Pistillinn | 21. maí 2003 |
Að læra að kenna: Hvernig hefur menntun tónlistarkennara nýst þeim í starfi? Ella Vala Ármannsdóttir, Daníel Friðjónsson, Sturlaugur Jón Björnsson og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson Hér verður sagt frá rannsóknarverkefni, sem við fjórir útskriftarnemar blásarakennaradeildar Tónlistarskólans í Reykjavík vorið 2003, unnum undir handleiðslu dr. Þóris Þórissonar. Tónlistarskólinn í Reykjavík var settur á fót árið 1930. Innan veggja hans hafa sérstakar kennaradeildir verið starfræktar í marga áratugi. Þessar deildir hafa útskrifað fjöldan allan af lærðum kennurum sem hafa tekið stóran þátt í að byggja upp fjölbreytta flóru tónlistarlífs í vægast sagt grýttum jarðvegi landsins á ótrúlega skömmum tíma. Nú er verið að leggja niður kennaradeildirnar í TR og óvíst er hvernig kennaramenntun á Íslandi verður í framtíðinni. Markmið okkar var að kanna viðhorf útskrifaðra tónlistarkennara frá TR til kennaramenntunar og hvernig menntun þeirra hefur nýst þeim í starfi og hvaða hugmyndir þeir hafa um æskilegt inntak tónlistarkennaramenntunar. Gefinn var sérstakur gaumur að því hvernig einstakir þættir í náminu hafa nýst kennurunum. Slíkar upplýsingar má nýta til að byggja upp kennaramenntun í framtíðinni. Rannsóknin byggðist á spurningalista sem innihélt bæði lokaðar og opnar spurningar. Sendur var út 81 spurningalisti til allra þeirra sem útskrifuðust úr kennaradeildum skólans á árunum 1985-2000 og búsettir eru hérlendis. Af þeim svöruðu 54 listanum (67%): 27 úr píanókennaradeild, 21 úr blásarakennaradeild, 3 úr strengjakennaradeild og 3 úr söngkennaradeild. Vegna þess hve fáir svöruðu í strengja- og söngkennaradeildum verður ekki fjallað um afstöðu þeirra sérstaklega. Helstu niðurstöður eru að meirihluti þeirra sem luku kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík á árunum 1985-2000 eru er mjög eða frekar ánægðir með þá menntun sem þeir hlutu við skólann. Við mat á mikilvægustu þáttum í náminu kom fram að aðalhljóðfæri, tónheyrn og samleikur fá mjög háa einkunn. Neðst á listanum yfir gagnsemi greina eru hinsvegar sálar- og uppeldisfræði og kontrapunktur. Útsetning og stjórnun er mjög mikilvægar greinar að mati kennara. Afgerandi munur er á afstöðu blásarakennaradeildar og píanókennaradeildar gagnvart kennslufræði, þar sem píanókennarar eru mun jákvæðari. Þátttakendur leggja almennt ríka áherslu á mikilvægi kennslufræði í kennaranámi. Það er þó ekki sama hvert innihald kennslufræðinnar er eins og fram kom í þeim mun sem er á afstöðu píanó- og blásarakennara til kennslufræðinnar. Eftir að ný aðalnámskrá tónlistarskóla (2000) kom út hafa verið uppi raddir meðal tónlistarkennara um að þeir hafi ekki nægjanlega þekkingu á einstökum þáttum sem námskráin gerir kröfur um að séu kenndir. Kennurum í okkar rannsókn fannst þeir ekki nægilega undirbúnir fyrir breyttar áherslur í aðalnámskránni. Helst telja þeir þörf á að bæta við sig þekkingu og þjálfun í spuna og skapandi þáttum. Við spurðum þátttakendur hvaða greinar þeir vildu stunda, stæði þeim til boða framhaldsnám. Flestir nefna spuna sem er í beinu samræmi við fyrri málsgrein. Einnig er ofarlega á lista notkun á tölvum og hugbúnaði svo og útsetningar. Þessi atriði gefa til kynna þann fjölbreytileika sem kennarar nútímans þurfa að kljást við. Einnig kom fram að meirihluti kennara telur sig ekki þurfa að bæta við sig þekkingu á sálfræðisviði. Þar sem sálfræðin er eina fagið í kennslufræðitengdu fögunum sem er samræmt milli deilda ætti þessi niðurstaða að vera marktæk. Í endurmenntun kennara þyrfti að koma til móts við þessi atriði. Við spurðum kennarana hvaða áherslur þeir vildu hafa í uppbyggingu kennara-menntunar í framtíðinni. Þar bar oftast á góma kennslufræði, æfingakennslu og spuna. Margir nefndu einnig útsetningar, en sálfræði er talin óþarflega stór hluti námsins. Athyglisvert er að tæplega helmingur svarenda fannst að þeir hefðu þurft breiðari menntun og þar var oftast nefnt að læra á aukahljóðfæri, kynnast forskólakennslu og hljómborðsleik (píanókennarar nefndu ekki hljómborðsleik). Þetta eru þættir sem nýtast tónlistarkennurum oft í starfi þrátt fyrir að þetta sé ekki þeirra aðalkennslugrein. Til að fylla upp í kennsluskylduna er mjög algengt að kennarar þurfi að kenna forskóla eða á annað hljóðfæri heldur en sitt aðalhljóðfæri. Í rannsókn okkar kom fram að aðeins þrír af 50 þátttakendum, sem afstöðu tóku til uppbyggingar kennaramenntunar, telja þá leið vænlega að hafa kennaradeild sem val eftir burtfarar eða einleikarapróf eins og áætlað er að gera í Listaháskóla Íslands. Við leggjum til að Listaháskólinn nýti sér þá þekkingu og reynslu sem Tónlistarskólinn í Reykjavík hefur byggt upp í gegnum árin. Við erum ekki að segja að það sem gerst hefur í kennslufyrirkomulaginu í TR sé algott en þar er margt til fyrirmyndar. Þessa góðu þætti mætti hafa sem grunninn að því að byggja upp gott kennaranám. Til dæmis kennslufræðifyrirkomulagið í píanókennaradeildinni og útsetning og stjórnun, sem og nám á aukahljóðfæri í blásarakennaradeild. Nauðsynlegt er að hafa samræmi í kennaranámi, en um leið þarf að hafa í huga mismunandi kröfur til mismunandi hljóðfærakennara. Við vonumst til að þessi rannsókn geti komið að gagni við uppbyggingu kennaradeilda á Íslandi sem standast alþjóðlegan samanburð og eru landi og þjóð sæmandi. Við þökkum öllum þeim kennurum sem tóku þátt í rannsókninni. Þeir sem hafa áhuga að kynna sér verkefnið nánar geta skoðað það á Bókasafni Tónlistarskólans í Reykjavík. |
|