Tónlistarnám: Nauðsyn á heildarsýn 3. grein
Sigursveinn Magnússon, skólastóri Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og formaður STÍR, samtaka tónlistarskóla í Reykjavík <smagn@ismennt.is>
Framhaldsmenntun í tónlist Kostnaður við þetta framhaldsnám í tónlist hefur orðið ásteitingarsteinn í umræðum milli ríkis og sveitarfélaga. Frá þessu var skýrt í síðustu grein. Þröng skilyrði ríkisins um að kosta aðeins nám lítils hóps þessara nemenda (þ.e. einungis þeirra sem stunda slíkt nám sem kjörsvið í menntaskóla) hefur dregið framhaldsnámið inn í umræðuna.
Skilgreining á framhaldsnámi Í haust tekur aðalnámskrá tónlistarskóla gildi. Það var menntamálaráðuneytið sem stjórnaði gerð námskrárinnar og var vel til þess verks vandað. Námskráin er „stjórnarskrá“ skólanna, hjálpartæki í að skilgreina tónlistarnámið og er því skipt í þrjú aðalskeið, grunnstig, miðstig og framhaldsstig. Þetta námsáfangakerfi er byggt á gamla stigprófakerfinu, en af því er löng og góð reynsla í tónlistarskólunum.
Skipan framhaldsnáms - Ólík hlutverk tónlistarskóla Innan núverandi löggjafar hafa skólarnir markað sér starfssvæði miðað við getu sína og áherslur. Starfa margir nær eingöngu á grunnstigi, ætla einvörðungu að vera grunnskólar í tónlist. Það fer svo eftir ýmsu, s.s. menntun kennara, metnaði, áhuga, aðstöðu, stærð skóla og umhverfi hversu langt þeir leiða nemendur í náminu. Kennsla á framhaldsstigum hefur komið í hlut stærstu tónlistarskólanna á landinu og hafa sumir þeirra útskrifað nemendur til háskólanáms. Meðal þessara skóla eru: Nýi tónlistarskólinn, Söngskólinn í Reykjavík, Tónlistarskólarnir í Garðabæjar, Hafnarfirði og Kópavogi, Akeyreyri og Egilsstöðum, Tónlistarskólinn í Reykjavík, Tónlistarskóli FÍH, og Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar að ógleymdum Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Ennfremur hafa fleiri tónlistarskólar en hér eru nefndir samstarf við framhaldsskóla á sama skólasvæði. Miðað við núverandi skipan er ekkert sem hindrar skóla sem þess óskar að starfa á tilteknu námsstigi, hvort sem um er að ræða grunn-, mið- eða framhaldsstig, enda uppfylli skólinn ákveðin skilyrði, en þau eru mörg hver tilgreind í aðalnámskrá. Þar er einnig kveðið á um samstarf tónlistarskóla og framhaldsskóla og mat á tónlistarnámi til námseininga og er þar vísað í aðalnámskrá framhaldsskóla. Stærð miðnáms- og framhaldsdeilda í tónlistarskólum á Íslandi*
* Upplýsingar frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur fyrir árið 2003. Upplýsingar um skóla utan Reykjavíkur var aflað af handahófi í gegnum síma. Beðist er velvirðingar á því ef einhverjir skólar eru ekki með í upptalningunni sem ættu þar heima.
| Skóli | MN** | FN | HS | MN og FN | FN og HS | Nýi tónlistarskólinn | 32 | 15 | 12 | 47 | 27 | Nýji söngskólinn Hjartansmál | 16 | 11 | 4 | 27 | 15 | Söngskólinn í Reykjavík | 25 | 30 | 17 | 55 | 47 | Tónlistarskóli FÍH | 51 | 31 | 7 | 82 | 38 | Tónlistarskóli Garðabæjar | 52 | 28 | | 80 | 28 | Tónlistarskóli Hafnarfjarðar | 95 | 30 | | 125 | 30 | Tónlistarskóli Kópavogs | 57 | 25 | 4 | 82 | 29 | Tónlistarskólinn á Akureyri | 57 | 25 | 4*** | 82 | 29 | Tónlistarskólinn á Egilsstöðum | 7 | 12 | | 19 | 12 | Tónlistarskólinn í Grafarvogi | 28 | 8 | | 36 | 8 | Tónlistarskólinn í Reykjavík | 42 | 49 | 20 | 91 | 69 | Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar | 73 | 42 | 11 | 115 | 53 |
|
** MN = Miðnám FN = Framhaldsnám HS = Nám á háskólastigi Miðnám er hér tilgreint þar sem það gefur til kynna þann hóp nemenda sem á næstu árum færast upp í framhaldsdeild. *** Þeir fjórir nemendur sem tilgreindir eru í háskólanámi hjá Tónlistarskóla Akureyrar eru í tónmenntakennaradeild sem er samvinnuverkefni Tónlistarskólans og Háskólans á Akureyri. Námsumhverfi framhaldsnámsins Kennsla á framhaldsstigum kallar á ýmis skilyrði umfram grunn- og miðnámið. Meðal þeirra atriða sem reynir á í þessu sambandi eru: - Menntun kennara
- Möguleikar skólans á fjölbreyttu í námsframboði
- Vinnuumhverfi sem nemendum stendur til boða, s.s. bókasafn
- Stærð skóla og möguleikar til hljómsveitar- og hópstarfs
- Aðstaða, s.s. hljóðfærakostur og húsnæði
Dæmi eru um samstarf milli tónlistarskóla um kennslu í fræðigreinum og hljómsveitarleik.
Mikilvægt er að við ákvarðanir um framhaldsnám í tónlist verði tekið mið af þeim veruleika sem við búum við og hefur verið farsæll fyrir tónlistarlífið. Árangurinn byggir á hinni sveigjanlegu og opnu löggjöf sem örvar frumkvæði í skólastarfi og sjálfstæði skóla. Áhugavert var í þessu sambandi að lesa orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í Mbl. 11. júlí sl. þar sem hún ræðir skýrslu Ríkisendurskoðunar um háskóla. Þar víkur hún að frelsi skóla og segir m.a:
„Frelsi er stefna en ekki stefnuleysi,“... „Á undanförnum áratug hefur verið mesta umbreytingarskeið í háskólamálum á Íslandi...“. Þetta er hrein og bein afleiðing okkar skýru stefnu sem fólst í því að auka frelsi í skólamálum,...“. Síðar
í viðtalinu segir menntamálaráðherra: „Í framhaldi af þessari miklu grósku og
mikla framboði af námi hljótum við að skoða um leið hver gæði náms eru og hvað
við erum að fá fyrir það mikla fjármagn sem við setjum í kennsluna“.
Við getum tekið heils hugar undir þessi orð. Mættu þau verða kjörorð í mótun
framhaldsnáms í tónlist á Íslandi á næstu árum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. ágúst. 2004. |