Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkurs
Sinfóníuhljómsveit Útvarpsins

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 101 - 112

Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur

Sinfóníuhljómsveir Reykjavíkur, sem hélt sína "fyrstu" tónleika 20. janúar 1948, var enn eitt framtakið í þá átt að halda starfandi hljómsveit í Reykjavík. Um þessa hljómsveitartónleika skrifaði Páll Ísófsson m.a. eftirfarandi í Morgunblaðið:

  Hjer er ekki um nýja hljómsveit að ræða, heldur nýtt nafn á Hljómsveit Reykjavíkur, sem starfað hefir undanfarin ár á vegum Tónlistarfélagsins og leika kennarar Tónlistarskólans eins og áður, svo og nemendur, með í hljómsveitinni. En nú hófst starfsemi sveitarinnar að nýju undir hinu nýja nafni og er vel farið, að hjómsveitin starfar áfram í vetur, en um tíma var allt útlit fyrir að svo mundi ekki verða. (139)

Þrír nýir menn, allir nýkomnir heim eftir framhaldsnám í Englandi, höfðu bæst í hópinn. Það voru þeir Árni Björnsson flautuleikari, Andrés Kolbeinsson óbóleikari og Egill Jónsson klarinettuleikari. Íslendingar voru nú smátt og smátt að eignast góða hljóðfæraleikara til að styrkja þann hóp sem fyrir var í landinu. Stjórnandi tónleikanna var Victor Urbancic, en Rögnvaldur Sigurjónsson lék einleik í píanókonsert eftir Beethoven. En eins og oft áður voru ekki haldnir tónleikar nema ákveðið væri að koma þeim á – ekkert skipulag og engin markmið vegna skilningleysis ráðamanna á nauðsyn slíks menningarfyrirbæris í höfuðborg landsins. Enginn vildi borga tónlistarmönnum laun nema Ríkisútvarpið sem í sinni hljómsveit náði að hafa 15 hljóðfæraleikara á launaskrá árið 1950. Hjómsveitin hélt síðan aðra tónleika, Mozarttónleika undir stjórn Róberts Abraham um vorið. Það liðu tæp tvö ár þar til haldnir voru næstu tónleikar sem jafnframt voru síðustu tónleikar þessarar hljómsveitar.

Í desember 1949 hélt hljómsveitin tónleika í Austurbæjarbíói undir stjórn Páls Ísólfssonar. Í umfjöllun sinni um þá segir Urbancic m.a. í grein í dagblaðinu Vísi, en þar kemur fram að ástandið hefur nánast ekkert batnað hvað varðar skipulag og aðstæður:

  Frammistaða hljómsveitarinnar, einkum strengjanna, var furðulega góð. Ég segi furðulega, því að það er ekkert leyndarmál, að skilyrði til æfinga voru eins og alltaf afar óvænleg. Hljómsveit þarfnast ekki síður æfingar eins og hver einstakur listamaður. En hvaða snillingur mundi dirfast að koma opinberlega fram eftir ekki minna en tuttugu mánaða iðjuleysi og ekki meira en tuttugu tíma æfingar? Að slíkt skuli takast yfirleitt, er nýr vottur fyrir þá staðfestingu sem ég hef alltaf haldið fram og barizt fyrir: að það þyrfti ekki nema lítilsháttar umbóta, til þess að starfækja hér hljómsveit sem væri ekki aðeins jafnfær hljómsveitum í jafnfstórum borgum erlendir, heldur betri – ef aðeins væri möguleikar fyrir hendi að þjálfa slíka hljómsveit.


139 Morgunblaðið: 22. janúar 1948.


102

En hver sem vandamálin höfðu verið, þá voru sum þeirra smám saman að leysast. Í tímaritinu Tónlistin hafði Victor ritað dálitla grein árið 1942 um stöðuna í hljómsveitarmálum, og bent á ýmsar úrbætur. Þær eru m.a.:

  Fullgild hljómsveit hér í bæ byrfti þó að einu leyti á útlending að halda. Það vantar fyrsta leikara á óbó, horn og fagott, en það eru þau blásturshljóðfæri, sem íslenzkir hljóðfæraleikarar hafa ekki lært að spila á, með því að jazzinn beitir þeim ekki. (140)

En sjö árum síðar má enn lesa í einu dagblaðanna í Reykjavík umfjöllun um tónleika:

  Ekki skal heldur þagað yfir þeirri framför, sem blásturssveitin hefir tekið. Fagurt samspil klarinettanna í forleiknum, ljettstígt óbósólóið í symfóníunni og, viti menn, örugg, en nokkuð varkár, fagottrödd – í fyrsta sinn eftir margra ára bið! (141)

Síðar í umfjölluninni má ennfremur lesa:

  Raddskipan, sem framkvæmt getur vilja höfundarins, eins og hann skráði hann í partitúrinn, og möguleiki til tíðra, reglubundinna samæfinga er grundvöllur undir öllu hljómsveitarstarfi. Vonir standa til, að þessi grundvöllur fáist bráðlega, jafn vel nú í vetur, og munu þá einnig hljóðfæraraddir bætast í sveitina, sem hana hefur vanhagað um til þessa. Fari svo, þá hlýtur fimmtudagurinn 8. desember 1949 sérstakt sögulegt gildi, því þá kvaddi hópur tónlistarmanna áheyrendur sína til þess að geta risið upp í endurnýjaðir og göfugri mynd; sem prófessional symfóníuhljómsveit, er yrði samboðin höfuðborg í fullvalda ríki. (142)

Loksins eftir rúm 25 ár virtist hilla undir stofnun hljómsveitar sem hefði það að markmiði að starfa sem slík, skipulega og reglubundið.

Sinfóníuhljómsveit Útvarpsins

Hljómsveitarmál Íslendinga eiga sér rætur, aftur til árins 1920 eins og fyrr segir. Þó var markviss undirbúningur að stofnun sinfoníuhljómsveitar – sjálf grasrótin – ekki hafin fyrr en um 1930 með Tónlistarskólanum, sem var stofnaður m.a. með það markmið að þjálfa hljóðfæraleikara sem síðar gætu leikið í slíkri hljómsveit. Ýmsir samspilshópar komu fram á árunum 1930-50, smáir og stórir, en þeir leystust allir meira og minna upp af ýmsum ástæðum, eins og aðstöðuleysi, skilningsleysi og ekki síst, fjármagnsleysi.

Þó svo Páll Ísólfsson sé oftast fyrstur nefndur í tengslum við þróun tónlistar á Íslandi fram yfir miðja öldina þá komu þar að sjálfsögðu margir við sögu, bæði frá útvarpinu og Tónlistarfélaginu.


140 Tónlistin: 1942, 1. árg. 2. hefti bls. 39.
141 Dagblað í Reykjavík, 13. desember 1949.
142 Sama.


103

Útvarpshljómveitin hélt áfram að stækka og fastráðnum starfsmönnum hennar fjölgaði. Þó voru ýmsar væringar í lofti þess efnis að koma einhverju föstu skipulagi á hljómsveitarmálin. Útvarpsstjóri var með ýmsar væntingar í þeim efnum. Hann var t.d. í upphafi mótfallinn útgáfu ráðningarbréfs til handa tveimur nýjum hljómsveitarmeðlimum í upphafi árs 1946 "fyrr en öll þessi hljómsveitarmál verði tekin upp til nýrrar skipunar". Árið 1947 voru hugmyndir um stofnun Sinfoníuhljómsveitar Íslands ræddar við þáverandi menntamálaráðherra, Eystein Jónsson. Að hans ósk voru samin drög að frumvarpi um stofnun Sinfoníuhljómsveitar Íslands. Ráð var gert fyrir í frumvarpinu að Ríkisútvarpið, væntanlegt Þjóðleikhús og Tónlistarfélagið stæðu saman um rekstur hljómsveitarinnar, en að ríkið legði svo á sérstakann skatt á kvikmyndahús sem rynni til starfsemi hljómsveitarinnar. Þetta form hefði – miðað við aðstæður í landinu á þeim tíma – líklega verið einna hentugast og árangursríkast í þá átt að hljómsveitin kæmist á laggirnar og gæti dafnað og þróast. Nú byrjuðu ljónin fyrir alvöru að standa í vegi fyrir málefninu. Snemma árs 1948 bar menntamálanefnd neðri deildar Alþingis fram tillögu að frumvarpi til laga um rekstrarsjóð fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Frumvarpið mætti mikill andspyrnu og var ekki afgreitt á þinginu. Árið 1949 hófust aðstandendur hljómsveitarinnar handa að nýju og sóttu um styrk til menntamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar til reksturs hljómsveitarinnar. Þegar umsóknum þessum var ekki sinnt tóku útvarpsmenn af skarið, og ákveðið var að verja tilteknum fjármunum útvarpsins í tilraunaskyni til starfsemi hljómsveitarinnar.

Árið 1949 komst verulegur skriður á stofnun sinfóníuhljómsveitar í Reykjavík. Allt frá stofnun útvarpsins hafði það haft hljóðfæraleikara meðal starfsmanna sinna og voru þeir orðnir 15 að tölu sem voru fastráðnir um 1950. Einnig hafði verið starfandi um tíma hljómsveit á vegum Félags íslenskra hljómlistarmanna undir heitinu Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur, og hélt nún nokkra tónleika í Reykjavík, eins og rakið hefur verið hér að framan. Ríkisútvarpið keypti m.a. upptöku af tónleikum sem haldnir voru í Austurbæjarbíói í janúarmánuði 1948. Í fundargerð útvarpsráðs 13. desember 1949 segir um það mál:

  2. Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur:
  Tónleikar hennar, hinir síðust hafa verið teknir á plötu og eru á dagskrá í kvöld. Jón Þórarinsson leggur til að þeir verði greiddir með 5000.-kr ...Samþ. var að greiða 5000.- kr., enda verði plöturnar óskoruð eign útvarpsins. En það bar á góma að herða eitthvað af þessum plötum til geymslu og minja um tónleika þessarar sveitar, en hún mun ekki leika oftar óbreytt. (143)

Á þessum fundi höfðu nú þegar verið teknar ákvarðanir um að gera tilraun til að koma hljómsveitarmálum í ákveðinn farveg. Á fundi Útvarpsráðs 12. júlí hafði verið kosin "nefnd til þess að starfa að hljómveitarmálum: Jakob Benediktsson þáverandi formaður, Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson. Þar sem Jakob Benediktsson væri farinn úr útvarpsráði þyrfti að kjósa í hans stað í nefndina. – Kosinn var Sigurður Bjarnason." (144) Í samantekt um


143 Gjörðabók útvarpsráðs: 1032 fundur 13. des 1949, bls. 205
144 Sama: 1032. fundur 13. des. 1949, bls. 205.


104

hljómsveitarmál í útvarpsráði (eftir gerðabók þess) er að finna eftirfarandi upplýsingar um þróun þessara mála frá nóvember 1949 fram til febrúar 1950.

Á fundi 22. nóvember 1949 skýrði Jón Þórarinsson tillögu sem unnin var af tónlistardeildinni og lögð hafði verið fyrir útvarpsstjóra. Hún lagði m.a. til að Útvarpið og Þjóðleikhúsið standi að því sameiginlega að ráða til bráðabirgða fimm hljóðfæraleikara frá útlöndum til fjögurra mánaða. Þjóðleikhúsið hafði samþykkt að greiða þriðjung kostnaðarins á móti tveimur þriðjungum frá útvarpinu (sjá þó nánar um það í kaflanum um Þjóðleikhúsið). Var litið á þetta sem tilraun til að koma á þeirri hljómsveit sem svo mikið hafði verið rætt um að stofna. Á fundi í útvarpssráði viku síðar lá fyrir skrifleg greinargerð frá Jóni Þórarinssyni. Fram kom á fundinum að Alþingi gerði ekki ráð fyrir fjárveitingum til hljómsveitar í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram þann sama dag. Annaðhvort var að hrökkva eða stökkva.

Ljóst var að útvarpið og Þjóðleikhúsið voru í fyrstu viljug til að gera þessa tilraun, þ.e. sameina þá hljóðfæraleikara sem fyrir voru í Reykjavík í eina hljómsveit, sem þó voru ekkert nýjar hugmyndir. Ýmsir voru hræddir um að þetta framtak yrðið stofnununum fjárhagslega ofviða, en bent var á að einhverjar tekjur kæmu á móti. Áðurnefndum tillögum tónlistardeildar um skiptingu kostnaðar milli Þjóðleikhússins og Útvarpsins við ráðningu fimm erlendra hljóðfæraleikara var samþykkt. Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að fjórir aðilar skiptu með sér kostnaðinum af stofnun og rekstri sinfóníuhljómsveitar, þ.e. ríkið, Reykjavíkurbær, Þjóðleikhúsið, og Ríkisútvarpið.

Um áramótin 1949-50 var nú staðan orðin sú að Þjóðleikhúsið treysti sér ekki til að binda sig fjárhagslega í þessu verkefni. Þó svo tónlistarmenn hafi haft uppi óskir um það að Þjóðleikhúsið mætti nýta til hljómsveitartónleika, ballettsýninga, óperusýninga og einleikstónleika, þ.e. að Þjóðleikhúsið yrði einnig tónlistarhús, þá voru þeir aðilar sem að því stóðu ekki á einu máli. Leiklistin í landinu var að fá stórt og glæsilegt hús yfir starfsemi sína og yrði það fyrst og fremst dramatískt leikhús. Í hljómsveitarmálum litu menn svo á þar á bæ að þeir væru tilbúnir að taka fé frá í frjálsum viðskiptum við hljómsveitina, þ.e. greiða tónlistarmönnum úr hljómsveitinni fyrir þá vinnu sem óskað væri eftir af hálfu leikhússins. (145) Varð þetta mál upphaf mikils ósamkomulgas til margra ára og heiftugra rifrilda, jafnvel ærumeiðandi framkomu manna hvers í annars garð, eins og síðar mun að vikið.

Erfitt er að gera sér grein fyrir stöðunni á þessum árum, en nú voru að myndast þrjár tónlistarfylkingar í Reykjavík sem áttu eftir að heyja harðvítuga baráttu um völdin. Hér var um að ræða Tónlistarfélagið og tónlistardeild Útvarpsins með Ragnar Jónsson, Pál Ísólfsson


145 Þetta er undirstrikað hér, því ekki ber saman þessum fullyrðingum útvarpsmanna um rekstrarstyrk til hljómsveitarinnar frá Þjóðleikhúsinu, og svo því sem fram kemur í gerðabók Þjóðleikhúsráðs. Sjá nánar um það í kaflanum um Þjóðleikhúsið.


105

og Jón Þórarinsson í fylkingarbrjósti, Tónskáldafélag Íslands með Jón Leifs í fararbroddi og Þjóðleikhúsið með Guðlaug Rósinkranz Þjóðleikhússtjóra sem oddamann.

Stofnár Sinfóníuhljómsveitarinnar er í talið árið 1950. Ég er þó þeirrar skoðunar að sú hljómsveit sem tók til starfa árið 1950 hafi aðeins verið framhald af þeirri sem fyrir var – enn ein trappan í þá átt að finna hljómsveitinni heppilegt rekstrarform. Í "fáeinum línum" í Vísi um tónleikana í desember 1949 má lesa:

  En því má ekki gleyma hver það var, sem lagði fysta steininn í þessa byggingu, sem nú er að verða listasmið. Vísir þessarar Symfóníu-hljómsveitar var Hljómsveit Reykjavíkur, og aðal-stofnandi hennar var Þórarinn Guðmundsson. (146)

Er hér átt við þá hljómsveit sem minnst er á á síðu 15. Maður gæti einnig freistast til að endurtaka orð Páls Ísólfssonar um stofnun Symfóníuhljómsveitarinnar: - "Hér er ekki um neina nýja hljómsveit að ræða, heldur nýtt nafn á Symfóníuhljómsveit Reyjavíkur", þ.e. hin sama hljómsveit með nýtt nafn. Meirihluti hljóðfæraleikaranna voru þeir sömu sem í hinni fyrri, en nokkrir erlendir hljóðfæraleikarar höfðu verið ráðnir að auki til starfa, auk nýrra íslenskra hljóðfæraleikara sem voru nýkomnir heim frá námi.

Hljómsveitin undir heitinu Sinfóníuhljómsveitin eða Sinfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins hélt sína fyrstu tónleika 9. mars árið 1950 í Austurbæjarbíói, undir stjórn Róberts A. Ottóssonar. Af öðrum ólöstuðum þá hvíldi undirbúningsstarf að endurskipulagningu hljómsveitarmálanna að mestu á herðum þeirra Björns Jónssonar, Páls Ísólfssonar og Jónasar Þorbergssonar, þáverandi útvarpsstjóra, auk Jóns Þórarinssonar. Hljómsveitin var rekin í nánum tengslum við Ríkisútvarpið, enda var stór hópur hljóðfæraleikara fastráðinn hjá því. Hjómsveitinni var kosin stjórn sem í sátu, Jón Þórarinsson frá Ríkisútvarpinu, Baldur Andrésson frá borgarstjórn og Bjarni Böðvarsson fulltrúi hljóðfæraleikara. Framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar fram til ársins 1954 var Björn Jónsson, fyrrum kaupmaður, er síðar varð framkvæmdastjóri Tónlistarfélagsins; mikill baráttumaður í þágu tónlistar á Íslandi.

Aðdragandinn að stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar var langur, eins og rakið hefur verið, og var síðasta áhlaupið gert á árunum 1948 og 1949 með að fá opinbera aðila til að veita fé í þetta stóra verkefni, sem svo lengi hafði verið í undirbúningi. Nokkur ár áttu þó eftir að líða áður en þetta fjárhagslega "olnbogabarn" í augum ráðamanna fengi viðunandi starfsgrundvöll með rekstrarstykjum frá opinberum aðilum. Í upphafi ferils síns hafði hljómsveitin engan fjárhagslegan stuðning neinnar stofnunar nema Ríkisútvarpsins, en menn höfðu vænst þess að bæði ríkið og Reykjavíkurbær veittu fé í verkefnið. Hvað varðar Reykjavíkurbæ, þá brást hann ekki þegar erindið var loks tekið fyrir. Fé var veitt til rekstursins í stuttan tíma og var það sjálfur bæjarstjórinn, Gunnar Thoroddsen, sem flutti


146 Theódór Árnason, bréf sem birtist í Vísi, dagsett, 8. desember 1949.


106

persónulega breytingartillögu við fjárhagsáætlun þess efnis að á árinu 1950 fengi Sinfóníuhljómsveitin 150.000 krónur úr bæjarsjóði. Í greinargerð frá þeim Páli Ísólfssyni, Jóni Þórarinssyni, Birni Ólafssyni og Birni Jónssyni getur að lesa eftirfarndi upplýsingar um stöðuna:

  Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti nýlega með miklum meiri hluta atkvæða að veita á þessu ári 150. þús. kr. til styrktar Symfóníuhljómsveit Íslands. Fé þetta var veitt samkvæmt tillögu borgarstjóra, en að samþykktinni stóðu fulltrúar allra stjórnmálaflokka og sýndu með því glöggan skilning á nauðsyn þessa menningarmáls.

  Nú á næstunni mun koma til kasta Alþingis að sýna hug sinn í þessu máli, og verðu rekstur hljómsveitarinnar ekki tryggður þetta ár, nema Alþingi sjái sér fært að styrkja hana til jafns við Reykjavíkurbæ. (147)

Þessi fjárveiting gerði hljómsveitinni mögulegt að starfa út árið 1950. Bæjarstjóri Reykjavíkur var sjálfur ágætur tónlistarmaður og sýndi málinu mikinn skilning. En það verður ekki það sama sagt um vilja hins háa Alþingis. Haustið 1950 var borin fram á Alþingi öðru sinni á því ári tillaga um fjárhagslegan stuðning við Sinfóníuhljómsveitina, en hún var felld með 27 atkvæðum gegn 23 og munu framsóknarmenn hafa verið einna mest mótfallnir tillögunni. Það á sér kannski þá skýringu að Eysteinn Jónsson framsóknarmaður í ríkisstjórninni var fjármálaráðherra. Einnig réðu miklir fórdómar ferðinni og neikvæð viðhorf í garð tónlistarfólks – sem átti sér rætur í íslenskum heimóttaskap á þeim tíma. Í grein í Tímanum með yfirskriftinni " Ríkisframfærsla symfóníuhljómsveitarinnar" frá árinu 1950 má lesa m.a.:

  Þess er líka vert að minnast, að íslenzkt tónlistarlíf hefir blómgast vel á undanförnum áratugum eða á meðan það hefur verið borið upp af sjálfboðavinnu og fórnfúsum áhugamönnum. Það er ekki víst, að það yrði því til gæfu að kippa því af þeim grundvelli og færa það yfir á svið ríkisframfærslunnar. (148)

Lengi lifi réttarsöngurinn!

Auðvitað var rétt að tónlistarlífið hafði blómgast í sjálfboðavinnu, en það voru breyttir tímar og nýir tónlistarmenn, en sumir landsmenn virtust ekki átta sig á því. Það voru sjálfir tónlistarmennirnir, sem svo oft áður tóku sjálfir á sig þunga bagga til að viðhalda því tónlistarlífi sem byggt hafði verið upp. Með því að slá verulega af launakröfum gerðu þeir mögulegt að halda hljómsveitarstarfinu áfram.

Sinfóníuhljómsveitin hefur nánast alltaf verið einstaklega heppin með stjórnendur, og skýrir það hinn öra framgang hennar á næstu árum. Róbert A. Ottósson stjórnaði hljómsveitinni í fyrstu og einnig Victor Urbancic, en fyrsti erlendi hljómsveitarstjórinn var Hermann


147 Vísir: 3. apríl 1950.
148 Tíminn: 12. apríl 1950.


107

Hildebrandt frá Þýskalandi, sem var ráðinn til að stjórna tvennum tónleikum í lok ársins 1950. Hinn norski Olav Kjelland var svo ráðinn sem fastur hljómsveitarstjóri til þriggja ára frá og með haustinu 1952. Menn töldu sig hafa dottið í lukkupottinn að fá svo reyndan hljómsveitarstjóra, sem hafði stjórnað hljómsveitum í 30 ár, enda vann hann geysilegt uppbyggingarstarf þó svo það væri ekki alltaf auðvelt fyrir hann, frekar en aðra erlenda hæfileikamenn sem komu til landsins á undan honum.

Starfsemi hljómsveitarinnar fór hægt af stað. Árið 1952 hélt hún fyrstu tónleika sína þann vetur, í lok aprílmánaðar. Var það undir stjórn Olavs Kjelland sem stjórnaði henni í fyrsta skipti og þá sem gestastjórnandi. Síðan tók hann við fastri hljómsveitarstjórn um haustið. Einnig jók það áhuga hljómsveitarmanna að fá tækifæri að leika á tónleikum í Þjóðleikhúsinu í júníbyrjun 1952, með kammerhljómsveit frá Hamborg sem hér var á tónleikaferðalagi. Hafði Ragnar Jónsson, betur þekktur sem Ragnar í Smára, "skotist" til Hamborgar til að ráða þann hóp til að leika á 20 ára afmælishátíð Tónlistarfélagsins. Það hefur verið stórkostlegt fyrir áheyrendur að heyra nú 70 manna hljómsveit sem lék geysivel vegna hins mikla styrks sem gestirnir veittu heimamönnum. Enda reis þáverandi menntamálaráðherra, Björn Ólafsson, upp í lok fyrri tónleikanna (tvennir tónleikar voru haldnir, 9. og 13. júní) og þakkaði hljómsveit og hljómsveitarstjóra fyrir "framúrskarandi menningarstarf þeirra".

Þó svo þessi hljómsveit, það er sú sem stofnuð var 1950 fengi heitið Sinfóníuhljómsveit Íslands, þá var um að ræða stóra útvarpshljómsveit eins og rekstrarfyrirkomulagið var, enda töluðu menn um Sinfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins. (149) Það voru útvarps- og Tónlistarfélagsmenn sem tóku allar ákvarðanir fyrir hana. Ekki var haldinn stofnfundur né samin nein lög um starfsemi hljómsveitarinnar í það skiptið. Kjarni hljóðfæraleikaranna, þ.e. 15 manns, voru fastráðnir starfsmenn Ríkisútvarpsins úr "gömlu" útvarpshljómsveitinni, en aðrir voru lausráðnir. Framámenn Sinfóníuhljómsveitarinnar voru afskaplega ötulir við að auka veg hennar og vegsemd og tryggja reksturinn á komandi árum. Ekki gekk sú barátta orðalaust fyrir sig. Í dagblöðunum í ársbyrjun 1953 voru geysiskörp blaðaskrif um samskipti Þjóðleikhússins og þá helst þjóðleikhússtjóra og forsvarsmanna Sinfóníuhljómsveitarinnar. Deildu menn þar hart um þóknun þá er Þjóðleikhúsið ætti að greiða Sinfóníuhljómsveitinni fyrir tónlistarflutning í óperum og á sýningum á þess vegum. Einnig snerist deilan um hver ætti að "ráða" þegar teknar væru ákvarðanir um tónlistarflutning í Þjóðleikhúsinu. Forráðamenn Sinfóníuhljómsveitarinnar vildu að Þjóðleikhúsið gerðist rekstraraðili að hljómsveitinni, og fengi í staðinn allan þann tónlistarflutning frá þeirra hendi er þörf væri á. Þetta fyrirkomulag hefði styrkt starfsgrundvöll hljómsveitarinnar til muna – og um leið öll völd Tónlistarfélagsgeirans – í íslensku tónlistarlífi. Þjóðleikhússtjóri stóð samt sem áður fast á þeirri staðreynd, að hann væri þjóðleikhússtjóri og við stofnunina starfaði þjóðleikhúsráð. Það var því ekkert óeðlilegt að hann tæki því ekki sem sjálfsögðum hlut að aðrir settu honum stólinnn fyrir dyrnar í


149 Yfirskrift á grein Ragnars Jónssonar í Morgunblaðinu, 1. desember 1955 -– Sinfoníuhljómsveit Ríkisútvarpsins lögð niður.


108

ákvörðunartöku. Þarna voru miklir hagsmunir í húfi, bæði fjárhagslegir fyrir Þjóðleikhúsið og atvinnuhagsmunir hljóðfæraleikaranna – fyrir utan valdabaráttuna
Niðurstaðan varð sú að stofnaður var kór og hljómsveit og var Urbancic ráðinn kór- og hljómsveitarstjóri Þjóðleikhússins frá 1. febrúar 1953 til 5 mánaða. Þessi ákvörðun Þjóðleikhússtjóra olli miklu fjaðrafoki. Fyrirsögn í Alþýðublaðinu 26. febrúar 1953 hljóðar þannig: "Styrjöld um hljómsveitarstjóra Þjóðleikhússins. Heillaóskir teknar aftur, afmælisgjafir endursendar". (150) Þessar miklu deilur voru milli Ragnars í Smára og Páls Ísólfssonar annars vegar, og Guðlaugi Rónsinkranz þjóðleihússtjóra hins vegar. Segir í fréttinni þannig frá eftir að reifaðar höfðu verið kröfur tvímenninganna, en þeim öllum hafnað:

  Er þessu var einnig synjað, er sagt, að Ragnar í Smára hafi skrifað Þjóðleikhússtjóra bréf, mjög skemmtilegt, og sögumaður blaðsins segir, að það hafi endað á þá lund, að ef kröfunni yrði ekki fullnægt, tæki hann aftur allar heillaóskir til þjóðleikhússtjórans á fimmtugsafmæli hans fyrir skemmstu, og myndi leita til menntamálaráðherra um skipun tónlistarráðs við Þjóðleikhúsið. Þessu áhlaupi er blaðinu tjáð, að Þjóðleikhússtjóri hafi af vaskleik svarað með því að endursenda Ragnari í Smára afmælisgjöf frá honum, en hún var forkunnarfögur útgáfa af Passísálmum séra Hallgríms Pétussonar, árituð heillaóskum og logagylt í sniðum. (151)

Þegar á heildina er litið fjallaði deilan fyrst og fremst um persónuleg völd fram yfir liststefnur – eins og oft áður.

Þegar Þjóðleikhúsið tók til starfa, var Jón Þórarinsson ráðinn tónlistarlegur ráðunautur þess eftir að Páll Ísólfsson afþakkaði það boð, vegna mikilla anna á öðrum vettvangi, og gekk sú skipan átakalaust fyrir sig í tvö ár. Sú staðreynd, að ekki var gert ráð fyrir stöðu tónlistarráðunauts við Þjóðleikhúsið, aðeins bókmenntaráðunauts, gaf leikhússtjóra frjálsar hendur í ákvarðanatökum hvað varðaði tónlistarmál, þó svo ráðinn hafi verið maður í þá stöðu í upphafi. Voru væntingar gerðar til hans að hann fylgdist m.a. með í því sem var að gerast í tónlistarmálum Þjóðleikhússins. Árið 1952, er leikritið Tyrkja-Gudda var tekið til sýningar, leitaði höfundurinn til Páls Ísólfssonar að semja tónlist við verkið. Sökum anna gat Páll ekki tekið það að sér og var þá Victor Urbancic ráðinn til verksins. Þegar svo tónlistarráðunauturinn, Jón Þórarinsson, lýsti því yfir að hann hefði ekki heyrt tónlistina fyrr en á frumsýningu, þótti þjóðleikhússtjóra hann ekki hafa staðið sig í stykkinu og sagði honum upp störfum. Þar með missti Tónlistarfélagsvængurinn áhrifamátt sinn í þeirri stofnun. Stjórn Þjóðleikhússins vildi ekki gerast fastur aðili að Sinfóníuhjómsveitinni, heldur eingöngu kaupa þá vinnu sem á þyrfti að halda hverju sinni. Þar sem samningar tókust ekki um þessi kaup við Sinfóníuhljómsveitina, þá réði Þjóðleikhúsið til sín stjórnanda, Victor Urbancic, í 5 mánuði til að sjá um tónlistarflutning fyrir sig, eins og bent hefur verið á. Þetta var mótspil sem ekki hefði verið gert ráð fyrir frá hinum vængnum, enda fóru öll eðlileg mannleg samskipti úr skorðum við þessa niðurstöðu. Meira að segja Ragnar


150 Alþýðublaðið: 26. febrúar 1953.
151 Sama.


109

Jónsson blandaðist inn í deiluna, en þó af persónulegum ástæðum en ekki fyrir hönd Tónlistarfélagið – var sagt.

Í kjölfar þessarar ákvörðunar gengu klögumálin á víxl á síðum dagblaðanna. Var talað um gagnsóknir og skrifaðar voru greinagerðir frá beggja hálfu, sem við lestur skila aðeins þeirri niðurstöðu að um hreint valdastríð hafi verið að ræða. Sinfóníuhljómsveitarmenn útveguðu sér nótur af óperunni Tosca og töldu hana eina geta lyft "hinu listræna" starfi leikhússins á hærra stig. Einnig höfðu þeir, þ.e. Jón Þórarinsson og Björn Jónsson, unnið að ráðningarsamningi – með ákjósanlegum kjörum eins og kallað var – við nokkra sænska söngvara. Þjóðleikhúsið hafði ákveðið að flytja óperuna La Traviata og skyldu íslenskir einsöngvarar vera í aðalhlutverkum. Hefur Guðlaugi Rósinkranz verið stillt upp sem andstæðingi tónlistarflutnings og einvaldi á stól Þjóðleikhússins. Í dagblaðinu Vísi birtist undir lok deilunnar lítil grein þar sem segir:

  Þjóðleikhúsráð hefur einhuga staðið að þeim ráðstöfunum, sem Þjóðleikhússtjóri hefur gert, svo sem stofnun hljómsveitar og kórs og ráðningu dr. Urbancic, og er því sýnilegt, að hér er ekki um neina deilu við Guðlaug Rórinkranz að ræða, eins og sum staðar hefur verið haldið fram. (152)

Þegar svo langt er milli skoðana manna og þegar "stálin stinn" mætast ísköld og hörð eru málin ekki vænleg til niðurstöðu. Eins og rakið var í kaflanum um Tónskáldafélagið kom fram litlu áður opinbert vantraust á hendur þeim Jóni Þórarinssyni og Páli Ísólfssyni, sem var liður í valdabaráttu í tónlistarlífinu. Voru þeir nú í sömu stöðu og gagnvart Þjóðleikhúsinu og Jón Leifs var gagnvart Ríkisútvarpinu með tónlistarnefndina. Svipuð mál áttu eftir að koma upp á yfirborðið öðru hvoru næstu tvo áratugi.

Hljómsveitin hélt nokkuð reglulega tónleika í Þjóðleikhúsinu og ýmislegt var gert til að "pússa af" það sem betur gæti farið. Ríkisútvarpið yfirtók rekstur hennar og blómstraði starf hennar jafnt og þétt og aðsókn jókst að tónleikum sem haldnir voru. Samstarfið við Þjóðleikhúsið batnaði og í maí 1954 stjórnaði Victor Urbancic hljómsveitinni í Þjóðleikhúsinu er eingöngu voru flutt verk eftir Emil Thoroddsen. Erlendir einleikarar lögðu leið sína til Íslands til tónleikahalds með hljómsveitinni, ásamt því að halda sjálfstæða tónleika á vegum Tónlistarfélagsins, er hafði staðið fyrir heimsóknum slíkra manna og tónleikahaldi um langa hríð. Í ársbyrjun 1954 léku með hljómsveitinni tveir rússneskir listamenn, Mstislav Rostropovitsj er lék sellókonsert Dvoraks op. 104 og píanóleikarinn Tamara Guséva er lék píanókonsert Rachmaninoffs op. 18. Innlendir einleikarar léku einnig með hljómsveitinni á þessum tíma. Á tvennum tónleikum í apríl sama ár lék t.d. Einar Vigfússon sellókonsert í a-moll eftir Saint-Saëns og Gísli Magnússon lék píanókonsert í F – dúr eftir Liszt. Á efnisskrá hljómsveitarinnar á þessum ári var næstum eingöngu flutt tónlist frá klassíska og rómantíska tímanum, en lítið fyrir og eftir þau tímabil. Olav Kjelland hljómsveitarstjóri starfaði með hljómsveitinni allt til vors 1955, en þá lagðist starfsemin niður um skeið – eins og oft áður. Ríkisútvarpið, sem treyst hafði rekstrargrundvöll hennar


152 Vísir: 2. mars 1953.


110

undanfarim tvö ár, hætti að styrkja rekstur hennar – hinir kappsömu áhugamenn höfðu sett hana á hausinn, var sagt. Þó svo lengi megi deila um ákvörðun útvarpsstjóra að hætta að styrkja hljómsveitina, þá varð það þó til þess að málefni hennar komust í "viðunandi" horf í marsmánuði 1956 er menntamálaráðherra, Bjarni Benediktsson, gekk frá skipun nýrrar stjórnar með hagsmunaaðilum.

En hver var svo staða Sinfóníuhljómsveitarannar þegar útvarpsstjóri ákvað – að því er virðist að eigin frumkvæði – að Ríkisútvarpið hætti að styrkja hana fjárhagslega og reka? Í greinargerð sem útvarpsstjóri sendi menntamálaráðherra, dagsett 8. janúar 1955 kemur fram að frá því árið 1953, er Ríkisútvarpið tók við rekstri hennar eftir að hann var kominn í þrot, hafi ríkt friður um rekstur og starfsnæði hennar og tekjur hafi vaxið af tónleikum. Þar segir m.a.:

  Ríkisútvarpið tók að sér sinfóníuhljómsveitin, án þess að hafa seilst eftir henni, þegar rekstur hennar var kominn í þrot og aðrir aðilar ekki fyrir hendi til að annast þetta, enda hafði Ríkisútvarpið einnig áður staðið undir þessum rekstri að miklu leyti og hljóðfæraleikarar útvarpsins höfu að verulegu leyti verið uppistaðan í hljómsveitinni og sinfóníuhljómsveitin var alla daga fyrst og fremst útvarpshljómsveit.[undirstrikun mín]

  Þessi nýja skipun hefir að mestu gefizt vel og betur en áður var. Staða hljóðfæraleikaranna hefir verið miklu öruggari en áður. Hljómsveitin hefir notið fulls starfsnæðis og friður verið um hana, þar sem áður logaði allt í ófriði og deilum kringum hana. Reksturinn hefir í heild sinni orðið eins hagfeldur og auðið er, þótt dýr sé. Ennfremur hefur Ríkisútvarpið fengið út úr þessu miklu meiri "lifandi músík" en nokru sinni áður. Aðsóknin að hinum opinberu tónleikum hefir aukizt. Loks fékk Þjóðleikhúsið sína hljómsveit úr þessari hljómsveit útvarpsins og fór vel á því. (153)

Ríkisútvarpið fékk nokkra styrki til rekstur hljómsveitarinnar frá Reykjavíkurborg og Þjóðleikhúsinu, en nú var komið svo að Þjóðleikhússtjóri vildi ekki lengur ráðstafa fé til þessara mála, eða eins og kemur fram í áðurnefndri greinagerð útvarpsstjóra:

  Þó hljómsveitin sé rekin af Ríkisútvarpinu og á þess ábyrgð, meðan samningar standa, og sem deild í starfsemi þess, þá er rekstur hennar háður samvinnu við Þjóðleikhúsið og atbeina ríkis og bæjar, og er hljómsveitin þakklát fyrir þá styrki, sem þaðan koma. Enginn þessara aðila hafa beinlínis kvartað undan þessari byrði, nema Þjóðleikhúsið, eins og greint er frá í upphafi þessa bréfs. Er því rétt að skoða sérstaklega viðskipti Ríkisútvarpsins og Þjóðleikhússins. Það er mjög leiðinlegt ef Þjóðleikhúsið eða Þjóðleikhússstjóri sérstaklega er óánægður með samvinnuna. (154)

Ljóst var að eitthvað róttækt varð að gera. Útvarpsstjóri ákvað – eins og sagði hér að framan – að "leggja niður" hljómsveitina haustið, árið 1955. Þegar líða tók á haustið birtist


153 Úr skjalasafni Ríkisútvarpsins; DHd/16.
154 Sama.


111 (Síða 112 er auð)

greinargerð útvarpsstjóra í Morgunblaðinu þar sem hann rakti ástæðurnar. Á sama tíma og hann kenndi um fjárskorti, þá gagnrýndi hann það sem hann kallaði "snúðugan" og "snældulipran" flokk manna, sem gengi uppstertur um ríki allra lista, eins og þær séu óðal þeirra einna og öll menning sé einkafyrirtæki sjálfra þeirra (á hann þar við ýmsa menn úr Tónlistarfélagsgeiranum).

Þetta kallaði að sjálfsögðu á hörð viðbrögð manna sem unnið höfðu að uppbyggingu hljómsveitarinnar. Voru þar dregnar fram bæði pólítískar og persónluegar ástæður og sitt sýndist hverjum, en niðurstaðan varð þó sú að eining náðist um endurreisn Sinfóníuhljómsveitarinnar snemma á árinu 1956.


Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998