Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Önnur elektrónísk tónskáld af fyrstu kynslóð
Atli Heimir Sveinsson
Búr
Gunnar Reynir Sveinsson
Elektrónísk tónlist
Jón kallinn Hreggviðsson og ég löllum yfir hið blauta Holland
Sjávarmyndir fyrir segulband
Dropar á kirkjugarðsballi
Umhverfi
Á fjölunum

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 243 - 254

Önnur elektrónísk tónskáld af fyrstu kynslóð

Í ritgerð þessari hef ég valið að flokka tónskáldin niður í hópa eftir kynslóðum. Um er að ræða þrjá hópa – eða kynslóðir – elektrónískra tónskálda á Íslandi. Í fyrsta hópnum eru: Magnús Blöndal Jóhannsson, Þorkell Sigurbjörnsson, Atli Heimir Sveinsson, Leifur Þórarinsson og Gunnar Reynir Sveinsson.

Í öðrum hópi elektrónískra tónskálda eru: Hjálmar H. Ragnarsson, Þorsteinn Hauksson, Snorri Sigfús Birgisson og Lárus H. Grímsson.

Í þriðja hópnum eru: Kjartan Ólafsson, Ríkharður H. Friðriksson, Hilmar Þórðarson, Helgi Pétursson og Þórólfur Eiríksson.

Einnig eru tvö tónskáld sem aldurslega gætu verið af annarri kynslóð, þau Finnur Torfi Stefánsson og Karólína Eiríksdóttir. En í sögu elektrónískrar tónlistar á Íslandi eru þessi tónskáld fremur "seint fædd" í augnablikinu þar sem þau hafa aðeins samið örfá elektrónísk verk, og þau öll eftir árið 1990.

Nokkur önnur tónskáld af hinni svokölluðu fyrstu kynslóð elektrónískra tónskálda á Íslandi hafi nýtt sér elektróníska tækni í verkum sínum. Oftar en ekki hefur tækninni verið beitt við gerð hljóðeffekta fyrir leikhús eða kvikmyndir en mjög sjaldan er um að ræða heildstæð verk til flutnings. Í sumum tilfellum er það vegna þess að verkin sem samin hafa verið eru fá eða tónskáldið hefur hvorki haft óskir um að verkið væri flutt eða skapast tækifæri til að flytja verkið. Fyrsta kynlóð elektrónískra tónskálda hefur nánast frá upphafi tengst hinum djarfa Musica Nova félagsskap, og hefur starfsemi þess félags haft hvetjandi áhrif á þau í starfi. Auk Magnúsar Blöndals og Þorkels eru það þeir Atli Heimir Sveinsson, Gunnar Reynir Sveinsson og Leifur Þórarinsson. Ég mun nú fjalla um þátt þeirra í sögu íslenskrar elektrónískrar tónlistar.


245 (Síða 244 er auð)

Atli Heimir Sveinsson (1938-)

Eitt litríkasta tuttugustu aldar tónskáld sem Ísland hefur alið er Atli Heimir Sveinsson. Litróf persónu hans birtist ekki einungis í verkum hans, heldur einnig í listpólitískum skoðunum. Atli gat sér orð strax upp úr 1960 fyrir að vera róttækur í tónsköpun sinni og fyrir að fara ótroðnar slóðir í tónsköpun og listflutningi. Nafns hans er gjarnan getið í tengslum við Fluxus tilstandið í Austurbæjarbíói árið 1965 og fjallað um í kaflanum um Musica Nova, sem og aðrar róttækar uppákomur í tengslum við listir. Á sama tíma spannar tónsköpunarsvið Atla líklegast breiðustu stílflóru íslenskra tónskálda; allt frá vinsælum sönglögum í stíl dægurtónlistar stríðsáranna til nútímalegrar sjónvarpsóperu og stórra hljómsveitarverka.

Atli hóf tónlistarnám 10 ára gamall hjá dr. Heinz Edelstein sem þá hafði með höndum barnakennslu er síðar varð upphafið af Barnamúsíkskólanum. Hann stundaði tónlistarssögunám hjá dr. Urbancic þar sem hann kynntist fyrst tónlist Bartók og Schönberg. Hljómfræði lærði hann hjá dr. Robert Abraham Ottóssyni. Píanónám stundaði Atli hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni en Rögnvaldur hafði fyrstu íslenskra píanóleikara tekið upp á því að leika verk tuttugustu aldar tónskálda. Sá tónlistarmaður sem lék verk eftir Prokoffieff og Bartók þótti á þeim árum vera töluverður modernisti. Þegar Rögnvaldur tók sér frí frá kennslu og dvaldist í Vínarborg um miðjan 6. áratuginn, sótti Atli tíma til Guðmundar Jónssonar píanóleikara og hjá honum kynntist hann verkum franskra tónskálda, Debussy og Ravel.

Árið 1957 eignaðist Atli sína fyrstu hljómplötu með tónlist Weberns og á menntaskólaárunum kynntist hann tónlist Béla Bartók, þar sem plötuklúbbur skólans átti dálítið safn af tónlist hans. Að loknu stúdentsprófi hélt Atli til framhaldsnáms í Köln í Þýskalandi haustið 1959 og voru þar meðal kennara hans Günther Rapael og Karlheinz Stockhausen. Atli gat sér snemma gott orð á erlendri grundu fyrir tónverk sín. Hann lauk námi við háskólann í Köln á aðeins þremur árum og að því loknu fluttist hann síðan til Utrecht i Hollandi þar sem hann nam elektróníska tónsmíðatækni hjá Gottfried Michael Koenig.

Þrátt fyrir þekkingu sína á elektrónískri tónlist þá hefur Atli ekki nýtt sér hana nema að litlu leyti. "Ég gerði eitthvert verk í Bildhoven sem ég veit ekkert hvað orðið hefur um", (320) en þetta verk mun vera það fyrsta sem hann gerði með þessari tækni. Í nokkrum stærri verkum


320 Einkaviðtal 12. apríl 1994.


246

hefur hann notað segulbandið (321) og þá aðallega unnið með konkrét hljóð. Þau hefur hann notað í verkum eins og Spectacles frá 1969, Night in The Cathedral frá árinu 1972, Bizzareries frá 1972, Flower Shower frá árinu 1973 og síðan ekki fyrr en í verkinu Jubilius II (322) frá árinu 1986.

  ...þetta er básúnukonsert. Ég lék inn á tónband til hliðar allar básúnurnar, 4 básúnur og koma þær frá mismunandi stöðum. Í miðkaflanum eru elektrónísk hljóð og notaði ég það sem til var hjá útvarpinu þá, og svo hljóðgerfil. (323)

Notkun konkrét hljóða í verkum Atla hafa aðallega þann tilgang að víkka hefðbundinn hljóðfæraheim og að gefa hljóðinu meira rúm – láta hljóðið koma frá mismunandi stöðum. Einnig hefur hann nýtt sér segulbandið til að skapa eins konar díalóg eða undirstrikun hugmynda eða hugsana.

  Silkitromman, þar eru söngraddir á teipi. Hann er að hugsa og þá læt ég hann syngja inn á 8 rásir þessar innri hugsanir mannsins, innri mónólóg; hann syngur á móti sínum eigin hugsunum. (324)

Í Silkitrommunni notar Atli segulbandið til að gefa hugmyndum verksins meiri vídd, meira rými. Í nánast öllum tilfellum eru hljóðin tekin fyrir eins og þau eru, og lítil eða nánast engin tæknileg vinnsla fer fram á þeim.

Auk þess elektróníska verks sem Atli samdi í Utrecht um miðjan 7. áratuginn, og ekki hefur tekist að finna, er til eitt verk frá hans hendi sem hann samdi í Toronto í Kanada árið 1972. Verkið heitir Búr (Cage!) og var fyrst flutt opinberlega á fyrstu ErkiTíðar hátíðinni sem haldin var í Reykjavík í október 1994, en þá hafði höfundur samið klarínettutríó við hljóðbandið.

Búr (Segulbandsverk - 1972 - 9:50)

Eins og fram hefur komið þá varð viss vakning upp úr 1960 við samningu elektrónískrar tónlistar. Þó svo það hafi aðeins verið tónskáldin Magnús og Þorkell, þá virtist áhuginn á þessari tegund tónlistar hafa vaknað meðal tónlistaráhugafólks, allavega tímabundið.

Í kringum 1970 verður vakning fyrir þessari tækni. Þorkell Sigurbjörnsson semur verkið Fípur í Stokkhólmi, og Magnús Blöndal Jóhannsson Sonorities III í Reykjavík. Til viðbótar við þessa tvo semur Atli Heimir Sveinsson Búrið í Kanada, auk áðurnefndra verka þar sem hann notar segulbandið lítilsháttar með hefðbundnum hljóðfærum.


321 Atli hefur aldrei nýtt sér tölvu við tónsmíðar.
322 Jubilius II er stóraukin útgáfa af verki nr. I með sama heiti.
323 Einkaviðtal 12. apríl 1994.
324 Sama (Silkitromman er ópera).

247 (Síða 248 er auð)

Eins og bent hefur verið á voru litlir möguleikar fyrir íslensk tónskáld að fara erlendis til að vinna í stúdíóum en þó var einstaka sinnum hægt að fá styrki til dvalar í útlöndum. Árið 1972 fékk Atli Heimir svokallaðan utanfararstyrk Menningarsjóðs og nýtti hann styrkinn m.a. til dvalar í Toronto við að semja verkið Búr (og leggja drögin að flautukonsert fyrir Robert Aitken sem síðar færði Atla tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976).

  Stúdíóið bauð upp á ósköp svipuð tæki og önnur stúdíó. Það var kallað "hálf automatískt". Það voru sequenser og filterar, band-pass filterar, generatorar og nokkrar maskínur, bæði tveggja og fjögurra rása. Ringmodulatorar og sekvensar þar sem hægt var að láta ákveðna talna- eða tónaröð endurtaka sig. Búa til ákveðna rytma og þeim mátti svo breyta með hendinni eins og heyrist í verkinu". (325)

Auk þessa mátti "fara inn í" ákveðin hljóð og gefa þeim mismunandi "liti" með filterum, mismunandi "decay" og mismunandi "attac".

Þar sem stúdíóið var "analog", þ.e. sams konar stúdíó og Atli hafði kynnst í Hollandi, þá var hann kunnugur möguleikum þess og gat því nýtt tímann vel.

Það sem einkennir verkið einna helst er ákveðinn rytmi sem liggur eins og vegaspottar um verkið en taka breytingum eftir ímynduðu breyttu landslagi sem þeir liggja í gegnum. Það má finna vissa áningarstaði í verkinu sem deila því upp í ákveðna formhluta, sem hver hefur sitt tempó.

  Þetta eru allt rammar af einhverjum rimlum, einhverju rytmarimlum og þaðan er kannski nafnið. Og það er kannski þetta continuo, þetta viðvarandi í þessu verki, þessi rytmi. Og inn í hann eru settir atburðir og seinast koma þarna örlitlar mannsraddir sem maður rétt þekkir áður en allt lokast. Þetta er hljóðbúr þar sem hljóðin eru lokuð inni af öðrum hljóðum, þau eru römmuð af þeim. (326)

Eins og áður sagði þá var Búrið fyrst flutt árið 1994 og þá í breyttri mynd – sem einnig gefur góða hugmynd um þá tæknilegu möguleika sem fyrir hendi voru á þessum tíma í analóg stúdíóum.


325 Einkaviðtal 12. apríl 1994.
326 Sama.

249

Gunnar Reynir Sveinsson (1933-)

Í músíkölskum heimi Gunnars Reynis Sveinssonar rennur sígaunablóð í þeim skilningi hversu víða um heim hann hefur farið og hve víða hann hefur staldrað við. Strax sem barn vakti hann á sér athygli sem dansari og steppari í danssýningarflokki frú Rigmor Hanson í Reykjavík og auk þess vann hann sér inn vasaaura með því að leika á munnhörpu, blístra og jóðla fyrir fólk.

Tíu ára gamall byrjaði Gunnar að læra nótnalestur og harmonikkuspil og tólf ára hóf hann nám í trommuleik hjá Skafta Ólafssyni og síðar hjá Svavari Gests, sem þá var nýkominn frá Juilliard skólanum í New York. Sextán ára gamall var Gunnar orðinn atvinnumaður í danshljómsveitum og sem trommuleikari töframanna í Tívolíinu sem þá var starfrækt í Reykjavík. Meðal nýjunga í tónlistarheiminum á þeim árum var víbrafónleikur hans í K.K.- sextettinum og hann gat sér orð sem "einn af bestu" vibrafónleikurum í jassheimi Evrópu. Bæði Stephane Grappelli og Svend Asmussen buðu honum fasta stöðu í hljómsveitum sínum sem víbrafónleikara.

Upp úr 1953 hóf Gunnar tónsmíðanám hjá dr. Victor Urbancic og þar kynntist hann tónlist Bachs sem átti eftir að hafa áhrif á hann síðar á lífsleiðinni. Árið 1955 hóf hann nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Jóns Þórarinssonar; hljómfræði, kontrapunkt og tónsmíðar. Ásamt því lék hann allar hörpuraddir í Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hann spilaði með hljómsveitinni í níu ár. Gunnar var jafnframt meðal þeirra fyrstu sem áttu verk á tónleikum Musica Nova.

Framhaldsnám í tónsmíðum stundaði Gunnar í Amsterdam Conservatorium á árunum 1964-68 og árin 1974 og 1975 stundaði hann nám í Studio voor Sonologie í Utrecht í raftónlist. Gunnar hefur komið víða við í tónsmíðum sínum og áhrif hins rytmíska heims, allt frá barrokktónlist til næturklúbbajass, má finna í bæði kirkjulegum og veraldlegum verkum hans enda hefur tónlist hans stundum verið kölluð "Full Blood Music".

Elektrónísk tónlist

Sama gildir um Gunnar Reyni og fjölmörg tónskáld í Evrópu og víðar að fyrstu kynni hans af elektrónískri tónlist voru verk Stockhausen. Það var sú tónlist sem flutt var á tónleikum Musica Nova á fyrstu árum þess kveikti þann neista með honum að hann vildi gjarnan læra þessa tækni. En eins og bent hefur verið á byrjaði hann ekki að læra elektrónískar tónsmíðar fyrr en árið 1974. Frá þeim tíma hefur Gunnar Reynir alltaf haft annan fótinn í þeirri tækni

250

og samið nokkur elektrónísk verk. Sum verka hans eftir 1990 eru áberandi fyrir notkun hljóðgerfla.

Þau hljóð sem Gunnar vinnur með í verkum sínum eru aðallega konkrét hljóð ásamt einstökum sínustónum. Þessi hljóð fá mjög mismunandi hljóðvinnslu, en þó aðallega "variable speed" til myndunar mismunandi tónhæða og skala. Mjög erfitt er að gera grein fyrir hinni elektrónísku tónlist Gunnars vegna þess hversu fjölbreytt "collage" tónlist hún er; byggir á stuttum brotum af alls kyns tónlistarstílum einna helst folklorístísk/jass/elektronísk/prógrammúsík. Sem dæmi um raftónlist Gunnars Reynis Sveinssonar vil ég nefna hér nokkur helstu verka hans.

Jón kallinn Hreggviðsson og ég löllum yfir hið blauta Holland (Segulbandsverk - 1974 - 14:45)

Þetta verk er eitt af fyrstu elektrónísku verkum Gunnars og fyrsta verkið sem hann samdi í Studio voor Sonologi í Hollandi, undir handleiðslu Michael Koenig.

  Titillinn er náttúrlega undir áhrifum frá Laxness; ég var undir svo miklum áhrifum frá Jóni Hreggviðssyni... það var hádegishlé þegar ég var í stúdíóinu og þá fór ég að rölta niður gömlu síkin; mér fannst Jón Hreggviðsson vera einhvers staðar labbandi á undan mér, frekar en á eftir. Þá hugsaði ég með mér: Þegar ég er búinn að læra á öll tækin, verður fyrsta verkið tileinkað Jóni kallinum Hreggviðssyni vegna þess að hann er hér, við stöndum hér báðir við gamla síkið. (327)

Eins og fram kemur á þessu skema höfundar þá deilir hann verkinu niður í 15 atriði sem hafa mjög óskyldar hljóðlindir, en hafa ákveðið prógram sem byggir á hughrifum frá persónunni Jóni Hreggviðssyni og lífi hans (dæmi 69). Einnig eru fléttaðar inn í þetta aðrar hugmyndir sem tónskáldið hefur unnið með og úr. Til skýringar vil ég gera örlitla grein fyrir hverju atriði fyrir sig.

1. Fótspor við síkin: Sjá tilvitnun í höfund hér að ofan.

2. Lítill leki...: Þessi tilvitnun er upphaf á litlum barnatexta sem höfundur gerði sjálfur og hljóðar allur þannig: Lítill leki er lítill, lítill lítill leki sekkur stóru skipi á kaf. Þessi hending, ásamt mörgum öðrum í svipuðum stíl mynda lagabálk sem heitir 52 númer fyrir nemendur á öllum aldri


327 Einkaviðtal við höfundinn 26. október 1994.

251

og aukanúmer fyrir hlaupársdaginn. Þetta eru kórlög, einsöngslög, barnalög fyrir leikskólabörn og ýmis skólamúsík sem Gunnar samdi á árum sínum í Hollandi (um svipað leyti og hann vann við útsetningar á þjóðlögum úr Íslenskum þjóðlögum.) Lagið er leikið á bassa, víbrafón og flautu.

3. Þeysingur: Stuttur sekvens með elektrónískt unnum ásláttarhljóðum.

4. Skot, tromma, lúðrar: Þetta segir höfundur að sé "til heiðurs gamla manninum".

5. Kvint, Sigurdrífumál: Hér syngur höfundur ásamt tveimur félögum sínum í stúdíóinu (nemum frá Ástralíu) fimmundartónbil og ofan í það er lögð upptaka af lestri Sveinbjörns Beinteinssonar, allsherjargoða Ásatrúarmanna, þar sem hann kveður Sigurdrífumál, eitt Eddukvæða.

6. Energí I: Hratt leikinn sínustónasekvens. "Þetta er til að brjóta upp formið. Ég geri mikið af því í þessu verki að koma með miklar andstæður. Þetta fer eftir hvernig maður skiptir um skap." (328)

7. Rímnastemmur: Hér eru leiknar djassaðar útsetningar af rímnastemmum á fiðlu, gítar og víbrafón.

8. Energí II: Svipað og Energí I en meira unnið – meira "skrúfaðir takkar".

9. Fiðla, víbrafónsóló og rímnastemma: Líkt og 7.

10. Sínusbogi. Sínustónar í fallandi og stígandi sekvens.

11. Þingvallakirkjuklukka: "Þrjú slög. Hún er ansi veik hjá mér (sjá athugasemd á skitsunni), en þetta er líka ógurlega veigalítil kirkja. Þetta er til heiðurs Jóni, eins og rímnastemman. Hann var hjá frú í Utrecht í fjögur ár í húsmennsku og ég hugsa með mér þegar rímnastemman kemur, þá eru þau komin í bólið. Svo kemur þessi sínusbogi; þá er hann að ná í náttpottinn undan rúminu". (329)

12. Ó, mín flaskan...: píanó: Ó, mín flaskan fríða... höfundur leikur stefið á píanó. "Þetta er svona kvennafar og vesen." (330)

13 Andadráttarstunur + sínustónn: Elektrónísk hljóð sem minnt gætu á stunur ásamt stígandi víbrandi sínustónum í mismunandi tónbilum og "tónhæðum".


328 Einkaviðtal. 26. október 1994.
329 Sama.
330 Sama.


252

14. Það gerir ekkert til...: "Það gerir ekkert til þó ég fái svona spil, því það má alltaf stokka þau upp aftur" Keðjusöngur án texta.

15. Coda: & ;msir elektrónískir impúlsar, stígandi og fallandi með mismunandi hraða.

Eins og sést á þessari greiningu þá kemur höfundur víða við í hljóðlindum sínum við samningu verksins og gætir þar bæði alvöru og gríns. Er þetta einskonar collage um söguna af Jóni Hreggviðssyni.

Sjávarmyndir (Segulbandsverk – 1975)

Næsta verk sem Gunnar Reynir semur í Hollandi eru Sjávarmyndir. Hugmyndin að þeim komu er honum var boðið í helgarferð að skoða varnargarðana sem reistir hafa verið í Hollandi til að vinna land. Hljóðlindirnar eru elektrónísk sjávarhljóð, haföldur og fuglar. Eina náttúruhljóðlindin sem Gunnar notar eru hvalahljóð sem hann fékk upptökur af.

Dropar á kirkjugarðsballi (Segulbandsverk - 1982 - 11:00)

Helsta hljóðlind þessa verks eru dropahljóð sem höfundur hljóðritaði við að setja blikkbala í baðkerið hjá sér og láta drjúpa mjög hægt í hann og hljóðrita hljóðið. Með því að snúa krananum varlega mátti auka hraða dropanna og mynda með því skala.

  Fyrst er bara ein dropi í tónaröð og síðan tek ég tvo mismunandi dropatónstiga og svo koma alltaf fleiri og fleiri. Svo notaði ég "variable speed" til þess að hraða ganginum og það eru allt dropar í þessu, nema ég nota fiðlu, rafbassa og trommusett. (331)

Hugmyndin á bak við þetta verk er ekki ósvipuð Jón kallinn Hreggviðsson... þar sem höfundur sækir sér "prógram" í draugasögur, sbr. "Ég skal ljá þér duluna mína, duluna mína að dansa í." Umhverfið er kirkjugarður með útburðarvæli upp úr gröfunum. Leikurinn æsist meir og meir og endar á kirkjugarðsballi þar sem móðirin dansar við Djáknann á Myrká og sturlast við það, en útburðirnir syngja með fiðlunni. Hér er um að ræða, eins og áður, blöndu af elektrónískum og koncrét hljóðum.

Umhverfi (1980)

Þetta verk er sett saman úr ýmsum umhverfis- og náttúruhljóðum eins og mannlífi í miðbæ Reykjavíkur á 17. júní, fuglahljóðum á Þingvöllum, flugvélahjóðum í sama umhverfi og öðrum slíkum hljóðum sem koma fyrir í umhverfinu á ýmsum stöðum. Verkið var upphaflega 60 mínútna langt og var leikið á sýningu í Breiðfirðingabúð á Listahátíð 1980 í


331 Sama.

253 (Síða 254 er auð)

Reykjavík, en á þeirri sýningu voru sýnd náttúruverk eftir myndlistarmanninn Gylfa Gíslason. Höfundur hefur nú stytt verkið til muna.

Á fjölunum - (Elektrónísk leikhússvíta – 1967-87)

Höfundur hefur gert tónlist og leikhljóð við um 35 leikrit fyrir Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reyjavíkur sem og ýmis önnur íslensk leikfélög. Hann notar gjarnan elektrónísk hljóð á áhrifamiklum stöðum í verkunum og er þetta verk einskonar svíta byggð á hljóðum úr þessum leikritum.

Hér er aðeins minnst á nokkur verka Gunnars Reynis Sveinssonar þar sem hann notar elektrónísk hljóð. Þessi verk hafa þó ekki vakið athygli á honum sem tónskáldi heldur hafa kór-, einsöngs- og hljóðfæraverk hans, sem og útsetningar hans, haldið nafni hans á lofti. Í lista frá mars 1995 yfir 90 frumsamdar tónsmíðar og útsetningar hans hjá Íslenskri tónverkamiðstöð er ekki minnst á neitt verk þar segulband kemur fyrir og verður að taka því sem vísbendingu um að höfundur líti ekki á þessi elektrónísku verk sem neitt sem hann vill halda á lofti.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998