Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Þorkell Sigurbjörnsson
Leikar 3
Víxl

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 231-35
 

Þorkell Sigurbjörnsson (1938)

Tónskáldið Þorkell Sigurbjörnsson er, ásamt Magnúsi Blöndal Jóhannssyni, frumherji elektrónískrar tónlistar á Íslandi. Hann var fyrstur Íslendinga til að nema elektrónískar tónsmíðar og þá tækni sem notuð er til að skapa slíka tónlist. Þrátt fyrir að Þorkell hafi verið vakinn og sofinn yfir því sem var að gerast í elektrónískum tónsmíðum fram á miðjan 9. áratuginn, samdi hann aðeins örfá elektrónísk verk.

Það var á menntaskólaárum Þorkels í kringum 1955 sem hann heyrði fyrst minnst á að úti í Evrópu væru menn að láta sér detta í hug að semja tónlist sem byggði eingöngu á annars vegar rafhljóðum og hins vegar á náttúruhljóðum.

Í kringum 1950 voru bernskuskrefin stigin í að semja og flytja elektróníska tónlist, bæði í Evrópu og Ameríku. Víðáttumiklar vísindarannsóknir fóru fram á tæknilegum möguleikum hljóðheimsins í tónlistarlegum tilgangi. Þessar fréttir vöktu athygli og áhuga Þorkels þrátt fyrir að hann hefði þá enga möguleika haft á að heyra slíka tónlist á Íslandi.

Það var ekki fyrr en í kringum 1958 að hann hlustaði á fyrstu elektrónísku verkin, sem þá voru nánast ný af nálinni. Voru það Poème électronique (1956-58) eftir Varése og Gesang der Jünglinge (1955-56) eftir Stockhausen. Á þeim tíma var Þorkell námsmaður í Bandaríkjunum. Þessi verk voru einskonar lykilverk þessara ára – og um leið upphaf elektrónískrar tónlistar í heiminum. Þau komu snemma út á hljómplötum sem auðveldaði hlustun á þau. Fyrstur Íslendinga til að stunda nám í elektrónískri tónlist sest Þorkell á skólabekk í háskólanum í Illinois í Bandaríkjunum haustið 1957. Samhliða náminu í þeim fræðum stundar hann nám í almennum tónsmíðum. Kennari Þorkels í elektrónískri tónlist þar var Lejaren Hiller sem var meðal frumkvöðla elektrónískrar tónsmíðatækni í Bandaríkjunum.

Að skapa elektróníska tónlist var ekki á allra færi á þessum árum, sér í lagi vegna þess hve öll tæki voru dýr og mikla tækniþekkingu þurfti við úrvinnslu hljóðefna. (306) Því var áhersla lögð á að gera nemendur sjálfstæða, kenna þeim á tækin og jafnvel að kenna þeim að búa til tæki. Eitt af verkefnum Þorkels var m.a. að búa til "sagarblaðs"- generator. Markmiðið með því var að spara dýra aðstoð sérstakra tæknimanna. Stúdíóið við háskólann í Illinois var í uppbyggingu á þessum árum með Lejaren Hiller sem forstöðumann. Það voru fáir nemendur


306 Þetta er m.a. ástæðan fyrir því hve öll hljóðvinnsla í verkum Magnúsar Blöndals Jóhannssonar er einföld og eingöngu bundin við möguleika segulbandsins. Hann hafði enga tæknimenntun og naut ekki tækniaðstoðar við sína vinnu og hafði heldur engin önnur tæki en segulbandið og sínusgeneratorinn.


232

í faginu: "við vorum aðallega þrír sem héldu hópinn eða voru að paufast við þetta". (307) Námið og æfingin fólst að miklu leyti í því að klippa og skeyta saman segulbönd, vinna við að hljóðrita konkrét hljóð og skapa hrein rafhljóð. Einföld tæki voru notuð við hljóðvinnsluna, ekkert bergmál, sem síðar varð svo vinsælt og með tímanum ofnotað, og fáar hljóðsíur. En þarna voru nýir möguleikar framtíðarinnar að birtast.

Veturinn 1960-61 semur Þorkell sína fyrstu elektrónísku tónsmíð í háskólanum í Illinois. Fékk hún heitið Leikar 3 og var frumflutt á tónleikum í Urbana í Illinois í janúar 1961. Leikar 3 er þriðja verkið í röð verka með sama heiti. Eins og fram kemur á skýrslu höfundar hér að neðan (dæmi 52) þá liggur munur þessara verka í því að Leikar nr. 1 er fyrir litla hljómsveit, Leikar nr. 2 er fyrir kór og hljómsveit, en Leikar 3 er aftur á móti fyrir "sinus-, sagarblaðs- og kassabylgjur ásamt konkrét hljóðum. (308) Leikar 3 var síðar flutt á Íslandi á tónleikum Musica Nova (sjá kaflann um Musica Nova hér að framan).


Dæmi 52

Leikar 3 (Elektrónískt verk á segulbandi - 1961 - 4:19)

Eins og áður sagði var Leikar 3 frumflutt í Bandaríkjunum í janúar 1961 og á Íslandi í desember sama ár, og þá flutt ásamt verki Magnúsar Blöndals Jóhannssonar, Constellation. Þegar hlustað er á þessi tvö verk má heyra að þau eiga ýmislegt sameiginlegt,t.d. notkun einstakra sínustóna, hljóðlindir leiknar afturábak, cymbalhljóð, eða cymbal-lík hljóð leikin afturábak og ekki síst, byrja og enda verkin eins. Ekki er ólíklegt að Magnús hafi sótt hugmyndir í Leika 3 við samningu Constellation. (309)


307 Þorkell Sigurbjörnsson: einkaviðtal 27.apríl 1994.
308 Þetta er brot úr handskrifaðri skýrslu höfundar til Tónskáldafélags Íslands um verk sín, dags. 20. maí 1961.
309 Magnús var sá eini sem hafði aðgang að segulböndum, og á þessum árum skiptust hinir ungu og framsæknu tónlistarmenn á plötum og böndum. Því er ekki ósennilegt að Magnús hafi sótt hugmyndir í þetta verk Þorkels.


233

Það sem aðskilur þessi verk aðallega er, að í Constellation eru aðallega notuð konkrét hljóð, nema sínustónarnir. Í Leikar 3 eru aftur á móti aðallega notaðar sínus-, sagarblaðs- og kassabylgjur, sem höfundur hefur leikið með á ýmsan hátt í þeim einföldu tækjum sem hann hafði aðgang að. Gott dæmi um gerð hljóðbylgjanna er eftirfarandi dæmi úr verkinu.

Verkið hefst á sínustóni (dæmi 53):


Dæmi 53

Eftir því sem hljóðið vex í styrk verður það "bjagað" og "klippt" í magnaranum og líkist kassatóni (dæmi 54):


Dæmi 54

Þessari þróun er fylgt eftir með "suði" sem líkist "skoti" með eftirhljómi (dæmi 55):


Dæmi 55

Hinni algengu segulbandstækni er beitt í úrvinnslu hljóðefna. Tækninám höfundar birtist í þessari sagarblaðs-bylgju sem sköpuð er í generatornum sem hann sjálfur smíðaði (dæmi 56):


Dæmi 56


234

Einnig er unnið með ákveðnar tónhæðir í verkinu og má finna algengustu skalabrot er hafa pentatónískt yfirbragð (dæmi 57):


Dæmi 57

Greinilegt er að Leikar 3 er miklu meira í takt við það sem verið var að gera í stúdíóum austan hafs og vestan en Constellation.


Dæmi 58

Dæmið (dæmi 58) sýnir fyrstu 10 sekúndur verksins. Sjá má fyrstu tvo sínustónana og hvernig þeir eru brotnir upp af "súsi".

Að loknu námi í Bandaríkjunum árið 1961 (310) gerðist Þorkell mjög virkur í tónlistarlífi í Reykjavík, jafnt sem kennari, hljóðfæraleikari og tónsmiður. Aðstæður til elektrónískrar tónsköpunar á Íslandi voru þá bundnar við þau tæki sem Ríkisútvarpið réði yfir: segulbandstæki og sínusgenerator. Þorkell lagði allar vangaveltur um elektróníska tónsköpun á hilluna í nokkur ár en fylgdist þó vel með í erlendum tímaritum og hlustaði á þær hljóðritanir sem hann kom höndum yfir. Hann miðlaði m.a. þekkingu sinni í útvarpsþáttunum Tónlist á Atómöld (311) sem hófust í Ríkisútvarpinu um svipað leyti og hann flutti heim.


310 Nánar tiltekið í mars 1961 samkvæmt viðtalið í Vísi, 28. febrúar 1963.
311 Þessir þættir fengu síðar nafnið Nútímatónlist.


235

Tilraunir Þorkels til að benda á hina nýju möguleika tækninnar hlutu lítinn hljómgrunn á Íslandi. Hann skrifaði blaðagreinar og við hann voru tekin viðtöl þar sem hann reyndi að benda fólki á að í rauninni vari umbreyting hljóða í segulbandi ekkert annað en það sem gert væri í hinum almenna músíkalska heimi. Hann benti m.a. á að "Umbreytingar þessar eru í sjálfu sér ekkert nýnæmi, allir kannast við muninn á umbreytingum sönglags, ef það er sungið, leikið á píanó, flutt af hljómsveit eða lúðrasveit" (312) Þorkell hvatti einnig til stofnunar "vinnustofu fyrir rafmagnstónlist" og höfðaði sérstaklega til Ríkisútvarpsins í þeim efnum. Hann skrifaði m.a.:

    Höfum við ráð á að setja á stofn vinnustofu fyrir rafmagnstónlist? Og til hvers ætti hún eiginlega að vera. Svarið við fyrri spurningunni er jákvætt. Íslendingar hafa aldrei fyrr haft tækifæri til að leggja skerf til tónlistar Vesturlanda. Með tiltölulega litlum tilkostnaði og fáum mönnum getum við samið áhrifamikinn kafla í tónlistarsögunni... Rafmagnstónlist er ein allrar tónlistar í essinu sínu á útvarpsbylgjunum. Það eitt ætti að vera nægileg áskorun til yfirvalda útvarps. Skyldu þau ekki fóstra og hlúa að ÞEIRRI EINU listgrein, sem tilvera þeirra hefur getið af sér? (313)

En því miður auðnaðist Íslandi ekki að eignast opinbert elektrónísk stúdíó, – og á ekki ennþá. Ein ástæðan fyrir því að ekkert var aðhafst í málinu í upphafi er eflaust sú, að á þeim tíma voru ennþá mikil gjaldeyrishöft í landinu. Ríkisútvarpið varði auk þess heilmiklu fé til tónlistarmála fyrir, t.d. til reksturs Sinfóníuhljómsveitarinnar en einnig í Tónskáldasjóð og í STEF gjöld.

Almenn umfjöllun í fjölmiðlum um elektróníska tónlist var ekki mikill á Íslandi á 7. áratugnum. Flutt voru þessi tvö verk, Leikar 3 og Constellation, á tónleikum Musica Nova í desember 1961 og, eins og nefnt hefur verið, verkið Punktar árið eftir og Elektrónísk stúdía árið áður. Mikla athygli vöktu elektrónísk hljóð Magnúsar Blöndal við kvikmyndir Osvalds Knudsen – Askja, Surtur fer sunnan, Með Svigalævi (Surtur fer sunnan II) og The Other Iceland, svo og aðrar kvikmyndir.

Víxl (fyrir blásaratríó og segubland - 1965) (314)

Það er ekki fyrr en árið 1965 að Þorkell semur verkið Víxl fyrir tríó og segulband. Titillinn er tilkominn vegna þess að hljóð hljóðfæranna voru tekin upp á segulband og síðan leikin með hljóðfærunum á tónleikunum. Segulbandshlutinn var unnin í Ríkisútvarpinu en útvarpið hafði þá yfir að ráða svokallaðri "ekkómaskínu" sem gerði það mögulegt að setja bergmál á hljóðin á bandinu. Um frekari elektróníska vinnslu var ekki að ræða. Verkið var endurflutt á tónleikum í Stokkhólmi ári síðar en hefur líklega ekki verið flutt síðan.

Þorkell hafði, líkt og Magnús Blöndal, samið tónlist við þó nokkur leikhúsverk og notaði


312 Vísir: 28. ágúst 1963.
313 Sama.
314 Mér hefur ekki tekist að útvega hljóðritun af þessu verki.


236

hann m.a. til þess lítinn Arp hljóðgerfil sem hann hafði fest kaup á. Frekar var um að ræða einstök hljóð við leikverk en eiginlegar tónsmíðar. Einnig samdi hann lítið verk fyrir þennan hljóðgerfil, Síðasta lag fyrir fréttir, og er þar gert góðlátlegt gys að þeim sið Ríkisútvarpsins að leika íslenskt sönglag á undan hádegisfréttum.


Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998