Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 20. mars 2007
Sinfónían í takt við tímann*

Arna Kristín Einarsdóttir
<arna at b11.cc>

Arna Kristín EinarsdóttirTölvugrafískar myndir af fyrirhuguðum sal Tónlistar- og ráðstefnuhússins í Reykjavík sýna okkur troðfullan sal af prúðbúnu fallegu fólki og hljómsveit á sviði. Þessi mynd framkallar fiðring í magann og tilhlökkun því loksins, loksins mun tónlistin eignast hús yfir höfuðið og Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ) heimili sem sómi er að. Um þessar mundir spilar SÍ fyrir að meðaltali 600 manns í sal sem rúmar rétt um 900. Salur nýja tónlistarhússins mun hins vegar taka 1800 manns í sæti. Allir sem reynt hafa þekkja muninn á því að spila fyrir fullum sal eða hálftómum. Sá munur getur haft mikil áhrif á flutninginn og tónleikaupplifunina í heild.

Í Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu verða þrír salir sem liggja hlið við hlið, tónleikasalur sem tekur 1800 manns, æfingasalur fyrir 450 manns og ráðstefnusalur sem rúmar 750 manns auk  180 manna salar á neðri hæð. Gert er ráð fyrir að ýmis starfsemi geti átt sér stað í sölunum samtímis án truflunar. Einnig er hægt að nýta allt rýmið fyrir stærri viðburði.Æfingaaðstaða verður fyrir hljóðfæraleikara og minni hópa, upphitunarherbergi, hljóðfærageymslur, búningsherbergi, skrifstofur, fundaherbergi og fleira.

Í dag nýtist neonlýst gluggalaus kaffistofa hljómsveitarinnar sem upphitunarherbergi fyrir tónleika. Á kvennasnyrtingunni fara konurnar í kjólana og hrúgast fyrir framan spegilinn til að setja á sig varalit og spreyja hárið. Aðstaða karlanna er með svipuðu móti.

Þegar komið er upp á sviðið blasir við hljómsveitinni bíósalur hannaður með það fyrir augum að sýna kvikmyndir með græjurnar í botni. Hvers eiga strengjahljóðfæri að gjalda við slíkar aðstæður? Og þó svo að hljómurinn sé ekki alslæmur á sviðinu sjálfu, þá er það áfall fyrir hljóðfæraleikarana að setjast út í sal og átta sig á því að öll sú mikla vinna og alúð sem lögð er í tónlistarflutninginn berst ekki lengra en fram í miðjan sal.

Þetta hefur verið aðstaða SÍ síðan hún flutti úr Þjóðleikhúsinu árið 1961. Það er því löngu tímabært að hljómsveitin komist í viðunandi húsnæði þar sem hún hefur möguleika á því að dafna og blómstra enn frekar.

25% fækkun í Svíþjóð

En þrátt fyrir tilhlökkunarfiðring yfir því að draumurinn um tónlistarhúsið sé nú loks að verða að veruleika örlar líka á kvíðabeyg. Á sama tíma og SÍ undirbýr  flutninga í helmingi stærri sal berast fréttir utan úr heimi um fækkun tónleikagesta á sinfóníutónleika. Í nýlegri úttekt, sem sænska menntamálaráðuneytið lét gera á stöðu ríkisstyrktra sinfóníuhljómsveita þar í landi, er dregin upp afar dökk mynd. Þar kemur fram að á árunum 1998-2003 hafi áheyrendum fækkað um 25%. Í úttektinni er bent á að ef sú þróun héldi áfram, án aðgerða, muni ekki nokkur hræða vera eftir í sænskum tónleikasölum árið 2018.

Skýrslan olli töluverðu umróti í sænsku menningarlífi þegar hún kom út í mars 2006 en í henni er bent á þá þversögn sem kemur fram í þróun á starfsumhverfi sænskra sinfóníuhljómsveita undanfarin ár. Aldrei áður í sænskri sögu hefur jafn mikið verið flutt af sinfónískri tónlist. Aldrei áður hafa jafn margir hámenntaðir tónlistarmenn verið útskrifaðir úr tónlistarháskólum sem jafnframt hafa aldrei verið fleiri. Aldrei hafa sjálfstætt starfandi tónlistarmenn heldur verið fleiri.  Á sama tíma hefur tónleikagestum fækkað umtalsvert á milli ára. Þetta misræmi í þróun framboðs og eftirspurnar gerir það að verkum að upp er kominn ákveðinn óróleiki innan stéttarinnar.

Að mati breska tónlistargagnrýnandans og rithöfundarins Norman Lebrecht eru Norðurlöndin fimm árum á eftir þeirri neikvæðu þróun sem hefur átt sér stað annars staðar í hinum vestræna heimi og lýsir sér í því að sinfóníuhljómsveitir verða að takast á við þær staðreyndir

  • að áheyrendum fækkar stöðugt,
  • að möguleikar til þess að útvega styrki hafa skroppið saman,
  • að launa- og rekstrarkostnaður eykst sífellt,
  • að plötu- og diskaútgáfa er af skornum skammti og
  • að tækifærum til alþjóðlegra tónleikaferða hefur fækkað.
Hlutverkið endurmetið

Lebrecht bendir á að Norðurlöndin hafi möguleika á að forða sér undan þessum voða með því að taka af skarið og endurmeta og skilgreina hlutverk sinfóníuhljómsveita í nútímasamfélagi. Á þeim nótum er nýlegt opið bréf sem skoski slagverksleikarinn Evelyn Glennie ritar til forsvarsmanna sinfóníuhljómsveita og rakið var hér á síðum Morgunblaðsins fyrir stuttu. Þar vekur Evelyn athygli á þeirri staðreynd að sinfóníuhljómsveit með framúrskarandi hæfileikaríkum tónlistarmönnum á í mestu erfiðleikum með að fylla 1000-2000 manna sali þótt miðaverði sé stillt í hóf.  Á sama tíma fer þokkalega hæfileikaríkur unglingur létt með að fylla 50.000 manna íþróttaleikvang þótt miðar séu á uppsprengdu verði. Evelyn er þeirrar skoðunar að hinn klassíski heimur hafi ekki lengur efni á því að líta fram hjá því hvað áheyrendur vilji og það sé hlutverk sinfóníuhljómsveita að þjóna þeim.

Þekking á markaðnum

Eitt af grundvallaratriðum í markaðssetningu er að þekkja markaðinn. Að vita eftir hverju kaupandinn er að sækjast og hverjir eru mögulegir kaupendur. Eina leiðin til að átta sig á þörfum neytandans er að kanna hug hans. Gerðar hafa verið tvær kannanir á síðustu árum fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Markaðsrannsókn sem SÍ fól Gallup að gera árið 2002 og áskrifendakönnun sem ABS Fjölmiðlahús gerði árið 2004. Samkvæmt markaðsrannsókn Gallup 2002 sögðust um 29% þeirra 47%  sem aldrei höfðu farið á tónleika hjá SÍ, hafa mikinn áhuga á að fara. Í markhópagreiningu Knight Foundation sem gerð var árið 2000 á markaðssvæði 15 bandarískra sinfóníuhljómsveita kemur fram að takist  hljómsveitunum að ná til aðeins helmings þeirra sem segjast vera mjög áhugasamir um klassíska tónleika en hafa ekki látið verða af því að fara, myndi áheyrendahópur hinna bandarísku hljómsveita tvöfaldast.

Fyrir síðustu jól var kynnt markaðsátak sinfóníuhljómsveitarinnar undir nafninu Fyrsti konsert er frír.  Þar stendur áhugasömum aðilum, sem aldrei hafa áður komið á tónleika, til boða ókeypis miði. Að sögn Sváfnis Sigurðarsonar, kynningarfulltrúa SÍ, hafa um 1000 manns skráð sig og um 600 manns fengið boð um að koma á tónleika. Ekki liggur fyrir hversu margir hafa þegið boðið. Að sögn Sváfnis er tilgangurinn með átakinu sá að ná til þeirra sem standa fyrir utan hinn hefðbundna áheyrendahóp. Hér skiptir eftirfylgnin öllu máli sem leið til að kynnast einstaklingum innan þessa hóps nánar, kanna hvað vekur áhuga þeirra , eftir hverju þeir sækjast og með hvaða hætti hægt sé að tryggja að þeir komi aftur.

Þó gildir einu hversu öflug og markviss markaðssetning er sé áhugi á klassískri tónlist ekki til staðar í samfélaginu almennt. Rannsóknir sýna með afgerandi hætti að tengsl eru milli tónlistaruppeldis og þess að hafa áhuga á klassískri tónlist og að tónlistarmenntun og fræðsla er undirstaða þess að viðhalda áhuga  á klassískri tónlist.

Bandarískar sveitir í sókn

Þó svo að sænskar og evrópskar sinfóníuhljómsveitir glími við áheyrendakreppu, virðist sú staða almennt ekki vera raunin í Bandaríkjunum ef marka má rit sem samtök sinfóníuhljómsveita í Bandaríkjunum (The American Symphony Orchestra League) gaf út árið 2005 undir nafninu Music Matters. Þar kemur fram að síðasta áratuginn hafi bandarískar hljómsveitir leikið fyrir fleiri áheyrendur en nokkru sinni áður. Árið 2003-04 spiluðu hljómsveitirnar fyrir 28 milljónir áheyrenda. Ennfremur er fullyrt að bandarískar sinfóníuhljómsveitir hafi sýnt fram á 8% hagnað á ársgrundvelli 2003-2004 meðan að kostnaðaraukningin hljóðaði upp á 7%. Hér skal þó áréttað að rit þetta er gefið út með það fyrir augum að styrkja ímynd sinfóníuhljómsveita í Bandaríkjunum og hugsað sem andsvar við neikvæðum niðurstöðum ýmissa rannsókna og kannana á borð við sænsku úttektina, sem komið hafa fram á síðustu árum.

Breið skírskotun SÍ

Ef litið er til talna um áheyrendur SÍ á árunum 1992-2004 verður þróunin að teljast mjög jákvæð. Á þessu tímabili hefur greiðandi gestum fjölgað úr 17.553 í 31.824. Samkvæmt stefnumörkun SÍ fyrir 2004-09 sem unnið var að starfsárið 2001-02 er „stefnt að því að fjöldi áheyrenda aukist umtalsvert á tímabilinu 2004-2009; úr 26.500 seldum miðum starfsárið 2002-2003 í um 31.000 á starfsárinu 2008-2009.“  Hljómsveitin hefur nú þegar náð þessu markmiði sínu. Raunar náðist það strax starfsárið 2003-04, þegar fjöldi greiðandi tónleikagesta var 31.824. Í ljósi þess má spyrja hvort hljómsveitin þurfi ekki setja sér háleitara markmið  þar sem hún undirbýr nú flutninga í nýtt tónlistarhús með helmingi stærri tónleikasal. Þessar tölur sýna þó glöggt að SÍ hefur breiða skírskotun og hefur tekist að auka umtalsvert við áheyrendafjöldann á síðustu árum.

Eins og sést á misvísandi tölum frá Bandaríkjunum og Svíþjóð, jákvæðum áheyrendatölum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og varnaðarorðum fólks í bransanum á borð við Evelyn Glennie og Norman Lebrecht, fer tvennum sögum af raunverulegum áhuga almennings á sinfónískri tónlist og tónleikum. Heimildum mínum ber þó saman um að almennt séu sinfóníuhljómsveitir ekki að tvöfalda áheyrendafjölda sinn á milli ára. Það virðist vera ærið verkefni fyrir þær að halda í horfinu með þrotlausum og markvissum samskiptum við áheyrendur. Það er því ljóst að róður SÍ gæti orðið  þungur sé tekið mið af hinu alþjóðlega umhverfi. Í raun er það gríðarleg bjartsýni að gera ráð fyrir að hljómsveitin eigi möguleika á að tvöfalda eða jafnvel þrefalda áheyrendafjölda sinn í nýju húsi.

Ekki nóg að bíða

Umræðan um  stærð tónleikasalarins hefur verið áberandi í íslenskum fjölmiðlum undanfarið. Hún hófst með grein sem verkfræðingurinn Ólafur Hjálmarsson ritaði og birtist í Lesbók Morgunblaðsins 9. desember síðast liðinn. Þar setur Ólafur fram gagnrýni á stærð salarins út frá hljómburði og ómtíðni. Hann gagnrýnir að salurinn skuli hugsaður og hannaður bæði fyrir talað mál og tónlist og segir að tæknilegar tilfæringar með breytingar á ómtíma dragi úr gæðum hljómburðarins. Þar sem ég hef engar fræðilegar forsendur til að meta tæknilega útfærslu á salnum, legg ég ekki dóm á þessar athugasemdir hér. Hins vegar segir Egill Ólafsson í svargrein sinni 16. desember að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að salurinn sé of stór utan um áheyrendur SÍ þar sem verið sé að reisa hús til næstu 100 ára. Í framtíðinni eigi frítími fólks eftir að aukast – bæði með tilliti til hlutfallsfjölda þeirra sem komast á eftirlaun innan fárra ára (baby- boom kynslóðin) og eins almennrar hagsældar.

Þetta er sjónarmið sem ég tel afar varasamt þegar litið er til áheyrendaþróunar almennt. Þannig  benda rannsóknir National Endowment for the Arts (NEA) í Bandaríkjunum til þess að skýr kynslóðaskipti séu á milli aðsóknar á hinar mismunandi listgreinar. NEA skiptir úrtaki sínu í 5 minni þýði:

  • Krepputímabil – fædd 1926-1935
  • Önnur heimsstyrjöldin  - fæddir 1936-1945
  • Fyrra tímabil “barnakúfsins” (baby boomers) – fæddir 1946-1955
  • Seinna tímabil “barnakúfsins” – fæddir 1956-1965
  • Barnalægð – fæddir 1966-1976

Samkvæmt NEA tilheyra flestir tónleikagestir kynslóðinni fæddri 1936-1945 en fæstir Barnalægðinni, það er yngstu kynslóðinni.  Yngsta kynslóðin sækir hins vegar frekar listasöfn en hinar eldri, sem er allrar athygli vert í sjálfu sér.

Miðla þarf listinni

Að mati Bonita M. Kolb, höfundar Marketing for Cultural Organisations er engan veginn nóg fyrir menningar- og listastofnanir að bíða í rólegheitum eftir því að aldurinn færist yfir yngri kynslóðirnar til að ná í áheyrendur. Hafi það ekki verið partur af reynsluheimi einstaklinganna að sækja tónleika eða hlusta á klassíska tónlist eru afar litlar líkur á því að það muni verða hluti af lífi þeirra þegar aldurinn færist yfir. Eina svarið við þessu, að mati Kolb, er að finna leið til að miðla listinni með þeim hætti að það kveiki forvitni yngri kynslóðanna og opni fyrir þeim nýjan heim. Sígild tónlist þarf að heyrast, finnast og sjást eins og aðrar tónlistartegundir í fjölmiðlum og á almennum vettvangi. Þar liggur vaxtabroddurinn sem getur með tímanum leitt til fjölgunar áheyrenda.

Rannsóknir Kolb renna stoðum undir þá skoðun að mikilvægt sé fyrir sinfóníuhljómsveitir að leggja sitt að mörkum til tónlistaruppeldis. Því miður er SÍ er langt frá fræðslumarkmiðum sínum. Þannig kemur fram í stefnumótun hljómsveitarinnar að á árinu 2009 muni 14.189 skólabörn hlýða á tónleika hljómsveitarinnar. Árið 2004-05 hafði skólabörnum hins vegar fækkað úr 9000 í 7600 en það starfsár hafði verið stefnt að því að 13.635 börn kæmu á tónleika hljómsveitarinnar. Að sögn Þrastar Ólafssonar, framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar, er ástæðan sú að ekki hefur fengist nægilegt fjármagn til þessa þáttar. Sérstakur fræðslufulltrúi hljómsveitarinnar var ekki ráðinn inn fyrr en sl. haust þótt stefnt hafi verið að því mun fyrr. 

Huga þarf að grunninum

Með byggingu Tónlistarhússins er horft til framtíðar. Vonir standa til þess að húsið verði ein helsta bygging landsins og kennileiti Reykjavíkurborgar líkt og óperuhúsið í Sydney. Ríki og borg gerðu með sér samkomulag árið 2002 um að leggjast á eitt í því að standa að byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins. Nauðsynlegt er að opinberir aðilar horfi jafnframt til lengri tíma, fjárfesti í framtíðinni og standi vörð um tónlistarmenntun í landinu eigi starfsemi hússins að blómstra og snúast um meira en ráðstefnuhald.

Á þessu sviði er víða pottur brotinn. Taka má sem eitt dæmi af mörgum að öllum börnum í 1.-8. bekk ber samkvæmt lögum að fá tónmenntakennslu einu sinni í viku. Úttekt Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur (nú menntasviðs Reykjavíkurborgar) sem gerð var árið 2003 sýnir að einungis 8% skóla á Reykjavíkursvæðinu uppfylla þetta lögboðna skilyrði. Flestir skólar hætta tónmenntakennslu eftir 4.-6. bekk og einungis um helmingur skóla á landinu býður yfirhöfuð upp á tónmenntakennslu. Á síðustu árum hafa jafnframt staðið yfir harðvítugar deilur milli sveitarfélaga og ríkisins um kostnaðarskiptingu vegna tónlistarmenntunar á framhaldsstigi. Deilurnar hafa raskað  starfi tónlistarskóla umtalsvert. Um leið og hið mikla  Tónlistar- og ráðstefnuhús rís, eins og stór ískristall upp úr sjónum, til vitnisburðar um hið þrautseiga tónlistarlíf sem þrifist hefur hér á norðurhjara veraldar þarf að huga að grunninum. Ríki og borg og helstu máttarstólpar klassískrar tónlistar á Íslandi þurfa að taka höndum saman  um að stórefla menntun og miðlun svo að hið tignarlega tónlistarhús megi iða af lífi á komandi árum.

Í næstu grein verður fjallað um reynslu Hallé Orchestra í Bretlandi og Los Angeles Philharmonic í Bandaríkjunum af því að flytja í nýtt tónlistarhús og um áhrif flutninganna á starfsemi þeirra og aðsókn á tónleika. Af reynslu þessara hljómsveita má margt læra.


Höfundur er verkefnastjóri á skrifstofu menningar- og ferðamála hjá Hafnarfjarðarbæ og flautuleikari.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 17. mars 2007.

* Í febrúar síðastliðnum [2007] útskrifaðist Arna Kristín Einarsdóttir með meistaragráðu í menningar- og menntastjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Rannsóknarritgerð hennar bar yfirskriftina Sinfónían í takt við tímann. Kveikjan að ritgerðinni var spurningin um það hvernig Sinfóníuhljómsveit Íslands muni farnast í nýju og langþráðu húsi þar sem hennar bíður helmingi stærri salur en  í Háskólabíói.Arna Kristín gegndi stöðu 2. flautu SÍ 2000 -2004  og þekkir  greinarhöfundur því vel til aðstæðna.


 ©  2007  Músa