Pistillinn

8. des. 2002
Tónlistarfræðslan eftir einsetningu grunnskóla og lengingu skóladagsins Þórir Þórisson og Sigurgrímur Skúlason

Thorir Thorisson
<thoris@ismennt.is>

Grein þessi er útdráttur úr skýrslu til Fræðsluráðs Reykjavíkur „Hljóðfæranám sem hluti af samfelldum skóladegi–Tilraunaverkefni í níu grunnskólum í Reykjavík skólaárið 2001–2002.“ Fræðsluráð styrkti verkefnið.

Blómlegt starf tónlistarskólanna undanfarna áratugi hefur meðal annars þrifist í skjóli tvísetinna grunnskóla og stutts skóladags. Nú er svo komið, með einsetningu grunnskóla og lengingu skóladagsins, að svigrúm til hljóðfærakennslu minnkar verulega og enn erfiðara verður fyrir tónlistarskóla að anna eftirspurn eftir hljóðfæranámi. Brýnt er að fundnar verði lausnir á þessum vanda, en hvað er til ráða?

Íslensk tónlistarfræðsla hefur þróast eftir mið-evrópskri fyrirmynd, þar sem tónlistarskólar starfa sem sjálfstæðar stofnanir án teljandi tengsla við hið almenna skólakerfi. Þetta er ólíkt hinni bandarísku hefð þar sem tónlistarfræðsla, þ.á.m. hljóðfæranám, fer fram í almenningsskólum til loka framhaldsskóla. Umræða um nánari tengsl hljóðfærakennslu við grunnskóla hérlendis hefur skotið upp kollinum í skýrslum og nefndarálitum með nokkuð reglubundnum hætti undanfarna áratugi (t.d. í Endurskoðun námsefnis og kennslu í tónmennt í barna- og gagnfræðaskólum (Mrn., ágúst 1972) og Álitsgerð um skipan tónlistarfræðslu, Mrn., október 1983). Við einsetningu grunnskólanna og lengingu skóladagsins hefur þessi umræða fengið byr undir báða vængi af illri nauðsyn.

Fyrirkomulag tónlistarfræðslu í borginni er að nokkru leyti barn liðins tíma. Blómlegt starf tónlistarskólanna undanfarna áratugi hefur m.a. þrifist í skjóli tvísetinna grunnskóla og stutts skóladags. Hægt var að nýta morgnana til hljóðfærakennslu nemenda í síðdegisbekkjum og öfugt. Eftir einsetningu skóla, sem nú er orðin að veruleika, þrengir mjög að þessu kerfi. Og enn á skóladagurinn eftir að lengjast. Þegar matarhlé hefur verið innleitt í öllum skólum, má búast við að fyrstu nemendurnir geti verið mættir í hljóðfæratíma klukkan 3 síðdegis.

Víða erlendis tíðkast að tónlistarkennsla fari fram samhliða almennri kennslu og er nemendum þá veitt leyfi úr bekkjarkennslu í svo sem 30 mínútur á meðan þeir sækja hljóðfæratíma. Til eru vandaðar erlendar rannsóknir sem sýnt hafa fram á að almennt komi þetta ekki niður á árangri nemenda í skólanámi (t.d. Groff 1963, Kvet 1985, Robitaille & O’Neal 1981). Óvíst er þó að hve miklu leyti megi alhæfa frá erlendum rannsóknum, sem byggðar eru á ólíkum þjóðareinkennum og samfélagsháttum, yfir á íslenskan veruleika.

Á síðustu árum hefur þetta fyrirkomulag verið tekið upp í nokkrum bæjum og sveitarfélögum hér á landi. Enn annars staðar hefur verið reynt að koma því á, en það strandað á andstöðu almennra bekkjarkennara, sem trúa því að fyrirkomulagið skaði námsárangur þeirra nemenda sem í hlut eiga.

Skólaárið 2001-2002 fór fram tilraun í níu grunnskólum Reykjavíkur þar sem könnuð voru áhrif fjarveru nemenda úr bekkjartímum vegna hljóðfæranáms á námsárangur þeirra í kjarnagreinunum íslensku og stærðfræði. Að taka nemendur úr tímum í grunnskólanum til tónlistarnáms er ein þeirra leiða sem unnt er að fara til að mæta breyttum aðstæðum.

Eitt hundrað sextíu og átta nemendur í 3.- 6. bekk hófu þátttöku í tilrauninni, 128 nemendur luku henni, 64 í tilraunahópi og 64 í samanburðarhópi. Grunnskólakennarar voru 41 og hljóðfærakennarar 12. Stofnanir sem tóku þátt voru Skólahljómsveit Austurbæjar, Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts, Skólahljómsveit Grafarvogs, Skólahljómsveit Vesturbæjar og Tónskóli grunnskólanna í Grafarvogi. Níu grunnskólar sem skólahljómsveitirnar tengjast samþykktu þátttöku og fór hljóðfærakennslan þar fram: Breiðholtsskóli, Engjaskóli, Foldaskóli, Grandaskóli, Hamraskóli, Húsaskóli, Laugarnesskóli, Melaskóli og Rimaskóli.

Tilhögunin skaðar ekki námsárangur
Til þess að kanna áhrif fjarveru vegna hljóðfæranámsins á nám barnanna voru lögð próf í íslensku og stærðfræði fyrir nemendurna fyrir og eftir tilraunina. Nemendum var skipt í tilrauna- og samanburðarhóp. Í tilraunahópi voru þeir nemendur sem viku úr kennslustund til hljóðfæranáms. Samanburðarhópurinn var myndaður með pörun. Bekkjarkennarar voru beðnir að tilnefna sambærilegan nemanda í íslensku og stærðfræði af sama kyni og sá sem þeir höfðu samþykkt að viki úr kennslustund til hljóðfæranáms. Tilrauna- og samanburðarnemandinn voru því alltaf úr sömu bekkjardeild.

Nemendur fóru út úr bekkjartíma í 30 mínútur tvisvar sinnum á viku til að sækja hljóðfæratíma innan skólans. Tilraunin var keyrð eftir svokallaðri hlaupandi stundaskrá hljóðfæratímanna til að fjarvist lenti ekki oft á sömu skyldunámsgrein, t.d. íslensku. Þannig var sá nemandi sem var tekinn síðastur út úr kennslustund í fyrstu kennsluviku tekinn fyrstur í annarri viku og svona koll af kolli. Þetta er sú tilhögun sem víðast hvar er beitt þar sem hljóðfæranám fer fram á skólatíma.

Í ljós kom að sú tilhögun að börn fái að fara úr bekkjartíma í hljóðfæratíma í 30 mínútur tvisvar sinnum á viku skaðar ekki námsárangur þeirra í kjarnagreinunum íslensku og stærðfræði. Sú niðurstaða kemur kannski ekki verulega á óvart þegar um er að ræða tvisvar sinnum þrjátíu mínútna fjarveru á viku, en notuð voru tengslalíkön í tölfræðigreiningu á námsárangrinum. Tengslalíkön (structural equation modelling) eru svipuð þáttagreiningu að því leyti að samskonar jöfnur eru notaðar til að skýra tengsl breyta við duldar breytur og að duldu breytunum svipar að nokkru til þátta í þáttagreiningu. Tengslalíkönin hafa það hins vegar fram yfir þáttagreiningu að geta metið tengsl fylgibreyta og frumbreyta samtímis og að metin eru tengsl út frá fræðilegu líkani sem lagt er til grundvallar.

Afgerandi meirihluti sáttur
Tekin voru viðtöl við kennara, foreldra og nemendur um fyrirkomulagið, kosti þess og ókosti og lausnir á þeim. Í viðtölunum var stuðst við hálfstaðlaða spurningalista, sérlista fyrir hvern hóp. Á listunum voru bæði sameiginlegar spurningar fyrir alla hópana og spurningar sem vörðuðu hvern hóp sérstaklega.

Hafa verður í huga að foreldrahópurinn sem tók þátt í tilrauninni samanstendur einungis af foreldrum sem nú þegar styðja börn sín til tónlistarnáms. Vænta má að þessi hópur sé mjög jákvæður í garð allra aðgerða sem lúta að tónlistarnámi barna þeirra, hafa jákvæð áhrif á það og auðvelda það.

Viðhorf foreldranna og bekkjarkennaranna til fyrir komulagsins voru könnuð með lokaðri spurningu um hvort þeir væru sáttir við að það yrði áfram við lýði eða ekki. Að auki voru viðhorf foreldra og bekkjarkennara mæld á sjö þrepa kvarða sem mældi sátt við fyrirkomulagið (1 = mjög ósáttur, 7 = mjög sáttur). Viðhorf barnanna var mælt með lokuðu spurningunni og viðhorf hljóðfærakennaranna á sjö þrepa kvarðanum.

Afgerandi meirihluti allra hópanna lýsti yfir sátt við fyrirkomulagið eins og það var framkvæmt í tilrauninni. Þannig voru 82% bekkjarkennara, 95% foreldra og 100% hljóðfærakennara ofan við hlutleysispunkt á sjö þrepakvarðanum, en hann er fjórir. Eins og vænta mátti var ánægja hljóðfærakennara mest, foreldra næstmest og bekkjarkennara minnst.

Betur upplagðir nemendur
Foreldrar voru einnig spurðir hvort þeir óskuðu eftir því að barn þeirra fengi áfram að fara úr bekkjartíma í hljóðfæratíma næsta vetur og börnin sjálf voru spurð sömu spurningar. 88% foreldra og 75% barnanna óskuðu eftir framhaldi.

Í opnum viðtölum nefndu menn ýmsa kosti og ókosti fyrirkomulagsins. Allir hóparnir voru á einu máli um að meginkosturinn væri sá að farið væri í hljóðfæratíma í skólanum á skólatíma en ekki sérferð eftir skóla. Margir nefndu hagræði og öryggi (börnin þurfa ekki að fara yfir hættulegar umferðargötur) sem kost og börnunum sjálfum voru þægindin efst í huga auk þess sem þau kunnu að meta þann aukalega tíma til leikja og heimanáms sem gæfist. Margir bekkjarkennaranna nefndu þá tilbreytingu fyrir börnin sem fyrirkomulagið fæli í sér sem kost og tónlistarkennarar nefndu „mannlegri vinnutíma“, bæði fyrir þá sjálfa og nemendurna. Tónlistarkennararnir voru einnig ánægðir með að börnin voru ekki eins þreytt og mun betur upplögð en síðdegis. Nokkrir foreldrar og bekkjarkennarar nefndu einnig þetta atriði. Ein móðir lýsti því að hún hefði verið tortryggin í upphafi þar sem dóttir hennar hefði verið orðin á eftir í stærðfræði: „En í ljós kom að þetta virtist hafa jákvæð áhrif, hún fór sjálf að vinna meira í stærðfræðinni sem varð til þess að hún fékk meiri áhuga og hefur stórbætt sig í henni í vetur.“ Þrír grunnskólakennarar nefndu einnig að áberandi væri að börn í tónlistarnámi lærðu að skipuleggja sig og taka ábyrgð á eigin námi.

Leiðinlegt að vera tekinn úr spennandi tímum
Fáir ókostir voru nefndir til sögunnar en sá helstur að börnin voru ekki sátt við að vera tekin úr tímum sem þeim fannst skemmtilegir. 24% barnanna kvörtuðu undan þessu en röskur helmingur þeirra óskaði þó eftir að fá áfram að fara út úr bekkjartíma til hljóðfæranáms næsta vetur og gátu um kosti umfram gallana. Þrjú börn nefndu að þau yrðu á eftir í bókunum.
Hljóðfæra- og bekkjarkennarar eygðu nokkra möguleika til úrbóta vegna þessarar umkvörtunar :

  • Að hljóðfærakennarinn raði sinni stundaskrá með það í huga að sneiða hjá tímum sem barnið má síst missa af.
  • Að bekkjarkennarinn fresti innlögn þar til nemandi skili sér til baka úr hljóðfæratímum.
  • Að hljóðfærakennarinn festi hljóðfæratíma nemanda þar sem hann er sterkastur fyrir.
  • Að forðast sé að skerða frímínútur með því að gera hlé á hljóðfærakennslu samtímis.
  • Að sneitt sé hjá leikfimitímum nemenda við skipulagningu hljóðfæratímanna. Einnig koma fram að stundum væri hægt að senda nemendur í sérgreinar (t.d. tölvu) á öðrum tíma.

Beittu ýmsum ráðum
Annar ókostur sem nefndur var til sögunnar var sá að hluti barnanna gleymdi hljóðfæratímum. Fjórðungur nemenda nefndi að þeim þætti erfitt að muna eftir tímunum af því að tímasetningar breyttust vikulega. Fjarvistir vegna gleymsku eru einnig vandamál í síðdegiskennslu þar sem tímar eru í föstum skorðum en hlaupandi stundaskrá í árdegiskerfinu virðist þó eiga á þessu nokkra sök á þessu. Til úrbóta beittu hljóðfærakennarar ýmsum ráðum þennan vetur. Flestir sendu nemendur heim með stundaskrá hljóðfæratímanna fyrir 4-6 vikur í senn og létu afrit hanga í bekkjarstofunni. Það dugði sumum en ekki öllum. Viðhorf foreldra og bekkjarkennara voru þau að í svona kerfi væri raunhæfasti kosturinn sá að hljóðfærakennarinn bæri meginábyrgð á því að börnin mættu í tíma. Algengustu röksemdirnar voru þær að bekkjarkennarinn hefði of margt á sinni könnu og að foreldrar væru ekki á vettvangi til að minna barnið á.

Þrjú áhersluatriði
Þrjú meginstef komu ítrekað fram í viðtölum við jafnt bekkjar- og hljóðfærakennara sem foreldra og nemendur:

  1. Að fyrirkomulagið henti mörgum börnum en ekki öllum.
  2. Að fjöldi þeirra barna sem tekin séu út í hverjum bekk skipti kennara máli.
  3. Hvort hlaupandi tafla eða föst stundaskrá hljóðfæratíma sé heppilegri lausn.

Í viðtölum við bekkjarkennara kom fram að huga þurfi að ýmis konar einstaklingsmun áður en ákvörðun er tekin um hvort barn skuli tekið út úr bekkjartímum til hljóðfæranáms eða ekki. Þriðjungur þeirra taldi það skipta meginmáli hvers konar börn ættu í hlut - fyrirkomulagið hentaði mörgum börnum en ekki öllum og þá sérstaklega ekki börnum með námsörðugleika og kærulausum börnum. Öndverð skoðun, að öll börn þoli að víkja úr kennslustund til hljóðfæranáms, kom þó fram hjá nokkrum hópi bekkjarkennara og meðal annars nefnt að erfiðir nemendur kæmu oft rólegri til baka úr hljóðfæratímunum.

Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að huga að félagslegri stöðu nemandans, en sú athygli sem hann dregur að sér með því að fara út úr tíma getur verið óþægileg fyrir óörugg börn og tveir nemenda kvörtuðu undan að hafa orðið fyrir aðkasti vegna þessa.

Einnig kjósa sumir nemendur af ýmsum orsökum að halda tónlistar- og almenna náminu aðskildu og fara í hljóðfæratíma síðdegis, meðal annars vegna þess að þau eru regluföst og orðin vön hinu fyrirkomulaginu eða vegna þess að þau búa nálægt skólanum og finnst ekkert mál að fara sérferð síðdegis.

Við mælum með því að fyrirkomulagið verði eingöngu notað fyrir þá nemendur sem eru ánægðir með að vera teknir út úr tíma. Þeir sem eru það ekki mæti síðdegis. Fyrirkomulagið hentar best áhugasömum nemendum bæði í almennu námi og á tónlistarsviðinu, þeim sem hlakka til tónlistartímanna og líta á þá sem kærkomna tilbreytingu. Að sama skapi verður að huga að því hvort það reyndist jákvætt fyrir nemendur sem standa miðlungi vel í námi að gera kennsludaginn fjölbreyttari með því að fara úr tíma í tónlist tvisvar í viku. Fyrirkomulagið gæti því einnig verið leið til að takast á við nemendur sem finna fyrir leiða eða áhugaleysi í námi.

Varðandi annað atriðið, um fjölda barna sem tekin eru út úr bekk, kemur fram hjá fjórðungi bekkjarkennara að gæta þurfi hófs. Flestir nefndu tvö til þrjú börn sem hámark. Ein bekkjardeild (í Foldaskóla í Grafarvogi) skar sig úr með 8 nemendur. Kennari þess bekkjar var reyndar einn sá jákvæðasti gagnvart fyrirkomulaginu, sem sýnir að reglan er ekki án undantekninga.

Það fyrirkomulag að taka börn út úr bekkjartímum til hljóðfæranáms á skólatíma á allt sitt undir góðri sátt við bekkjarkennara. Ljóst er að ofansögðu að hljóðfærakennarar og skólayfirvöld, sem binda vonir við þetta fyrirkomulag, ættu að forðast að ofnota það. Eftirfarandi umsögn eins grunnskólakennaranna er áminning um að ofnotkun myndi ekki verða fyrirkomulaginu til framdráttar:

Þetta gekk mjög vel með X á meðan hún var ein tekin út, en hljóðfærakennararnir genguá lagið og voru farnir að taka 4 nemendur út úr tíma hjá mér á misjöfnum tímum. Það var orðið mjög erfitt að skipuleggjakennsluna út frá því þannig að enginn missti af neinu.

Þriðja atriðið er spurningin um hlaupandi eða fasta stundaskrá. Bekkjakennarar skiptust í tvo álíka stóra hópa hvað þetta snerti og taldi annar hópurinn að hlaupandi stundaskrá væri betri en hinn sagðist frekar kjósa að hljóðfæratímar nemenda væru í föstum skorðum.

Við teljum að huga þurfi sérstaklega að eftirfarandi faglegum atriðum þegar valið er á milli fastrar og hlaupandi stundaskrár:

  • Fjölda nemenda í stundaskrá hljóðfærakennarans.
  • Styrkleikum þeirra og veikleikum í hinum ýmsu greinum.
  • Aldri þeirra og þroska.
  • Námsáhuga nemandans bæði í almennu námi og tónlist.
  • Tímasetningu námsgreina sem nemandinn vill ógjarnan missa af.
  • Óskum nemandans um að vera í árdegis- eða síðdegistímum.

Nauðsynlegt er að skipuleggjendur tónlistarkennslu í grunnskólum sýni sveigjanleika og fari að óskum skólastjóra, kennara og nemenda eftir því sem frekast er unnt. Nauðsynlegt er jafnframt að mati Þóris og Sigurgríms að varðveita þann velvilja í garð hljóðfærakennslu í grunnskólum sem komið hefur í ljós í þessari tilraun.

Ekki allsherjarlausn
Meginniðurstöður tilraunarinnar eru eftirfarandi:

  • Sú tilhögun að börn fái að fara úr bekkjartíma í hljóðfæratíma í 30 mínútur tvisvar sinnum á viku skaðar ekki námsárangur þeirra í kjarnagreinunum íslensku og stærðfræði.
  • Fyrirkomulagið nýtur stuðnings mikils meirihluta foreldra, barna, hljóðfæra- og bekkjarkennara eins og það var framkvæmt í þessari tilraun.
  • Fyrirkomulagið getur gengið í góðri sátt þessara aðila ef rétt er að málum staðið.
  • Ekki ætti að líta á fyrirkomulagið sem allsherjarlausn á vanda tónlistarfræðslunnar heldur sem eitt úrræði til að létta á meginþunga tónlistarfræðslunnar síðdegis.

Á grundvelli niðurstaðna og þeirrar reynslu sem fengist hefur í þessu verkefni, mælum við með:

  1. Að haldið verði áfram að taka nemendur út úr bekkjartímum til hljóðfæranáms og litið á það sem eina af þremur leiðum til að lengja starfsdag tónlistarfræðslunnar og gefa fleirum kost á slíku námi. Í annan stað standi nemendum til boða að stunda hljóðfæranám síðdegis eins og verið hefur. Í þriðja lagi verði könnuð sú leið að skipta stundaskránni í námsblokkir og nýta lausar blokkir til hljóðfæranáms (sbr. „Vinnudagur grunnskólanemenda eftir einsetningu og lengdan skóladag“, bls. 6).
  2. Að hugað verði að þáttum eins og stöðu nemenda í almennu námi, metnaði, áhrifum fjölbreyttari skóladags á nám þeirra, félagslegri stöðu, ásamt þörf og getu nemendanna til að takast á við ábyrgð á eigin námi. Nemandinn, bekkjarkennari og foreldri verða að meta þessa þætti saman og vega kosti og ókosti fyrir hvern og einn.
  3. Reykjavíkurborg byggi upp aðstöðu til hljóðfærakennslu í 1–2 grunnskólum í Reykjavík fyrst í stað, þar sem bæði verði nýttar lausar blokkir í stundaskrá til hljóðfæranáms, og samhliða verði haldið áfram að þróa það kerfi að taka nemendur út úr bekkjartímum.
  4. Að hámarki verði teknir 2–3 nemendur til hljóðfæranáms út úr hverjum bekk.
  5. Að eingöngu verði teknir út úr tíma þeir nemendur sem eru ánægðir með það. Aðrir mæti í hljóðfæratíma síðdegis.
  6. Að fara út úr bekkjartíma til hljóðfæranáms hentar best áhugasömum nemendum bæði í almennu námi og á tónlistarsviðinu. Þau sem hlakka til tónlistartímanna og líta á þá sem kærkomna tilbreytingu.
  7. Hljóðfæra- og bekkjarkennarar hafi náið samstarf um að þróa þá stundaskrá hljóðfæratímanna, sem best hentar á hverjum stað á hverjum tíma: Hlaupandi stundaskrá, fasta eða samblandi af hvoru tveggja.
  8. Sé hlaupandi stundaskrá notuð, ætti hún bæði að hanga uppi í bekkjarstofunni og á heimili nemandans.
  9. Æskilegt væri að láta fyrstu tíma skóladagsins ótruflaða þar sem flestir bekkjarkennarar nota þá mest til innlagnar og útskýringa.
  10. Hljóðfærakennarar sæki sjálfir börnin eða hringi eftir þeim í hljóðfæratímana og noti þá boðleið sem bekkjarkennarinn kýs frekar.
  11. Hljóðfærakennarar hafi tíð samskipti við bekkjarkennara og foreldra um framkvæmd þess fyrirkomulags að leyfa börnum að fara úr tímum til hljóðfæranáms.
  12. Að fyrirkomulagið verði notað til að veita meiri tónlist inn í grunnskólana, svo sem með tónlistaratriðum á bekkjarskemmtunum o.fl.

Tilvitnanir:
„Gott að þurfa ekki að rogast með hljóðfærið í annan skóla tvisvar í viku.“ (Nemandi)

„Ég gerði það samkomulag við hljóðfærakennarann að hann bankaði ekki heldur opnaði bara hljóðlega hurðina og gæfi nemandanum merki um að koma. Á þennan hátt truflaði þetta mig á engan hátt, ég hélt bara áfram að kenna og missti ekki athygli bekkjarins. Það truflar miklu meira þegar yfirkennarinn er að hringja út af alls kyns erindum með beiðnir um að gera hitt og þetta.“ (Bekkjarkennari)

„X hætti í tónlistarskóla í fyrra vegna þess að hún þurfti alltaf að fara dauðþreytt eftir skóla. Hún er miklu ánægðari í þessu kerfi.“ (Foreldri)

„Ávinningur af fyrirkomulaginu þarf að vera á báða vegu. Bekkjarkennarinn geti til dæmis nýtt sér tónlistaratriði á bekkjarskemmtunum.“ (Hljóðfærakennari)

Heimildir

  • „Álitsgerð um skipan tónlistarfræðslu. 1983.“ Reykjavík, Menntamálaráðuneytið.
  • Bollen, K. A. (1989). „Structural equations with latent variables.“ NY:Wiley.
  • „Endurskoðun námsefnis og kennslu í tónmennt í barna- og gagnfræðaskólum.“ 1972.Reykjavík, Menntamálaráðuneytið.
  • Gillespie, R. (1992). The elementary pull-out crisis: Using research effectively. „American String Teacher Journal“, Spring 1992.
  • Groff, F.H. (1963). „Effect on academic achievement of excusing elementary school pupils from classes to study instrumental music.“ Óútgefin doktorsritgerð við University of Connecticut, Storrs, Bandar.
  • Haraldur Árni Haraldsson (2001). „Samstarf Tónlistarskólans og grunnskólanna í Reykjanesbæ.“ Erindi flutt á fimmta málþingi Rannsóknastofnunar KHÍ,október 2001.
  • Kvet, E. J. (1985). Excusing elementary school students from regular classroom activities for the study of instrumental music: The effect on sixth-grade reading, language, and mathematics achievement. „Journal of Research in Music Education“, 32, 45-54.
  • McDonald, R. P. (1985). „Factor analysis and related methods.“ Hillsdale, N.J. : Lawrence Erlbaum Associates.
  • Muthen, L. K. og Muthen, B. O. (2001). „Mplus user’s guide“ (2. útg.). Los Angeles, CA: Muthen & Muthen.
  • Muthen, L. K. og Muthen, B. O. (2002). „Mplus“ (2.02) [tölvuforrit]. Los Angeles, CA:Muthen & Muthen.
  • „Stafsáætlun fræðslumála Reykjavíkur 2002.“ Reykjavík, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, október 2001 (pdf skjal).
  • „Vinnudagur grunnskólanemenda eftir einsetningu og lengdan skóladag.“ 1997.Reykjavík, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.
  • Wallick, M. D. (1998). A comparison study of the Ohio proficiency test results between
    fourth-grade string pullout students and those of matched ability. „Journal of Research in Music Education“, 46, 239-247.

Á Vefnum frá des. 2002©  2002  Músa