Um Jónasarlögin
Atli Heimir Sveinsson
Ég hitti nýlega Pál Bergþórsson, hinn aldna veðurfræðing og ljóðaunnanda. Páll sagði: Jónas Hallgrímsson er alltaf að batna.
Mér finnst æ meir til Jónasar koma. Hann vinnur sífellt á við nánari kynni. Það er galdur góðra bókmennta.
Ég var lengi vel feiminn við að semja tónlist við ljóð Jónasar. Þau eru svo fullkomin að engu þarf við að bæta. Tónlist getur þá aðeins truflað og ruglað. Það var Bríet Héðinsdóttir, leikkona með meiru, sem fékk mig til að semja Jónasarlögin.
Hún sýndi mér drög að leikverki, sem hún kallaði Leggur og skel, fyrir fámennan hóp flytjenda. Hugmynd hennar var að verkið yrði flutt í skólum, til að kynna ungu fólki ljóð Jónasar. Sýningin skyldi vera ein kennslustund að lengd. „Og hafðu lögin einföld, Atli minn, svo krakkarnir læri þau strax. Þú getur þetta vel!“ sagði Bríet.
Um svipað leyti bað Hörður Áskelsson, kantor Hallgrímskirkju, mig að tónsetja kvæði Jónasar Festingin víða, hrein og há, sem er þýðing á kvæði enska skáldsins Josephs Addisons. Gott ef það varð ekki fyrsta Jónasarlagið.
En um líkt leyti fór ég til Bríetar með fyrstu lögin og mig minnir að þau hafi verið Úr Hulduljóðum (Smávinir fagrir, foldarskart...), Vorið góða, grænt og hlýtt og Dalvísa (Fífilbrekka! Gróin grund!).
Ég ákvað að semja í „gömlum stíl“, hafa lögin alþýðleg, einföld og rómantísk; einhvers staðar á milli Schuberts og Sigvalda Kaldalóns.
Reyndi að endurspegla hugblæ ljóðanna í laglínunni.
Ég samdi fyrir píanó, hugsaði mér að gera undirleik og hljóðfæraútsetningu síðar, hvað ég og gerði.
Bríeti leist prýðilega á lögin, en hún var mjög músíkölsk og vel að sér í tónlist. Hún hvatti mig til að semja fleiri lög.
Ekki gekk vel að „markaðssetja“ hugmyndina. Alls konar stjórar vísuðu okkur kurteislega á bug; höfðu pottþéttar afsakanir á reiðum höndum, sögðu okkur að koma síðar, í haust eða á næsta ári.
Vildu, sem sagt, lítið hafa með okkur að gera.
Á næstu árum bættust fleiri lög í safnið. Sumt var eins konar vinaspegill: ég sendi stundum vinum mínum og ættingjum lítið lag á góðri stund.
En ekkert varð af leiksýningunni.
Og svo lést Bríet, langt um aldur fram.
Einhvern veginn komst Sigurður Ingvi Snorrason klarinettsnillingur, gamall vinur minn, að þessari lagasmíð. Sigurður vildi fá Jónasarlögin útsett fyrir klarinett, fiðlu, píanó og kontrabassa, og var þá komin „die Wiener Besetzung“; algeng hljóðfærasamsetning þar, á betri kaffihúsum í denntíð.
Ég brá mér, að haustlagi, vestur í Flatey, ásamt Auðuni syni mínum, sem þá var að lesa undir háskólapróf. Við dvöldum tveir einir í húsi afa míns og ömmu í rúma viku; hann við lestur stjórnmálafræðigreina og ég við útsetningar og raddskriftir.
Jónasarlögin voru frumflutt á sumarkvöldi árið 1996 í Skarðskirkju í Landsveit við hjarta landsins okkar. Þar var leikið af mikilli list: Sigurður á klarinettinn, Sigurlaug Eðvaldsdóttir á fiðlu, Anna Guðný Guðmundsdóttir á píanó og Hávarður Tryggvason á kontrabassa. Og svo söng Signý Sæmundsdóttir yndislega. Hún flutti þessi litlu lög (raddsviðið fer tæpast yfir áttund) tilgerðarlaust, með einstakri hlýju í röddinni og einlægni hjartans, sem sló fegurðarbjarma á háa og tæra sópranrödd hennar. Túlkun hennar hefur mótað allan flutning þessara laga síðan.
Á næstu árum voru lögin víða flutt, og var Halldór Blöndal, gamall vinur minn, þar haukur í horni. Halldór er mikill aðdáandi Jónasar og kunnáttumaður á skáldskap hans. Heldur því raunar fram að Jónas yrki á „norðlensku“ og „eyfirsku“! Lögin voru m.a. flutt í Bakkakirkju í Öxnadal, en þar fæddist Jónas.
Lögin voru hljóðrituð; Mál og menning gaf út geisladisk sem fyrir löngu er uppseldur. Svo mun einnig vera með nótnaheftin sem líka birtust hjá Máli og menningu, annað fyrir söngrödd með píanóundirleik, og hitt fyrir byrjendur með smáar hendur.
Margir urðu til þess að flytja þessi lög í ýmsum búningi, Hamrahlíðarkórinn og fyrir kóramót 500 norrænna barna settum við Marteinn H. Friðriksson dómorganisti út nokkur laganna fyrir barnakór með sinfóníuhljómsveit.
Og þá er fátt eitt upp talið.
Nú hefur verið gerð önnur hljóðritun að nokkru með nýjum liðsmönnum. Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari leikur á fiðluna og tveir söngvarar skipta á milli sín lögunum, Hulda Björk Garðarsdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson.
Og nokkur ný lög hafa bæst við í safnið – eftirhreytur af ýmsu tilefni, svo nú eru lögin 26 að tölu.
Í bæklingi fyrsta geisladisksins ritaði ég nokkur orð um Jónas. Þar er meðal annars þetta að finna:
...Hann (Jónas) er hinn íslenski Púskín, Heine og Robert Burns í einni persónu. Hann er merkasta ljóðskáld okkar á 19. öld og einn merkasti höfundurinn í íslenskum bókmenntum gjörvöllum. Hann jafnast á við skáldið Egil Skallagrímsson á 10. öld, Snorra Sturluson á 13. öld, Hallgrím Pétursson á 17. öld og Halldór Laxness á þeirri tuttugustu.
Jónas hafði áhrif á öll íslensk ljóðskáld sem á eftir honum komu og hefur enn mikil áhrif. Hann yrkir á alþýðlegu máli sveitamanna á 19. öld sem er einhver sú fegursta íslenska sem um getur. Hann er einna vinsælastur allra íslenskra skálda. Kvæði hans eru meðal þess fyrsta sem íslensk æska lærir af skáldskap og hann höfðar jafnt til barna sem fullorðinna.
Hann er helsti boðberi rómantísku stefnunnar í íslenskum bókmenntum og jafnframt frumkvöðull málhreinsunarstefnunnar.
Hann stundaði nám í Bessastaðaskóla hjá Sveinbirni Egilssyni rektor, skáldinu sem þýddi Hómerskviður á gullaldarmál og hóf forna bragarhætti Eddunnar til vegs og virðingar á ný.
Jónas hleypti nýjum straumum frá Evrópu samtímans inn í íslenskar bókmenntir, auk þess sem hann hreinsaði og endurlífgaði forna bragarhætti og lagaði þá að rómantískri hugsun.
Heinrich Heine var uppáhaldsskáld Jónasar. Hann þýddi og staðfærði kvæði Heines svo vel að Íslendingar telja þau íslenskan skáldskap. Mörg íslensk skáld hafa seinna reynt að þýða Heine en engum tekist eins vel og Jónasi. Hann mótaðist þannig af tveimur meginstraumum: íslenskum fornbókmenntum og rómantík samtímans.
Jónas var náttúruvísindamaður og skáld og dvaldi löngum í Kaupmannahöfn við nám og störf. Þar var hann evrópskur menntamaður, sálufélagi Goethes og Schillers, en jafnframt var hann alltaf norðlenskur sveitapiltur. Hann var glöggskyggn á samtímabókmenntir og var með þeim fyrstu sem þýddu og staðfærðu verk H.C. Andersens.
Jónas sá Ísland úr fjarlægð en hún skerpti sýn hans á íslensk sérkenni og efldi þjóðernisvitund hans. Hann barðist á móti lágkúru og stöðnun í íslenskum bókmenntum og ritaði hárbeitta ádeilugrein sem enn er umdeild. Og upphaf íslenskrar sjálfstæðisbaráttu, sem náði hámarki með stofnun íslensks lýðveldis á Þingvöllum árið 1944, er að finna í ættjarðar- og hvatningarkvæðum hans.
Kvæði Jónasar eru einföld en þau leyna á sér og eru gerð af mikilli kunnáttu og óbrigðulum smekk. Þau eru einlæg, elskuleg, tregablandin en væmnislaus. Jónas var óvanalegur rómantíker því tími hans er sólbjartur dagur fremur en dimm nótt og einnig er hann mjög jarðbundinn. Það er nær ómögulegt að skilgreina hann eða flokka.
Jónas einn hefur verið kallaður „listaskáldið góða“ af samlöndum sínum. Það er erfitt að þýða ljóð hans á önnur mál, líklega ógerlegt, og sennilega fá aðeins Íslendingar notið snilldar hans til fulls. Verk hans eru tímalaus, þau tengja aldirnar. Hann er samtímamaður okkar allra eins og aðrir miklir listamenn.
Höfundur er tónskáld.
Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 17. nóv. 2007. |