Fréttir á Músík.is

25. apríl 2007
Músík.is <musik@musik.is>

Er tónlistarnám aðeins fyrir útvalda? Fundur Samfélagsins þann 24. apríl 2007

Böðvar Rafn Reynisson, formaður Félags tónlistanema

Samfélagið, félag diplóma-, meistara- og doktorsnema félagsvísindadeildar Háskóla Íslands hélt í samstarfi við Félag Tónlistarnema (FTN), hádegisfund þriðjudaginn 24. apríl í Háskóla Íslands, sem bar yfirskriftina Tónlistarnámaðeinsfyrirútvalda? Erindi héldu:

  • Fjóla Einarsdóttir, formaður Samfélagsins
  • Sigurður Flosason, aðstoðarskólastjóri tónlistarskóla FÍH – Tónlistarnám á Íslandi árið 2007
  • Kolbrún Halldórsdóttir fyrir Vinstri-græn
  • Illugi Gunnarsson fyrir Sjálfstæðisflokk
  • Guðjón Ólafur Jónsson fyrir Framsóknarflokk
  • Valdimar Leó Friðriksson fyrir Frjálslynda flokkinn
  • Björk Vilhelmsdóttir fyrir Samfylkingu

Jakob Frímann Magnússon boðaði komu sína fyrir Íslandshreyfinguna en mætti ekki.

Fundarstjóri var: Kristinn Már Ársælsson, meðstjórnandi Samfélagsins. Sjá samantekt hans um fundinn á<http://samfelagid.hi.is/?p=69>

Ákveðið var að halda fundinn eftir að álit Umboðsmanns Alþingis lá fyrir vegna kvörtunar Félags tónlistarnema. Umboðsmaður Alþingis fer fram á að menntamálaráðuneytið endurgreiði tónlistarnemum í framhaldsskólum kostnað sem nemendurnir hafi þurft að greiða án þess að fyrir því væri heimild í lögum. Ráðuneytið gæti einnig þurft að endurgreiða sveitarfélögum kostnað sem sum þeirra hafa lagt út vegna þessa. Það er því orðið ljóst að ríkið ber nú þegar vissa ábyrgð innan þessa málaflokks.

Á fundinum var reynt að fá fram stefnu flokkanna til málaflokksins og hvort flokkarnir ætluðu sér eingöngu að ráða bót á þeim málum sem umboðsmaður taldi stangast á við lög eða hvort flokkarnir ætluðu að beita sér af hörku og ganga skrefið til fulls. Það þarf að jafna rétt allra tónlistarnema í landinu, þar með talið þeirra sem ekki geta stundað tónlistarnám vegna aldursþaks og þeirra sem búa utan þess sveitarfélags sem þeir hyggjast stunda nám í.

Fulltrúi VG Kolbrún Halldórsdóttir lagði ein fram fullmótaða stefnu síns flokks um þennan málaflokk, hana má sjá á heimasíðu flokksins <http://vg.is/stefna/tonlist/>. 

Aðrir flokkar hljómuðu mjög jákvæðir í garð tónlistarmála almennt en þó voru færri heilsteypt svör að fá en vonast var eftir. Illugi Gunnarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var einna jákvæðastur og sagðist vilja afnema aldursþak og hindranir vegna búsetu, en bætti svo við að hann þyrði ekki að lofa auknu fjármagni í málaflokkinn. Hann gat ekki svarað því af hverju nefnd sem skipuð var af menntamálaráðherra með þeim tilgangi að leysa deilur sveitarfélaga og ríkis um hver bæri ábyrgð á hverju innan málaflokksins hefði ekki komið saman í heilt ár. Hann sagði málið þó í vinnslu. Valdimar Leó Friðriksson sagði að það mál væri ekki í vinnslu heldur löngu búið að svæfa það eins og svo mörg önnur mikilvæg mál núverandi ríkisstjórnar. Kolbrún Halldórsdóttir tók í sama streng.

Hinir frambjóðendur komu helst inn á aðkomu tónlistarskóla inn í grunnskólanám og telur FTN að slíkar vangaveltur megi e.t.v. þróa í góðu samstarfi við tónlistarskólana að vel athuguðu máli. Það eru aftur á móti alvarlegir grundavallar gallar í kerfinu sem ætti að leiðrétta hið snarasta! Þessir gallar gera það að verkum að fjöldinn allur af efnilegum tónlistarnemum geta ekki stundað sitt nám með góðu móti og eru það helst nemendur sem búa úti á landsbyggðinni og sækja sitt tónlistarnám til Reykjavíkur og nemendur sem eru eldri en 25 ára þar sem reglur um aldursþak eru enn í gildi í sumum sveitarfélögum. Við viljum afnema þessar reglur. Allir eiga að sitja við sama borð þegar kemur að menntunarmálum, einnig tónlistarnemar! Samkvæmt bók Ágústar Einarssonar prófessors, “hagræn áhrif tónlistar” (frá 2004) var tónlistariðnaðurinn við útgáfu bókarinnar um 1,5% af þjóðarframleiðslu. Við skilum okkar út í þjóðfélagið og því er kominn tími til að tónlistarnám sé aðgengilegt fyrir sem flesta en ekki bara fáa útvalda.


  ©  2007  Músa