Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Árin 1920-30
Hljómsveit Reykjavikur undir stjórn Þórarins Guðmundssonar
Hljómsveit undir stjórn Sigfúsar Einarssonar o.fl

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 1 - 10

Árin 1920-30

Hljómsveit Reykjavíkur undir stjórn Þórarins Guðmundssonar

Tónleikalíf í Reykjavík á árunum um 1920 - 30 var miklu fjölbreyttara frá því sem þekkst hafði áður. Viðfangsefnin urðu stærri og tónleikum fór fjölgandi. Auk hefbundinna kór- og einsöngstónleika, sem svo ríkan þátt áttu í tónlistarlífinu, voru haldnir fleiri og fleiri hljóðfæratónleikar, píanó-, fiðlu- og orgeltónleikar. Fyrir utan þann stórviðburð á þessum áratug, sem var heimsókn Hamburger Philharmonisches Orchester, undir stjórn Jóns Leifs árið 1926, þá verður stofnun Hljómsveitar Reykjavíkur og tónleikahald hennar og vöxtur, að teljst eitt mikilvægasta skref sem stigið var í tónlistarmálum þjóðarinnar. Kórsöngur hafði fram að þessu verið ríkjandi form tónleikahalds í landinu, en á þessum áratug var hljóðfæratónlist ört vaxandi, og hljóðfærakunnátta tónlistarfólks jókst að sama skapi.

Kjör þeirra fáu hljóðfæraleikara sem voru í Reykjavík á árunum fyrir 1930, og einnig enn í nokkra árutugi, gátu orðið ströng hvað varðaði vinnutíma og laun. Starf þeirra sem tónlistarmanna var kennsla sem og hljóðfæraleikur á kaffihúsum og í kvikmyndahúsum. Auk þess unnu flestir einhver föst störf, annaðhvort verslunar- eða skrifstofustörf. Kaffihúsamenning í Reykjavík var afar blómleg á þessum árum og má þar sem dæmi nefna eitt fínasta kaffihúsið, Café Rosenberg, sem hóf starfsemi sína í kjallara Nýja Bíós árið 1920, á sama tíma og bíóið tók til starfa. Þar starfaði hljómsveit undir stjórn Þórarins Guðmundssonar í um 10 ár. Mikið menningarsnið var á þessum stað og má þar til nefna að hljómsveitin sem lék á kaffihúsinu gaf út hljómleikaskrá, að hætti sumra fínni erlendra kaffihúsa á þeim tíma, sem lá frammi fyrir gesti. Í þessari skrá Café Rosenberg voru 615 lög sem hljómsveitin hafði á takteinum fyrir gesti og skyldu þeir aðeins gefa upp númer úr skránni og fengu á þann hátt óskalagið leikið.

Hljómsveitin flutti síðdegistónlist á kaffihúsinu og svo aftur á kvöldin að lokinni bíósýningu. Tveir hljóðfæraleikaranna léku einnig tónlist undir kvikmyndunum, eins og venja var á þeim árum þöglu myndanna. Með Þórarni störfuðu í hljómsveitinni fjórir menn, Eggert Guðmundsson (bróðir hans, en hann tók síðar upp eftirnafnið Gilfer), Karl O. Runólfsson, Torfi Sigmundsson og Björn Jónsson. Hljóðfæraskipan var dálítið óvenjuleg, eða tvær klarinettur, trompet, píanó og fiðla. Bræðurnir, Þórarinn og Eggert, léku síðdegistónlist og undir í kvikmyndunum, en á kvöldin var "hljómsveitin" fullskipuð. Hópurinn starfaði allt fram til ársins 1930, en þá leystu talmyndirnar þöglu myndirnar af hólmi. Ríkisútvarpið hóf þá einnig útsendingar sínar og Þórarinn réðst þangað til starfa til að annast tónlistarflutning. Um 1920 var að auki í Reykjavík lítill hópur manna sem lék tónlist við ýmis tækifæri, annaðhvort einir sér eða saman í litlum hópum, líkt þeim sem minnst var á hér að framan.Ekki var um marga stóratburði að ræða í bæjarlífinu og vakti heimsókn Kristjáns konungs X árið 1921 mikla athygli. Margt var gert til að taka sem best á móti konungi. Nefnd, sem stóð


2

að konungsheimsókninni, vakti athygli á að tónlistarflutningur yrði að skipa ákveðinn sess þó svo að opinberir framámenn sæju ekki ástæðu að öðru leyti til að hafa nein afskipti af tónlistarmönnum, né tónlistarmálum yfirleitt. Ljóst var að við veisluhöldin dygði ekki að láta hina "bjargföstu" karlakóra landsins syngja undir borðhaldi og við dansinn, þó svo þeir tækju þátt í öðrum viðburðum í tengslum við hátíðarhöldin. Þórarinn Guðmundsson fékk það hlutverk að safna saman hópi hljóðfæraleikara og sjá um æfingar og útsetningar fyrir þetta tækifæri.

Sem einskonar æfingu fyrir konungskomuna hélt hópurinn, sem skipaður var 20 hljóðfæraleikurum, tónleika í Reykjavík í maímánuði 1921. Um sögulegan atburð var að ræða í íslenskum tónlistarmálum, þar sem þetta er í fyrsta skipti sem "hljómsveitar"-tónleikar voru haldnir hérlendis og hljómsveitin eingöngu skipuð íslenskum hljóðfæraleikurum. 24. maí skrifaði Árni Thorsteinson tónskáld og gagnrýnandi m.a. í Morgunblaðið í tilefni þessara tónleika:

  Orchester-hljómleikar hr. Þórarins Guðmundssonar og hljóð færasveitar hans fóru fram í sal Nýja bíós síðastliðinn sunnudag. Salurinn var troðfullur af áheyrendum, sem launuðu hina góðu frammistöðu flokksins með dynjandi lófataki. Það var töluverður "orchesterhreimur" í hljómleikunum, enda gaf þarna í fyrsta sinn að líta innlendan flokk, þar sem hver maður sat við hljóðfæri sitt í "orchesterröð", og þar sem gott innbyrðis hljóðfall milli hinna einstöku hljóðfærategunda var undirstaðan. (1)

Einnig segir í endurminningum Árna Thorsteinson:

  22. maí [1921] eru nýstárlegir og athyglisverðir hljómleikar í Nýja bíó. Þar leikur 20 manna hljóðfæraasveit undir stjórn Þórarins Guðmundssonar.... Þetta voru fyrstu alvarlegu skrefin til myndunar á hljómsveit höfuðstaðarins. Þau voru seint stigin og auðvitað ófullkomin frá listrænu sjónarmiði, en mátt samt teljast góð byrjun ,framar öllum vonun. Þórarinn á heiðurinn fyrir að hafa byrjað með þessum 20 árhugamönnum, þótt aðrir tækju við síðar". (2)

Viðfangsefnin voru ekki stór, ýmis erlend lög, marsar og danslög, sem skyldi nota í tengslum við veisluhöldin. Hljóðfæraskipan á tónleikunum var eftirfarandi: Píanó, harmonium, flautur, klarínettur, fagott, trompetar og strengjahljóðfæri. Það var með öðrum orðum notast við það sem til var. Hópurinn hélt áfram að koma saman eftir heimsókn konungs, og var Hljómsveit Reykjavíkur undir stjórn Þórarins Guðmundssonar formlega stofnuð 26. desember 1921 (3). Aðrir í stjórn voru Sigfús Einarsson ritari og Jón Laxdal gjaldkeri. Fyrstu opinberu tónleikar þessarar hljómsveitar voru annan jóladag 1921 og voru þá 23 hljóðfæraleikarar í hljómsveitinni.

Hver sem titillinn varð á hljóðfærahópum þessara ára og síðar, var það sama fólkið sem lék, og kom það til vegna þess hve fáir hljóðfæraleikarar voru í Reykjavík. Samkvæmt


1 Morgunblaðið: 24. maí 1921.
2 Ingólfur Kristjánsson: Harpa minninganna; bls. 403 - 404.
3 Sjá nánar: Ingólfur Kristjánsson: Strokið um strengi; endurminningar Þórarins Guðmundssonar bls. 212ff.


3

tónleikaskrá þeirri sem birtist í bókinni Harpa Minninganna lék þessi hljóðfæraflokkur undir stjórn Þórarins aðeins þrisvar sinnum (4). Í flestum tilfellum voru á ferðinni áhugamenn sem áttu þá ósk heitasta að fá að taka þátt í tónlistarstarfi. Að sjálfsögðu varð árangurinn eftir efninu og getunni. Þó svo leikur hópsins hafi fengið góða dóma í blöðum, þá vel ég að líta á þá dóma sem opinberlega hvatningu fyrst og fremst. Eflaust má segja, að miðað við það sem fyrir hendi var í Reykjavík þá hafi frammistaðan verið þokkalegt en ef tekið er mið af leik þeirrar hljómsveitar sem Jón Leifs kom með til Íslands nokkrum árum síðar, þá standist leikur þessara hópa ekki samanburð. Mikilvægast í þessum efnum var, að það var hljómsveit að spila. Það var að fæðast líf.

Hljómsveit undir sama heiti - Hljómsveit Reykjavíkur - kom svo fram stuttu síðar, undir stjórn Sigfúsar Einarssonar. Í þeirri "saloonhljómsveit" sem hann stofnaði fyrri hluta árs 1925, og verða skyldi í framtíðinni sinfóníuhljómsveit, voru hljóðfæraleikararnir að mestu þeir sömu og í hljómsveit Þórarins. Hljómsveitin sem Sigfús stjórnaði kom einnig fram undir nafninu Hljómsveit Reykjavíkur og hélt hún sína fyrstu tónleika í marsmánuði 1925. Mönnum þótti framtak hans það merkilegt að Morgunblaðið bað Sigfús að segja dálítið frá þessu í blaðaviðtali:

  Hljómsveitirnar- Sinfoniuhljómsveitirnar - leggja langmestan skerfinn til sönglífs og söngmenningar annarra þjóða. Hér hefir engin hljóðfærasveit verið til, nema flokkur hr. Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara um eitt skeið, og lúðraflokkur. Þess vegna er allt í molum hjá okkur - tilviljun ein hvort nokkur "konsert" er haldinn hér í bænum mánuðum saman. Söngflokkarnir svo dauðans þungir í vöfum. Undirbúningurinn svo langur, að flokkarnir geta ekki látið til sína heyra nema einu sinni eða tvisvar á vetri. Og viðfangsefnin eðlilega minni háttar. Ef ráðizt er í einhver stærri, þá vantar undirspilið. Slagharpa ein, með 30 - 50 manna kór, er vitanlega gjörsamlega ófullnægjandi - neyðarúrræði. Annars konar söngskemmtanir fátíðar. Hið eina sem getur bætt úr þessu ástandi er það, að upp rísi í bænum skynsamlega samsett hljóðfærasveit, skipuð öllum þeim innlendu hljóðfæraleikurum, sem eru lengst komnir, auk hinna útlendu hljóðfæraleikara, er hér starfa. Þetta er ráðið - eina ráðið. Viðfangsefnum okkar á þriðjudagskvöld ætla ég ekki að lýsa. Menn verða að heyra þau. Aðeins vil ég geta þess, að þetta er í fyrsta skipti, sem sinfónía er leikin af hljóðfærasveit á Íslandi - þessi mesti og merkilegasti háttur í allri hljóðfæralist. Og Sinfónía Schuberts er skínandi gull. (5)

Sigfús átti hér við H-moll sinfóníu Schuberts, sem síðar hefur oft verið flutt á Íslandi. Haustið 1925 var haldinn nýr stofnfundur Hljómsveitar Reykjavíkur og ný stjórn kosin. Jón Laxdal var kosinn formaður, Björn Jónsson gjaldkeri, Sigfús Einarsson ritari, og jafnframt hljómsveitarstjóri, og Sveinn Björnsson (sem síðar varð forseti Íslands). Sigfús og Jón sátu einnig í stjórn fyrri hljómsveitarinnar. Þessi nýja hljómsveit lék metnaðarfyllri verk og var miklu virkari í allri starfsemi sinni. Eitt sinn skipuðu hana 35 hljóðfæraleikara.


4 Tekið skal fram að þessi tónleikaskrá er byggð á tónleikaskrám þeim er til eru í Landsbókasafni. Ekki er víst að allar upplýsingar um tónleika hljómsveitarinnar hafi skilað sér þangað.
5 Sigrún Gísladóttir: Sigfús Einarsson Tónskáld, 1972, bls. 107-108.


4

Tónleikar voru haldnir í des. 1925 og á tónleikaskránni voru m.a. verk eftir Mozart, Haydn, Beethoven og Grieg. Í maí 1926 hélt hljómsveitin þrenna tónleika og svo eina tónleika á mánuði á haustmánuðum fram til desember. Taka skal fram að Þórarinn Guðmundsson tók virkan þátt í starsemi hljómsveitarinnar sem fiðluleikari. Hljómsveitin hélt marga tónleika undir stjórn Sigfúsar árið 1927, en árið 1928 lætur hann af stjórn því hann var ráðinn söngmálastjóri Alþingishátíðarinnar sem halda skyldi árið 1930. Í maímánuði árið 1928 hélt Hljómsveitin fund og samþykkti að ráða erlendan mann til að halda námskeið fyrir hljóðfæraleikarana. Ráðinn var tékkneskur prófessor, Jóhannes Velden að nafni og kom hann til Íslands haustið 1928. Páll Ísólfsson sá um hljómsveitarstjórn á tvennum tónleikum þar á milli. Velden stjórnaði nokkrum tónleikum og léku íslenskir hljóðfæraleikarar einleik eða íslenskir söngvarar sungu einsöng. Til stóð að Velden yrði aðeins einn mánuð á landinu, en hann ílentist allan veturinn og fram á vor 1929. Hljómsveitin hélt síðustu tónleika sína undir hans stjórn í marsmánuði 1929. Árið 1930 tók svo Franz Mixa við stjórn hljómsveitarinnar og sá hann um hana næstu árin.

Nú var fyrirsjáanlegt stórt verkefni fyrir tónlistarfólk í landinu - haldin skyldi Alþingishátíð í tilefni af 1000 ára afmæli alþingis Íslendinga, og hafði hátíðarnefndin gert sér í hugarlund að sönglist og hljóðfæraleikur myndi skipa stóran sess við hátíð þessa (sjá nánar síðar).

Hljómsveit Reykjavíkur undir stjórn Sigfúsar Einarssonar o.fl.

Í framhaldi af æfingu hljómsveitar sem lék undir við leiksýningu í Reykjavík árið 1925 var ákveðið að hún héldi opinbera tónleika. Tónleikarnir voru haldnir í Nýja Bíói 24. mars sama ár og var þar á ferð 16 manna hópur. Athyglisvert er í þessu sambandi, að notast er bæði við "slaghörpu" og orgel í hljómsveitinni. Var það gert til að fá "fyllri hljóm". Hljómsveitin hafði tekið peningalán haustinu áður til að kaupa þessi hljóðfæri (6). Undarlegt má teljast að ekki skyldu keypt strengja- og blásturshljóðfæri sem frekar áttu heima í slíkri hljómsveit. Má þar geta sér til að hér hafi átt í hlut kunnátta forsvarsmanna hljómsveitarinnar, en sú hljómsveit sem Sigfús stjórnaði átti alla tíð eftir að leika einfaldaðar útgáfur af stærri verkum. Á tónleikunum lék hljómsveitin Sinfóníu í h-moll eftir Schubert eins og bent var á hér að framan. Að öðru leyti voru á efnisskránni Forleikurinn að Rosamunde eftir Schubert, Suite L'Arlésienne I eftir Bizet og Fest-Polonaise op. 12 eftir Johan Svendsen.

Ekki voru allir á eitt sáttir um efnisskrá tónleikanna og mátti lesa í Morgunblaðinu eftirfarandi umfjöllun: "Partar úr Rósamundu–innganginum og h-moll symfóníu Schuberts hafa heyrzt hér á kaffihúsum alloft... Var hér um að ræða "saloon" útgáfu af þessum verkum, líkar þeim sem notaðar voru á kaffihúsunum". Hér verður að athuga, að frekar lítið var til af nótum í landinu og bæði erfitt og dýrt fyrir svona áhugafélög að kaupa þær erlendis frá. Komu þar einnig til gjaldeyrishömlur.


6 Það lán var ekki greitt fyrr en af Tónlistarskólanum upp úr 1930.


5

Hinn 11. oktober 1925 var haldinn stofnfundur Hljómsveitar Reykjavíkur og ný stjórn kosin eins og fyrr sagði. Þátttaka þessara manna, og ekki síður hljóðfæraleikaranna, byggðist á einlægum áhuga á framförum í tónlist. Þó varð eitt atriði þess valdandi að þessu nýstofnaða félagi var gert erfitt fyrir. Gert var ráð fyrir að hljóðfæraleikararnir yrðu ráðnir með skriflegum samningi gegn ákveðinni þóknun. Þarna stangaðist á tvennt. Hið jákvæða var að meðlimir fengju greitt fyrir vinnu sína. Öllu verra var að félagið gat ekki gengið í neina opinbera sjóði með fjárhagslegan stuðning og því varð þess vegna ofviða að standa undir ýmsum skuldbindingum (jafnvel marga næstu áratugi). Þannig fór nokkrum árum síðar að hljóðfæraleikararnir urðu að spila án þess að fá greitt fyrir vinnu sína. Starfsemin hélt þó áfram; ýmsu nýju var hrint í framvæmd, en á sama tíma var ýmsum vandamálum skotið á frest.

Þegar kjörin stjórn kom saman til fyrsta fundar, 12. október 1925 skipulagði hún starfsemi hljómsveitarinnar þann vetur. Mikillar bjartsýni gætti, enda ekki vanþörf á miðað við ástandið. Ekki skyldu haldnir færri en sjö tónleika um veturinn, og átti að selja aðgöngumiða að þeim öllum í einu. Einnig var seldur aðgangur að "generalprufu" á eina krónu. Hljómsveitin var ekki stór: 4 fyrstu fiðlur, 5 aðrar fiðlur, 1 selló, 1 bassi, 1 flauta, 2 klarinett, 1 fagott, 1 trompet og svo hið áðurnefnda píanó og orgel. Að loknum tónleikunum mátti lesa eftirfarandi í einu dagblaðanna um notkun þessara hljóðfæra í hljómsveitinni: "En harmonium og piano hjálpast dyggilega að því að drepa og jafna við jörðu allan sérkennilegan orkesturhljóm". Hætt er við að einhverjum hafi sárnað slík umfjöllun því þessi hljóðfæri höfðu nýlega verið keypt sérstaklega fyrir hljómsveitina fyrir lán sem tekið var með ábyrgð bæjarstjórnar Reykjavíkur.

Litlar breytingar urðu á flutningi hljómsveitarinnar og skipulagi hljómleikahalds á næstu árum. Bent skal á eina umfjöllun í Vísi 30. maí 1926 (daginn áður en hljómsveitin frá Hamborg steig á land á Íslandi) en þar reifar greinarhöfundur hugmyndir sínar um ástand mála:

  Ef til vill munu sumir þeirrar skoðunar, að komast verði af með íslenzka kennara, t.d. á fiðlu, en með því móti hefst ekki það takmark sem verður að stefna að, en það er einmitt að nálgast góðar erlendar fyrirmyndir...En til þess að það geti orðið, koma aðeins þeir kennarar til greina, sem aldir eru upp við fullkomna tónlist og sjálfir eru vel færir og reyndir orkesterspilarar. Tónlistarsaga Norðurlanda sýnir, að músíkmenningin hefir jafnan verið sótt til útlanda... og fyrst þegar hún var fengin, gat fullgild list þróast með þjóðlegum einkennum. (7)

Skoðað í ljósi sögunnar þá var það einmitt þetta sem til þurfti og skilyrði voru sköpuð fyrir. Til að hlutirnir gengju hratt og eðlilega fyrir sig var leitað í auknum mæli í viskubrunn erlendra manna til að þroska og þjálfa tónlistarlíf landsmanna. Þykir það engin frétt nú í dag


7 Vísir : 30. maí 1926.


6

að slíkt sé gert, en jafnframt má geta þess að á sumum sviðum tónlistar er Ísland orðið jafnmikill gefandi og þiggjandi á þessu sviði hin síðustu ár.

Í bókinni Hljómsveit Reykjavíkur eru áðurnefnd ummæli tekin til umfjöllunar árið 1931 í Vísi. Þar segir m.a.:

  Eftir því sem útlitið er nú, þarf óefað langan tíma til að sannfæra nægilega marga um það, að þessi ummæli séu á fullkomnum rökum byggð. Það er álitið að innlend tónlist geti skapast og þróast án þess, að sækja áhrif og kunnáttu til útlanda. Hér strandar allt á sama skerinu, þekkingarleysinu um það, hvað fullkomin, eða jafnvel aðeins sæmileg tónlist í raun og veru er, og hvað til þess þarf að geta iðkað hana, bæði af verklegri kunnáttu og menntun yfirleitt. (8)

Hér er bent á ýmsar mikilvægar staðreyndir. Í fyrsta lagi, var um að kenna þekkingar- og reynsluleysi þeirra er réðu. Í öðru lagi má benda á umsagnir blaðanna sem í flestum tilfellum voru lofsamlegar og var margoft bent á, að aðeins þyrfti nokkur hljóðfæri í viðbót og þá yrði allt harla gott. En það var ekki aðeins hljóðfæraskortur, það skorti líka góða hljóðfæraleikara.

Veturinn 1926-27 var stórt skref tekið í þá átt að bæta "orchesturhljóminn" með því að fjarlægja píanóið og harmoníið úr hljómsveitinni. Þetta haust birtist lítill vonarneisti í þá átt sem koma skyldi; 3 nemendur Þórarins Guðmundssonar tóku sæti í hljómsveitinni. Reynt var að ryðja þeim braut í flokk annarrar fiðlu með því að boða ekki fastan mann hljómsveitarinnar, sem þar hafði verið. Þetta hafði þau áhrif að farið var af alvöru að ræða um skipulag og framgang mála og hlaut valdasæti Sigfúsar Einarssonar dálítið skipbrot við þessa uppákomu. Reynt var að finna starfseminni nýjan grundvöll og afráðið var að fækka tónleikum. Þá var ákveðið að ráða gestastjórnanda til að undirbúa og stjórna nokkrum tónleikum.

Veturinn 1927-28 deildu Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson með sér starfi stjórnanda hljómsveitarinnar. Vegna minnkandi aðsóknar og skipulagsleysis í reksrinum varð að lækka framlag til hljómsveitarmeðlima og skuldasöfnun jókst. Þó svo í upphafi væri gert ráð fyrir flutningi sjö tónleika yfir veturinn varð niðurstaðan sú að Sigfús stjórnaði tvennum tónleikum um veturinn og Páll tvennum. Viðfangsefnin voru svipuð og áður. Eitt má þó benda á til framfara þennan vetur sem þykir þó ekki merkilegt nú að sé tengt Páli. Á tónleikunum 11. desember stjórnaði Páll í fyrsta sinni hljómsveitinni þar sem hún notaði réttar útgáfur af verkunum, ekki einfaldaða útskrift. Eitthvað mun Sigfús hafa fallið í "einföldunargryfjuna" eftir þetta, en Páll hélt sig við réttar útgáfur.

Eitt sinn hafði Sigfús Einarsson ritað slæma umsögn um söngtónleika Þórðar Kristleifssonar. Þórður notaði tækifærið eftir síðustu tónleika Sigfúsar með Hljómsveit


8 Kristján Sigurðsson: Hljómsveit Reykjavíkur 1925 - 1931, bls. 20.


7

Reykjavíkur, þ.e. 4. mars 1928, að svara fyrir sig og skrifaði niðrandi umfjöllun um hlutverk Sigfúsar á tónleikunum. Þó svo erfitt sé að gera sér grein fyrir því nú hvað til var í þessu hnútakasti milli manna þá má greina einskonar valdabaráttu milli þeirra. Línurnar voru smám saman að skýrast í þá átt hverjir myndu flytja tónlistarlífið framávið og hvernig þeim málum yrði háttað þegar fram liðu stundir.

Á fjórða starfsári hljómsveitarinnar, veturinn 1928-29, varð geysimikil breyting á högum hennar og í átt til hins betra. Valdahlutföll breyttust við að Sigfús sagði stjórnunarstöðu sinni lausri þar sem hann var ráðinn söngmálastjóri Alþingishátíðarinnar (sjá nánar í kaflanum um Alþingishátíðina). Í maímánuði árið 1928 hélt hljómsveitin fund og samþykkti að ráða erlendan tónlistarmann til að halda námskeið fyrir hljóðfæraleikarana. Ráðinn var til landsins tékkneskur prófessor, Jóhannes Velden að nafni.

Á aðalfundi, sem haldinn var 3. júní 1928, var kosin ný stjórn og var þá Þórarinn Guðmundsson formaður en aðrir nefndarmenn voru Þórarinn Björnsson, Björn Jónsson, Kristján Sigurðsson og Óskar Jónsson (9). Menn fóru að gera sér grein fyrir því að heimamenn miðluðu hvorki af þekkingu né reynslu svo framfarir yrðu merkjanlegar á hljómsveitinni og var ákveðið að ráða til landsisns áðurnefndan prófessor sem kom til landsins 14. október 1928. Hann tók strax til við þjálfun og kennslu. Fljótt urðu menn þess áskynja að eitthvað var að gerast í framfaraátt undir stjórn Veldens. Þó höfðu hljómsveitarmenn bundið hendur hans að vissu leyti með því að vera búnir að ákveða fimm tónleika um veturinn. Ekki gafst nægur tími til að gefa hverju verkefni þann tíma og þá alúð sem til þurfti. Það mun ekki hafa verið minna starf fyrir Velden að leggja niður ýmsa ósiði en að kenna nýja siði.

Stundum var haft á orði í gagnrýni að fyrstu spilarar væru fulláberandi. Það hefur eflaust verið átak fyrir "atvinnumennina" að átta sig á að þeir voru hluti af heild en ekki sólistar í hópi. Einnig þurfti hreinlega að kenna mönnum hvað hugtakið hljómfall var, en það var eitt þeirra atriða sem svo oft var fjallað um í gagnrýni blaðanna. Strengjamennirnir höfðu "gengið sjálfala" í hópnum fram að þessu, en nú urðu þeir að hlýða "hirðinum". Ný stjórn og nýr stjórnandi (sem ekki ritaði um sjálfan sig í dagblöðin) gerðu sér grein fyrir að hyggja þyrfti betur að grunninum áður en lengra yrði haldið. Það varð ekki átakalaust. Hinir "sjálfala" strengjaleikarar voru ekki tilbúnir að taka tilsögn í hverju sem var. Átti það aðallega við "hina lærðu" í þeim hópi. Þeim þótti heldur ekki mikið til koma sú þóknun sem þeim var ætluð þó svo hún væri miklu hærri en sú sem áhugamennirnir fengu. Enda voru það þeir síðastnefndu sem óskuðu tilsagnar og kennslu og vildu allt á sig leggja til að ná árangri í starfinu.


9 Hér má vekja athygli á því að þeir fjórir menn sem voru með Þórarni í stjórninni voru meðal "postulanna 12" sem stofnuðu Tónlistarfélagið árið 1932. Björn Jónsson hafði verið í fyrri stjórn hljómsveitarinnar, en á þessum fundi urðu þeir alls fjórir sem síðar áttu eftir að leiða tónlistarlífið í Reykjavík í marga áratugi með félögum sínum.


8

Formanninum, Þórarni Guðmundssyni fannst sér misboðið við að lúta tilsögn Veldens og vildi fá hann á brott hið fyrsta, en málin snerust og það var Þórarinn sem tók hatt sinn og staf. Ekki er neitt staðfest um framhaldið en í bókinni um hljómsveitina má lesa:

  Nokkru síðar kvisaðist að »lærðu mennirnir« væru í þann veginn að stofna hljómsveit undir stjórn Emils Thoroddsens, og mun hún hafa átt að eyðileggja Hljómsveit Reykjavíkur umsvifalaust, en er ekki varð af því voru önnur vopn valin. Eftir margskonar fundahöld og bollaleggingar var málunum svo komið, að allir atvinnumennirnir höfðu neitað hljómsveitinni um frekar samvinnu, meðan Velden væri í þjónustu hennar. Var það almælt, að fyrrverandi formaður hefði átt drjúgan þátt í þessum samtökum og reyndi að spilla fyrir starfsemi sveitarinnar á allan hátt. (10)

Þessi skoðun er ekkert ósennileg því sjaldan hefur verið friður í heimi listarinnar. Það sem er kannski merkilegast við þessa uppákomu var að hljómsveitin hélt tónleika, sem þóttu takast sæmilega án allra þessara manna sem þóttu ómissandi. Það var óyggjandi mælistika á hverju Velden hafði fengið áorkað í starfi sínu. Auðvitað urðu hinir brottgengnu öskureiðir. Emil Thoroddsen skrifað um tónleikana:

  Allir menntuðu strokleikararnir hafa flæmst úr sveitinni – eftir sitja viðvaningarnir, byrjendur og þeir menn, sem hafa árum saman stundað námið með litlum árangri. (11)

Úr þessum athugasemdum má lesa ýmislegt athyglisvert. Meðal þess er að árangur margra ára kennslu virðist hafa verið lítill og hitt, að einveldi hinna lærðu var ekki lengur fyrir hendi. Áhrifa Veldens á músíklífið er mjög vel lýst í bókinni um hljómsveitina:

  Koma Veldens var fyrsta sparkið í allt það fúsk, sem hér hafði þrifist svo einstaklega vel undanfarið, þrífst enn og mun þrífast árum saman, meðan það nýtur skjóls skilningsleysis, sjálfselsku og leti, en margir furðu lífseigir kraftar leggjast á eitt með að halda þessum skjólgörðum við líði. Það gat ekki hjá því farið, að mikið ryk þyrlaðist upp við fyrsta storminn, á því á enginn einstakur sök, það var eðlileg afleiðing þess, að rykið hafði fengið að safnast í næð. (12)

Velden átti upphaflega aðeins að vera einn mánuð á landinu, en hann ílentist allan veturinn og fram á vor 1929. Hélt hljómsveitin síðustu tónleika sína undir hans stjórn í marsmánuði 1929. Árið 1930 tók svo Franz Mixa við sem hljómsveitarstjóri og sá hann um hana næstu árin.

Ekki var hægt að mæla neinar framfarir í hljómsveitarleik við flutning Alþingishátíðarkantötu Páls Ísólfssonar á Þingvöllum sumarið 1930 þar sem hljómsveitin lék utan dyra við svo afleit veðurskilyrði að litlu munaði að verðurguðirnir kæmu í veg fyrir þennan flutning. En á


10 Kristján Sigurðsson: Hljómsveit Reykjavíkur 1925-1931, bls. 46-47.
11 Vísir: 26. mars 1928.
12 Kristján Sigurðsson: Hljómsveit Reykjavíkur 1925-1931, bls. 48.


9 (Síða 10 er auð)

tónleikunum sem haldnir voru 30. júní í Tjarnarbíói voru hljóðfæraleikararnir 43 og munaði þar um hina níu dönsku aðstoðarmenn sem komu til hjálpar í tengslum við hátíðina.

Árið 1930 er sögulegt fyrir fleira en þessa hátíð, og stofnun Ríkisútvarpsins í tónlistarsögulegum skilningi. Á aðalfundi hljómsveitarinnar sumarið 1930 var ákveðið að stofna tónlistarskóla til að efla starfsemina. Fjárhagslegur grundvöllur skólans varð að hluta til tryggður með því að selja Útvarpinu 8 tónleika á mánuði á tímabilinu 1. október til 30. apríl.

Páll Ísólfsson var skólastjóri, en í skólaráði voru Magnús Jónsson, Pétur G. Guðmundsson, Gunnlaug Claessen, Ólafur Þorgrímsson og Sigurður Þórðarson. Skólaráðsmenn sáu um að sækja um styrki fyrir skólann. Strax í upphafi var lagt það form í kennslunni sem enn ríkir í dag, þ.e. að nemendur fá 2x30 mínútur í einkakennslu á hljóðfæri á viku og einn klukkutíma í hljómfræði í hóptímum. Hefur þetta form verið notað í tónlistarskólum landsins allt til þessa með góðum árangri.

Leið nú veturinn með tónleikahaldi og voru þeir bæði "stórir" og smáir. í lok bókarinnar um Hljómsveit Reykjavíkur segir m.a.:

  Með bréfi 19. febr.[1931] gerði hljómsveitin útvarpsráðinu tilboð um 10 hljómleika mánaðarlega á tímabilinu 1. október 1931-30. apríl 1932. Svar við þessu tilboði var ókomið 8. maí [1931], og var það þá afturkallað, enda var þá mikil óvissa um það hvort nægilegt fé yrði fyrir hendi til þess, að halda starfseminni áfram með svipuðum hætti og á liðnum vetri. Það hafði komið í ljós, að útvarpshljómleikar í sambandi við skólann væru óheppilegir og stæðu honum fyrir þrifum. En skólinn þarf helst að verða sjálfstæður og losna við öll neyðarúrræði til fjárafla. Þegar hljómsveitin eflist fyrir starfsemi skólans, getur hún hafið fjölbreyttari og veigameiri starfsemi, án þess, að eyða tíma reglulegra nemenda. Þá mun það koma í ljós, að furðu mikið má gera hér úti á hala veraldar, ef rétt er á haldið. (13)

Þess má geta að höfundur þessarar bókar sem vitnað hefur verið í í þessum kafla, Kristján Sigurðsson, varð einn af postulunum tólf sem stofnuðu Tónlistarfélagið og tryggðu rekstur skólans og hljómsveitarinnar um ókomin ár


13 Kristján Sigurðsson: Hljómsveit Reykjavíkur 1925-1931, bls. 60.

Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998