónanna Jóns forseta Sigurðssonar og Ingibjargar árið 1880 var flutt kantata sem eignuð hefur verið henni. Talið hefur verið að kantatan hafi upphaflega verið samin vegna fráfalls Friðriks konungs VII, en líklegast er að Olufa Finsen hafi staðfært og jafnvel samið viðbót við kantötu sem flutt var við jarðarför konungsins. Matthías Jochumsson samdi nýjan texta við kantötuna, Olufa Finsen lék sjálf á orgel og tvöfaldur blandaður kvartett söng ásamt tveimur einsöngvurum, bariton og sópran. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti sem einsöngur heyrðist í jarðarför á Íslandi og öll tónlistin hafði mikil áhrif á viðstadda. Til gamans má geta þess að auk þess flutti Lúðurþeytarafélagið frumsaminn sorgarmars eftir Helga Helgason við athöfnina. Áhrif Olufu Finsen voru þó mun víðtækari en að kynna evrópska jarðarfarartónlist fyrir Íslendingum. Hún kenndi á píanó og æfði blandaðan kór heima hjá sér. Nafntogaðasti nemandi hennar var án efa Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem átti eftir að gerast tónskáld og tónlistarkennari í Skotlandi og semja þjóðsöng þjóðarinnar. Um tónlistina í jarðarförinni segir Benedikt Gröndal í grein sem birtist í Norðlingi 15. júní 1880: “Eftir þetta var sungið í kirkjunni, söngur eftir Matthías Jochumsson, með fögru lagi, er landshöfðingjafrúin hafði gert; þar sungu stúdentar saman, og frú Ásta Hallgrímsson, kona Tómasar læknis og kand. Steingrímur Johnsen, sitt versið hvort einraddað, og var unaðslegt að heyra fyrir þá, sem heyrt hafa söng í útlöndum.” 

Greinilegt er að mönnum hefur þótt þetta nokkuð framandlegt og jafnvel sérkennilegt. Evrópsk hámenning var ósigldu fólki algerlega framandi og íslensk kirkjutónlist hafði til skamms tíma verið ólík allri annarri tónlist. Þetta lýsir ástandi tónlistarlífs í landinu betur en margt annað. Þorri manna hafði aldrei heyrt evrópska tónlist og vert er að rifja upp að orgel kom fyrst í Dómkirku landsins árið 1840.

Danskir fiðlarar

Þegar kemur fram á 20. öldina fara evrópsk áhrif að verða umtalsverð á öllum sviðum þjóðlífsins. Breytingar á tónlistarlífi þjóðarinnar voru byltingarkenndar svo ekki sé meira sagt. Hátíðir eins og Þjóðhátíðin 1874, Aldamótahátíðin, Konungskomurnar 1907, 1921 og 1926 og Alþingishátíðin 1930 virkuðu hver um sig eins og kröftugar vítamínsprautur á íslenskt tónlistarlíf. Stjórnvöld og ýmis fyrirmenni skynjuðu þörfina á að fagna með stæl, og það þýðir að tónlist þarf að hljóma. Menn vöknuðu upp af Þyrnirósarsvefninum og drifu í að semja tónverk, stofna kóra og hljómsveitir og í framhaldi af því var gjarnan leitað út fyrir landsteinana að góðu og hæfu tónlistarfólki til að styrkja heimamenn og kenna. Þó er ljóst að ekki komu allir tónlistarmenn hingað eingöngu til að styrkja tónlistarflutning á hátíðarstundum. Frá fyrstu árum aldarinnar eru til heimildir um ýmsa menn sem fluttust hingað í þeim tilgangi að spila og kenna á hljóðfæri sín. Þeir fyrstu sem komu voru fiðlarar.

Poul Bernburg Paul O. Bernburg á Austurvelli ásamt félögum árið 1930, sonur hans og nafni er á trommurnar sem kallaðar voru jass á þessum tíma, harmónikkuleikararnir eru Jóhannes Jóhannesson og Toleffsen, Norðmaður sem hér starfaði í stuttan tíma.

Paul O. Bernburg fiðluleikari fluttist ungur til Íslands frá Danmörku, líklega árið 1900 en ekki er  vitað hver tildrög þess voru. Hann kom fyrst að landi á Eskifirði og bjó þar um tíma, en fluttist svo til Akureyrar þar sem hann hafði nokkra viðdvöl. Bernburg fluttist svo til Reykjavíkur 1905 og stofnaði fljótlega hljómsveit sem spilaði á kaffihúsum í bænum, þá fyrstu sinnar tegundar. Hann mun einnig hafa verið í tríói sem spilaði undir kvikmyndasýningum í Gamla bíói þegar mikið lá við en venjulega var aðeins spilað undir á píanó. Poul Bernburg virðist hafa spilað alls staðar þar sem vantaði fiðluleikara og honum bregður fyrir á ýmsum myndum. Hann var sjálfur með hljómsveit sem lék á dansleikjum í Bárubúð –  um 1913 er vitað að hann var með 9 manna hljómsveit þar – og hann spilaði í öllum þeim hljómsveitum sem reynt var að stofna til að spila klassísku tónbókmenntirnar. Í Morgunblaðinu 20. mars árið 1925 eru auglýstir tónleikar í tilefni af 25 ára búsetuafmæli Bernburgs á Íslandi þar sem margvísleg tónlist hefur verið flutt.

Annar danskur fiðluleikari, Oscar Johansen kom hingað árið 1910 og dvaldi hér í nokkur ár við kennslu og samleik. Hann stofnaði hljómsveit sem bar nafn hans og til er virðuleg mynd af hljóðfæraleikurunum á sviðinu í Bárunni, líklega tekin 1912. Þar eru 12 hljóðfæraleikarar, fiðlarar og blásarar og Oscar Johansen fremstur. Báðir þessir menn voru brautryðjendur í flutningi tónlistar evrópskrar kaffihúsatónlistar á Íslandi auk þess sem þeir spiluðu í öllum stærri hljómsveitum sem reynt var að setja á fót. Þeir voru reyndar ekki einu fiðluleikararnir á landinu, örfáir Íslendingar höfðu langt fyrir sig þetta fínlega og vandmeðfarna hljóðfæri en þeir færðu með sér andblæ evrópskrar tónlistar og menningar, bæði þeirrar sem kölluð hefur verið klassísk og ekki síður kaffihúsa- og danstónlist fyrstu ára aldarinnar.

Árið 1921 var stofnuð hér 20 manna hljómsveit af Þórarni Guðmundssyni fiðluleikara í tilefni af konungskomunni og hóað saman öllum hljóðfæraleikurum sem náðist í. Þar spilaði að sjálfsögðu Paul Bernburg. Þessi hljómsveit var vísir að Hljómsveit Reykjavíkur sem síðar var stofnuð. Reyndar var tilvist hennar á nokkrum brauðfótum framan af, hún lifði og lognaðist út af á víxl; peningaleysi háði henni auðvitað og einnig virðist missætti milli hljóðfæraleikaranna hafa átt þar nokkurn hlut að máli. Þrátt fyrir erfitt líf sveitarinnar á fyrstu árum hennar má segja að þessu litla hljómsveit hafi í raun verið fyrsti vísirinn að því sem síðar varð Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Nokkrir Íslendingar héldu til Leipzig í Þýskalandi til tónlistarnáms á öðrum áratug aldarinnar, Páll Ísólfsson árið 1913 og Sigurður Þórðarson og Jón Leifs árið 1916. Páll og Sigurður kom aftur heim og unnu ötullega að tónlistinni hér á landi, Páll varð einn helsti framkvæmdamaður okkar og allt í öllu, en Jón settist að í Þýskalandi og starfaði þar fram að síðari heimsstyrjöldinni. Hann bar hag tónlistarmála á Íslandi mjög fyrir brjósti og stuðlaði að því að hingað komu nokkrir þýskir tónlistarmenn á þriðja áratug aldarinnar.

Kurt Haeser kom til Akureyrar á vegum Tónlistarfélags bæjarins árið 1922, en það félag mun aðeins hafa stafað í eitt ár á þeim tíma. Þetta mun hafa verið fyrir milligöngu Jóns Leifs. Tilgangur þess að fá Kurt Haeser  til Akureyrar var sá að skólastjóra og kennara vantaði við nýstofnaðan Tónlistarskóla bæjarins. Dvöl Kurt Haeser var ekki löng á Akureyri og Tónlistarskólinn var raunar skammlífur í þetta sinn, en var endurreistur í janúar 1946 og hefur starfað óslitið síðan. Haeser hafði áður verið kennari við Tónlistarskólann í Dortmund Þýskalandi og þar áður í Osnabruck. Eftir að hann fluttist í burtu frá landinu, líklega árið 1925, kom hann hingað nokkrum sinnum og hélt þá tónleika, ýmist einn eða með öðrum tónlistarmönnum, síðast líklega árið 1930. 

Þetta sama ár eða 1922 kom hingað annar þýskur maður, Otto Böttcher einnig fyrir milligöngu Jóns Leifs, til að þjálfa Lúðrasveit Reykjavíkur sem stofnuð var upp úr tveimur öðrum sveitum, Hörpunni og Gígjunni. Hann var hér aðeins í tæp tvö ár en hafði samt mikil áhrif þar sem hann tók að sér kennslu í Hljóðfæraskólanum í Reykjavík sem var stofnaður þetta sama ár og varð aðalkennari skólans. Þetta var metnaðarfullur skóli, því þar var kennt á strok- og blásturshljóðfæri, slagverk og píanó. Þótt Böttcher staldraði ekki lengi hér hafði hann ómæld áhrif og virðist hafa komið alls staðar við sögu þar sem tónlistarflutningur var annars vegar. Hann er auk þess fyrsti vel menntaði blásarinn sem kom til landsins og hefur því verið fyrsti kennarinn á slík hljóðfæri hér á landi, fyrir utan Helga Helgason, sem lærði í Kaupmannahöfn í skamman tíma fyrir aldamót.

Árið 1926 kom Fílharmóníuhljómsveit Hamborgar hér við á för sinni um Norðurlöndin og lék undir stjórn Jóns Leifs. Þessi heimsókn hafði mikil áhrif, því þetta var í fyrsta skipti sem flestir tónleikagestirnir heyrðu sinfóníska tónlist sem þar að auki var flutt af úrvals hljóðfæraleikurum þótt hljómsveitin væri ekki fullskipuð. Stuttu eftir þetta var t.d. hætt að nota píanó og harmóníum hjá Hljómsveit Reykjavíkur þar sem þessi hljóðfæri höfðu verið notuð til uppfyllingar í þunnskipaðri hljómsveitinni, en flöttu um leið út hljóminn. Mikil gróska hljóp í allt tónlistarlíf borgarinnar þetta ár. Meðal annars var stofnað Jazzband Reykjavíkur sem skipað var nokkrum ungum mönnum, sem margir hverjir bera erlend nöfn. Hér var hins vegar ekki um innflutta menn að ræða. Í landinu var nokkuð stór stétt kaupmanna og iðnaðarmanna sem höfðu komið frá Danmörku og Noregi; afkomendur þeirra báru áfram nöfn feðra sinna en hljóta að teljast Íslendingar að öðru leyti. Svona var liðskipanin í Jazzbandinu:

„...þrír Danir eða danskættaðir piltar, tveir þeirra uppaldir í Lúðrasveit Reykjavíkur, þrír reykvískir blásarar, einn úr L.R., og einn Norðmaður, Axel Wolf á trommur. Hr. Fredriksen, bróðir Fredriksens slátrara og kjötkaupmanns, lék á túbu, Holger Nilsen spilaði á fiðlu og Aage Lorange, sonur apótekarans í Sykkishólmi, á píanó.“

Árið 1928 var ungur sellóleikari ráðinn til stuttrar starfsdvalar í hótelhljómsveit í Reykjavík. Þetta var Fritz Weisshappel, sem kom hingað til lands aðeins 19 ára gamall. Hann er nú mun betur þekktur sem píanóleikari, enda tók hann fljótlega að einbeita sér að því hljóðfæri. Hann ílentist hér, spilaði undir hjá söngvurum og kórum og varð fljótlega einn mikilvirkasti og ástsælasti meðleikari íslenskra söngvara og kóra um langt árabil. Til er ótrúlegur fjöldi af upptökum, bæði hjá útvarpinu og útgefinn á plötum þar sem hann er við píanóið. Hann tók við störfum af Emil Thoroddsen sem píanóleikari við Ríkisútvarpið árið 1939, en hafði í tvö ár þar á undan oft leyst Emil af þar sem hann glímdi við veikindi. Eftir að hann var fastsráðinn við útvarpið má segja að hann hafi spilað með þorranum af íslenskum einsöngvurum og ófá skiptin sem kynningin: “og það er Fritz Weisshappel sem leikur undir á píanó” hefur hljómað í gegnum árin. Hann var auk þess meðleikari með Karlakór Reykjavíkur um árabil og ferðaðist víða með einsöngvurum jafnt sem kórnum. Þegar Ríkisútvarpið tók aftur við rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1960, tók hann við framkvæmdastjórninni. Fritz Weisshappel lést í Reykjavík árið 1964 og hafði þá búið hér allan sinn starfsaldur og eignast hér fjölskyldu.

Franz Mixa og áhrif hans

Þegar árið 1930 nálgaðist og undirbúningur Alþingishátíðarinnar fór af stað tók íslenskt tónlistarlíf annan kipp. Sigfús Einarsson sem stjórnað hafði Hljómsveit Reykjavíkur var skipaður söngmálastjóri hátíðarinnar. Hann hætti þá sem hljómsveitarstjóri og þurfti því að finna mann til að fylla það skarð. Hljómsveitin sjálf hafði frumkvæði að því að fá hingað tékkneskan prófessor, Jóhannes Velden að nafni, til að halda námskeið fyrir hana. Þetta var árið 1928. Hann átti upphaflega aðeins að vera hér í stuttan tíma, en var hér allt fram á vordaga árið 1929. Eitthvað gekk honum brösulega að hafa stjórn á íslensku hljóðfæraleikurunum, enda voru þeir fæstir vanir þeim járnaga sem evrópskir tónlistarmenn venjast frá barnæsku. Hann hélt því af landi brott, en maður kemur í mannst stað.

Sumarið 1929 fór af stað merkileg keðja atburða sem áttu eftir að setja mark sitt á íslenskt tónlistarlíf langt fram í tímann. Þingvallakórinn sem stofnaður var til að sjá um allan kórsöng á Alþingishátíðinni árið eftir, brá sér í söngför til Kaupmannahafnar á norrænt söngmót. Það var mikill hugur í þessu fólki og velgengni kórsins ótrúleg miðað við skamman æfingatíma og almennt ástand tónlistarmála á Íslandi. Sigfús Einarsson var kórstjóri. Hann notaði tækifærið fyrst hann var kominn til Evrópu og skrapp til Vínarborgar að reka ýmis erindi fyrir Alþingishátíðina. Þar komst hann í kynni við hið fræga óperettutónskáld Franz Lehár, og bað hann um að benda sér á mann sem gæti komið til Íslands og stjórnað hljómsveit á hátíðinni sumarið eftir. Lehár kynnti hann fyrir Franz Mixa.  Mixa kom til landsins strax þá um haustið, í nóvember 1929, og bjó hér og starfaði næstu níu árin. Hann æfði hljómsveitina og stjórnaði henni á hátíðinni, en tók í framhaldi af því virkan þátt í öllu tónlistarlífi Reykjavíkur, kenndi við Tónlistarskóla Reykjavíkur bæði á píanó og tónfræðigreinar, og hóf með því að ala upp nýja kynslóð tónlistarmanna. Auk þess hafði hann milligöngu um hingaðkomu margra mætra manna sem sumir hverjir settust hér að og hafa verið hér allan sinn starfsaldur. Franz Mixa fór aftur út til Vínarborgar árið 1938, en hélt áfram að senda hingað frábæra tónlistarmenn.

Karl Heller fiðluleikari og dr. Friedrich Fleischmann sellóleikari komu hingað strax árið 1930 gagngert til að kenna við nýstofnaðan Tónlistarskóla í Reykjavík, ráðnir til þess af Franz Mixa. Hans Stephanek, fiðluleikari kom hingað árið 1931, einnig fyrir tilstuðlan Franz Mixa, til að kenna við Tónlistarskólann. Stephanek var meðal annars kennari Björns Ólafssonar sem var konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands til margra ára. Björn fór síðar í framhaldsnám til Vínarborgar og bauðst raunar góð staða þar. Það gerðist haustið 1939, rétt áður en stríðið braust út þannig að ekkert varð úr þeim áformum, mér liggur við að segja til allrar hamingju fyrir íslenskt tónlistarlíf um áratugaskeið, því Björn kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík í mörg ár auk þess að gegna konsertmeistarastöðunni og var meðal annars aðalkennari Guðnýjar Guðmundsdóttur, núverandi konsertmeistara.

Auk þess má nefna Joseph Felzmann, fiðluleikara og Carl Billich, píanóleikara sem komu líka frá Austurríki fyrir tilstuðlan Franz Mixa árið 1933. Þeir voru æskuvinir og höfðu hafið tónlistarnám sitt saman. Þeir ákváðu að koma hingað saman og voru ráðnir til að spila í Vínartríói á Hótel Íslandi. Þar spiluðu þeir í þrjú ár, þótt upphaflega hafi aðeins verið ætlunin að stoppa stutt. Þeir voru vel menntaðir tónlistarmenn og voru fljótlega farnir að spila útum allt. Báðir störfuðu þeir hér alla tíð og hér létust þeir, Josef Felzmann árið 1976 og Carl Billich árið 1989. Ekki var dvölin þó samfelld, því báðir eyddu þeir stríðsárunum í Evrópu. Josef Felzmann brá sér til Austurríkis með unnustu sinni árið 1938 og þar giftu þau sig. Hann komst ekki aftur til Íslands því hann var kvaddur í herinn og þurfti að gegna herþjónustu. Carl Billich var hins vegar tekinn höndum árið 1940 af breskum heryfirvöldum hér og sendur í fangabúðir fyrir engar sakir aðrar en uppruna sinn, líkt og nokkrir aðrir þýskir og austurrískir menn hér á landi. Hann komst ekki aftur til baka fyrr en árið 1947, og átti það ekki síst að þakka snöfurmannlegri framgöngu konu sinnar, Þuríðar Billich. Carl Billich lék með mörgum kvartettum hér – þjálfaði meðal annars M.A. kvartettinn ástsæla og útsetti fyrir hann – og var kór- og hljómsveitarstjóri Þjóðleikhússins frá árinu 1964 til ársins 1981. Hann varð að auki þess heiðurs aðnjótandi að fá fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu tónlistar á Íslandi. Felzmann var ekki síður fjölhæfur, hann spilaðið í Sinfóníuhljómsveitinni frá stofnun hennar og var auk þess með danshljómsveit sem meðal annars spilaði oft með Alfreð Clausen. Hann gat auk fiðlunnar gripið í saxófón. Fjölhæfir menn eins og hann voru ekki sjaldgæfir hér á landi á þessum tíma, og mjög margir klassískir hljóðfæraleikarar áttu það til að breytast fyrirvaralaust í djassleikara. Fiðluleikarar gripu saxófóninn eða eitthvað annað hreinræktað djasshljóðfæri og léku á Hótel Íslandi eða Borginni fyrir dansi á kvöldin þegar ekki voru tónleikar hjá Hljómsveit Reykjavíkur og síðar Sinfóníuhljómsveitinni. Það voru reyndar bæði erlendir og innlendir tónlistarmenn sem sýndu þessa fjölhæfni, enda þeir innlendu ekki óvanir því að þurfa að grípa í önnur hljóðfæri en þessi venjulegu, bæði vegna manneklu en þó ekki síður af einskærum áhuga.

Í grein II verður aðdragandi stríðsáranna skoðaður og þau beinu áhrif sem nasisminn hafði á íslenskt tónlistarlíf.

Höfundur lauk BA-prófi í tónlistarfræði frá LHÍ vorið 2005 og starfara í Ríkisútvarpinu.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 14. apríl 2007.


Heimildir

  • Benedikt Gröndal: Jarðarför Jóns Sigurðssonar. Ritsafn III.  Reykjavík 1950. Bls 336-342.
  • Bjarki Bjarnason: Tónlist og tónlistarmenn á Íslandi,  Sinfóníuhljómsveit Íslands, Reykjavík: Sögusteinn, 2000.

  • Bjarki Sveinbjörnsson: Tónlist á Íslandi á 20. öld: Árin 1920-30; http://www.ismennt.is/not/bjarki/Phd/Sidur/1-10.html

  • Félag íslenzkra hljómlistarmanna 50 ára, Tónamál, nr. 15, Reykjavík: 1982.
  • Magnús Már Lárusson. “Þróun íslenzkrar kirkjutónlistar”. Kirkjuritið 20/2 (1954) 67-81. Endurprentað í Fróðleiksþættir og sögubrot. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1967, 79-94.

  • Úr gagnasafni Morgunblaðsins:
    • Morgunbl. 1. feb. 1964 - Minningargreinar um Fritz Weisshappel.
    • Morgunbl. 6. feb. 1964 - Minningarorð um Fritz Weisshappel.
    • Morgunbl. 28. des. 1976 – Minningargreinar um Josef Felzmann.
    • Morgunbl. 1. nóv. 1989 – Minningargreinar um Carl Billich.
    • Morgunbl. 31. okt. 1989 – Minningargreinar um Carl Billich.
  • Njáll Sigurðsson,  „Kirkjusöngur í kjölfar siðaskipta“, Kristni á Íslandi III, (Reykjavík: Alþingi, 2000); „Söngkennsla í latínuskólum“, Kristni á Íslandi III,(Reykjavík: Alþingi, 2000).
  • Páll Kr. Pálsson:  Tónlistarsaga, ágrip. Hafnarfjörður, 1983.
  • Gunnar Egilsson: Saga Sinfóníuhljómsveitarinnar: sjá vef hljómsveitarinnar; http://sinfonia.is/default.asp?page_id=2047

  • Gunnar Stefánsson: Útvarp Reykjavík, Saga Ríkisútvarpsins 1930-1960. Reykjavík: Sögufélag 1997.

 ©  2007  Músa