Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Eftirmáli
Afskipti Stockhausenaf Consellation

Til bakaEfnisyfirlitÁfram

Síða 209-214

Eftirmáli

Verkið Constellation eftir Magnús Blöndal Jóhannsson verður að teljast eitt höfuðverk elektrónískrar tónsköpunar á Íslandi, bæði vegna sögulegs gildi þess og einnig þess hlutverks sem verkið hefur haft við að kynna íslenska elektróníska tónlist um árabil, bæði á Íslandi sem erlendis.

Það er ljóst, að höfundur hefur í upphafi stuðst við ýmsar hugmyndir sem hann hefur fengið, bæði við að hlusta á erlend verk í Ríkisútvarpinu og lesa erlend tímarit sem hann hefur haft aðgang að. Við að skoða ýmsar frumskitsur sem ég hef fundið í fórum höfundar, kemur í ljós að upphaflegar vinnuskitsur minna m.a. dálítið á þær grafísku teikningar sem birtar voru á þessum tíma af verkum Stockhausen í tímaritum svo sem Die Reihe (272)(dæmi 35 á næstu síðu).

Dæmi 37

Á þessari teikningu (dæmi 37) Magnúsar kemur einnig í ljós að höfundur hefur ekki unnið nákvæmlega eftir henni. Á það aðallega við byrjun verksins. Öðru og þriðja innskoti sínustónanna er sleppt, enda er skrifað yfir það lauslega með gulum lit í frummyndinni (það birtist sem óhreinindi í teikningunni hér að ofan).


272 Die Reihe: 1. hefti 1955, grafísk mynd af Studie II eftir Stockhausen.


210

Dæmi 38

Við nánari skoðun á þessi mynd (dæmi 38) sem er hluti úr partitúr Studie II (273) má greinilega sjá hvaðan hugmyndir eru teknar við sjálfa skitsugerðina.

Í skilgreiningu sinni (274) á verkinu til WDR (275) segir höfundur:

    "Constellation" is an electronic work, which employs both electronic sounds, i.e. sinustones, transformed instrumental sounds and woman voices, both in their natural sound and transformed version, there is a percussive opening introduced by a sinustone in a slow crescendo and a metronome sound going from pianissimo to fortissmo and back to pianissimo followed by a cymbal crash which leads into the first main sectin. The middle section is a contrasting section using organ tones and voice, which in turn lead to the third section.

    Constellation er elektrónískt verk sem samanstendur bæði af elektrónsíkum hljóðum, þ.e. sínustónum, umbreyttum hljóðfærahljóðum og kvenröddum, bæði í sinni náttúrulegu mynd og umbreyttri útgáfu. Það er "percussíft" upphaf, kynnt af sínustóni í hægu crescendo og takmælishljóði sem stígur frá pianissimo til fortissimo og aftur til pianissimo. Þessu er fylgt eftir af cymbal hljóði sem leiðir inn í fyrsta aðalhlutan. Miðhlutinn er andstæður og eru þar notaðir orgeltónar og rödd sem leiða inn í þriðja hlutann.


En það gilti um þetta verk eins og önnur nútímaleg verk Magnúsar að hann sótti sér hugmyndir í ýmis erlend blöð og tímarit um tónlist, hvað varðaði aðferðafræði við samningu verkanna.

Um afskipti Stockhausen af Constellation

Í umfjöllunum um tónlist Magnúsar Blöndal Jóhannssonar, bæði í bókum, tímaritum, blöðum og útvarpsþáttum rekst maður oft á þá fullyrðingu að Stockhausen hafi notað þetta verk í kennslu, á fyrirlestrum og nánast notað hvert tækifæri til að koma verkinu á framfæri. Þetta er ekki sannleikanum samkvæmt. Vil ég nú nefna nokkur dæmi hér um:


273Sama.
274Svar höfundar við fyrirspurnum um verkið til WDR. Dags. 12. nóvember 1963. Skjalasafn Ríkisútvarpsins DC/13.
275Westdeutscher Rundfunk (Vesturþýska útvarpið).

211

    Karlheinz Stockhausen vissi mjög vel um starf Magnúsar og notaði oft brot úr verkum hans í fyrirlestraferðum sínum á frumherjaárum elektrónískrar tónlistar.

    Þýzka tonskáldið Karlheinz Stockhausen hefur gert töluvert til þss að koma verkum Magnúsar á framfæri, látið flytja verk eftir hann í Los Angeles, Bremen, Köln og Saarbrüken.

    ...Verkið var flutt á tónlistarhátíðinni í Kaupmannahöfn 1962 og hjá West Deutche Rundfunk í Köln s.l. ár, þá á vegum Stockhausens, sem síðan hefur tekið það inn í fyrirlestra sína um nýja tónlist bæði vestanhafs og austan, m.a. var verkið flutt á Ojai tónlistarhátíðinni í Los Angeles í maí s.l..

    Karlheinz Stockhausen found the work in the electronic studio in Cologne and used it as an example during his lecture tour of the U.S.A. a few years later...

    Eitt kunnasta núlifandi tónskáld Þjóðverja, Karl Heinz Stockhausen, hefur notað umrætt elektróniskt verk eftir Magnús Blöndal Jóhannsson með fyrirlestrum sínum að undanförnu. Og í vetur var verkið flutt í sambandi við kynningu á nútímatónlist í Kölnarútvarpinu. Það mun vera fyrir ábendingu frá Stockhausen að verkið verður nú tekið til flutnings í Los Angeles.

Þessar tilvitnanir eru aðeins örfáar af þeim sem finnast með svipuðum fullyrðingum. Ég vil nú rekja það hvernig Stockhausen barst verkið Constellation í hendur og afskipti hans af því.

Sem fyrstur íslenskra tónskálda fór Magnús á hátíðina Haust í Varsjá árið 1961 að tilstuðlan pólska hljómsveitarstjórans Bodahn Wodidsko sem þá starfaði á Íslandi. Ferðin átti eftir að hafa margvísleg áhrif á Magnús í tónsmíðum hans, ekki síst með tilliti til hugmynda um nýjar tónsmíðaaðferðir. Á ferð sinni heim til Íslands frá Varsjá – gegnum Kaupmannahöfn – fór Magnús niður til Kölnar og ætlaði að ná tali af Stockhausen. Ekki hafði Magnús þó erindi sem erfiði en hitti Herbert Eimert í staðinn. Ætlun Magnúsar var að fá að vinna í stúdíóinu við tónsmíðar. Eimert óskaði þess af Magnúsi að hann sendi sér band með verkum sem hann hefði unnið.

    Í leiðinni til baka kem ég við í Köln og ætla að ná tali af Stockhausen. Þá var hann í fríi. Ég vissi það nefnilega að maður gat fengið aðstöðu við stúdíóin. Þau voru 3 aðalstúdíóin þá, það var Varsjá, Stokkhólmur og Köln. Hins vegar næ ég í staðgengil Stockhausen sem hét Eimert. Hann tók mér mjög vel. Hann spurði hvort ég gæti ekki sent sér bönd af verkum. Þegar ég kem heim til Íslands, þá sendi ég Samstirni til Kölnar, til Stockhausen. Svo heyri ég ekkert í marga mánuði. Allt í einu kemur


276 Atli Heimir Sveinsson: Frá Tónskáldum. Útvarpsþáttur um Magnús Blöndal Jóhannsson.
277 Atli Heimir Sveinsson: Sonorities eftir Magnús Blöndal Jóhannsson; Birtingur 1.-4. hefti 1964.
278 Morgunblaðið: janúar 1965.
279 Göran Bergendal: New Music in Iceland, Reykjavík 1991, bls. 81.
280 Morgunblaðið: 17. mars 1964.

212

    bréf frá Stockhausen þar sem hann biður um verk eftir mig. Ég kom náttúrlega af fjöllum, ég sendi honum Samstirni og þar með var það komið í umferð. (281)

Árið 1963 hófst undirbúningur í Westdeutscher Rundfunk –WDR – útvarpsstöðinni í Köln, að útvarpsþáttaröð þar sem kynna átti öll helstu útvarpsstúdíó heimsins þar sem unnið væri að elektrónískri tónsköpun; það kom í hlut Karlheinz Stockhausen sjá um þessa þætti.

Til að safna efni í þessa þáttaröð varð Stockhausen að skrifa bréf til allra útvarpsstöðva og biðja um verk í þættina og upplýsingar um stúdíóin. Í framhaldi af því ritaði Otto Tomek hjá W.D.R. bréf (dæmi 39) til Ríkisútvarpsins á Íslandi og biður um nánari upplýsingar um útvarpið og höfundinn Magnús Blöndal Jóhannsson.(282)

Dæmi 39


281 Persónulegt viðtal 12. júlí 1995.
282 Bréf til Ríkisútvarpsins frá WDR dags. 24. október 1963: Skjal DC/13 í Þjóðskjalasafni

213

Síðan fara fram bréfaskrif milli þýskra útvarpsstöðva og Ríkisútvarpsins varðandi þetta verk.(283) Í þýsku bréfunum kemur fram að verkið er flutt sem liður í útvarpsþáttum Stockhausen: Kennen Sie Musik, die man nur am Lautsprecher hören kann?

Í upphafi þessa kafla um Constellation er sá þýski texti sem Stockhausen notaði í útvarpssendingu sinni í áðurnefndum þáttum. Aðeins voru leiknar fyrstu sex mínútur verksins, þ.e. A og B hluti verksins. Ég tel mig geta fullyrt hér að þetta séu einu afskipti Stockhausen af verkinu Constellation eftir Magnús Blöndal Jóhannsson. Þá fullyrðingu vil ég staðfesta með eftirfarandi svari Stockhausens í bréfi til mín dasettu 11. febrúar 1995 þar sem ég bar fram eftirfarandi spurningar:

1. Hvernig fannst þú Samstirni?
2. Hefur þú afrit af bréfunum við ísl. Ríkisútvarpið? (284)
3. Hver var tilgangur þinn með að nota þetta verk eftir Magnús (útvarpssendingar, fyrirlestrar í Evrópu og USA?)
4. Er þetta verk sambærilegt við önnur verk samin í Evrópu á þessum tíma, og ef svo nefndu mér þau verk og höfunda þeirra.
5. Er þér kunnugt um aðra íslenska elektróníska tónlist?

Í svari Stockhausen kemur fram að segulbandið með verkinu hafi verið sent stúdíóinu í WDR. Á hann þar við það sem Magnús segir sjálfur að "eftir heimkomuna hafi hann sent segulbandið með verkinu í stúdóið". En það er ekki rétt að það hafi komið nokkur bréf frá Stockhausen heldur eins og kemur fram í bréfinu hér að neðan, frá útvarpstöðinni til að nota í þessa þætti.

Annað mikilvægt kemur fram í bréfi Stockhausen (dæmi 37 á næstu síðu) og er það svar við þeirri fullyrðingu að hann hafi notað verkið í fyrirlestrum sínum. Samkvæmt svari hans er sú fullyrðing tómar getgátur og eiga ekki við neitt að styðjast. Hvergi er neitt um þetta verk að finna í Texte (285) um Constellation né Magnús Blöndal Jóhannsson annað en þessa tilvitnun í útvarpsþáttinn sem minnst er á í upphafi þessa kafla. Vona ég að mér hafi tekist að varpa skýrara ljósi á samskipti Stockhausen og íslenskrar elektrónískrar tónlistar og um leið leiðrétta þessar missagnir sem eru endurteknar æ ofan í æ.


283 Radio Bremen : 30. sept. 1964: Skjal DC/13 í Þjóðskjalasafni: WDR: 30. 11. 1964: Skjal DC/ 13 í Þjóðskjalasafni:Saarländischer Rundfunk, Saarbrücken: 3.2. 1965: Skjal DC/13 í Þjóðskjalasafni.
284 Á þessum tíma hafði ég ekki fundið áðurnefnd bréf. Þau fann ég síðar í skjalasafni Ríkisútvarpsins í Þjóðskjalasafni.
285 Texte er bókaröð sem inniheldur upplýsingar um tónsmíðar og störf Stockhausen frá unga aldri.

214

Dæmi 40

Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998