Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 6. mars 2007
Óperan klikkar enn
um starf óperustjóra

Árni Tómas Ragnarsson

Árni Tómas RagnarssonEftir hrakfarir undangenginna ára við rekstur Íslensku óperunnar (sbr. nýlegar Lesbókargreinar mínar) hefði maður ætlað að stjórn hennar hefði loks séð að sér og reynt að fara að gera eitthvað af viti. Óperustjórinn hefur að vísu axlað ábyrgð og sagt af sér, en stjórn Óperunnar situr enn, öllu trausti rúin, en ætlar sér nú samt til að ráða nýjan óperustjóra, sem hún sjálf hefur þó enga þekkingu né forsendur til að ráða.

Ráðning nýs óperustjóra

Eins og ég hafði spáð varð lítil aðsókn að síðustu uppfærslu Óperunnar, Flagari í framsókn, eins og reyndar mátti vita fyrirfram. Það urðu aðeins örfáar sýningar á óperunni, hálftómt hús á þeim flestum og menn voru almennt sammála um að þetta verkefni hefði ekkert erindi átt hingað á klakann.

Næsta verkefni óperustjórnar var þá að ráða nýjan óperustjóra, sem hefði reynslu og þekkingu úr óperuheiminum svo koma mætti í veg fyrir þau hörmulegu mistök, sem núverandi óperustjóri og stjórn hafa verið ábyrg fyrir.

En hvernig ræður maður óperustjóra? Fær maður gamlan frystihússtjóra með stjórnunarreynslu að austan eða nýútskrifaðan hagfræðigaur úr HR eða Bifröst? Eitthvað svoleiðis endurspeglast úr auglýsingu Íslensku óperunnar, sem birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar. Þar er háskólamenntun gerð að skilyrði fyrir ráðningu óperustjóra. Af fimm helstu liðum starfslýsingar er aðeins einn sem lýtur að því, sem í raun skiptir máli: “Umsjón með verkefnavali og listrænni starfsemi”. Hitt eru fjármál, rekstaráætlanir, kynningarmál, starfsmannamál og rekstur húsnæðis? Þetta lyktar af því að þegar sé búið að velja einn klæðskerasaumaðan umsækjanda fyrir auglýsinguna. Hver er hann?

Óperustjórnin aftur í sama pytt

Hafa stjórnamenn Óperunnar ekkert lært? Gallinn við fráfarandi óperustjóra var að hann hafði ekki nokkra reynslu eða vit á óperustarfsemi þegar hann hóf störf, enda ekki ráðinn til þess að vera eiginlegur óperustjóri, heldur sem framkvæmdastjóri við hliðina á öðrum tónlistarmenntuðum listamanni, Gerrit Schuil, sem átti að sjá um hina listrænu hlið, en hrökklaðist úr starfi nokkrum mánuðum síðar. Eftir sat framkvæmdastjórinn gjörsneyddur óperuþekkingu og reynslu og er ástæða til að halda að það hafi einmitt skilið rekstur Óperunnar eftir í rúst.

Og nú á sem sagt að ráða nýjan óperustjóra þar sem hin listræna þekking eða sýn er gert að aukaatriði (að vísu “æskileg”), en “háskólamenntun” og “reynsla og/eða þekking á fjármálastjórn eru skilyrði.” Þeir menn sem svona texta skrifa hafa greinilega engan skilning á eðli og starfi óperustjóra. Þeir falla aftur í sama pytt og við síðustu ráðningu. Óperustjóri er nefnilega fyrst og fremst listrænn stjórnandi. Stjórn hans á að vera ígildi listrænnar sköpunar. Hann er aflvaki þeirra ævintýra, sem óperulistin getur fært okkur. Hann er ekki rekstraráætlanaaðili, ekki starfsmannamálastjóri, ekki rekstrarstjóri húsnæðis. Fyrir svoleiðis hluti ræður óperustjóri eða óperustjórn sér einfaldlega framkvæmdastjóra, sem sér um þessa hluti á meðan óperustjórinn einbeitir sér að því að velja verkefni og listamenn og sér til þess að listrænum kröfum sé fylgt af ýtrasta metnaði. Auðvitað væri æskilegt að hann hefði reynslu af stjórnun, en kannski ekki endilega skilyrði.

Listrænn stjórnandi er það sem þarf

Ég endurtek – af því að það er svo mikilvægt - að óperustjóri er listrænn stjórnandi, starf hans hefur aðallega að gera með hina listrænu hlið rekstursins, en framkvæmdastjórinn sér um allt hitt. Báðir lúta þeir stjórn, sem sér um að samræma ólík sjónarmið hins listræna og þess fjárhagslega. Þannig er það í óperu- og leikhúsum um allan heim, þannig er það í leikhúsunum hér heima; t.d. bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Ég leyfi mér að benda á að sá Íslendingur, sem lengst hefur náð á þessu sviði í heiminum, Helgi Tómasson, stjórnandi Balletflokksins í San Fransisco, hefur sagt nákvæmlega þetta um ofangreinda skilgreiningu á listrænum stjórnanda, en sjálfur hefði hann líklega ekki uppfyllt öll skilyrði auglýsingar Íslensku óperunnar um listrænan stjórnanda. Það hefði Garðar Cortes ekki heldur gert á sínum tíma eins frábær óperustjóri og hann nú reyndist vera á upphafsárum Íslensku óperunnar.

Lágmarkið skaðann!

Það hlýtur að vera lágmarkskrafa til stjórnar Íslensku óperunnar að hún auglýsi þannig eftir óperustjóra að það sé gert að skilyrði að hann hafi mikla reynslu í tónlist eða óperulist eða í listrænum rekstri óperu- eða leikhúsa. Um leið ætti að auglýsa eftir framkvæmdastjóra, sem getur séð um allt hitt, - fjármál, kynningarmál o.s.frv. Með því móti getur stjórn Óperunnar amk lágmarkað þann skaða, sem hún hefur þegar valdið í íslensku óperulífi - áður en hún sjálf tekur á sig ábyrgð og segir af sér! Meðal helstu verkefna nýs óperustjóra og óperustjórnar væri að ná áttum svo Íslenska óperan beri gæfu til þess að starfa sem mest með rísandi Tónlistarhúsi í Reykjavík í eins miklum mæli og nokkur kostur er, en þar hafa stjórnendur Óperunnar klikkað illilega eins og í svo mörgu öðru!


Höfundur er læknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 28. febrúar 2007.


 ©  2007  Músa