|
Brjáluð listgrein... nokkrar hugleiðingar Elísabet Indra Ragnarsdóttir Á býsna innblásandi tilraunamaraþoni Listahátíðar í Reykjavík í maí síðastliðnum var eitt eftirminnilegasta atriðið tvímælalaust í boði enska listamannsins Brians Eno. Þetta var á mildum sunnudagsmorgni í maíbyrjun í Hafnarhúsinu – og í þann mund sem kirkjuklukkur Dómkirkjunnar tóku að hringja inn sunnudagsmessuna og Dómkórinn að koma sér fyrir á kirkjuloftinu hófu andaktugir gestir Hafnarhússins upp raustir sínar í fjöldasöng sem hann Brian Eno leiddi ásamt með nokkrum forsöngvurum. Söngurinn var lágvær og seiðandi, og öll þekktum við lagið hans Elvisar Presley sem við rauluðum svo ofurlágt og hver með sínu nefi.
Flóknari var gjörningurinn hans Brian Eno ekki og áður en söngurinn tók að óma hafði þessi heimsfrægi hljóðmeistari vikið nokkrum velvöldum orðum að stöðu tónlistar og söngiðkunar innan enska skólakerfisins sem er afar bágborin sagði hann. Brian Eno lagði til að músíkiðkun yrði margfölduð í enskum skólum með þeim skilyrðum þó að ekki væri prófað úr henni. „Próf eru að leggja enska menntakerfið í rúst” sagði hann áður en hann taldi í Presleyslagarann og bað viðstadda vinsamlega um að reyna að syngja með hjartanu. Kredduhugmyndir um réttan og rangan söngstíl væru ekki hátt skrifaðar í þessu samkvæmi! hugleiðingum um vísindi og listir, vídeólist, söng… Orðræðan var sem sagt ekki drottning dagsins eins og svo oft vill verða á samkundum sem þessum og krafturinn sem skapaðist af því að leiða saman fólk úr ólíkum geirum var hrífandi. Erfitt er að tala um niðurstöðu af slíku ferðalagi en úr varð einhver sérkennilegur núningur sem á örugglega eftir að gerjast í viðstöddum næstu árin. ii Svipaðar hugmyndir um samruna eru uppi á teningnum á árlegum ráðstefnum hinna bandarísku TED samtaka sem haldnar eru vestur í Monterey í Kaliforníu [Sjá hér ítarlegra myndskeið með Sir Ken Robinson]. Þar stíga fram heimsþekktir einstaklingar úr heimum vísinda, lista, hönnunar, fræða og viðskipta svo eitthvað sé nefnt og deila með ráðstefnugestum hugmyndum sínum og vangaveltum í formi fyrirlestra, tónverka, dans, leiklistar, upplesturs, ljósmynda, samræðna. Spennandi tengingar verða á milli margvíslegustu viðfangsefna með þessu móti og yfir vötnum svífur meðvitund um það að manneskjan tjáir sig á alls konar hátt og að enginn tjáningarmáti sé rétthærri en annar. Ken Robinson er ekki einn um þessa skoðun eins og við vitum og núna á undanförnum árum heyrum við æ oftar talað um mikilvægi hugvits og sköpunarkrafts í síbreytilegum heimi. Sjálf hef ég haft nokkurn pata af því skapandi starfi sem fram fer í íslenskum skólum í gegnum vinnuna mína hér í Ríkisútvarpinu en síðastliðinn vetur sá ég um vikulega útvarpsþætti á Rás 1 sem fjölluðu fyrst og fremst um skapandi starf með börnum og ungu fólki; sköpunarverk ungs fólks og hvernig hlúð væri að sköpunarkraftinum innan skólakerfisins. Þátturinn heitir Stjörnukíkir og verður aftur á dagskrá Rásar 1 í vetur. Þetta var sérdeilis ánægjuleg vinna og gaman að finna fyrir sprengikraftinum sem er til staðar svo víða í íslenskum skólum á öllum skólastigum. Í þáttunum komu fram arkitektar og eðlisfræðingar, myndlistarmenn og ljóðskáld, heimspekingar og leikarar, stærðfræðingar og tónlistarmenn sem stunda ýmiss konar tilraunamennsku með nemendum sínum, í gegnum samræður, stærðfræðiþrautir,músíkspuna, hitaloftbelgjagerð, leikræna tjáningu... Tjáningin er margvísleg og einstaklingseðlið hyllt. Námið á sér stað í gegnum uppgötvun nemandans og skynjun hans á heiminum og það hjálpar honum til að kynnast sjálfum sér, sérstöðu sinni og styrkleikum, nýta sér ímyndunarafl sitt og innsæi. Það er nefnilega líka nokkuð ljóst að þótt víða fari fram magnað starf innan íslenskra skóla eiga skapandi starf og skapandi hugsun undir högg að sækja þegar kemur að því að vega og meta skólastarf. Allt tal um frammistöðu nemenda og skóla virðist, þegar öllu er á botninn hvolft, svo allt of oft taka mið af Pisa-könnunum og samræmdum prófum. Öll þessi dýrmæta vinna sem fer fram með ungu fólki skiptir engu máli í því samhengi öllu. Þá er ekki spurt um innsæi og ímyndunarafl, dirfsku og frumkvæði, áhuga og siðferði heldur er svo iðulega verið að leita eftir einu niðurnjörvuðu svari. Í bókmenntahluta samræmds prófs í íslensku er meira að segja ennþá spurt út úr ljóðum og merkingu þeirra með krossaspurningum. Nemandi fær sem sagt rétt eða rangt fyrir skilning sinn á ljóði! Þar skiptir engu máli hvort nemandinn sé ástríðufullur ljóðaunnandi og/ eða ljóðskáld með ótrúlegt næmi og tilfinningu fyrir skáldskap. Nei – í þessum skrýtna heimi er hægt að segja að merking ljóðsins sé a – en alls ekki b,c eða d. Aðrir möguleikar eru svo ekki fyrir hendi. Ég held að við þurfum að fara að huga meira að ferðalögum en lokapunkti, leyfa okkur að verða uppteknari af því ómælanlega og ósegjanlega; gera tilraunir þótt við vitum ekki alveg hvert þær leiði okkur; fara ekki á taugum yfir því þótt afrakstur sé ekki endilega mælanlegur eða áþreifanlegur. Raula með hjartanu og hætta að hugsa um þessar réttu og röngu leiðir sem við ímyndum okkur að séu til að öllum sköpuðum hlutum. Núna blómstrar skapandi starf svo ótrúlega víða í skólum og á örugglega eftir að margfaldast á næstu árum – það á skilið sinn réttháa sess hjá íslenskum skólayfirvöldum.
|
|