Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Kennslustúdíó á Íslandi
Tónsmiðja fyrir raftónlist í Tónmenntaskólanum
Tal- og Tónver
Stúdíó Tónlistarskólans í Kópavogi

Kjartan Ólafsson
Píslarsaga Síra Jóns Magnússonar
Litli prinsinn
Hljómkelda-Hljómspil
Tilbrigði við rafmagn
Nám í Síbelíusarakademíunni í Helsinki
Calculus
Útstrok
Tvíhljóð
Þríþraut
Krónólógía

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 305 - 318

Kennslustúdíó á Íslandi

Tónsmiðja fyrir raftónlist í Tónmenntaskólanum

Í fyrsta kafla þessarar ritgerðar er minnst lítilsháttar á stofnun Tónmenntaskólans í Reykjavík árið 1952 þar sem unnið var brautryðjendastarf í almennri tónlistarkennslu yngri barna á Íslandi allt frá stofnun hans, og má fullyrða að svo sé enn í dag.

Allt frá árinu 1965 hefur skólastjórinn, Stefán Edelstein, pantað verk frá íslenskum tónskáldum til flutnings af nemendum skólans á tónleikum hans. Þorkell Sigurbjörnsson hefur t.d. skrifað tvær barnaóperur fyrir skólann. Einnig hafa Atli Heimir Sveinsson, Jón Ásgeirsson, Gunnar Reynir Sveinsson samið verk fyrir skólann og Hjálmar H. Ragnarsson skrifaði stóra óperu í tilefni af 40 ára afmæli skólans árið 1992

Árið 1994 starfaði Þorkell Sigurbjörnsson með nemendum skólans – composer in recidence – og sömdu nemendur, undir handleiðslu Þorkels, óperu eftir sögunni um Karla Magnús. Þorkell tengdi síðan vinnu nemenda saman í verk fyrir 22 manna kammersveit í fimm þáttum. Hann starfaði með 10 ára gömlum nemendum skólans. Hér er um einstakt framtak að ræða á vegum stofnunar á Íslandi sem annast tónlistarkennslu.

Í kringum 1980 hófst samvinnuverkefni Tónmenntaskólans í Reykjavík og nokkurra skóla og skólakerfa í Bandaríkjunum undir heitinu The Icelandic-American Music Curriculum Project. Kennarar unnu saman að námskrárgerð og endaði verkið með samningu bókar sem stundum hefur verið kölluð "Rauða bókin", þ.e. Námskrárgerð í tónlist. Þetta samvinnuverkefni var unnið með styrk frá Ford stofnuninni í Bandaríkjunum.

Í framhaldi af þessu samvinnuverkefni fékk Tónmenntaskólinn bandarískan styrk til að koma á laggirnar "stúdíói" og var í upphafi keyptur lágmarks tækjabúnaður til að starfsemin gæti hafist. Í fyrstunni var aðeins um að ræða tveggja og fjögurra rása segulbönd, "mixer" og "equilizer", en síðar voru teknir í notkun hljóðgerflar – sá fyrsti var Oddisey hljóðgerfill. Þessi tæki dugðu til að kynna nemendum skólans ýmis grundvallaratriði hljóðeðlisfræðinnar og einnig hvernig mætti breyta hljóðum, blanda þeim saman og búa til hljóðverk. Tveir til þrír nemendur unnu saman í hóp og höfðu yfir að ráða klukkustund á viku yfir veturinn. Hér var um að ræða elstu nemendur skólans og var fagið skyldufag fyrir alla nemendur á síðasta skólaári. Í upphafi kenndi Hjálmar H. Ragnarsson nemendum þessa grein, þá Snorri S. Birgisson, Þorsteinn Hauksson og í dag annast Jón H. Sigurjónsson kennsluna.

Þar sem þessir kennarar voru einnig kennarar í tónsmíðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík, fengu þeir leyfi til að nota tækin við kennslu tónsmíðanemanna. Þetta var í fyrsta sinni sem einhver markviss kennsla fór fram í "elektrónískri tónlist" á Íslandi. Þó fór svo að kennslan á vegum Tónmenntaskólans varð það umfangsmikil að aðeins var mögulegt að kenna grunnatriðin við þær aðstæður sem þar voru fyrir hendi; og menn komust ekkert áfram. Á sama tíma hófust

306

viðræður milli Tónlistarskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands um að setja á stofn tölvustúdíó í Reykjavík, er síðar hlaut nafnið Tal og tónver. Hefur gengið hálf erfiðlega að halda þessu stúdíói gangandi þar sem tækjum þess hefur m.a. fjórum sinnum verið stolið. Eygja menn dálitla von um að þessu megi fylgja eftir með betri árangri í væntanlegum Listaháskóla Íslands.

Tal og tónver

Um 1980 var stofnuð svokölluð tónfræðadeild við Tónlistarskólann í Reykjavík. Frá henni gátu nemendur útskrifast með grunnmenntun sem tónskáld eða jafnvel fræðimenn. Lokaverkefni frá deildinni gátu í senn verið tónverk eða rannsóknarritgerð. Hugmyndin með stofnun deildarinnar var m.a. sú að vekja áhuga nemenda á rannsóknum og að þjálfa nemendur við skriftir. Það verður því miður að segjast að árangur eins og er hefur að mestu orðið ein kynslóð tónskálda, aðeins örfáir hafa valið að skrifa fræðiritgerð til lokaprófs. Nemendur hafa lokið svokölluðu B.A. prófi frá tónfræðadeildinni, sem hefur verið metið til fulls sem slík af flestum erlendum háskólum.

Meðal þess sem nemendur kynntust í deildinni var raftónlist. Eins og sagði hér að framan var í upphafi notast við þá aðstöðu sem Tónmenntaskólinn í Reykjavík bauð upp á. Í fyrstu var aðeins kennd elektrónísk tónlist, þ.e. analóg tækni undir handleiðslu Hjálmars H. Ragnarssonar og síðar Snorra Sigfúsar Birgissonar. Eftir að Þorsteinn Hauksson tók við kennslu í deildinni bætti hann tölvutónlist við sem námsefni. Þar af leiðandi varð aðstaða sú sem Tónmenntaskólinn bauð upp á fljótlega ófullnægjandi.

Um miðjan 8. áratuginn skoðuðu Þorkell Sigurbjörnsson og nokkrir nemendur Tónlistarskólans verkfræðideild Háskóla Íslands. Markmiðið var að sýna nemendum hina "geysistóru" tölvu háskólans, en Þorkell hafði alla tíð verið óspar á áróður um þessa tækni. Heimsóknin endaði þó í hálfgerðu rifrildi við umsjónarmann tölvunnar – um það að tölvur og tónlist ættu einhvern tíman eftir að eiga saman – að mati umsjónarmannsins var það tóm vitleysa.

Þorsteinn Hauksson fékk ólík viðbrögð í Háskóla Íslands árið 1990 er hann hélt þar fyrirlestur um tölvutónlist. Kveikti fyrirlesturinn áhuga Sigfúsar Björnssonar prófessors, forstöðumanns Upplýsinga- og merkjafræðistofu Háskólans, á að koma á samstarfi og sameiginlegri aðstöðu vísindamanna, tónskálda og annarra aðila úr ýmsum fögum sem notuðu sér tölvur við tónlist og aðrar hljóðrannsóknir.

Eftir að Þorsteinn hafði kynnt þessa hugmynd fyrir formanni Tónskáldafélagsins, Hjálmari H. Ragnarssyni, og skólastjóra Tónlistarskólans, Jóni Nordal, var ákveðið að Þorsteinn ynni að þessari hugmynd og veitti slíku samstarfi forstöðu. Keypt voru tæki og sett upp aðstaða í Háskóla Íslands undir heitinu Tal og tónver. Þrátt fyrir að tækin hafi vakið áhuga óvandaðra einstaklinga (stundum kallaðir þjófar) þá hefur stúdíóið verið endurnýjað jafnharðan og hafa þar verið kenndar tónsmíðar og stundaðar rannsóknir, kennsla og hljóðvinnsla. Einnig hefur verið komið á samstarfi við erlendar stofnanir, IRCAM í París og Nordic Electro - Acoustics Music

307

Organization á Norðurlöndum. Þá má nefna að í þessu stúdíói hafa til þessa farið fram ýmsar rannsóknir á vegum nemenda og kennara Háskóla Íslands og Tónlistarskólans í Reykjavík.

Auk þessa samstarfs Háskólans og Tónlistarskólans hefur Þorsteinn Hauksson unnið frekar að hugmyndum um slíkt tölvuver og samstarfsaðila um það. Hann hefur m.a. sett fram tillögur um samstarf við Tölvugrafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Tillögurnar kveða á um að þessar stofnanir sameinist um aðstöðu og tækjakaup til stofnunar margmiðlunar vers þar sem unnið yrði með mynd og hljóð, komið upp aðstöðu til mynd- og tónsköpunar og rannsókna á þessum vettvangi. Hugmyndin er að þær deildir sem fyrir eru verði áfram sjálfstæðar einingar, en nettengist margmiðlunar stúdíóinu þannig að vinna megi í þeim frá hvorum stað. Jafnframt kveða tillögurnar á um að komið verði upp sérstökum margmiðlunar sýningarsal sem verði tengdur verunum og búinn bestu fáanlegu mynd- og hljóðtækjum.

Verður nú spennandi að sjá hvort hægt verði að koma upp "alvöru" aðstöðu í nútíma tónsmíðatækni á Íslandi þar sem listgreinar, sameinaðar og hver fyrir sig, fá að þróast í takt við nútímann – tæplega 40 árum eftir að fyrstu óskir um það komu fram. Íslendingar eiga vel menntað fólk á þessum sviðum, og þó svo einhvers staðar sé veikur hlekkur hafa Íslendingar aldrei hikað við að sækja sér aðstoð erlendis á þeim sviðum þar sem menn eru veikastir fyrir. Dæmin sanna að innan ýmissa greina íslensks samfélags stöndum við jafnfætis og í einstaka tilfellum framar en aðrar þjóðir heims. Því ekki að láta reyna á það í tæknilegum listgreinum?

Stúdíó tónlistarskólans í Kópavogi

Það hefur ótvírætt mikið að segja fyrir fyrirtæki og stofnanir hvaða stjórnendur sitja við stjórnvölinn. Gott dæmi um mikla framsýni ráðamanna er einmitt Tónmenntaskólinn í Reykjavík. Önnur tónlistarstofnun, Tónlistarskólinn í Kópavogi, hefur þegar náð frábærum árangri undir farsælli stjórn tónskáldsins Fjölnis Stefánssonar. Er þá átt við hið tölvuvædda stúdíó skólans.

Það er ekki eingöngu drifkraftur og góður vilji ráðamanna skólans sem skilað hafa árangri. Skólinn hefur verið svo heppinn að fá til sín vel menntuð og dugleg tónskáld á sviði elektrónískra-/tölvutónsmíða sem skipulagt hafa og stjórnað stúdíóinu. Þessi tónskáld eru Ríkharð H. Friðriksson og Hilmar Þórðarson.

Í kjölfar aðalfunds Tónskáldafélags Íslands 1995, hittust Hilmar, Ríkharður og Fjölnir og ræddu umfang og kostnað slíks stúdíós. Buðust þeir félagar, Hilmar og Ríkharður, til að gera skriflega greinargerð um uppsetningu og kostnað slíks stúdíós við skólann, sem þeir síðan lögðu fyrir aðalfund Tónlistarfélagsins í Kópavogi árið 1995. Niðurstöður urðu þær að fjárveitingar voru samþykktar. Drifið var í því að kaupa og setja upp grunnstúdíó til að kennsla gæti hafist.

308

Með mikilli eljusemi hefur þeim félögum tekist að koma upp góðu kennslustúdíó. Það er stærsta sinnar tegundar í almennum tónlistarskóla á Íslandi, og þar sem ásókn nemenda hefur verið langt framar vonum. Meðal þess sem nemendur þessa stúdíós hafa gert er að þeir fengu það verkefni að útsetja jólalög og voru þau flutt á sérstökum tölvutónleikum skólans – og var allt tekið með, þ.e. ljósakerfi tengt hljóðkerfinu.

Meðal möguleika sem opnast hafa við tilkomu þessa stúdíós er samvinna þess og Æfingadeildar Kennaraháskólans um þátttöku íslenskra nemenda í samnorrænu skólaverkefni þar sem nemendur áttu að vinna með myndlist, tónlist, margmiðlun og dans. Það voru 15-17 ára skólanemar sem höfðu fengið dálitla innsýn í nótnaskrift á tölvu sem komu með lögin sín á diskettu, og í samvinnu við Hilmar völdu hljóð og bjuggu til tónlist úr lögum sínum. Sýningin var síðan sett upp í Listasafni Ísland vorið 1996 og í Kaupmannahöfn um haustið.

Um þessar mundir gegnir stúdíóið sama hlutverki og tónsmiðja Tónmenntaskólans í byrjun 9. áratugarins, kennarar og tónsmíðanemendur Tónlistarskólans í Reykjavík hafa þar aðgang að kennslu og námi í tölvutónlist, allavega meðan óvissa ríkir um "óskadraum tölvutónskálda", TAL OG TÓNVER sem væntanlega verður deild innan "óskadraums allra tónlistarmanna á Íslandi", LISTAHÁSKÓLA ÍSLANDS.

Auk þessara kennslustúdíóa hafa nokkrir tónlistarskólar komið sér upp grunnaðstöðu til kennslu á tölvur við tónlistarsköpun.

309

Kjartan ÓlafssonKjartan Ólafsson (1958-)

Að loknu stúdentsprófi innritaðist Kjartan Ólafsson í tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík, þar sem hann nam píanóleik hjá Halldóri Haraldssyni og tónfræði og tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni og Atla Heimi Sveinssyni. Kjartan telst til þeirrar kynslóðar íslenskra tónskálda sem lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík um miðjan 9. áratuginn.

Auk hefðbundins tónfræði- og tónsmíðanáms sótti Kjartan tíma í elektrónískum tónsmíðum (að svo miklu leyti sem aðstæður buðu upp á á þeim tíma) hjá Hjálmari H. Ragnarssyni, Snorra Sigfúsi Birgissyni og Þorsteini Haukssyni. Aðstæður voru fremur frumstæðar, í hinu litla "stúdíói" Tónmenntaskólans í Reykjavík.

Kjartan samdi verkið Kvintett fyrir flautu, klarínettu, fiðlu, víólu og selló árið 1982 (frumflutt af nemendum Tónlistarskólans árið 1982), og verkið Synfónískt ljóð fyrir hljómsveit (1984) og nokkur fleiri verk. Þá samdi Kjartan á námsárunum tvö verk sem hann vann í stúdíóinu í Tónmenntaskólanum. Þetta eru svokölluð "radíófónísk" verk, þ.e. verk sem hugsuð eru til flutnings í útvarpi.

Píslarsaga síra Jóns Magnússonar (Elektrónísk tónlist á segulbandi - 1983 - 10:20)

Verkið byggir á völdum köflum úr sögu Séra Jóns Magnússonar með ofangreindu heiti. (390) Í því eru kaflarnir lesnir af Magnúsi Ragnarssyni leikara og textinn hljóðskreyttur eftir stemningu sögunnar. Þau tæki sem Kjartan hafði aðgang að við samingu verksins var ART 2600 hljóðgerfill og fjögurra rása segulband. Hljóðgerfillinn var mónófónískur, þ.e. aðeins var hægt að velja eitt hljóð í senn. Hægt var að velja mismunandi bylgjur, sínus-, kassa-, púls- og sagarblaðsbylgju. Einnig var hægt að velja suð. Þetta voru frumstæðar aðstæður en þær gerðu þó ungum tónskáldum kleift að vinna með grunneindir tækninnar.


390 Jón Magnússon, f. 1610: Píslarasaga síra Jóns Magnússonar: Almenna bókafélagið, 1967.

310

Litli prinsinn (Elektrónískt verk á segulbandi - 1984 - 20:30)

Ári síðar samdi Kjartan annað verk út frá svipaðri hugmynd, þ.e. leikarar lesa sögu sem síðan er "hljóðskreytt". Verkið er "radíófónískt" (391) verk eins og það fyrra og byggir á sögu eftir franska rithöfundinn Antoine de Saint-Exupéry sem heitir "Litla prinsinn." (392) Var verkið flutt í leikuppfærslu á vegum Stúdentaleikhússins árið 1994 undir stjórn Halldórs E. Laxness leikstjóra.

Hljómkelda (Elektrónískt verk á segulbandi - 1985 - 9:00)
Hljómspil (Elektrónískt verk á segulbandi - 1986 - 10:00)

Á árunum 1984-86 stundaði Kjartan nám í raftónsmíðum við Utrecht Conservatory í Hollandi hjá tónskáldinu Ton Bryunel í raftónlist, bæði analóg- og tölvutækni (PDP11 og PDP 13), við Instituut voor Sonologi. Fyrsta verkið var Hljómkelda. Í verkinu vinnur tónskáldið með íslensk vatnahljóð ásamt kvenrödd þar sem kvenröddin syngur frumortan texta Þórarins Eldjárn skálds. (393)

Í verkinu Hljómspil frá 1986 vinnur höfundur með svipaða tækni og sumpart með sömu hljóðlindir og í Hljómkeldu, enda bæði verkin unnin við sömu aðstæður og með sömu tækjum. Eru þetta eins konar "collage" verk, þar sem klippt eru saman á ýmsan hátt tæknilega unnar hljóðlindir.

Við að bera saman þessi tvö verk Kjartans og fyrstu tvö verk Lárusar Grímssonar tónskálds, sem bæði eru unnin í sama stúdíói, þ.e. Instituut voor Sonologi, kemst maður að því hversu áberandi svip tæknin setur á verkin. Tveir ólíkir höfundar með um fimm ára millibili semja hvor um sig tvö verk með áberandi sameiginlegum einkennum eru á verkunum, þeim einkennum sem liggja í sjálfri tækninni. Má því segja að þessi fyrstu verk þeirra séu stúdíur í möguleikum og meðhöndlun tækninnar.

Tilbrigði fyrir rafmagn ("Live" elektróník - 1987 - 9:00)

Þetta verk var samið fyrir UNM-hátíð (394) sem haldin var í Reykjavík árið 1987. Í þessu verki gerir höfundur tilraunir með að flytja "live electronic" með aðstoð hljóðgerfla og sekvensa sem hann forritaði á staðnum. Í rauninni er um að ræða nokkrar "hljóðblokkir" sem síðan leika hver fyrir sig eða þeim er blandað saman. Hér var djarft teflt af höfundi, en þessar tilraunir hans voru ekki ólíkar þeim sem gerðar voru í popptónlist samtímans, að nýta "soundið", að nýta möguleika hljóðgerfilsins til að leika með og skapa áður óþekkt


391 Ekkert samhengi er á milli hljóðskreytinganna í þessum tveimur verkum.
392 Antoine de Saint-Exupéry (1900- 44): Le petit prince: Edidions Gallimard, 1946. París.
393 Kvenröddina í þessu verki á Jóhanna Linnet söngkona.
394 Ung Nordisk Musik.

311

hljóðumhverfi innan stílsins. Hér er ekki um eiginlega tónsmíð að ræða heldur mætti kalla hana performans eins og hún var flutt.

Nám í Síbelíusarakademíunni í Helsinki

Haustið 1986 lá leið Kjartans til Finnlands, í Síbelíusarakademíuna í Helsinki. Þar lærði hann tónsmíðar undir handleiðslu Enojuhani Rautavaara og þar urðu til verkin String Q fyrir strengjakvartett og hljómsveitarverkið Reflex. Í þessum verkum beitir höfundur algrímskum aðferðum á tónefnið, hann sækir hugmyndir í seríalismann og "set theory". Í verkunum er leiðin rudd í tónsmíðaaðferðum framtíðarinnar, þ.e. algrímskri tónsmíðatækni. Áhuginn á hinum náttúruvísindalega þætti er tónskáldinu hjartfólgin. Hann valdi náttúrufræðibraut í menntaskóla og hefur hefur nálgun hans í tónlistarinni verið undir áhrifum þar frá.

Hin algrímska aðferð við úrvinnslu tónsmíðaefnisins átti eftir að taka hug Kjartans allan í náminu í Finnlandi. Allt frá árinu 1988, er hann hóf nám hjá Paavo Heininen í Síbelíusarakademíunni, kynnti hann sér og gerði tilraunir með allar þær tækni- og stærðfræði aðferðir 20. aldarinnar í tónsmíðaforritum fyrir tölvur. Má þar nefna hugtök eins og "probability and random process", "fractional noise", Markov keðjur, "neurale network", kaoskenninguna og einnig rannsóknir og tónsmíðar tónskálda eins og Max Matthew, Molton Babbit og Iannis Xenaks. (395)

Þessar stúdíur urðu kveikjan að tónsmíðaforriti fyrir tölvu sem fékk heitið CALMUS- Calculated Music. Útgangspunktinn við þessar rannsóknir hefur Kjartan skilgreint í eftirfarandi texta:

    Þó svo mikið af tónlist hafi verið samin með þessum aðferðum fylgja þeim viss vandamál að mínu mati því: Þessarar aðferðir eru nátengdar stærðfræði og vísindum. Við það að beita þeim beint á tónsmíðar getur það gefið tónlistinni meira vísindalegt og fræðilegt yfirbragð en tónlistarlega áhugavert. Þessar aðferðir láta í té óhemju magn upplýsinga, en á sama tíma engar upplýsingar um hvernig umbreyta megi þeim upplýsingum yfir í tónlist. Þar sem þessar aðferðir eru ekki framsettar með það í huga að eiga við tónsmíðaleg/tónlistarleg vandamál, eru þær ófullnægjandi þegar kemur til þess að vinna með "lit" og spennu í hljómum, laglínumótun eða tónlistarlega þróun. (396)

Það er greinilegt að menn hafa ekki hugsað Þjóðleikhúsið frá upphafi sem neina tónleikahöll eða sem nýtt tónlistarhús.æður sem íslensk tölvutónskáld hafa búið við, þ.e. heima í stofu á eigin tæki. Þá átti Lárus DX7 hljóðgerfil og Apple IIE tölvu með ófullkomnu sekvenserforriti. Einnig átti hann "editor" fyrir hljóðgerfilinn sem auðveldaði vinnuna.

Í verkinu Amalgam er línan lögð í þeim stíl sem einkennir mestalla tónlist hans hér eftir, þ.e. tónlist sem byggir á stuttum rytmískum hendingum, endurteknum rytmiskum mynstrum í


395 Um öll þessi hugtök má lesa í bókinni Elements of Computer Music eftir F. Richard Moore.
396 Inngangskynning að forritinu CALMUS.

312

Segja má að forritið – og um leið tölvan, virki sem eins konar milliliður milli hugmynda tónskáldsins og fullbúins tónverks. Tónskáldið gefur forritinu ákveðinn efnivið, stutta hendingu eða hljóma, sem kalla mætti músíkalskar sellur. Þessum sellum getur tónskáldið gefið ýmsa möguleika, og um leið hindranir, í úrvinnsluþættinum (sjá greininguna að neðan).

Tónsmíð getur byggst á mörgum svona sellum, sem svo fullunnin hver um sig kallast "músíkalskt objekt". Þeim er síðan raðað saman, skeytt saman í eina heild. Þegar tónskáldið hefur á þennan hátt sett saman, að þess mati, samstæða tónsmíðalega heild í tíma og formi, má opna hljóðskrána í nótnarskriftarforriti. Það er þá sem tónskáldið getur byrjað að "hífa og slaka" ákveðnum nótum "eftir eyranu", þ.e. breyta ýmsu ef talin er þörf á til að fá tónskáldið inn í myndina. Á þessu stigi er einnig unnið með ýmis hljóðdýnamísk tákn, leikhátt á hljóðfærið, hraðabreytingar og annað til að skapa hina réttu músíkölsku tjáningu.

Calculus (Einleiksflauta - 1990 - 11:00)

Dæmi 98

Dæmi 98

Fyrsta verkið sem Kjartan sendi frá sér og samið var með CALMUS var verkið Calculus sem hann samdi haustið 1990 fyrir hinn þekkta austurríska flautuleikara Manuelu Wiesler sem búsett var á Íslandi í nokkur ár. Í inngangi í partitúr verksins gerir höfundur dálitla grein fyrir tónsmíðinni, formi hennar og efnivið. Verkið er í þremur höfuðköflum, A, B og C, sem svo hver um sig deilist niður í þrjá styttri kafla, 1, 2 og 3. Hver kafli um sig "líður" inn í þann næsta – þeir tengjast saman á hlutlausan hátt þannig að skilin verða sem minnst áberandi (dæmi 98).

Skýringar höfundar og partitúrinn gera í rauninni mjög góða grein fyrir á hvern hátt algorytmískt tölvuverk er unnið í forritinu, á hvern hátt sellur eru myndaðar, á hvern hátt hin músíkölsku objekt verða til og hvernig tónskáldið kemur síðan inn og býr til "tónlist" úr efniviðnum. Ég hef í viðauka gefið skýringu höfundar á því hvernig hann samdi þetta verk.

Hinar svokölluðu "handskrifuðu" sellur, þ.e. sá efniviður sem tónskáldið matar tölvuna á og lætur hana síðan vinna úr, virka sem eins konar módel fyrir yfirbragð þess hluta sem sellan er fyrirmynd fyrir.

Hafa ber í huga að á þessum tíma var forritið enn á frumstigi, en dæmið hér er tekið til að sýna fram á aðferð sem beitt er við algrímskar tölvutónsmíðar. Í dag er forritið orðið miklu fullkomnara og möguleikar tónskáldins til að hafa áhrif á hina ýmsu tónlistarlegu úrvinnsluþætti forrisins eru orðnir mun meiri.

313

Útstrok

Annað verkið sem höfundur samdi með aðstoð CALMUS forritsins var hljómsveitarverkið Útstrok. Verkið var flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þann 4. nóvember 1993. Mjög áberandi er í þessu verki hin tölvuvædda selluúrvinnsla tónrænna hugmynda tónskáldsins. Eins og minnst var á hér að framan, er ein hugmyndin að baki tónsmíðaforritsins sú að koma megi sér upp hugmyndabanka, geyma ákveðnar úrvinnsluforsendur sem tónskáldið gefur forritinu og beita þeim á svipaðar hugmyndir. Einnig má geyma úrvinnslu forritsins á ákveðnu hljóðefni og "klippa" inn í ný verk, annað hvort í heild sinni eða brot.

Hér er um að ræða mjög áþekkt "músíkalst objekt" og fyrirfinnst í B-3 hluta verksins sem greint var frá hér að framan – Calculus. Þetta "objekt" birtist hér sem endurtekið frá því í takti 81-82 í flautunum, en frekari algrímska úrvinnslu á því má finna í taki 83-84 í flautunum.

Hin "músíkölsku objekt" eru mjög áberandi í verkinu og má auðveldlega rekja þau, bæði eftir heyrn og ekki síður grafískt í sjálfri raddskránni. Greinilegt er að höfundur hefur "soundið" sem útgangspunkt, leitar eftir krafmiklum og orkuríkum hljóðum og samspili þeirra. Lýsir það sér m.a. í því að höfundur valdi að setja hljóðnema við hljóðfæri hljómsveitarinnar og leika miðbik verksins í gegnum kraftmikið hljóðkerfi.

Dæmi 99
Dæmi 99

314

Stórform verksins og á sama tíma hin músíkölsku tjáningarskeið gætu litið þannig út (dæmi 100): (397)

Dæmi 100
Dæmi 100

Verkinu er skift niður í 6 "hendingar" og má auðveldlega rekja þær bæði í raddskrá og eftir heyrn. Þetta verk er líklega mikilvægasta verk höfundar fram að þessu.

Tvíhljóð (Gítar og "tölvu-hljómsveit" – 1993)

Verkið Tvíhljóð er samið fyrir Pétur Jónasson gítarleikara. Verkið er skrifað fyrir einleiksgítar og það sem höfundur kallar "tölvuhljómsveit". Með því á hann við að hann notar hljóðbanka hljóðgerfils til að flytja hin ýmsu "lög" verksins. Raddir hljóðgerfilsins eru að hluta til áður innleiknir sekvensar á tölvuna og að hluta til leikur höfundurinn á hljóðgerfilinn beint frá raddskránni, ásamt því að stjórna innkomu hinna mismunandi sekvensa. & ;msar hugmyndir í verkinu eru ekki óskyldar verkinu Tilbrigði fyrir rafmagn frá árinu 1987 þar sem höfundur beitti hljóðgerfli á svipaðan hátt. Þetta verk er liður í tilraunum höfundar til að skapa "live electronic" verk sem að mestu leyti er samið í tölvu. Þetta verk hefur verið í stöðugri þróun síðan höfundur lauk fyrstu útgáfu þess. Það var flutt á Myrkum músíkdögum í febrúar 1997 og þá sem Tvíhljóð II. Í umfjöllun sinni um þetta verk skrifar Atli Heimir Sveinsson gagnrýni í Morgunblaðið:

    Verk Kjartans, þau hin síðari, eru tjáningarrík tónlist og sammannleg. Honum hefur tekist að gera forritið og tölvuna að listrænum miðli. Í Tvíhljóði II teflir hann saman nákvæmlega útreiknaðri tónlist og tímasettum hálfspuna hljóðfæraleikaranna og áhrifamikum samleik tölvu/bands og hljóðfæra. (398)


397 Þessi teikning er tekin úr "Calmus – introduction" frá 1993 – 1. uppkast að notendaleiðbeiningum.
398 Morgunblaðið, 26. febrúar 1997.

315

Þríþraut (Tríó fyrir klarinettur -1993 - 11:00)

Dæmi 101
Dæmi 101

Þetta verk er samið fyrir klarínettutríóið CHALUMEAUX, sem í eru Kjartan Óskarsson, Sigurður E. Snorrason og Óskar Ingólfsson og var verkið frumflutt í júní árið 1993. Verkið er samið í CALMUS forritinu og beitir höfundur hér í fyrsta sinn kanónískri raddfærslu, en hann hafði unnið að því að þróa forritið til þess að það réði við slíka tækni. Eins og sjá má á raddskránni er um að ræða þriggja radda kanóníska fjölröddun í upphafi verksins. Í þessu verki glímir höfundur við ýmsar tónsmíðatæknilegar aðferðir með forritinu. Verkinu er deilt niður í átta minni hluta sem hver um sig glímir við mismunandi aðferðir. Fyrsti hluti verksins

316

sýnir fjölröddunarmöguleika forritsins sem á þessum tíma var jafnframt nýr möguleiki í þróun þess (dæmi 102).

Dæmi 102
Dæmi 102

Annar hluti verksins byggir á fjölröddun (í skilningi 20. aldar) þar sem hver rödd hefur sitt eigið rytmíska/melódíska yfirbragð (dæmi 103).

Dæmi 103
Dæmi 103

Þriðji hlutinn byggir á aðferðinni "tveir á móti einum", þ.e. tvær raddir sem leika í sama rytma (hómófónt) móti þeirri þriðju sem leikur rytmískt andstæða mótrödd.

Fjórði og fimmti kaflinn glíma við hversu skyld laglínan sem forritið skilar er þeirri sellu sem tónskáldið matar það á – líkt og dæmið úr verkinu Calculus. Næstu tveir hlutar verksins vinna með efni frá öðrum og þriðja hluta og tveir síðustu kaflarnir hafa yfirbragð endurtekningar.

Krónólógía (Gítar, sópransaxófónn og segulband -1994 - 7:00)

Þetta verk er samið fyrir sænska gítarleikarann Magnus Andersson og saxófónleikarann Jörgen Pettersson og frumflutt af þeim í Stokkhólmi í apríl 1994. Hér beitir höfundur ámóta aðferð við tónsmíðarnar og í verkinu Tvíhljóð. Tölvunni er beitt við sjálfa tónsmíðina við

317 (Síða 318 er auð)
úrvinnslu hugmynda, en einnig virkar hún sem sjálfstætt hjóðfæri (hljóðgerfillinn) við flutning verksins.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998