Pistillinn

10. sept. 2002
Troðið á frækornum*

Bjarki Sveinbjörnsson svarar umsögn Jónasar Sen um UNM-tónleika í Salnum

Um þessar mundir stendur yfir tónlistarhátíð ungra norrænna tónlistarmanna - UNM - á Íslandi. Eru á þessum tónleikum flutt verk ungra norræna tónskálda, af ungum norrænum hljóðfæraleikurum. Auk þess má hlýða á fyrirlestra um tónlist. UNM var stofnaði árið 1946 og eiga öll Norðurlöndin aðild að þessari stofnun. Hátíðarnar eru haldnar til skiptis í aðildarlöndunum, á síðasta ári í Árósum í Danmörku og á þessu ári á Íslandi. Helsta markmið UNM-hátíðanna er að skapa samskipti og koma á listrænum tengslum milli ungra norræna tónskálda og tónlistarmanna. Því hefur verið haldið fram að flest norræn tónskáld hafi í gegnum öll þessi ár á einn eða annan hátt, tekið þátt í þessari hátíð, annaðhvort sem tónskáld, skipuleggjendur eða flytjendur.

Hér er því um að ræða stefnumót norrænna tónlistarmanna þar sem þeir fá tækifæri sem skapandi og flytjandi listamenn að koma fram sem slíkir og miðla list sinni –ß listrænum frækornum samtímans á hverjum tíma.

Við sem höfum skoðað þróun íslenskrar tónlistar að einhverju ráði vitum að sú listræna kúvending sem varð í kringum 1960 þegar ungir íslenskir tónlistarmenn, skapandi og flytjandi, stofnuðu Musica Nova og hófu að flytja nýja tónlist kallaði á stundum á harkaleg viðbrögð tónlistargagnrýnenda. Það var mjög eðlilegt á þeim tíma þar sem hér á landi hafið aldrei heyrst slík tónlist. Í dag er hún í mörgum tilfellum eyrnakonfekt. Sú þróun sem síðan hefur orðið hefur hækkað „sársaukamörkin“ til muna og í dag kippir enginn sér upp við það þó á tónleikum séu flutt verk þar sem maður getur ekki „raulað með“ í laglínunni, og að í tónverkunum sé jafnvel engin laglína – tónskáldið ætlaði sér aldrei að fella inn sönghæfa laglínu í verkið.

Föstudaginn 6. september birti DV umfjöllun eftir Jónas Sen um eina af þessum UNM tónleikum, sem fram fóru í Salnum í Kópavogi á miðvikudeginum áður. Í þessari umfjöllun eru ekki aðeins fræ norrænnar tónsköpunar niðurlægð svo alvarlega að ekki verður orða bundist heldur og áheyrendur. Hægt væri að hugsa sér að slík skrif mætti finna í skólablaði, skrifuð af nemanda, en ekki í dagblaði þar sem ráðinn er vel menntaður tónlistarmaður til að fjalla hlutlaust og af virðingu um tónlist og flutning hennar. Töffaraskap sem birtist í skrifunum er ekki hægt að nota til neins, hvorki fyrir höfunda, flytjendur, tónleikagesti né fyrir þá er lásu um tónleikana sér til fróðleiks.

Tökum tvö dæmi: „Í sjálfu sér var verkið ekki illa samið, form þess var skýrt og stígandin rökrétt, en það var afar ófrumlegt og gamaldags og má því segja að útkoman hafi ekki verið meira spennandi en illa lyktandi sokkar“. Með því að verkið sé „gamaldags“ höfðar höfundur til skrifa sinna á undan að verkið hafi „minnt mjög á það sem var í tísku í kringum 1970“. Síðar skrifar höfundur: „Verður því miður að segjast að þrátt fyrir góðan og nákvæman flutning hins íslenska UNM-bands hljómuðu herlegheitin eins og þau kæmu úr afturendanum á manni sem er nýbúinn að fara í þarmaspeglun“. Í umfjöllun um sum önnur verk er vitnað til þessarar líkingar.

Er það óeðlilegt að maður spyrji sig til hvers greinarhöfundur notar svo niðurlægjandi líkingar um þennan flutning? Það var einmitt verkið sem síðara dæmið fjallar um, sem var síðasta verk fyrir hlé, sem við nokkrir hittumst í anddyri Salarins og ræddum um, vegna sérstöðu þess og þeim hljóð-/og stílrænu áhrifum sem tónskáldið náði fram, það sem greinarhöfundur kallar í skrifum sínum „hryglukennt sírenuvæl og hrærigrautur af óskyldum hendingum sem virtust eiga í mikilli baráttu innbyrðis“. – Til hvers í ósköpunum þessi orð?

Nú veit ég ekki hvernig Jónas Sen er til heilsunnar né hve oft hann skiptir um sokka, og mig varða heldur ekkert um það. En hann hlýtur að tala af reynslu í þessum líkingum sínum þegar hann notar þetta líkingamál sem vandaðir tónlistarmenn nota ekki um list kollega sína. DV hefur aðgang að vel menntuðu tónlistarfólki sem getur skrifað af virðingu um tónlistarflutning á Íslandi. Því miður virðist Jónas Sen ekki vera meðal þeirra.

Niðurlæging hinna ungu tónlistarmanna er enn meiri ef það er rétt að grein þessi, og ekki síst þær setningar sem dregnar hafa verið fram í þessum athugasemdum, hafi komist til umræðu í ritstjórn blaðsins fyrir birtingu greinarinnar og að hún hafi samþykkt að birta skrifin. Er hún þar um leið orðin þátttakandi í þessum ljóta leik. Er virkilega enn til fólk sem með einbeittum vilja finnur skítalykt af rósum, hversu vel sem þær lykta – og jafnvel af frækornum þeirra?

Við skulum hafa í huga að á þessari hátíð er samankomið ungt fólk sem sumt er að fá verk sín flutt á umfangsmikilli tónlistarhátíð, eða taka þátt í flutningi á slíkri hátíð, í fyrsta sinn. Sigldir tónlistarmenn á Norðurlöndum líta á hátíðina með virðingu og umgangast hana á þeim forsendum sem hún er haldin. Verð ég að vona að ritstjórn DV sýni þá tillitsemi að hafna skrifum, sem þeim sem hér hafa verið til umræðu, í framtíðinni. Þau eru alla vega ekki til þess fallin að skapa uppbyggilega umræðu um tónlist séu þau á þessum nótum.

Bjarki Sveinbjörnsson tónlistarfræðingur


Umfjöllun Jónasar Sen birtist í DV föstudaginn 6. september 2002


* Greinin birtist í DV 10. september 2002.


Á Vefnum frá sept. 2002©  2002  Músa