Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Dálítið um hugmyndir og tónstmíðaaðferðina

Til bakaEfnisyfirlitÁfram

Síða215-220

Punktar (Fyrir Hljómsveit og segulband – 1962 – 15:00)

    Tónverkið Punktar, sem nú verður flutt, var samið árið 1962. Eins og nafnið bendir til, er verkið að miklu leyti byggt upp á 12 punktum sem í frummyndinni mynda horn þriggja ferhyrninga sem falla hver inn í annan, líkt og ljósmynd þar sem þrjár myndir hafa verið teknar hver ofan í aðra. Síðan er þessari mynd snúið á mismunandi hátt, og breytist þá afstaða punktanna ef dregin er lóðrétt lína frá hverjum punkti á láréttan flöt. Þessar flóknu afstöður síðan útfærðar í hljóðfallseiningar og tónaeiningar sem eru í mjög ströngu formi. Sem andstaða á móti þessum föstu formum eru svo önnur hljómföll sem eru algjörlega frjáls og ræðst lengd þeirra af persónulegum skilningi hljómsveitarstjórans, ásamt hljómburðareiginleikum í þeim húsakynnum sem verkið er flutt.

    Í sambandi við tónhæðir eru annars vegar ströng röð tóna, og sem andstæða við það, þéttir hljómklasar þar sem jafnvel kvarttónar eru notaðir. Á þennan hátt skapast ekki aðeins visst jafnvægi á milli hrynjandi heldur einnig á milli tónhæða og tónbrigða.

    Hluti verksins er útfærður elektrónískt og er af segulbandi. Þessir hlutar eru eins og einskonar atriði milli þátta; hafa engan annan tilgang. (286)

Í fyrsta skipti í sögu íslenskrar hljómveitartónlistar flutti Sinfóníuhjómsveit Íslands verk fyrir hljómsveit og elektrónísk hljóð á tónleikum 8. nóvember 1962. Verkið var Punktar eftir Magnús Blöndal Jóhannsson. Eins og fram kemur í kynningu útvarpsins hér að ofan er verkið mjög nútímalegt í búningi frá hendi tónskáldsins, miðað við það sem menn áttu áður að venjast í íslenskri tónsköpun.

Það voru engin nýmæli að nútímaleg tónlist kæmi úr smiðju Magnúsar Blöndal, því áður höfðu verið flutt nútímaleg verk hans og sem minnst hefur verið á hér að framan.

Það sem nýtt var í hljómsveitarverkinu var sjálf tónsmíðaaðferðin. Í fyrsta sinn hafði tónhöfundur á Íslandi gefið það út að hann hefði ekki aðeins notað serialar raðir við tóna verksins eða einhverja aðra hljóðgjafa en hefðbundin hljóðfæri heldur hefði hann einnig notað geometríu við útleggingu á rytmanum. Það olli þó nokkrum misskilningi í umfjöllun Jóns Þórarinssonar um tónverkið, sem þó má rekja til ónógra skýringa á aðferð höfundar í tónleikaskránni, en þar segir m.a.: "Eins og nafnið bendir til þá er verkið byggt á ákveðinni afstöðu tólf punkta (dæmi 41)". (287)

 

Dæmi 41

    Frummynd þessara punkta er eins og að ofan greinir, en síðan breyta þessir punktar afstöðu hver til annars innbyrðis, sem orsakast af vissri úrvinnslu þeirra, í þessu tilfelli snúningi þeirra um ákveðin möndul.(288)


286 Kynning Guðmundar Gilssonar á verkinu Punktar við flutning verksins í Ríkisútvarpinu árið 1972.
287 Myndin er tekin úr prógrammi frá frumflutningi verksins.
288Skýringar höfundar úr prógammi við frumflutning verksins.
.


216

Ennfremur segir í prógramminu um verkið:

    Elektróník er beitt í nær helmingi tónsmíðarinnar. Auk hins venjulega krómatíska tónlftóna-stiga eru notaðir míkrótónar, nánar tiltekið kvart-tónar. Hljóðfall byggist á metrónómískri heildareiningu fjóðungsnótu, sem rúmast 60 sinnum á einni mínútu, en hún er leyst upp í mjög svo fjölbreytilegar undirskiptingar. Píanóið bætir inn sterkum, stríðum litum með þéttum tónklösum. (289)

Fyrir íslenska tónlistargagnrýnendur var slíkt tal um tónsmíðar eins og hér að ofan hreint galdramál, og satt að segja er það sem stendur hálfgert rugl (Hvaða markmið var með því að skrifa svona óskiljanlega skýringu veit ég ekki en hún var allavega ekki til þess að hjálpa, hvorki áheyrendum né gagnrýnendum – og heldur ekki mér).

Erfitt var að gera sér í hugarlund að eitthvað annað mætti nota sem útgangspunkt í niðurröðun tóna í tónverki annað en það sem áður þekktist, þ.e. tónhæðir, nótnagildi og taktboða. Skýringin var m.a. sú að upplýsingar um hræringar í tónsmíðatækni nútímans bárust sjaldan til Íslands, og ef þær bárust, þá voru það aðeins hin djörfustu tónskáld sem létu sér detta í huga að kynna sér þær. Jón Þórarinsson taldi sig vera nokkuð vel heima í nútímalegum tónsmíðaaðferðum með því að hafa kynnt sér tónsmíða- og hljómfræðibækur Hindemith, en breytingarnar voru svo örar á þessum tíma að 5 mánaða þróun var jafngild 50 ára þróun fyrri tíma. Þeir sem ekki fylgdust með því sem var að gerast í Darmstadt og þaðan út í Evrópu voru ekki lengur með á nótunum. Meðal annars þess vegna hljóðaði gagnrýni Jóns Þórarinssonar á Punkta þannig:

    Verk Magnúsar Blöndal Jóhannssonar, "Punktar", mun vera hið nýtízkulegasta, sem hér hefir heyrzt til þessa. Þar með er ekki sagt, að það sé hið frumlegasta, því að í rauninni er ekki frumlegra að stæla nýjan stíl og ný verk en gamlan stíl og gömul verk, og ætti það að liggja í augum uppi, þótt ýmsir sýnist villast á þessu. Ég sé ekki ástæðu til að reyna að lýsa verkinu, en gef höfundinum orðið.(290)
    (sjá hér að ofan)

Rétt er hjá Jóni að verkið var hið "nýtízkulegasta", en ekkert nýtískulegra en önnur verk höfundar á þessum tíma. Erfitt er að átta sig á hvað hann á við með "stæla nýjan stíl" því verkið var samið undir áhrifum frá því sem var að gerst í Evrópu í kringum 1960, sbr. elektróníska tónlistin, og einnig öðru nýju sem höfundur komst í tæri við. Og eitt er víst að Magnús var ekki að stæla neinn nýjan stíl sem fyrir var á Íslandi. Magnús hafði kynnst nýrri pólskri tónlist á þessum tíma, m.a. heyrt ný verk í Póllandi þegar hann dvaldi þar u.þ.b.ári áður og má þar til nefna verkið Ofiarom Hiroszimy – Tren eftir Penderecki, (291) en í því verki eru t.d. notaðir kvarttónar. Einnig má leita ýmissa fyrirmynda að verkinu í Anaklasis eftir


289 Sama.
290 Morgunblaðið: Nóvember 1962.
291 Ég hef fundið í safni Magnúsar nótur af ýmsum verkum sem samin voru í í kringum 1960. Magnús keypti þessar nótir í Varsjá þegar hann var á hátíðinni Haust í Varsjá.


217

sama höfund.(292) Það að nota geometríu var heldur ekkert nýtískulegt því ýmsir aðrir voru að fást við slíkar hugmyndir á þeim tíma úti í Evrópu.

Dæmi 42

Eins og sjá má á þessari frumskissu (293) (dæmi 42) höfundar, þá breytist bil milli lóðréttu línanna við það að snúa ferningunum. Neðsti hluti teikningarinnar sýnir lóðréttan skala í tíðnum.


292 Sama
293 Það að línur á pappír eru lógarytmiskar hefur enga þýðingu fyrir útreikningana.

218
Á dæminu á næstu síðu (dæmi 44) má sjá merki þess hvernig höfundur hefur notað ferningana til að ákvarða rytmann. Þó svo línurnar falli ekki beint á allar nóturnar þá gerist það mjög oft. Að minnsta kosti getur maður ímyndað sér aðferðina af myndinni.
Sem dæmi um modernismann í þessu verki, miðað við það sem áður þekktist í íslenskum tónsmíðum, voru m.a. þær skýringar og aðferðir sem höfundur notar í raddskrá sinni (dæmi 43). Að slá á píanóstrengina með flötum lófa eða með hnúum var aldeilis nýtt og að nota píanóið og jafnvel alla hljómsveitina, sem um ásláttarhljóðfæri væri að ræða hafði ekki þekkst áður. Að gefa hljómsveitarstjóranum lausann tauminn með lengd tóna og hljóma allt eftir hljómburði hússins var einnig nýtt; hutakið „tónlist í rúmi“ var komið meðvitað inn í stað aðeins „tónlist í tíma“. Annað, það var að nota skeiðklukku í stað takstrika, þ.e. að halda tón í ákveðinn fjölda sekúndna í stað ákveðins fjölda takta var einnig nýtt í íslenskri tónsköpun - en um leið takt við það sem var að gerst í tónsköpun úti í Evrópu.

Dæmi 43

Dálítið um hugmyndir og tónstmíðaaðferðina

Erfitt mun vera að gera sér grein fyrir nákvæmum áformum tónskáldsins með það á hvern hátt punktarnir ákvarða rytmann í verkinu. Skýringarnar í prógrammi verksnis eru ónákvæmar, og ekki bæta úr skák skýringar höfundar í Morgunblaðinu sem svar við gagnrýni Jóns Þórarinssonar.

Ljóst er að tónskáldið hefur gert sér rytmaskema sem byggir á útreikningum hans eftir punktunum (294) (dæmi 44). Orð tónskáldsins um að "hljóðfall byggist á metrónómískri heildareiningu fjórðungsnótu (295) sem rúmast 60 sinnum á einni mínútu" er jafn óskiljanlegt og að elektrónsíku tónlistinni sé "beitt í um það bil helmingi tónsmíðarinnar". Hljómsveitarþátturinn er um 10 mínútur en elektrónísk hljóð eru um 5 mínútur, þ.e. um þriðjungur verksins u.þ.b. 15 mínútna leiktíma.


294Höfundur er staðfest það fyrir mér að það hafi hann einnig gert. Ekki hefur tekist að finna það blað.
295Þ.e. taktinum er deilt upp í tvær fjórðungsnótur.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998