Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Fyrsta elektróníska verkið

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 189-194

Elektrónísk stúdía

Fyrsta tónverkið sem hefur verið samið á Íslandi og flutt á opinberum tónleikum þar sem elektrónískri tækni er beitt við tónsmíðina er verkið Elektrónísk Stúdía með blásarakvintetti og píanói eftir Magnús Blöndal Jóhannsson. Verkið var samið í Reykjavík árið 1959 og frumflutt á öðrum tónleikum Musica Nova þann 11. apríl 1960. Um er að ræða verk þar sem skiptast á hljóðfæraleikur og hljóð leikin af segulbandi. Hljóðefni segulbandsins er eingöngu sínustónar sem er raðað í einstaka tónhæðir eftir seriölum aðferðum.Tónbil og hendingar alls verksins minna mjög á orgelverkið Ionization frá tveimur árum áður – þ.e. mikið um tvíundir og sjöundir og stuttar músíkalskar hendingar.

Einu elektrónísku tækin sem tónskáldið hafði aðgang að um 1960 voru tæki Ríkisútvarpsins, þ.e. Telfunken 5 og M 10 segulbandstæki ásamt sínusgeneratorum sem til voru á verkstæði útvarpsins.

Með því að tíðnigreina - eða gera svokallað „músíkalskt landslag“ af fyrstu sekúndum verksins má að nokkru leyti gera sér grein fyrir hvernig tónskáldið hefur unnið að ákvörðun tónhæða. Það sem kemur í ljós við þessa greiningu er, að hugmyndin sem gengið er út frá við niðurröðun „tónanna“ hefur serielt yfirbragð.

Við að líta nánar á þær tónhæðir (dæmi 14) sem tónskáldið notar í upphafi verksins þá kemur eftirfarandi í ljós:

 


Dæmi 14

Á fyrstu tveimur strengjunum sjáum við eiginlegar tónhæðir en aftur á móti sjáum við á neðsta strengnum röðina á einum streng. 10 tónar af 12 tóna röð koma fyrir, þ.e. tónarnir a


190

og e koma ekki fyrir. Mögulega birtist hér athugasemd Jóns Leifs við frumflutning verksins og minnst var á hér að framan að eftir væri að móta verkið endanlega á band og lagfæra einstaka tóna.

Við nánari skoðun birtast þau tónbil, sem svo mikið eru notuð í verkinu – þ.e. tvíundir og sjöundir. Ekki er um að ræða 10 tóna röð því í einstaka tilfellum eru tónar endurteknir.

Dæmi 15

Það sem maður getur lesið út úr dæmi 15 er að auk þess að móta ákveðnar tónhæðir (hér gefnar upp í Hz) í verkinu, mótar höfundur stuttar, músíkalskar hendingar með sínustónunum (dæmin í myndinni sem eru afmörkuð með hring). Höfundur notar langa sínustóna og stutta, mótar andstæður í hárri og djúpri tíðni, mótar andstæður í einstökum tónum og svo tónhendingum. Síllega séð er um að ræða dæmigerðan punktúalisma.

Hljóðefnið er leikið áfram og afturábak, og einstakar hendingar eru tónfluttar við að leika bandið hratt og hægt. Ef við skoðum mynd af fyrstu þremur mínútum verksins þá sjáum við að síðari hlutinn er leikinn afturábak . – þ.e. frumbandið leikið afturábak.(255) Ég hef sleppt fyrstu og síðustu sekúndum þessa hluta því þeir eru falla ekki eins nákvæmlega inn í hina grafísku mynd og hitt.


255Ég hljóðritaði verkið inn á tölvu og fékk fram mynd af verkinu. Við nána skoðun kom í ljós að margt var líkt með hinum grafísku táknum. Ég tók afrit af síðri helming verksins, sneri honum við í tölvunni og lagði svo myndirnar saman á tvær rásir. Við það kom þessi mynd fram.


191

Dæmi 16

Efri hluti myndarinnar (dæmi 16) sýnir verkið frá 28. sekúndu til 96. sekúndu. Síðan má lesa áfram neðri hlutann frá 96. sekúndu til vinstri að þeirri 166. Athyglisverð eru hin þrjú innskot sem undirstrikuð eru í neðslu línunni. Þau koma á fyrstu 15 sekúndunum eftir "viðsnúninginn" á frumbandinu. Ég hef enga skýringu hvers vegna þau eru komin til, og tilraun til skýringa getur aðeins orðið getgáta svo lengi sem ég hef ekki frumbandið til skoðunar, sem er að finna í safni Ríkisútvarpsins. Tilraun til að fá bandið lánað til nánari rannsókna skilaði ekki árangri.

Síðar í verkinu vinnur tónskáldið meira með efniviðinn með því að hafa lengri hendingar og einnig leika langa sínustóna – einskonar orgelpunkt – "margraddað". Aðeins á einum stað má heyra hljóðfæri og sínustóna saman. Framgangur verksins er eftirfarandi:

Mín:
0-3
3-3:20
3:21-5:05
5:06-6:06
6:07-6:18
6:19-8:08
8:08-9:20
9:21-9:30
Sínustónar
Hljóðfæri
Sínustónar
Hljóðfæri
Sínust.+pno.
Sínustónar
Hljóðfæri
Sínustónar

Dæmi 17

Um er að ræða 8 "hendingar" (dæmi 17) sem eru misjafnar að lengd, en þó sýna ákveðið formmynstur. Engar skitsur hafa fundist af verkinu né hefur mér tekist að finna nótur af hljóðfæraröddunum. En hér koma greinilega í ljós þær vinnuaðferðir sem höfundur tamdi sér og áttu eftir að vera áberandi í verkum hans næstu árin.

Aðstæður til elektrónískrar tónsköpunar voru nánast engar á Íslandi á þessum árum. Það sem réði því að þetta verk, og önnur frá sama höfundi komu fram þar sem elektrónískri tækni er beitt, var það að hann var starfsmaður Ríkisútvarpsins. Að loknum vinnudegi fékk Magnús leyfi til að nota segulbandstæki og sínusbylgjutæki Ríkisútvarpsins, svo og önnur tæki eins


192

og klangplötu, ekkótæki og filtera eftir því sem þeir bárust stofnuninni. Suðhljóðið framkallaði hann við að stilla útvarpstæki "milli stöðva".

Fyrirmyndir sínar sótti hann m.a. í ýmis segulbönd neð nýjum verkum sem bárust Ríkisútvarpinu frá erlendum útvarpsstöðvum á þessum tíma með nýjum verkum, ásamt úr erlendum tímaritum sem einnig bárust stofnuninni, eins og t.d. Die Reihe, Melos. Einnig hafði heimsókn hans á tónlistarhátíðina Warszawska Jesién (Haust í Varsjá) heilmikil áhrif á hann, en þar sótti hans sér hugmyndir í ný verk pólskra tónskálda, einkum þó ýmsar hugmyndir um nýja tónsmíðaaðferðir fyrir píanóið.

    Ég var viðstaddur flutning á verkinum um Hirosima eftier Penderecky í Varsjá. Þar kynntist ég honum. Við áttum tal saman og ræddum músík. Á sama tíma kynnist ég Lutoslawski en hann var þarna á sama tíma.(256)

Einnig hafði Magnús farið til Parísar ári 1957 sem fulltrúi Tónskáldafélagsins á þing ISCM (257) þar sem m.a. ný tónlist var rædd.

Framlag Ríkisútvarpsins til nýrrar tónlistar var ekki mikið á þessum árum. Þó hófust útsendingar einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina á þáttunum Tónlist á Atómöld (258) í umsjá Þorkels Sigurbjörnssonar. Í þessum þáttum voru einstöku sinnum leikin elektrónísk tónlist og einnig kom fyrir að slík verk voru leikin í almennri kvölddagskrá.

Á öðrum tónleikum Musica Nova, sem minnst var á í kaflanum hér að framan, voru fyrstu alvöru skrefin stigin af alvöru í flutningi 20. aldar tónlistar á Íslandi. Og einnig var flutt í þessu litla samfélagi sem Ísland var – og er – fyrsta elektróníska verkið sem samið var af Íslendingi á Íslandi, aðeins um 10 árum eftir að menn höfðu samið fyrstu elektrónísku verkin í Köln og París. Hvað aðstöðu og úrvinnslu verkanna hrærir er hér að sjálfsögðu engu saman að líkja. Magnús var einn og einangraður í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann notaði fátækleg tæki lítillar útvarpsstöðvar. Gildi þessa litla verks er fyrst og fremst sögulegt fyrir íslenska tónlist og gott dæmi um þann stórhug nýrrar kynslóðar tónskálda sem var að koma fram á sjónarsviðið aðeins um 30 árum eftir að fyrsti tónlistarskólinn var stofnaður í Reykjavík.

Í júní 1961 skrifaði Þorkell Sigurbjörnsson litla grein í Morgunblaðið undir heitinu "Elektroniska músíkin og Íslendingar.(259) Þar spyr hann þeirrar spurningar hvort Íslendingar


256 Ibid.
257 International Society for Contemporary Music.
258 Þessir þættir fengur síðar heitið „Nútímatónlist“. Fyrra heiti þáttanna er líklega sótt í þætti á sama tíma um sama efni með sama heiti í danska útvarpinu. Enn má heyra þessa þætti í Ríkisútvarpinu í umsjá Þorkels.
259 Morgunblaðið: 21. júní 1961.

193

ætli ekki að vera með, hvort við ætlum að láta tækifæri að vera með í merkilegri vestrænni þróun ganga úr greipum okkar? Hann skrifar:

    Framtíðin er orðin nútíð okkar. Hrjúfu byrjunarskrefin eru nú stigin í Amsterdam, Köln, Mílanó, París, Stokkhólmi og Varsjá í Evrópu, Columbia, Princeton og Illinois háksólunum í Bandaríkjunum, Tókíó í Japan, svo að eitthvað sé nefnt. Hin þýðingarmiklu byrjunarskref hafa verið gengin án íhlutunar eða þátttöku lýðveldisins unga, Íslands.

Þorkell er þarna nýkominn heim frá námi í Bandaríkjunum þar sem hann hefur um skeið lagt stund á nám í elektrónískri tónsmíðatækni. Hann var gripinn af þeim möguleikum sem fyrir hendi voru og hafði fengið að kynnst því sem var að gerast í núinu í hinum stóra heimi.

En hver voru svo viðhorfin og umhverfið heima á Íslandi? Til voru 2-3 segulbönd hjá Ríkisútvarpinu. Á segulbönd voru hljóðrituð til varðveislu hið talaða orð – ekki þótti taka því að eyða dýrum segulböndum í að varðveita tónlist. Ráðamenn voru sögusinnaðir, menn bókmenntanna, menn hins ritaða og talaða orðs. Þeir sem einhverja þekkingu höfðu á tónlist voru klassísk sinnaðir og sáu því engan tilgang í því starfi sem Magnús Blöndal var að vinna á kvöldin, næturnar og um helgar í Ríkisútvarpinu. "Hvert hefur verið framlag okkar til hins unga í heiminum? Metnaður vegna gamalla afreka. ...Hryggilegt væri að lesa í söguritum framtíðarinnar: Lýðveldið unga lokaði úti allan nýgræðing og blásin menningarholtin báru ellisvip."(260)

Ákall Þorkels voru orð hinnar ungu kynslóðar sem var að koma fram á Íslandi. Ætlum við að halda áfram að búa í moldarkofum og lesa skinnhandrit? Ætlum við að byggja framtíð okkar á fortíðinni, á ættjarðarljóðum og -söngvum? Svar hinnar ungu kynslóðar var NEI! Vettvangur svars hennar var Musica Nova.

* * *

Ég hef í framansögðu gert tilraun til skilgreina á hvern hátt tónskáldið Magnús Blöndal Jóhannsson samdi sitt fyrsta elektróníska verk, sem á sama tíma er fyrsta elektróníska verkið sem samið er á Íslandi. Eins og fram kemur á formskemanu svo er nánast eingöngu um að ræða víxlspil milli einstakra, elektrónískt framsettra tóna og hljóðfæra. Í síl sínum er verkið mjög punktúalistiskt, þ.e. einstakir tónar dreifast yfir stórt tíðnisvið í mjög stórum tónbilum.

Þetta form, víxlspil milli elektrónískt framsettra -/konkret hljóða og hljóðfæra mætum við að nýju í nokkrum seinni verkum tónskáldsins. En Elektrónísk stúdía er eina verk tónskáldsins þar sem hann notar eingöngu elektrónískt framsett hljóð í elektróníska hlutanum.


260Sama.

194

Þrátt fyrir hinn áberandi punktúalistiska stíl verksins er samt sem áður eitthvað samhangandi "melódískt" í verkinu. Jafnvel í hinum mest módernístísku verkum, bæði fyrir hljóðfæri og í þeim elektrónísku, brýst hið melódíska í gegn. Það er fagurkerinn Magnús Blöndal Jóhannsson sem kemur upp á yfirborðið í miðjum módernismanum; eiginleiki sem einkennir mörg hljóðfæraverka hans.

 

Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998