Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 19. okt. 2008
Brjáluð listgrein... nokkrar hugleiðingar

Elísabet Indra Ragnarsdóttir

Elísabet Indra Ragnarsdóttir
i

Á býsna innblásandi tilraunamaraþoni Listahátíðar í Reykjavík í maí síðastliðnum var eitt eftirminnilegasta atriðið tvímælalaust í boði enska listamannsins Brians Eno. Þetta var á mildum sunnudagsmorgni í maíbyrjun í Hafnarhúsinu – og  í þann mund sem kirkjuklukkur Dómkirkjunnar tóku að hringja inn sunnudagsmessuna og Dómkórinn að koma sér fyrir á kirkjuloftinu hófu andaktugir gestir Hafnarhússins upp raustir sínar í fjöldasöng sem hann Brian Eno leiddi ásamt með nokkrum forsöngvurum. Söngurinn var lágvær og seiðandi, og öll þekktum við lagið hans Elvisar Presley sem við rauluðum svo ofurlágt og hver með sínu nefi.

 

Wise men say only fools rush in
but I can't help falling in love with you
Shall I stay
would it be a sin

If I can't help falling in love with you...

Flóknari var gjörningurinn hans Brian Eno ekki og áður en söngurinn tók að óma hafði þessi heimsfrægi hljóðmeistari vikið nokkrum velvöldum orðum að stöðu tónlistar og söngiðkunar innan enska skólakerfisins sem er afar bágborin sagði hann. Brian Eno lagði til að músíkiðkun yrði margfölduð í enskum skólum með þeim skilyrðum þó að ekki væri prófað úr henni. „Próf eru að leggja enska menntakerfið í rúst” sagði hann áður en hann taldi í Presleyslagarann og bað viðstadda vinsamlega um að reyna að syngja með hjartanu. Kredduhugmyndir um réttan og rangan söngstíl væru ekki hátt skrifaðar í þessu samkvæmi!

 hugleiðingum um vísindi og listir, vídeólist, söng… Orðræðan var sem sagt ekki drottning dagsins eins og svo oft vill verða á samkundum sem þessum og krafturinn sem skapaðist af því að leiða saman fólk úr ólíkum geirum var hrífandi. Erfitt er að tala um niðurstöðu af slíku ferðalagi en úr varð einhver sérkennilegur núningur sem á örugglega eftir að gerjast í viðstöddum næstu árin.

ii

Svipaðar hugmyndir um samruna eru uppi á teningnum á árlegum ráðstefnum hinna bandarísku TED samtaka sem haldnar eru vestur í Monterey í Kaliforníu [Sjá hér ítarlegra myndskeið með Sir Ken Robinson]. Þar stíga fram heimsþekktir einstaklingar úr heimum vísinda, lista, hönnunar, fræða og viðskipta svo eitthvað sé nefnt og deila með ráðstefnugestum hugmyndum sínum og vangaveltum í formi fyrirlestra, tónverka, dans, leiklistar, upplesturs, ljósmynda, samræðna. Spennandi tengingar verða á milli margvíslegustu viðfangsefna með þessu móti og yfir vötnum svífur meðvitund um það að manneskjan tjáir sig á alls konar hátt og að enginn tjáningarmáti sé rétthærri en annar.

Á einni slíkri ráðstefnu fyrir nokkrum árum kom einmitt fram annar breskur baráttumaður fyrir betra menntakerfi, Ken Robinson að nafni, og  hélt afar hressandi hugvekju um stöðu skapandi hugsunar innan skólans. Ræða Robinson, sem hefur í kjölfarið flogið víða um heim, þökk sé veraldarvefnum, fól í sér ögrandi spurningar um hvort skólinn drepi sköpunargáfuna. „Öll fæðumst við ólgandi af sköpunarkrafti“ sagði Robinson og vitnaði um leið í fleyg orð Pablo Picasso sem ku hafa sagt að öll börn væru listamenn. Vandinn væri að halda áfram að næra og rækta þann listamann þegar fram í sækti. Ken Robinson talar sum sé um úrelt skólakerfi sem fæðst hafi upp úr iðnbyltingu 19. aldarinnar sem miðaði að því að framleiða vinnufúsar hendur og samstilltan hóp. Atvinnulífið hafi kollvarpast á 200 árum; hugvit og sköpunarmáttur skipi æ ríkari sess í hvaða geira atvinnulífsins sem er en samt séu þeir eiginleikar enn ekki metnir til fullnustu í grunnmenntun barna þar sem miðað sé að einsleitni í stað einstaklingseðlis. Enn sé  lögð ofuráhersla á akademíska færni og bóklegt nám á sama tíma og við vitum að greind mannsins er fjölþætt, skynjun hans og tjáning á heiminum svo ótrúlega margvísleg og nær til alls kyns þátta. Og afleiðingar þessa samræmda menntakerfis og þröngu viðmiða um greind séu þær að út um allt fyrirfinnist frábærlega hæfir og skapandi einstaklingar með ótrúlega hæfileika sem hafi litla trú á sjálfum sér vegna þess að skólinn hafi ekki metið þá hæfni sem þeir höfðu yfir að búa.

Ken Robinson hefur raunar barist ötullega fyrir því um nokkurt skeið að skapandi hugsun hljóti tilhlýðilegan sess innan skólakerfisins og beitt til þess margvíslegum leiðum í ræðu og riti. Bók hans Out of our minds sem út kom fyrir nokkrum árum er frábær skemmtilesning og fróðleg í ofanálag þar sem hann talar vítt og breitt um sitt helsta hugðarefni, sköpunargáfuna og þversögnina sem felst í því að flestum börnum finnist þau uppfull af sköpunarmætti en fullorðnu fólki ekki. „Hvað gerist þarna á leiðinni?” spyr Robinson.  Í áðurnefndum fyrirlestri staðhæfir hann að sköpun eigi að njóta sömu virðingar og læsi enda siglum við nú inn í algerlega óþekkta tíma þar sem heimurinn breytist á ógnarhraða og enginn sjái fyrir endann á þeim breytingum öllum. Það sé því beinlínis þjóðhagslega lífsnauðsynlegt að búa einstaklinga undir þessar miklu hræringar með því að efla frumkvæði og framsýni, hjálpa þeim til að hugsa út fyrir rammann, sjá að það eru alls konar leiðir til að settu marki og hið setta mark getur líka tekið algerum stakkaskiptum ef því er að skipta.

iii

Ken Robinson er ekki einn um þessa skoðun eins og við vitum og núna á undanförnum árum heyrum við æ oftar talað um mikilvægi hugvits og sköpunarkrafts í síbreytilegum heimi. Sjálf hef ég haft nokkurn pata af því skapandi starfi sem fram fer í íslenskum skólum í gegnum vinnuna mína hér í Ríkisútvarpinu en síðastliðinn vetur sá ég um vikulega útvarpsþætti á Rás 1 sem fjölluðu fyrst og fremst um skapandi starf með börnum og ungu fólki; sköpunarverk ungs fólks og hvernig hlúð væri að sköpunarkraftinum innan skólakerfisins. Þátturinn heitir Stjörnukíkir og verður aftur á dagskrá Rásar 1 í vetur. Þetta var sérdeilis ánægjuleg vinna og gaman að finna fyrir sprengikraftinum sem er til staðar svo víða í íslenskum skólum á öllum skólastigum. Í þáttunum komu fram arkitektar og eðlisfræðingar, myndlistarmenn og ljóðskáld, heimspekingar og leikarar, stærðfræðingar og tónlistarmenn sem stunda ýmiss konar tilraunamennsku með nemendum sínum, í gegnum samræður, stærðfræðiþrautir,músíkspuna, hitaloftbelgjagerð, leikræna tjáningu...  Tjáningin er margvísleg og einstaklingseðlið hyllt. Námið á sér  stað í gegnum uppgötvun nemandans og skynjun hans á heiminum og það hjálpar honum til að kynnast sjálfum sér, sérstöðu sinni og styrkleikum, nýta sér ímyndunarafl sitt og innsæi.

Það væri sem sagt fljótlegt að svara áleitinni spurningu Ken Robinson neitandi eftir þessar heimsóknir. Skólar drepa svo sannarlega ekki sköpunargáfuna.

Og þó!

Það er nefnilega líka nokkuð ljóst að þótt víða fari fram magnað starf innan íslenskra skóla eiga skapandi starf og skapandi hugsun undir högg að sækja þegar kemur að því að vega og meta skólastarf. Allt tal um frammistöðu nemenda og skóla virðist, þegar öllu er á botninn hvolft,  svo allt of oft taka mið af Pisa-könnunum og samræmdum prófum. Öll þessi dýrmæta vinna sem fer fram með ungu fólki skiptir engu máli í því samhengi öllu. Þá er ekki spurt um innsæi og ímyndunarafl, dirfsku og frumkvæði, áhuga og siðferði heldur er svo iðulega verið að leita eftir einu niðurnjörvuðu svari.  Í bókmenntahluta samræmds prófs í íslensku er meira að segja ennþá spurt út úr ljóðum og merkingu þeirra með krossaspurningum.  Nemandi fær sem sagt rétt eða rangt fyrir skilning sinn á ljóði! Þar skiptir engu máli hvort nemandinn sé ástríðufullur ljóðaunnandi og/ eða  ljóðskáld með ótrúlegt næmi og tilfinningu fyrir skáldskap. Nei – í þessum skrýtna heimi er hægt að segja að merking ljóðsins sé a – en alls ekki b,c eða d. Aðrir möguleikar eru svo ekki fyrir hendi.

Ég held að við þurfum að fara að huga meira að ferðalögum en lokapunkti, leyfa okkur að verða uppteknari  af því ómælanlega og ósegjanlega; gera tilraunir þótt við vitum ekki alveg hvert þær leiði okkur; fara ekki á taugum yfir því þótt afrakstur sé ekki endilega mælanlegur eða áþreifanlegur. Raula með hjartanu og hætta að hugsa um þessar réttu og röngu leiðir sem við ímyndum okkur að séu til að öllum sköpuðum hlutum. Núna blómstrar skapandi starf svo ótrúlega víða í skólum og á örugglega eftir að margfaldast á næstu árum – það á skilið sinn réttháa sess hjá íslenskum skólayfirvöldum.

 

Lestu ljóðið hér að neðan og svaraðu svo spurningunum úr því.*

Augu þín eru kort af himnaríki...

Ég styð á receive alltaf annað slagið
og óska þess að svarið frá þér berist.
Ég bíð og vona, bíð en ekkert gerist.
Ég bið til Drottins upp á gamla lagið.

Því fátt ég meira þrái en þögul orðin
í þyrpingu á miðjum tölvuskjánum
(því ástin gerir alla menn að kjánum,
af elsku svigna hugarveisluborðin).

Ég sakna meira en orða augna þinna;
þín augu eru kort af Himnaríki
sem Guð dró sjálfur upp í ástarsýki
og enginn mátti nokkurn tíma finna.

Æ, leyfðu mér að leita í auga þínu
að leiðinni að Himnaríki mínu.

(Sigtryggur Magnason, 2001, ljóð ungra skálda, bls. 68)

Hvert er megininntak ljóðsins?

  • Enginn talar við hann.

  • Grafarþögn er umhverfis hann.

  • Ljóðmælandanum er orða vant.

  • Ljóðmælandinn fær ekkert svar.

*Úr samræmdu lokaprófi í 10. bekk í íslensku vorið 2008




Höfundur er dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu, Rás 1.

Greinin birtist fyrst Skólavörðunni, málgagni Kennarasambands Íslands, 5. tbl., 8. árg., sept. 2008.


 ©  2008  Músa