Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 18. ágúst. 2004

Tónlistarnám: Nauðsyn á heildarsýn
2. grein


Sigursveinn Magnússon, skólastóri Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og formaður STÍR, samtaka tónlistarskóla í Reykjavík
<smagn@ismennt.is>

Endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla

Í kjölfar ákvörðunar Reykjavíkurborgar vorið 2003 um að hætta að greiða niður nám utanbæjarnemenda hófu sveitarfélögin viðræður við ríkið um skiptingu kostnaðar við framhaldsnám í tónlist með það að markmiði að ríkið bæri þann kostnað. Rökin eru þau að sama eigi að gilda um framhaldsnám í tónlist og annað framhaldsnám sem er alfarið á kostnað ríkisins. Þessar umræður kölluðu svo á endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985 sem menntmálaráðherra setti af stað í ársbyrjun 2004.

Lög um fjárhagslegan stuðningog endurskoðun þeirra

Flestir eru sammála um að lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla uppfylli þau skilyrði að skapa nauðsynlegan lagaramma fyrir blómlegri tónlistarfræðslu á Íslandi. Lögin eru einföld og hindra ekki þróun fram á við, þvert á móti setja þau hæfinlegan starfsramma um tónlistarmenntunina. Öll vinna við nýja lagasetningu þarf að ganga útfrá núgildandi lögum og að miða hugsanlegar breytingar við að bæta tónlistarfræðsluna. Nauðsynlegt er að við endurskoðunina sé litið til þess að frumkvæðið að henni áttu sveitarfélög af stjórnsýslu- og fjárhagslegum ástæðum. Þeir sem njóta þjónustu tónlistarskólanna eru þeir yfirleitt mjög sáttir með starf þeirra og vitnar mikil og góð aðsókn að tónlistarnámi um það. Í ljósi þessa er nauðsynlegt að breytingar á lögunum snerti sem allra minnst faglegt starf tónlistarskólanna. Á hinn bóginn er eðlilegt að endurskoðunin taki mið að breyttu samfélagi og lagaumhverfi. Hér má nefna þau vandræði sem Reykjavíkurborg hefur ratað í vegna umdeildrar túlkunar á samkeppnislögum. Þetta er eitt af þeim málum sem brýnt er að tekið verði á í endurskoðun laganna.

Tónlistarmenntun og almenna skólakerfið

Þegar endurskoða á lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla er að mörgu að hyggja. Viðmiðun við almenna skólakerfið er oft hæpin. Námsþrep miðast ekki eingöngu við aldur. T.d. munu byrjendur í söng vera eldri en í hljóðfæragreinum, sömuleiðis geta börn sem byrjað hafa hljóðfæranám snemma náð ,,framhaldsskólastigi” í færni löngu áður en hefðbundnum framhaldsskólaaldri er náð.

Að þessu gefnu er ljóst að ekki er hægt að nota sömu viðmið í lagasetningu um tónlistarfræðslu og um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Lagasetning verður ætíð að taka mið af þeim veruleika sem hún á að byggja ramma um.

Jafnrétti til náms

Jafnrétti til tónlistarnáms sjálfsögð forsenda í íslensku þjóðfélagi. Nú þykir það sjálfsagt að við stundum nám nánast frá vöggu til grafar. Tónlistarskólar gegna samfélagslegu hlutverki þar sem fullorðnir stunda nám með opinberri niðurgreiðslu í háskólum, framhaldsskólum, öldungadeildum svo og námsflokkum af ýmsum gerðum. Með tilliti til þess að tónlistarfræðslan gengur þvert á viðteknar skilgreiningar á skólastigum og skólaaldri er nauðsynlegt í allri vinnu um hugsanlegar breytingar á lögum um tónlistarskóla að tekið sé tillit til þess og að ekki séu byggðir múrar fyrir þá er tónlistarnám vilja stunda.

Kostnaður við tónlistarfræðslu

Samkvæmt núgildandi lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla greiða sveitarfélög kennslukostnað. Rekstraraðilar skólanna, þ.m.t. sveitarfélög, ákveða síðan sjálf gjaldtöku sem standa á undir öðrum kostnaði við rekstur. Ágreiningur milli ríkis og sveitarfélaga um hver eigi að greiða kostnað við framhaldsnám í tónlist mega ekki verða til þess að skapa erfiðleika og hindranir í reksti tónlistarskólanna. Einfaldasta fyrirkomulagið væri að þessir aðilar skiptu með sér kostnaði í hlutfalli milli skólastiganna, þ.e. grunn- og miðnáms annarsvegar og framhaldsnáms hinsvegar með einfaldri prósentuskiptingu innan laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.

Löggjöfin

Blómlegt tónlistarlíf á Íslandi nútímans er öflugri tónlistarfræðslu að þakka. Sú opna rammalöggjöf sem sett var fyrir 41 ári að forgöngu Gylfa Þ. Gíslasonar þáverandi menntamálaráðherra er góð og fyrirmynd sem stuðst hefur verið við í öðrum löndum. Þróun og skipulag íslenska tónlistarskólakerfisins sem byggir á faglegri leiðsögn í formi aðalnámskrár, miðlægu námsmati. Sjálfstæði skóla til frumkvæðis og samkeppni um nýbreytni og gæði hefur verið íslensku tónlistarlífi ákaflega farsæl.

Tónlistarskólar á Íslandi hafa innan ramma núv. laga skipt með sér verkum án atbeina „að ofan“ og þróað samstarf og samhæfingu sem er mjög sérstök og til fyrirmyndar. Þessi frjálsa þróun hefur lagt grunn að öguðu og samvirku skólakerfi og hún á vafalaust eftir að verða viðfangsefni þeirra sem stunda skólarannsóknir. Þennan árangur ber að varðveita því í honum kristallast margt sem þessa dagana er verið fjalla um í skólamálum, s.s. sjálfstæði skóla og frelsi til frumkvæðis.


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst. 2004.


 ©  2004  Músa