Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Árin 1930-60
Alþingishátíðin 1930
Hátíðarljóðin
Kantatan
Dálítið um samskipti Jóns Leifs og hátíðarnefndarinnar
Dagblaðaskrif
Eftirmáli

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 11 - 26

Árin 1930-60

Alþingishátíðin 1930

Undirbúningur þessarar líklega stærstu og umfangsmestu hátíðar hérlendis á fyrri hluta aldarinnar stóð í mörg ár, en hún var haldin í tilefni 1000 ára afmælis stofnunar Alþingis.

Í mars 1925 skipaði ríkisstjórnin þriggja manna nefnd til að gera tillögur um framkvæmdir og ráðstafanir á Þingvöllum vegna hinnar væntanlegu hátíðar. Páll Ísólfsson var kallaður til sem ráðgjafi vegna tónlistarflutnings á hátíðinni. Árið 1927 var valin þriggja manna nefnd til að finna hátíðarljóð og sátu í henni Árni Pálsson, Guðmundur Finnbogason og Sigurður Nordal. Á sama tíma voru valdir 5 menn til að gera tillögur um lög við hátíðarljóðin og um önnur söngmál hátíðarinnar, en þeir voru Árni Thorsteinsson, Jón Halldórsson, Jón Laxdal, Páll Ísólfsson og Sigfús Einarsson. Þessi tónlistarnefnd ritaði bréf til hátíðarnefndarinnar og bar m.a. upp fyrirspurn þess efnis hvort nefndinni hefði borist nokkar tillögur frá einstaklingum eða félögum sem mætti athuga. Í svari kom fram að nefndin hefði átt tal við Pál Ísólfsson, en jafnframt hefðu borist þrjú bréf frá Jóni Leifs þar sem hann óskaði eftir að koma til Íslands með þýska hljómsveit til að leika á hátíðinni. Því var alfarið hafnað.

Margt ber að skoða í þessu efni. Hvað var það sem vakti fyrir Jóni Leifs að koma með hljómsveit frá Þýskalandi til að leika á svo stórri hátíð í sögu þjóðarinnar? Líklegasta skýringin var perónuleg framagirni og / eða misskilin umhyggja og algjört vanmat á stöðu og metnaði þeirra manna sem stóðu að uppbyggingu tónlistarlífsins í landinu. Einnig ber að undirstrika þann metnað og vilja þeirra sem sáu um tónlistarmálin og tóku ákvarðanir um þau. Hátíðin var fyrst og fremst íslensk, og á henni skyldi flutt íslensk tónlist, af íslenskum tónlistarmönnum að svo miklu leyti sem það var mögulegt. Ef Jón Leifs kæmi með hljómsveit frá Þýskalandi, þá yrði það hann og hans menn sem stæðu í sviðsljósinu en ekki íslenskir tónlistarmenn. Íslenskir hljóðfæraleikarar fengju heldur ekki nein tækifæri til að koma fram á hátíðinni sem samstæður hópur.

Nefndamönnum var það ljóst að mikið átak þyrfti að gera til að íslenskir tónlistarmenn réðu við þetta verkefni, og var því ákveðið að skipa söngstjóra til að gera nánari tillögur og hafa umsjón með öllum framkvæmdum varðandi tónlistarflutning á hátíðinni.

Þann 22. maí 1928 var Sigfús Einarsson skipaður söngstjóri Alþingishátíðarinnar með bréfi dagsettu sama dag (14). Hann hélt nákvæma dagbók (15) um öll sín helstu samskipti við fólk og stofnanir allt fram að hátíðinni og verður ekki annað séð af heimildum en að Sigfús hafi rækt þetta starf af sérstakri alúð og einlægni. Mörg mál þurfti að leysa, og má þar til nefna tillögur um smíði á söngpalli á Þingvöllum, umsjón með að erlendir gestir er tengdust


14 Minnisbók Sigfúsar frá Alþingishátíðinni í vörslu Þjóðskjalasafns.
15 Sama.


12

tónlistarmálum kæmust með skipum til landsins og útvega þeim gistingu, bæði í Reykjavík og á Þingvöllum og margt fleira í þeim dúr.

Hátíðarljóðin

Haustið 1927 lá fyrir frumvarp til auglýsingar um hátíðarljóð fyrir Alþingishátíðina og hljóðaði það svo:

  Einn þáttur hátíðarhaldanna á Þingvöllum 1930 á að vera söngur og flutningur hátíðarljóða (kantötu), er ort sé til minningar um 1000 ára afmæli Alþingis. Nú er skorað á þau íslenzku skáld, er freista vilja að yrkja slík ljóð, að senda þau til hátíðarnefndarinnar fyrir 1. nóvember 1928. Svo er til ætlazt, að íslenzkum tónskáldum verði síðan boðið að semja lög við þann ljóðaflokk, sem beztur verður dæmdur. Því verður m.a. lögð áherzla á, að ljóðin séu sönghæf, auðvitað að undan skildum framsagnarþætti (recitativ). Að öðru leyti verður hver höfundur að vera sjálfráður um lengd og skipan ljóðanna. Kvæðin skulu send vélrituð og nafnlaus, en merkt einkunn. Nafn höfundar skal fylgja í lokuðu umslagi, er merkt sé sömu einkunn og kvæðið. Fyrir þann ljóðaflokk, er kosinn verður til söngs við aðalhátíðina, verða greidd 2000 króna verðlaun, en 500 og 300 kr. fyrir tvo flokkana, sem næst þykja komast, enda ráði hátíðarnefndin yfir öllum hinum verðlaunuðu flokkum fram yfir hátíðina til söngs, flutnings og prentunar, og er höfundunum sjálfum ekki heimilt að birta þá fyrr en hún er um garð gengin. (16)

Ekki virtist skáldaandinn birtast einu íslensku skáldi fremur en öðru á þessu eina ári sem þau fengu til að yrkja ljóðin. Dómnefndin taldi engan ljóðaflokk bera af, en valdi að lokum þrjá. Þeir voru eftir Einar Benediktsson, Davíð Stefánsson og Jóhannes úr Kötlum. Að loknum viðræðum við skáldin um lítilsháttar breytingar á ljóðunum varð niðurstaðan sú að Davíð Stefánsson fékk fyrstu verðlaun fyrir sín ljóð og einnig Einar Benediktsson þó svo ljóð hans yrði ekki flutt á hátíðinni. Jóhannes úr Kötlum hlaut því önnur verðlaun (sjá einnig um þáttöku hans í gerð hátíðarljóða í kaflanaum um Lýðveldishátíðina 1944).

Kantatan

Eins og áður er sagt þá var síðasti skiladagur hátíðarljóðanna 1. nóvember 1928. Ekki þótti tækt að bíða svo lengi eftir úrslitum í ljóðakeppninni til að tilkynna tónskáldum hvers vænta mátti. Því kom svohljóðandi tilkynning frá söngmálastjóra í dagblöðum í Reykjavík í byrjun september 1928:

  Skorað er á þau íslenzk tónskáld, heima og erlendis, er vilja freista þess, að semja lög við ljóðaflokk þann (kantötu), er flutt verður á Þingvöllum 1930, að senda hátíðarnefndinni skriflega tilkynningu um það sem fyrst, og verður þeim þá sent afrit af ljóðum þeim, sem valin verða, jafnskjótt sem dómur er upp kveðinn, en það mun verða í nóvembermánuði næstkomandi. Tilkynningunni skal fylgja


16 Alþingishátíðin 1930 bls. 33.


13

  skuldbinding keppenda um að birta ekki kvæðin né láta af hendi afrit af þeim. (17) Lögin skulu samin fyrir "blandaðan" kór (sópran, alt, tenór, bassa) (18) og litla symfóníu-hljómsveit, með allri þeirri tilbreytni um notkun söngraddanna, sem ljóðin gefa tilefni til og tónskáldin kunna að óska. Píanóundirleikur skal þó talinn góður og gildur með þeim skildaga, að höfundur beri kostnaðinn af því, að búa hann í hendur hljómsveit ("instrumentera" hann), ef verk höfundar verður tekið til söngs við aðalhátíðina, og dregst þá kostnaðurinn frá verðlaununum. Lögin ber að senda Alþingishátíðarnefndinni fyrir 1. oktober 1929, nafnlaus, en merkt einkunn. Nafn tónskáldsins skal fylgja í lokuðu umslagi, er merkt sé sömu einkunn sem lögin. Fimm mánuðum áður, eða í síðasta lagi 1. maí 1929, skulu keppendur tilkynna nefndinni, hvers af þeim má vænta, svo að hún geti gengið úr skugga um það, að verkinu miði áfram. Hátíðarnefndin mun leggja til við Alþingi, að greiddar verði 2500 kr. (1. verðlaun) fyrir þann lagaflokk, er kjörinn verður til söngs við aðalhátíðina, en 1000 kr. (2. verðlaun) fyrir þann, sem næstur því kemst, enda ráði hátíðarnefndin yfir báðum flokkum fram yfir hátíðina, og er tónskáldunum sjáflum óheimilt að birta lög sín, flytja eða láta aðra flytja þau opbinberlega fyrr en henni er lokið. Ef keppendur kynna að óska skýringar um eitthvert atriði, sem að ofan getur, má senda nefndinni tilmæli um þær, og mun hún þá sjá fyrir því, að upplýsingar verði gefnar, eins og um er beðið. (19)

Alls bárust nefndinni 7 (20) kantötur (21) frá tónskáldunum Bjarna Þorsteinssyni, Emil Thoroddsen, Sigurði Þórðarsyni, Björgvin Guðmundssyni (22), Sigurði Helgasyni (23) í Kanada


17 Í minnisbók Sigfúsar Einarssonar segir: Sept. 3. Auglýsing um kantötuna kemur úr í "Vísi". Daginn eftir (þ.4.) í Morgunblaðinu.
18 Hér er eitt gott dæmi þess hve karlakórahefðin í landinu var sterk. Athyglisvert er að orðið "blandaður" kór, með skýringum í sviga er undirstrikað sérstaklega þar sem það virðist ekki algengt í málinu af eðlilegum ástæðum. Annað hvort voru kórar karlakórar eða kirkjukórar.
19 Alþingishátiðin 1930: bls 33 og 34.
20 Fleiri munu hafa samið kantötu þótt ekki hafi hún komið fyrir dómnefndina. Í bókinni Saga Íslendinga í Vesturheimi, 5. bindi, segir á bls. 240: "Jón Friðfinnsson (1875 - 1936) var eitt vinsælasta tónskáld, sem Vestur Íslendingar hafa eignazt ... Árið 1930 samdi Jón kantötu við Alþingishátíðarljóð Davíðs Stefánssonar. Var sú kantata sungin í Winnipeg 1936 af Karlakór Íslendinga og The Icelandic Choral Society, og þótti takast vel". Ennfremur segir í 4. bindi sama rits, bls. 111: "... Síðasta og merkilegasta tónverk hans [Jóns Friðfinnssonar] var kantata við hátíðarljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi".
Í vörslu Þjóðskjalasafns er bréf til Sigfúsar Einarssonar, dags. 29/5, en þar segir m.a.: "... nú vil ég einnig láta yður vita, samkvæmt tilmælum hátíðarnefndarinnar, að ég muni geta sent yður lög mín, (kantötu) við hátíðarljóð Davíðs Stefánssonar á komandi sumri ásamt undirleik fyrir (Hljómsveit) eins og um er beðið", undirritað, Jón Friðfinnsson.
21 Fleiri tónskáld tóku við ljóðunum. Má þar nefna Árna Thorsteinson, Höskuld B. ólafsson, Jón Leifs, Emil Thoroddsen, Jóni Friðfinnsson, Jónas Tómasson, Bjarni Þorsteinsson, Sigurður Þórðarson, Ragnar E. Kvaran (til Björgvins Guðmundssonar) Winnipeg, Sigurður Helgason Canada, Reynir Gíslason Kaupmannahöfn [síðar segir að að hann hafi endursent ljóðin] og Þórarinn Jónsson Berlín. Einnig eru heimildir um að ljóðin hafi verið send Þordísi Ottesen í Kaliforníu.
22 Í bókinni Saga Íslendinga í Vesturheimi segir um Björgvin Guðmundsson: "Í Winnipeg samdi hann Alþingishátíðarkantötu, og var hún sungin þar af kór undir stjórn Björgvins sjálfs".
23 Í minnisbók Sigfúsar Einarsson 17. okt. 1929 setur hann spurningarmerki fyrir aftan nafnið Sigurður Helgason og les ég það þannig að hann hafi ekki þekkt hann enda hefur hann aldrei verið þekktur á Íslandi. Í bókinni Saga Íslendinga í Vesturheimi má lesa eftirfarandi um hann: "Helgi Sigurður Helgason (1872 - [?] tónskáld dvaldist í Winnipeg á árunum 1890 - 1894, en hvarf síðan til Bandaríkjanna og vestur að hafi. Hefur hann getið sér mikinn orðstír fyrir tónsmíði, þótt ekki sé því lýst hér. Á meðan hann dvaldist í Winnipeg, gerðist hann einn af stofnendum, með Halldóri Oddssyni, að The Icelandic String Band, lék í lúðrasveit og samdi nokkur lög, þar á meðal hið þjóðkunna lag við kvæði séra Matthíasar "Skagafjörður". Hann er sonur Helga tónskálds Helgasonar, sem ættaður var úr Mývatnssveit, og konu hans, Guðrúnar Sigurðardóttur í Þerney Arasonar. Helgi Sigurður fluttist til þessa lands [Kanada]árið 1890. Hann er nú búsettur í Blaine,


14

Páli Ísólfssyni og Þórarni Jónssyni, en til íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn mun hafa borist bréf þess efnis að Jón Leifs sendi ekki kantötu á hátíðina (sjá nánar síðar). Haustið 1929 var skipuð dómnefnd til að meta þessar sjö kantötur. Í nefndinni sátu þeir Sigfús Einarsson, Carl Nielsen tónskáld í Kaupmannahöfn og Haraldur Sigurðsson píanóleikari í Kaupmannahöfn. Sigfús fór með handritin til Kaupmannahafnaren Sigfús Blöndal þýddi texta kantatanna á dönsku í óbundnu máli. (24) Carl Nielsen var falið að rita greinargerð um niðurstöður nefndarinnar. Hún virtist í dagblöðum í Reykjavík og var svohljóðandi:

  Undirbúningsnefnd Alþingishátíðar tilkynnir: Dómnefndin um söngvana við hátíðarljóðin 1930 hefir lagt fyrir hátíðarnefndina svolátandi álit og tilögur, sem hátíðarnefndin óskar birt í heild, út af ýmsum sögusögnum, er gengið hafa um málið hér í bænum: "Vér undirritaðir, er kvaddir vorum til þess að dæma um hátíðasöngva í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis, leyfum oss hérmeð að tilkynna, að vér hófum starf vort 26. október þ.á. og að vér í dag höfum orðið ásáttir um eftirfarandi tillögur: Það varð oss, hverjum um sig, brátt ljóst, að af öllum þeim verkum, sem send voru, mundi ekki verða nema milli tveggja að velja, sem báru tvímælalaust af af hinum, sem sé hátíðasöngvar Páls Ísólfssonar, er hann hafði að öllu leyti gengið frá í píanó-búnaði, og Emils Thoroddsens, er hann hafði að nokkru búið fyrir hljóðfæraflokk, en ekki eru fullsamdir, með því að lítið eitt vantar á niðurlag tónsmíðarinnar. Var þó ekki tekið tillit til þess við dómsúrslitin. Eftri sameiginlegan lokafund um málið er niðurstaða vor sú, að tónsmíð Páls Ísólfssonar sé bezt fallin til flutnings á hátíðinni, með því að hún gerir hvorttveggja, að lýsa gáfum og hagleika, og er auk þess skýr að framsetningu og auðskilin að efni. Þó getum við ekki afdráttarlaust metið honum fyrstu verðlaun fyrir verkið, nema hann vilji gera breytingar á tilteknum minni háttar atriðum, sem honum mun verða bent á. Þegar þessar breytingar hafa verið gerðar, svo að oss þyki fullnægjandi, leggjum vér til, að verk Páls Ísólfssonar hljóti 1. verðlaun og verk Emils Thoroddsens 2. verðlaun. Vér viljum um leið taka það fram, að einstaka þættir í tónsmíð Emils Thoroddsens hafa vakið alveg sérstaka athygli vora fyrir sakir hugkvæmni þeirra og skáldlegu tilþrifa, sem þar verður vart. Bregður þar og fyrir frumlegum blæ, sem kemur mönnum á óvart. En kunnátta og leikni er því miður ekki á borð við eðlisgáfu hans. Höfum vér því, að vandlega athuguðu máli, komizt að framanritaðri bráðabirgðaniðurstöðu.

  Kaupmannahöfn, 8. nóv. 1929
  Carl Nielsen. Sigfús Einarsson. Haraldur Sigurðsson.

Í apríl 1928 var tekin ákvörðun um að halda tvenna tónleika á hátíðnni; einir yrðu með fornum söng en hinir seinni með nýrri tíma verkum. (25) Þegar talað er um nýrri tíma verk skal


Washington". Saga Íslendinga í Vesturheimi; V. bindi, bls. 239, Reykjavík 1953.

24 Í minnisbók Sigfúsar Einarssonar má finna eftirfarandi: "... okt. 17. [1929] Fór til Kaupmannahafnar með Lyru"vi" Bergen með 5 kantötur: sr. Bjarna Þorsteinssonar, Emil Thoroddsens, Sigurðar Þórðarsonar, Björgvins Guðmundssonar og Sigurðar Helgasonar (?) – Þegar til Hafnar kom lá fyrir í Sendiráði Íslands handrit Páls Ísólfssonar. Frá Jóni Leifs hafði komið brjef um, að hann sendi ekki (hafði hann þó til undirbúningsnefndar brjeflega boðist til að senda það sem hann væri búinn með, en það voru samkv. brjefi hans til sendiráðsins 3 lög). Handrit frá Þórarni Jónssyni kom í hendur okkar dómnefndarmanna þ. 6. nóvember. Athugðum það samt eins og hin. – Fór hver fyrir sig (Carl Nielsen, Haraldur Sigurðsson og Sigf. E.) yfir kantöturnar og síðan sameiginlega. Aðstoð veitti próf. Chr. Christiansen píanóleikari og fyrir 50. kr. Um niðurstöðuna var einginn ágreiningur. Bað jeg Carl Nielsen um að semja greinargerð, er við allir undirrituðum í Tónlistarskólanum 8. nóv".
25 Úr minnisbók Sigfúsar Einarssonar: "Tillögur Söngmálanefndar um 2 konserta á Þingvöllum. Nefndin leggur til,


15

það skoðast í þeirri hefð sem á Íslandi var á þeim tíma í tónlistarmálum þar sem söngurinn réði ríkjum; enda segir í Minnisbók Sigfúsar Einarssonar um þau mál:

  að starfað verði næstkomandi sumar að undirbúningi þessara tveggja konserta,
  1) með því að taka til forn lög og kvæði og búa þau í hendur söngfólki og hljóðfæraleikurum,
  2) með því að endurskoða frágang þeirra íslenskra tónsmíða - einkum kórsöngva - frá seinni tímum, sem til eru prentaðir og líklegastir þykja til söngs á Þingvöllum 1930, og er þá ekki aðeins átt við þau lög sem landskór og "kantötukór" (öllum eða nokkrum hluta hans) verða fengin til flutnings, heldur einnig þau önnur íslensk lög, er samkomulags kynni að verða leitað við aðra flokka að flytja,
  3) með því að leggja drög fyrir óprentaðar tónsmíðar íslenskra tónskálda, eldri og yngri, heima og erlendis.
  4) með því að sjá fyrir "instrumentation" þessara sönglaga - einkum einsöngva - frá síðari tímum, er kynnu að álítast til þess fallin og hæf til söngs á Alþingishátíðinni.

Hér skilgreinir Sigfús að mínu mati hugtakið "nýrri tíma verk" sem sönglög eingöngu. Það segir okkur, að ekki var um nein hljóðfæra- og hljómsveitarverk að ræða á þessum tíma (eða að minnsta kosti fá verk) né hefð fyrir flutningi þeirra.

Hafist var handa af alvöru. Nokkrir valinkunnir menn voru ráðnir til að velja fólk í um 100 manna blandaðan kór er skyldi sjá um söng á hátíðinni. Prófaðar voru 138 konur og úr þeim hópi voru valdar 60. (26) Ekki var neitt vandamál með að fá konur til að syngja því möguleikar þeirra fram að þessu til að syngja í kór höfðu engir verið vegna karlakórahefðarinnar og voru því takmarkaðir við söng í kirkjum. En önnur lögmál giltu um karlaraddirnar. Karlakóra- "veldið" í landinu var slíkt að ekki var hægt að finna karlmenn sem gátu sungið nema innan raða þeirra. Af 35 karlmönnum sem buðu sig fram til prufusöngs reyndust aðeins 3 nothæfir. (27) Leitað var því til þriggja karlakóra í Reykjavík um aðstoð við góðar karlaraddir, en viðbrögðin ollu vonbrigðum. Einn kóranna, Söngfélag stúdenta, svaraði ekki fyrirspurninni, en hinir tveir, Karlakór Reykjavíkur og Karlakór K.F.U.M. vildu gjarnan syngja með í blönduðum kór, en þá aðeins sem heild og þá sem sjálfstæður hópur, því þeim var í mun að sýna "tónlistarlegan þroska" sinn. Niðurstaðan varð sú að karlakór K.F.U.M. var ráðinn til verksins eftir heilmiklar samningaumleitanir, gegn ákveðinni greiðslu, og þar með var kominn á stofn 100 manna kór undir heitinu Þingvallakór.

Um 50 manna úrvalshópur úr þessum kór tók þátt í Norrnænu söngmóti í Kaupmannahöfn árið 1929. Í stuttu máli, þá "sigraði" þessi kór á mótinu þó svo ekki hafi verið um neitt keppnismót að ræða. Olli framistaða kórsins undurn og ánægju allra þáttakanda sem viðstaddir voru. Gekk svo langt að hljómplötufyrirtækin H.M.V. og Polyphon buðu


fluttur verði á Þinvöllum 1930 forn söngur (einsöngvar, tvísöngvar og vikivakar - "historisk konsert", þar verði fluttar nýrri tíma tónsmíðar - "moderne konsert".

7 Í bók Sigrúnar Gísladóttur um Sigfús Einarson er þessi tala nefnd 128. Leiðréttist það hér með.
7 Sama: "Nov. 10 [1929] Móttekið bréf frá Sigurði Birkis –, greinargerð um nefndarstörf – reyndar 138 kven- og 35 karlmannsraddir. Reyndust hæfar 60 konur, karlm. alls óhæfir nema þrír."


16

kórnum að syngja öll lögin sem hann söng á mótinu inn á hljómplötu. Urðu endalokin þó þau að meðlimir úr karlakór K.F.U.M. neituðu að syngja inn á hljómplötu í fyrsta sinn nema undir stjórn söngstjóra síns, þ.e. þeir álitu sig sjálfstæðan hóp óháðan heildinni, og kom þar bersýnilega í ljós samheldni karlakórsmanna. Þarna misstu íslenskir tónlistarmenn af gullnu tækifæri til að auglýsa land sitt og tónlist víða um heim, og var þetta ekki í fyrsta skipti sem heimóttaskapur hindrar framsækna þróun tónlistarmála á Íslandi.

Í framhaldi af kóramótinu í Kaupmannahöfn fór Sigfús til Vínarborgar til að reka erindi í tengslum við Alþingishátíðina. Hann komst þar í kynni við Franz Lehár, sem síðar kom honum í kynni við tónlistarmenn í borginni. Niðurstaðan af heimsókninni varð sú, að Franz Mixa var ráðinn til Íslands til að æfa Hljómsveit Reykjavíkur. Hann kom til Íslands í nóvember 1929 og hóf þá þegar æfingar.

Á hátíðinni skiptu menn þannig með sér verkum að Páll Ísólfsson stjórnaði Þingvallakórnum, ásamt Sigfúsi sem stjórnaði sínum eigin lögum og raddsetningum, Jón Halldórsson stjórnaði Karlakór K.F.U.M. lögum raddsettum fyrir karlakór og einnig Landskórnum, sem var kór er samanstóð af meðlimum karlakóra í landinu, Sigurður Birkis þjálfaði raddir á heimili sínu og Mixa þjálfaði hljómsveitina í Hljómskálanum. Til styrktar hljómsveitinni voru ráðnir 9 hljóðfæraleikarar úr Konunglegu hljómsveitinni í Kaupmannahöfn. (28) Heilmikil vinna var að fá þessa hljóðfæraleikara til aðstoðar á Íslandi og mun sú vinna mest hafa mætt á Haraldi Sigurðssyni í Kaupmannahöfn. Í bréfi frá Haraldi til Sigfúsar Einarssonar segir m.a.:

  Kæri vinur,

  Bestu þekki fyrir brjefið. Jeg fór strax að garfa í að útvega þessa menn í víðbót í hljómsveitina, sem því ekki tókst betur en þetta, að basunistinn og oboistinn reyndust ófáanlegir. Jeg sner mér til Felumbs[Christian] sem ég þekki vel (Høeberg [kgl. kapelmester] er ekki heima) og hann hjelt í fyrstu að það mundi reynast erfitt að fá nokkurn yfir höfuð, því að mjög margir úr kgl. kapellunni hafa aukaatvinnu á sumrin, en honum tókst þó að ná í hina 4, sem sje 2 fiðluleikara, 1 bratsch og 1 trompet. Sjálfur er Felumb því miður forfallaður, hann skrifar þjer víst um það. Hann rjeði mjer eindregið frá því að leita til Orkesterforeningen upp á að fá þessa 2 sem vanta, því að þeir úr kgl. kap. mundu ekki kæra sig um að Fagforeningen vissi neitt um að þeir gerðu þetta kauplaust, en þér (í orkesterf.) væri þýðingarlaust að fara fram á þetta, borgunarlaust. Hins vegar yrðu þeir gömlu óánægðir ef nýir menn væru ráðnir upp á kaup en þeir ekki. Felumb talað um hvort ekki væri mögulegt að breyta einhverju í partítúrnum svo að hægt væri að komast af án þessara tveggja hljóðfæra. Jeg gat náttúrlega ekki sagt neitt um það, en það mætti þó nefna það við Pál, ef til vandræða horfir, en það er kanske fleira en kantatan sem á að færa upp?


28 Heimildum ber ekki saman um þessa tölu. Hef ég séð allt frá tölunni 11 upp í það að öll hljómsveitin hafi verið dönsk. Nefni ég þessa tölu hér þar sem hún kemur fram í bréfi Haralds Sigurðssonar til Sigfúsar Einarssonar.


17

  Þeir verða því 9 alls sem koma: 1.Gandrup (fiðla), 2.Hegner (kontrabas), 3.Aksel Jørgensen, (bratch), 4. Knud Larsen (fagot), 5. Kortensen (bratch),6. Friis Petersen (fløjte) 7. Heindrich Petersen (obo í stað Felumb) 8. Gerhard Rafn (fiðla) 9. Laurids Sørensen (trompet)... (29)

Að morgni 26. júní 1930 kl. 9.00 hófst Alþingishátíðin í Almannagjá á Þingvöllum með guðsþjónustu. Fyrst voru sungnir sálmar undir stjórn Sigfúsar Einarssonar, við undirleik Lúðrasveitar Reykjavíkur, og því næst var gengið til Lögbergs og söng Þingvallakórinn þar Ó, guð vors lands. Að því loknu hélt forsætisráðherra setningarræðu og síðan var sunginn fyrri hluti Alþingishátíðarkantötunnar undir stjórn höfundar, Páls Ísólfssonar. Þá kvaddi Kristján konungur X til fundar, og að honum loknum var fluttur síðari hluti kantötunnar. Það má því af framansögðu vera ljóst að um var að ræða geysimikla hátíð sem var vel undirbúin og vel að staðið hvað varðaði tónlistarmálin. Má segja að öllum öðrum ólöstuðum að Sigfús Einarsson hafi verið sá samnefnari tónlistarinnar sem mest vinna og undirbúningur mæddi á, og hann leysti sitt hlutverk af alúð og kostgæfni.

Dálítið um samskipti Jóns Leifs og hátíðarnefndarinnar

Eins og sagði hér að framan þá sendi Jón Leifs enga kantötu á hátíðina. Einhver bréfaskifti munu hafa farið fram milli Jóns og hátíðarnefndarinnar alt frá upphafi en þau munu aðallega hafa fjallað um þátttöku Jóns í tónlistarmálum hátíðarinnar yfirleitt. Um þáttöku hans í kantötumálunum hefur ýmsu verið haldið fram sem ekki er allskostar rétt og má m.a. minnast á blaðaskrif í Morgunblaðinu haustið 1995 þar sem einn greinarhöfundur gefur í skyn að Páll Ísólfsson hafi átt einhvern þátt í því að Jón sendi ekki inn kantötu. (30) Miðað við þær heimildir sem ég hef fundið leikur nokkur vafi um þessa fullyrðingu.

Eins og segir hér að framan, þá barst tilkynning til tónskálda um samningu kantötu við hátíðarljóði í byrjun september 1928. Undirbúningsnefnd Alþingishátíðar barst í október bréf frá Jón Leifs, dagsett í Reykjavík 31. október 1928, þar sem hann biður um ljóðin. Bréfið hljóðar svo:

  Samkvæmt tilkynningu undirbúningsnefndar Alþingishátíðar í byrjun sept. þ.á. leyfir undirritaður sér virðingarfyllst að beiðast þess að fá að sjá afrit af ljóðaflokki þeim, sem flytja skal á Alþingishátíðinni 1930. – Ég skuldbind mig til þess að láta ekki af hendi afritið. Ef ljóðaflokkurinn er þannig að mig fýsir að semja lag við hann, þá vildi ég beiðast þess að mega gera tillögur um hvernig samkeppni tónskáldanna verðu hagað.

  Virðingarfyllst, Jón Leifs (31)


29 Bréf Haralds Sigurðssonar til Sigfúsar Einarssonar, dagsett 20. maí 1930. Í vörslu Þjóðskjalasafns.
30 Í Morgunblaðinu 11., 22., og 28. nóv. 1995. Höfundur: Hjálmar H. Ragnarsson.
31 Í vörslu þjóðskjalasafns.

18

Jóni Leifs var ekki nóg að taka þátt í hátíðinni sem tónskáld. Hann vildi einnig hafa áhrif á "hvernig samkeppni tónskáldanna verður hagað", og að koma með hljómsveit eða hljómsveitarmenn frá þýskalandi til að flytja tónlist á hátíðinni.

Þegar í maí 1928 var Jón Leifs sannfærður um að ekki væri óskað eftir þátttöku hans við skipulagningu hátíðarinnar og hann verði þar með útilokaður sem þátttakandi í keppninni. Þessi sannfæring hans hafði enga fótfestu – óskir hans voru of stórar og því því ekki hægt að ganga að þeim. Ég vil hér skýra þetta mál.

Í bréfi til Íslands skrifar hann:

  Eg hlaut að líta á aðgerðir nefndarinnar sem beina tilraun til þess að útliloka mig alveg bæði sem hljómstjóra og tónhöfund úr tónmentalífi Íslendinga. Eg hlaut að ganga út frá því vísu að nefndin vissi að eg þurfti ekki nema opinbert umboð íslenzkra yfirvalda til þess að annast hljómslátt 1930 til þess að eg fengi þann stuðning héðan, sem gerði mér allar framkvæmdir færar...En eg hlaut einnig að ganga út frá því vísu að nefndin vissi að eg gat ekki komið til greina sem tónskáld 1930 á þeim grundvelli, sem nefndin hefir skapað. (32)

Tvennt mun hafa valdið að Jón var ekki kvaddur til starfa. Eitt var, að hann var búsettur í Þýskalandi og hafði framkvæmdanefnd hátíðarinnar þá þegar verið valin hér á landi með tilliti til tónlistarflutnings. Annað – og hefur það líklega haft meira að segja – var skapferli hans og framkoma í samkiptum við fólk, og þá einkum við hátíðarnefndina.

Jón átti samt sína stuðningsmenn og velvildarmenn. Einn þeirra var Kristján Albertsson, búsettur í París. Sigfúsi Einarssyni barst bréf frá honum þar sem hann biður þess að Jóni Leifs verði ætlað hlutverk sem hljómsveitarstjóra á Alþingishátíðinni. Kristján segir m.a.:

  Ég sé í ísl. blöðum að yður hefir verið falin forsjá söngmála á hátíðinni 1930. Ég geri ráð fyrir að ætlast sé til að þar fari fram bæði kórsöngur og hljóðfærasláttur. Ég vil nú mega mæla með því, sem ég geri ráð fyrir að yður hljóti að hafa dottið í hug, að Jóni Leifs verði falið að stjórna hljómsveitinni 1930, – og þá væntanlega taka með sér frá útlöndum fáeina nauðsynlegustu viðbótarkrafta, þannig að hún verði sem viðunanlegast skipuð. Þér farið nærri um að það er ekki tilætlun mín með þessum tilmælum að gera lítið úr hljómsveitarstjórn yðar. En Jón Leifs er eini Íslendingurinn sem sérstaklega hefir lagt fyrir sig hljómsveitarstjórn og 1930 verður Ísland að taka á öllu sem það best á til í viðurvist fjölda erlendra gesta. Ég get ekki skilið að það yrði yður vanheiður, þó að þér létuð yngri kollega yðar fá tækifæri til þess að leggja sitt fram við þetta tækifæri og skiftið svo með ykkur, að þér stjórnuðuð kórinu en hann hljómsveitinni.
  Þér hafið mitt drengskaparorð fyrir því, að þetta bréf er skrifað án vitundar Jóns Leifs. Hitt er að ég hefi undanfarið fundið á bréfum hans hve mjög honum sárnar ef þjóð hans vill ekki nýta krafta hans og bandar við honum hendinni þegar honum finst að henni gæti orðið lið að kröftum sínum og


32 Bréf skrifað í Baden Baden 2. maí 1928. Ekki er ljóst til hvers bréfið er stílað en það hefst á orðunum "Háttvirtur landi".


19

  kunnáttu. Mér hefir alltaf þótt óskemtileg sundurþykkjan milli J.L. og ykkar heima, ég geng þess ekki dulinn hverja sök á þar að máli skaplyndi hans, en ég myndi fagna því að hún eyddist og samvinna tækist... J.L. hefir nú dvalið á annan áratug í höfuðlandi tónlistarinnar og helgað henni mikla hæfileika og eldheitan áhuga. Hann hefur átt örðugt uppdráttar sakir þess að hann er útlendingur í landi sem á fjölda hljómlistarmanna fram yfir þarfir sínar. (33)

Hér kemur ýmislegt fram sem ber að athuga. Kristján er með getgátur þess efnis að líklega muni skaplyndi Jóns eiga þátt í þeirri "sundurþykkju" sem sé milli hans og tónlistarmanna á Íslandi og get ég tekið heilshugar undir það. Jón Leifs treysti engum á Íslandi og áleit sig yfir alla hér hafinn hvað varðaði hæfileika sem tónskáld sem og á öðrum sviðum. Hélt hann því blákalt fram hvað varðaði tónverk sín. Annað athyglisvert kemur einnig fram í bréfi Kristjáns og það er ástæðan fyrir því hvers vegna Jóni gekk illa í Þýskalandi á þeim tíma, þ.e. að Þjóðverjar áttu nóg af velmenntuðu tónlistarfólki sem enga atvinnu hafði. Því var heldur ekki öðruvísi háttað í Þýskalandi en á Íslandi eða í öðrum löndum að yfirleitt gengu heimamenn fyrir í störf. Félag íslenskra hljóðfæraleikara á Íslandi barðist fyrir því síðar að Íslendingar gengju í störfin sem voru laus.

Til að skýra nákvæmlega þessi mál vil ég birta hér bréf Sigfúsar til Kristjáns Albertssonar í fullri lengd, en þar kemur greinilega fram hvernig þessum málum var háttað:

  Reykjavík, 17. júlí 1928.
  Kæri hr. Kristján Albertsson.

  Jeg þakka fyrir brjef yðar, dags. 17. f.m. Þér þurfið ekki að óttast það, að jeg misskilji tilgang eða efni brjefs yðar og færi þar til verri vegar. Jeg veit, að yður gengur ekkert nema gott til. Þjer viljið að Alþingishátíðin verði þjóð okkar til sóma, og það vilja vafalaust allir Íslendingar. Hitt geta að sjálfsögðu orðið skiftar skoðanir um, hver ráð sjeu vænlegust, til þess að svo megi fara.

  Jeg ætla að skýra yður stuttlega frá því hvar söngmálum hátíðarinnar er komið. Undirbúningsnefndin ákvað í byrjun, að yrkja skyldi hátíðarljóð (kantötu). Afskifti söngmálanefndarinnar af því máli voru ekki önnur en tillaga um, að samkepni færi fram um "músíkina" eins og textann, og nánari fyrirmæli um, hvernig henni skyldi háttað. Næst er ályktað, samkvæmt tillögu söngmálanefndar, að efnt skuli til tveggja konserta á Þingvöllum, með fornum, íslenskum söngum og tónsmíðum frá síðari tímum (Jeg bið yður um veita því athygli, að tillögur söngmálanefndarinnar áttu að vera miðaðar við Þingvöll eingöngu, samkvæmt beinum fyrirmælum undirbúningsnefndarinnar). Til þess að undirbúa fyrrnefnda konserta þ.e. búa lög og kvæði í hendur söngfólki og hljóðfæraleikurum, var skipuð þriggja mann nefnd og jafnframt skorað opinberlega á íslensk tónskáld heima og erlendis, að senda henni handrit af þeim lögum, er þau ættu í fórum sínum óprentuð og sem þau óskuðu eftir að flutt yrðu á Þingvöllum 1930. Þessi nefnd er skipuð til tryggingar því, að nægilegt efni sje fyrir höndum í ofangreinda konserta, þegar til á að taka og það að þær einar íslenskar tónsmíðar verði teknar til


33 Bréf til Sigfúsar Einarssonar, dags. í París, 17. júní 1928. Í vörslu Þjóðskjalasafns.


20

  flutnings, sem eru að öllu leyti frambærilegar við slíkt tækifæri - Þjóðhátíð. Í nefndinni eru: Páll Ísólfsson, Emil Thoroddsen og Þórarinn Jónsson. Þrem mönnur hefir og verið falið að kalla saman og velja söngliðið (blandaðan kór) – Sigurði Birkis, Jóni Halldórssyni og Sigurði Þórðarsyni. Um söngstjórnina er ekkert ákveðið ennþá. Og jeg býst ekki við því að jeg geri tillögu um hana fyr en jeg fæ verkefnin í hendur frá þeim Páli, Emil og Þórarni. – Þannig standa þá sakirnar nú (tillögu um landskór o.fl. sem enn er óvíst um, þarf ekki að ræða í þessu sambandi). Nú leyfi jeg mér að spyrja yður:

  Teljið þjer líklegt, að Jón Leifs vildi eða þættist geta tekið að sjer stjórn kantötunnar eftir alt, sem hann hefir sagt um það mál í brjefum og blöðum? Getið þjer ennfremur búist við því, að hann vildi hafa afskifti af hinum gömlu lögum (historiskum konsert), úr því að hann virti ekki einu sinni söngmálanefndina svars, er hún skrifaði hnonum um þau (24. nóv.f.á.) – fyr en 4. mars þ.á. og svaraði þá loks alveg út í hött. Og haldið þjer að síðustu, að hann mundi kæra sig um að stjórna flutningi nýrra tíma tónsmíða, íslenskra (sennil. eftir ýmsa höfunda), úr því að hann álítur, að "önnur listræn og þjóðleg tónverk eru ekki til en þau verk, sem ég (þ.e. Jón Leifs) hefir samið og mun semja"? Jeg efast um það. – En sem sagt, hljómstjóri eða hljómstjórar verða ekki skipaðir nú þegar. Þegar til þess kemur, stafar Jóni engin hætta af "óvild" frá minni hálfu, því að hún er ekki til. Samúð eða andúð mundi og engu ráða um tillögu mínar í þeim efnum sem hjer er um að ræða. Hitt er annað mál að Jón hefir sjálfur á ýmsan hátt – með brjefum sínum til undirbúningsnefndarinnar o.fl. og fl. komið því til leiðar, að það hlýtur að vera vafamál hvort ráðlegt væri eða fært að bera fram tillögu um aðstoð hans. Það gæti helst bjargað ef frá Jóns hendi kæmi tónverk eftir hann sjálfan sem tekið yrði til flutnings.

  Þetta segi jeg yður af fullri hreinskilni og í þeirri öruggu von, að þjer misskiljið mig ekki fremur en jeg tillögurnar í brjefi yðar síðast. Jeg er alveg viss um, að þjer mynduð líta svipuðum augum á alt þetta mál, eins og jeg , ef yður væru öll gögn jafnkunnug og allar ástæður.

  Með virðingu og vinsemd,

  Yðar einlægur, Sigfús Einarsson. (34)

Athyglisverð er setningin hér að ofan sem segir: " Það gæti helst bjargað ef frá Jóns hendi kæmi tónverk eftir hann sjálfan sem tekið yrði til flutnings". Kröfur Jóns um þátttöku í hátíðinni voru svo stórar að þær mundu þýða að hátíðarnefndin yrði að haga sér eftir þeim í einu og öllu. Í bréfi til Páls Ísólfssonar í janúar 1929 þar sem hann skrifar um hátíðarljóðin segir m.a.:

  Mér persónulega er ekki neitt áhugamál sem þetta snertir, því að mjög óvíst er, hvort eg tek þátt í samkeppninni; mun þó skyldunnar vegna skrifa hátíðarnefndinn um það, til þess að ganga úr skuggaum hvort skilyrði til þátttöku minnar eru gefin eða ekki. (35)


34 Úr bréfasafni Sigfúsar Einarssonar í vörslu Þjóðskjalasafns.
35 Bréf til Páls Ísólfssonar sent frá Dresden 9. janúar 1929.


21

Dagblaðaskrif

Ég vil undirstrika tilvitnun í svar Sigfúsar hér að ofan sem segir: "Teljið þjer líklegt, að Jón Leifs vildi eða þættist geta tekið að sjer stjórn kantötunnar eftir alt, sem hann hefir sagt um það mál í brjefum og blöðum?"

Eins og fram kemur hér á undan, þá kom Jón Leifs til Íslands árið 1926 með hljómsveit frá Hamborg og hélt hún tónleika í Færeyjum, á Íslandi og í Noregi. Þetta var mikil framkvæmd frá hendi Jóns og með henni braut hann blað í íslenskri tónlistarsögu. Eftir heimsóknina hingað til lands hlýtur Jón að hafa haldið að þetta væri aðeins fyrsta skref hans á braut tónlistarinnar inn í framtíðina. En það voru hindranir á veginum sem hann hvorki gat né vildi skilja. Af þeim sökum hófust nokkur bréfa- og blaðaskrif milli hans og Alþingishátíðarnefndarinnar.

Upphaf þess máls var á árunum 1921-22. Á þessum árum skrifaði Jón Leifs nokkrar greinar í íslensk dagblöð þar sem hann kynnti hugmyndir um framtíðarþróun tónlistarlífsins. Var í sjálfu sér ekkert athugavert við það, en sá háttur sem hann gerði það á varð ekki til að styðja mál hans. Allt sem gert hafði verði fram að þessu var rangt að hans mati, en HANN vissi hvernig staðið skyldi að málum. Hann dró enga dulu á fyrirlitningu sína á menntunarskorti hjá þeim mönnum sem þó unnu eftir bestu vitund og þekkingu. Haft er eftir Sigfúsi Einarssyni að hann kallaði innlegg Jóns Leifs "unggæðislegan vaðal". Strax með þessu rak Jón Leifs fleyg í samskipti sín og þess fólks sem vann að uppbyggingu tónlistarlífsins hér heima. Skal nú vikið til ársins 1927.

Í októbermánuði skrifaði Jón Leifs grein í dagblaðið Vísi þar sem hann lýsir óánægju sinni með að bæjarráð Reykjavíkur hefði hafnað umsókn hans um fjárhagslegan stuðning við þá hugmynd að koma með hljómsveit frá Þýskalandi til að leika á Alþingishátíðinni og í fleiri bæjum á Íslandi. Þessari höfnun var ekki aðeins beint gegn umsókn hans, eins og hann sjálfur skrifar:

  Ákvörðun þessa fundar mun ekki hafa nein endanleg áhrif á framkvæmd málsins, því að bæði er að ekki nema rúmur helmingur bæjarfulltrúanna var viðstaddur á fundinum og svo hafði bæjarstjórnin áður samþykkt í heild það svar við málaleitun undirbúningnefndar ríkisins, að neita að taka nokkra ákvörðun um þátttöku í afmælishátíð ríkisins 1930. (36)

Ennfremur skrifaði Jón Leifs í dagblaðið Vísi í desembermánuði sama ár þar sem hann segir álit sitt á þeim persónum sem sjá skyldu um tónlistarmálin:

  Eins og kunnugt er hefur höfundur þessarar greinar m.a. sent undirbúningsnefnd Alþingis undir ríkisafmælið 1930 fyrirspurn viðvíkjandi væntanlegri hljómsveitarferð sinni til Íslands og í kringum


36 Vísir: 30.október 1927.


22

  landið að vori ársins 1930. Þessi nefnd skipaði aðra nefnd, eins og menn vita, svokallað söngnefnd, til þess að "íhuga og gera tillögur um um söng og hljóðfæraslátt á hátíðinni". Nefndamenn eru fimm. Að eins einn af þeim hefir notið almennrar listmentunar í þessari listgrein. Hinir allir eru að mestu leyti sjálfmentaðir, lítt kunnandi og það jafnvel minst þeir, sem mestar gáfur munu hafa. Enginn þessara nefndamanna hefir stundað nokkurt nám viðvíkjandi hljómsveitarstjórn eða hljómsveitarmeðferð. Þekkingin er því af mjög skornum skamti, jafnvel eftir íslenskum og skandinaviskum mælikvarða. Mennirnir geta verið bestu menn fyrir því, duglegir og tiltölulega færir áhugamenn í söng og hljómslætti. Það er annað eftirtektarvert með þessa nefnd. Allir nefndarmennirnir hafa um langt skeið sýnt lítinn eða engan áhuga og skilning á íslenkum þjópðlögum, stíl þeirra og eðli, nema heldur hið gagnstæða, en til slíkrar þjóðlagarannsóknar eingöngu þarf bæði mikla kunnáttu og mikið starf. (37)

Í sömu grein skrifar hann um kantötuna:

  En það er annað komið upp úr kafinu. Það á að stofna til nokkurskonar samkepni um einhverja svonefnda "kantötu". Svo er til hagað, að slík "kantata" getur aldrei orðið neitt listaverk. Og það er alveg fullvíst, að eins og í haginn er búið, mun ekkert listrænt tónskáld fást til þess að leggja hönd á slíkt verk. Þetta munu flestir eða allir nefndamennirnir vita. Að minsta kosti hefir einn þeirra, hr. Sigfús Einarsson, lýst yfir því í dönsku blaði fyrir fáum árum, að sá söngur og hljóðfærasláttur, sú "musik" yfirhöfuð, sem tíðkast hefir á Íslandi fyrir og eftir aldamótin, teljist ekki til þess, sem á erlendu máli er kallað "Kunstmusik", þ.e. teljist ekki til listrænna tónlaga og tónmeðferðar. Höfundar þessara laga eru ekki listræn tónskáld, heldur það sem kalla mætti alþýðutónskáld. Það er sjálfsagt að taka lög þeirra fram yfir útlendan lagaleirburð og vændishljómslátt, því að þessi innlendu lög eru hrein að hugarfari, ef svo mætti að orði komast, og ekki siðspillandi eins og erlendu leirburðarlögin. Þó eru þessi íslensku lög ekki þjóðlög, og hafa þau einmitt orðið til þess að útrýma þjóðlögum vorum, þúsund ára fjársjóði, sem nú er verið að reyna að endurreisa. Að því leyti hafa lög íslenskra tónskálda um hálfan annan mannsaldur verið til spillingar. En nú á að bæta við í sama stíl, en um leið frekar að tefja en styrkja alíslenskar tilraunir til þjóðlegra og listrænna tónsmíða! Það er ómögulegt að orðlengja um slíkt. Þjóðin ber ábyrgðina. Og framtíðin mun dæma. (38)

Hvað varðar umrætt tónverk svöruðu Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson fyrir hönd nefndarinnar í Vísi:

  Jón Leifs segir, að það sé "komið upp úr kafinu, að stofna eigi til nokkurs konar samkepni um svonefnda kantötu". En hann bætir því við, að "slík" kantata geti aldrei orðið neitt listaverk. Nefndinni er ekki ljóst, hvers vegna það má ekki takast. Nú ætlar hún einmitt að benda Jóni á ráð, er hún hyggur, að hann muni telja nokkurn veginn óbrigðult. Og ráðið er þetta: Jón Leifs býr til kantötuna - hann sjálfur. Nefndin trúir því ekki fyr en í fulla hnefana að hann vantreysti sjálfum sér til þessa lítilræðis. Þó að Jón telji alveg víst, að ekkert "listrænt tónskáld" muni fást til þess a leggja hönd á "slíkt verk" (kantötuna), þá er sú staðhæfing töluð út í bláinn, og lítt skiljanleg, nema því að


37 Vísir: 15. desember 1927.
38 Sama.


23

  eins, að Jón telji ekki upp vera neima eitt "listrænt", íslenskt tónskáld. Um þetta einn - sjálfan sig - getur hann vitað, en um önnur tónskáld varla. (39)

Sem skýringu á því hvers vegna "slík kantata" aldrei geti orðið að listaverki skrifar Jón Leifs síðar í Morgunblaðið:

  Orsökin til þess að kantatan getur ekki orðið listaverk er:
  Í fyrsta lagi, að það á að skipa tónskáldinu fyrir um tilhögun verksins með ákveðnum texta fyrirfram, í öðru lagi, að tónskáldið á að eins að fá nokkurra mánaða frest til þess að semja verkið, í þriðja lagi, að engin trygging er gefin fyrir því, að hægt verði að flytja tónlistarverk sómasamlega, svo að það er einnig þess vegna ekki fýsilegt fyrir listrænt tónskáld sem nóg hefir af öðrum veigameiri viðfangsefnum, að eyða tíma til þess að semja eitthvert kantötugutl. En nefndin hefir með neitun sinni um heimsókn hljómsveitar, reynt að skjóta lokur fyrir það, að listræn "musik" verði flutt á afmælishátíð ríkisins. Söngnefndin ein ber ábyrgð á neitun Alþingisnefndarinnar. Þjóðerniskend og sparsemi eru notuð til þess að rökfæra þá neitun, en hvortveggja er aðeins máttvana fyrirsláttur. Þjóðernisleg hlið málsins hefir verið skýrð nægilega og veit hver lesandi, að íslensk þjóðernistónlist verður ekki flutt 1930 nema með aðstoð erlendra hljómsveitarmanna. (40)

Getur nú hver og einn myndað sér skoðun um það hvers vegna Jón Leifs var ekki þáttakandi í þessum hátíðarhöldum.

Eins og áður sagði, þá pantaði Jón Leifs afrit af hátíðarljóðunum síðla árs 1928 og gat hann þess að hann myndi væntanlega semja kantötu við ljóðin ef honum litist þannig á þau. 27. september árið 1929 var tekið til umsagnar bréf frá Jón Leifs. Það hljóðaði svona:

  13. september 1929.

  Háttvirta nefnd!. Því miður get eg ekki tekið þátt í samkepninni um tónsmíð við Þingvallaljóð Davíðs Stefánssonar. Að vísu hef eg í smíðum kantötu fyrir blandað kór og litla sinfoníuhljómsveit við sjö kvæði úr hátíðarljóðum Davíðs, en eg hefi ekki getað starfað að tónsmíðum um sumarmánuðina og verður verkið ekki fullklárað fyrr en í desember, sennilega. Skyldi nefndi óska að láta athuga verk mitt, þá er það velkomið og nægja í rauninni þeir kaflar, sem nú eru fullgerðir í partitur, til þessa að gefa hugmynd um tónstílinn og gildi verksins.

  Með virðingu, Jón Leifs. (41)

Hér tilkynnir hann að hann hafi í smíðum kantötu við 7 kafla úr hátíðarljóðum Davíðs Stefánssonar og getur þess jafnfram að hann búist við að verkinu ljúki í "desember sennilega". Býðst hann til að senda nefndinni verkið til athugunar ef óskað sé. Þótti sjálfsagt


39 Vísir: 17. desember 1927.
40 Morgunblaðið: 14. júní 1928.
41 Bréf í vörslu Þjóðskjalasafns.


24

að taka þessu boði, og var Jóni sent símskeyti þess efnis að hann var beðinn að senda handrit sitt til sendiráðsins í Kaupmannahöfn til athugunar.

Í áðurnefndum blaðagreinum (sjá síðu 30) þar sem þessi mál eru reifuð árið 1995 kemur fram í máli Hjálmars H. Ragnarssonar að Jón hafi sýnt Páli Ísólfssyni þann hluta kantötunnar sem hann hafði lokið við. Vitnar Hjálmar þar til bréfaskrifa Jóns L. til móður sinnar og segir henni frá samskiptum sínum við Pál:

  Greinilega þóttist ég sjá Páls innra mann, þegar eg hitti hann í Lübeck um þetta leyti í fyrra. Eitthvað það fyrsta, sem hann sagði mér, var að þjóðlagaheftið mitt, sem hann hafði litið í væri "bara svínarí". Svo sýndi eg honum tvo eða þrjá kafla úr kantötu minni, sem þá var í smíðum og þá sagði hann strax, án þess að athuga kaflana til hlítar: "Þetta verk mundi eg aldrei vilja æfa." Þá skyldi eg hvernig í öllu lá og hætti við að senda "dómnefndinni" kaflana, eins og [eg] var hálfpartinn að hugsa um. Annars var Páll þarna þó að minnsta kosti opinskárri, en ella. (42)

Eins og áður sagði fór Sigfús Einarsson til Kaupmannahafnar 17. október. Mánuði áður, 13. september, ritaði Jón Leifs nefndinni bréf um það að hann sendi ekki inn kantötu. Ef Páll hefði átt að hafa einhver áhrif á kantötumál Jóns Leifs þá hafa þeir hist fyrir þennan tíma. Því segja orðin "um þetta leyti í fyrra" ekkert afgerandi um það, hvort Jón og Páll hafi hittst fyrir 13. september 1929, því ofannefnd tilvitnun er frá bréfi dagsettu 26. nóvember 1930.

Í bréfi til sendiráðsins kemur fram hversu klofinn Jón Leifs var í samskiptum við fólk. Hann virtist vera hinn auðmjúkasti (a.m.k. í þetta skipti) við nefndina á Íslandi, en var síðan ekkert nema hortugheitin í þeirra garð í bréfi sínu til sendiráðsins. Í því segir m.a.:

  Háttvirtur sendiherra!
  Frá framkvæmdarstjóra Alþingishátíðar 1930 fekk eg símskeyti með beiðni um að senda yður þá kafla af kantötu minni op.13 við 7 af hátíðarljóðum Davíðs Stefánssonar, sem fullkláraðir væru. Ég leyfi mér því virðingarfyllst að spyrjast fyrir um hvaða fyrirmæli þér hafið fengið um þetta, þ.e. hvað þér munduð gera við handritakaflana.
  Eg óska ekki að taka þátt í samkeppni um slíka tónsmíð, enda ógerlegt, þar sem að eins 3 kaflar af 7 eru tilbúnir í paritúr. Öðru máli gegnir ef á að skera úr hvort æskilegt sé að eg klári verkið í tæka tíð og að það verði flutt á hátíðinni. Hver ætti að athuga það atriðið? Eg get ekki fallist á að veita þeim mönnum úrskurðarvald í þeim efnum, sem ekki geta talist hlutlausir í minn garð eða líta á hinn forníslenzka þjóðlagastíl tvísöngva og ríma sem ólistrænana "barbarisma"... (43)

Í svari sendiráðsins kemur fram að von sé á Sigfúsi tónskáldi og væri hann einn þeirra, sem dæma ætti um kantöturnar. (44)


42 Morgunblaðið: 22. nóvember 1995.
43 Bréf til Sendiráðsins í Kaupmannahöfn dags. 7. október 1929. Í vörslu Þjóðskjalasafns
44 Bréf dags. 9. október 1929. Í vörslu Þjóðskjalasafns.


25

Í þessu liggur skýringin á því af hverju Jón Leifs sendi ekki kantötu á Alþingshátíðina árið 1930 á Þingvöllum. Í fyrsta lagi var hann ekki búinn með hana, og í öðru lagi treysti hann ekki þá, – og heldur ekki síðar – neinum þessara manna til að dæma um verk sín. Það leikur því stór vafi á hvort Páll hafi á einn eða annan hátt komið í veg fyrir að Jón Leifs gæti tekið þátt í hátíðarhöldunum, enda er hann hvergi nefndur í þessum samskiptum. Jón kom – að mínu mati – sjálfur í veg fyrir það með framferði sínu. Hafi Páll aftur á móti haft einhver niðrandi orð um kantötu þá sem Jón hafði í smíðum má það þykja undarlegt að Jón hafi tekið tillit til þess. Ætla má að Jón hafi verið orðinn það sjálfstæður á þeim tíma að þrátt fyrir einhvern mótvind þá gæti hann sent inn kantötu eins og allir aðrir þátttakendur gerðu.

Eftirmáli

Ef skoðaðar eru heimildir um íslenskt tónlistarlíf frá því um 1920 til 1968 (árið sem Jón Leifs lést) með það fyrir augum að kortleggja samstarf Páls Ísólfssonar og Jóns Leifs og stöðu þeirra í íslensku tónlistarlífi kemur í ljós – að mínu mati – að þeir voru í rauninni góðir vinir. Án þess að framkvæma nokkra persóngreiningu á þeim tveimur, tel ég mig geta fullyrt að ekki aðeins í ofannefndu tilfelli um athugasemdir Jóns í garð Páls, heldur fjölda svipaðra athugasemda síðar í lífinu, megi lesa nokkuð um persónu Jóns. Í handskrifuðu bréfi úr persónlegu safni Páls Ísólfssonar skrifar hann m.a. um stöðu samskipta þeirra í upphafi:

  Samskifti okkar J.L. voru í stuttu máli sem hér segir: Hann fór undir minni umsjá til Leipzig 1916 og komst þar inn á Konservatoríið fyrir mína milligöngu. Við bjuggum lengi á sama stað, skiftumst á skoðunum um músík og fleira og kom vel saman þótt sjónarmið væru oft ólík. Síðar skildust leiðir. Fór þá að bera á einhverskonar öfund hjá honum. Hann taldi mig í vegi fyrir sér, enda þótt við værum hvor á sínu starfssviði. (45)

Ef hlustað er á verk þessara tónskálda heyrist að hafsjór er milli sýnar þeirra á tónlist. Það sama á við um markmið þeirra í lífinu og á hvern hátt samskiptum þeirra við annað fólk var hagað. Ég hef þá skoðun að þessi hugsanlega athugasemd sem Jón Leifs vitnar til í bréfi til móður sinnar um Páls "innri mann" sé vanmat frá hans hendi. Ég hef þó enga ástæðu til að halda fram að Páll hafi ekki sagt það sem Jón vitnar til – bæði þetta, sem og margt annað í svipuðum dúr sem þeir eflaust hafa sagt hvor við annan á lífsleiðinni. En ég leyfi mér að efast um að það hafi verið ástæða þess að Jón sendi ekki inn kantötu á Alþinginshátíðina. Staðreyndin er að Páll Ísólfsson gerði meira en nokkur annar í íslensku tónlistarlífi til að hjálpa Jón Leifs til að ná fótfestu í samfélaginu. Í svarbréfi til Páls frá Jóni í janúar 1929 sem hann m.a.:

  Já, ég er þér þakklátur, ef þú getur stuðlað að því að ég festi rætur í feðranna mold. Mér er það svo mikið tilfinninga- og áhuga- mál, að ég mundi jafnvel fórna öðrum óskum mínum og slá af


45 Ódagsett bréf úr einkasafni Páls Ísólfssonar. Eftir innihaldi bréfsins álít ég það skrifað um miðjan 6. áratuginn.


26

  kröfunum, ef þessi gerist þörf. Ef landar mínir rétta mér höndina, þá mun eg taka í hana, þó að ekki verði alt eins og eg frekast óskaði. (45)

Hér kemur í ljós að þegar árið 1929 var Páll byrjaður að aðstoða Jón við að flytja til Íslands - en það er á hinn bóginn þetta með "óskir og kröfur" Jóns. Páll sýndi þetta síðar m.a. með því að gefa Jóni eftir stöðu sína hjá Útvarpinu, og þegar hann undirskrifaði yfirlýsingu þess efnis að engin ástæða væri til að trúa þeim ásökunum að Jón Leifs hefði nokkur tengsl hafi við Nazista í Þýskalandi, – að ekki sé minnst á þegar hann lék verk Jóns bæði á Íslandi og í útlöndum og gerði útvarpsþátt um hann og tónlist hans. Hann skrifaði svo seint sem árið 1962 bréf til orðunefndar þar sem hann bendir á að Jón Leifs hafi enn ekki fengið Fálkaorðunu fyrir störf sína að tónlistarmálum o.s.frv. Enda þótt Jón hafi haldið áfram að ráðast að Páli opinberlega, bæði persónulega og faglega, svaraði Páll aldrei í sama tóni. Þetta sýnir innri mann Páls.

Saga Jóns og Páls er enn ekki skrifuð, en ætla má að margir áhugaverðir hlutir kæmu fram, einnig varðandi íslenskt tónlistarlíf í heild sinni, þegar kafað verður niður í þátt þeirra á þeim vettvangi.


46 Dresden í janúar 1929.

Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998