Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 08. okt. 2004

Hljóðfæra- og forskólakennsla í grunnskóla


Sigursveinn Magnússon, skólastóri Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og formaður STÍR, samtaka tónlistarskóla í Reykjavík
<smagn@ismennt.is>

Margir hafa undanfarið rætt tónlistarkennslu og stöðu hennar hér í blaðinu. Sunnudaginn 19. september ritar Bergþóra Jónsdóttir grein þar sem henni verður tíðrætt um stöðu tónmenntar í grunnskólum, hljóðfæranám í tónlistarskólum, áform fræðsluyfirvalda að auka samvinnu tónlistarskóla og grunnskóla og samspil allra þessara þátta.

Sögulegar forsendur

Hér í Reykjavík hefur þessi þróun í samstarfi tónlistarskóla og grunnskóla verið hægari en víða um landið, en hefur þó verið reynd um nokkuð skeið og eru í upphafi greinar Bergþóru nefnd nokkur nýleg dæmi þar um, s.s. tilraunir í Landakotsskóla, samningur Tónskóla hörpunnar við þrjá grunnskóla og loks starf skólahljómsveita borgarinnar. Það er fagnaðarefni að borgaryfirvöld skuli ætla að hafa frumkvæði að samvinnu þessara tveggja skólagerða en í þessum efni er að mörgu að hyggja. Markmiðið verður að vera ljóst, heildarsýn þarf að ráð ferðinni og vanda þarf hvert skref sem stigið er. Síðast en ekki síst þarf að draga lærdóm af því sem unnið hefur verið á undanförnum árum. Hér verður vikið að reynslu sem fékkst í einum af tónlistarskólum borgarinnar.

10 ára starf innan grunnskóla

Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar hóf árið 1991 að starfrækja útibú í Árbæjar- og Ártúnsskóla. Það voru skólastjórar grunnskólanna og foreldrafélög í samráði við Reykjavíkurborg sem leituðu til Tónskólans um þessa samvinnu. Forráðamenn borgarinnar höfðu þá, eins og oft síðan, orð á nauðsyn þess að efla samvinnu tónlistarskóla og grunnskóla og var jafnvel stundum tekið þannig til orða að flytja ætti tónlistarnámið inn í grunnskólana. Það var því eðlilegt að Tónskólinn liti svo á að með þessu væri hann að koma til móts við óskir og stefnu borgarinnar. Foreldrar og nemendur tóku skólanum vel og allir sem að þessu komu lögðu sig fram um að láta þetta samstarf takast. Eðlilega urðu minniháttar árekstrar og margt sem þurfti að ræða á reglulegum fundum kennara og skólastjóra beggja skólanna en framan af komu engin vandamál upp í samstarfinu svo stór að þau væru ekki leysanleg. Tónskólinn starfaði innan Árbæjarskóla í 10 ár og nokkru skemur innan Ártúnsskóla, eða þar til einsetningin gerði það að verkum að ekki var lengur rými innan grunnskólanna fyrir tónlistarkennsluna. Þessi tilraun leiddi margt í ljós þ.á.m. að samstarf þessara tveggja skólagerða er enganveginn einfalt mál. Í því sambandi nægir að líta á ólík hlutverk og mismunandi þarfir um starfsaðstöðu og kennslubúnað.

Viðbrögð

Öll þau 10 ár sem tilraunin stóð spurðu fulltrúar borgarinnar aldrei um hvernig hún gengi. Um stuðning og hvatningu var því ekki heldur að ræða. Í ársskýrslum Tónskólans til borgarinnar var jafnan gerð grein fyrir starfinu í Árbæjarskóla en ekki er ljóst hvort þær voru lesnar.

Önnur tilraun

Tónskólinn tók einnig árin 2001-02 og 2002-03 þátt í tilraun um forskólakennslu í grunnskólum í Breiðholti. Reykjavíkurborg hafði forgöngu um að koma tilrauninni á stað og leitaði í því skyni eftir samstarfi við þrjá Tónlistarskóla. Því miður hefur þessu verkefni verið lítt haldið á lofti og vekur það nokkra furðu þar sem það var algjörlega unnið að frumkvæði borgarinnar, undir forystu þáv. forseta borgarstjórnar, Helga Hjörvars. Borgin stóð undir kostnaði við verkefnið og væri ekki óeðlilegt að að hún gerði almenningi grein fyrir þeirri reynslu sem fyrir liggur nú þegar þessi mál eru í brennidepli.

Skólaþróun

Í framhaldi af þessu sem hér kemur fram vakna spurningar um hver sé tilgangur tilrauna eins og þeirra sem hér hefur verið lýst. Er hann ekki einmitt aðferð til að meta gagnsemi tiltekinnar starfsemi í því augnamiði að skapa eðlilegt þróunarferli sem leiði til úrbóta? Er þá ekki ástæða til að staldra við, líta til baka. Gæti það ekki hjálpað okkur að standa betur að verki varðandi þær tilraunir sem nú er verið að stofna til.



Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. okt. 2004.


 ©  2004  Músa