Pistillinn hér að ofan er úr Fréttabréfi FT (Félag tónlistarskólakennara) frá í ágúst 2012. Hugmyndin var síðan kynnt lauslega á sex svæðisþingum tónlistarskóla í september og október 2012.
Eins kynnt er á vef Nótunnar verða svæðistónleikar vegna Nótunnar haldnir laugardaginn 16. mars 2013. Lokatónleikar fara síðan fram í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 14. apríl 2013.
Viðbrögð við þeirri hugmynd að tengja flokkinn frumsamið/frumlegt við íslenskan músík- og menningararf (nánar tiltekið við efni í Ísmús) hafa ekki orðið mikil. Því verður þó vart trúað að enginn áræði að glíma við þessa áskorun?!
Aðeins hefur þó borið á óvissu um í hverju verkefni sem þetta gæti falist og er þessi vefsíða tilraun til að skýra það. Allar fyrirspurnir, athugasemdir og hugmyndir eru vel þegnar (sjá tengiliði neðst á síðunni).
Veturinn 2009-2010 var gerð tilraun þar sem leikskóli og grunnskóli unnu með efni úr Ísmús. Einnig unnu tónfræðanemendur við Tónskóla Sigursveins út frá þessari forskrift á vorönn 2011. Aðgangur að Ísmús var þá talsvert frumstæðari en hann er nú. Hér er vefsíða sem sett var upp af þessu tilefni.
Tónlistarsafn Íslands hefur undanfarin ár átt samstarf við Tónver Tónlistarskóla Kópavogs (TTK) um að nemendur Tónversins vinni hljóð-/tónverk upp úr viðtölum við frumbyggja í Kópavogi – það fólk sem þar settist að um og fyrir miðja 20. öld. Viðtölin fylla um 40 geisladiska. Afrakstur verkefnisins er svo venjulega kynntur á tónleikum í Tónlistarsafni á afmælisdegi bæjarins, 11. maí.
Hér eru fjögur tóndæmi af handahófi úr þessu samstarfsverkefni við TTK. Allur (eða nær allur) efniviður verkanna er fengin úr ofannefndum Kópavogs-viðtölum:
Enn eitt dæmi um skapandi vinnu með Ísmús-efni tengist heimsókn nemenda úr Listaháskóla Íslands í Tónlistarsafn. Það skemmtilega við þá uppákomu er að hún gerðist alveg af sjálfu sér án fyrirfram ákveðins skipulags.
Fátt takmarkar hvað gera má annað en hugmyndaflug nemenda og kennara. Líklegt er að hljóðritanir sem aðgengilegar eru í Ísmús muni gagnast svona verkefni mest. Þó eru verkefni alls ekki tekmörkuð við vinnu út frá hljóðritum. Eina skilyrðið er að verkið byggi á (vísi til, leiði af...) efni sem aðgengilegt er í Ísmús.
Best er að nemendur (og kennari) búi sér til aðgang að Ísmús því skráður notandi getur haldið til haga í Sarpi (eins konar möppu) áhugaverðum hljóðritum (síðum, færslum) sem mögulega má nota í tengslum við verkefnið. Þannig þarf ekki að leita oft að því saman heldur er hægt að ganga beint að efninu í Sarpi sem aðgengilegur er á síðu notanda.
Upphaf Þorlákstíða – handritið er frá
upphafi 14. aldar. Tóndæmi:
Voces Thules, síðan Chaconne
fyrir orgel eftir Pál Ísólfsson
Ef smellt er á yfirskriftina Um Ísmús á forsíðu má sjá hve gríðarlega mikið efni er þegar aðgengilegt í grunninum. Efnið má svo nálgast eftir ýmsum leiðum. Nokkur dæmi:
Eins og sést undir hnappnum Einstaklingar í Efnisyfirlitinu eru nú 3820 einstaklingar skráðir í Ísmús. Þetta er fólk alls staðar að af landinu, margt fætt um og fyrir aldamótin 1900 - Elsti einstaklingurinn sem hljóðritaður er í Ísmús var fæddur 1827.
Ef til vill geymir Ísmús hljóðrit með, eða upplýsingar um, nákomna ættingja þína? Eða fólk sem foreldrar þínir eða afi og amma þekkja? Undir hnappnum Um Ísmús segir að leyfilegt sé að miðla efni grunnsins að vild, nota í kennslu, fyrirlestra og námsefni. Alla sölu þarf hins vegar að bera undir vörsluaðila efnisins. Svo má benda á að með einum smelli er hægt að miðla efni úr Ísmús á Facebook þar sem stór meirihluti landsmanna dvelur nú um stundir.
Sem sagt: Byrjaðu bara að gramsa og grúska í Ísmús! Vistaðu áhugavarðar leitarniðurstöður á þínu svæði (í Sarpi) og þá fer allt að að gerast ;O)
01.03.2013 – Jón Hrólfur
Síðan var fyrst sett upp í nóvember 2012
Nánari upplýsingar / ábendingar / hugmyndir: