Lögin við Þó þú langförull legðir
Sveinn Hjörtur Hjartarson <sveinn@liu.is>
Íslendingadagurinn er haldinn hátíðlegur báðum megin landamæranna í Gimli í Manitoba,
í Kanada og Mountain í Norður-Dakota í Bandaríkjunum í byrjun ágúst ár hvert.
Íslendingadagurinn mun vera næstelsti þjóðræknidagurinn í Norður-Ameríku sem
haldinn hefur verið samfellt. Aðeins Írar hafa haldið upp á slíkan hátíðardag
lengur en Íslendingar og munar þó aðeins nokkrum árum.
Ár hvert er tilnefndur ræðumaður á Íslendingadeginum í Kanada. Árið 1904 hélt
Stephan G. Stephansson stutta ræðu til þess að ná athygli hátíðargesta. Í bókinni
Andvökuskáld segir svo frá þessum atburði:
„Á Íslendingadaginn 1904 hélt Stephan stutta setningarræðu, eiginlega til að
þagga niður hátíðaskvaldrið og kynna þá sem fyrir minnum skyldu mæla. Þeir muni
rifja upp æskuminningar og breiða út framtíðarvonir á kjarnyrtri íslensku.“ “...takmarkalaust
breiðablik af þúsund ára þjóðminningum,“ segir hann. Þó ræðan sé stutt er hún
engu að síður merkileg þar sem skáldið lauk henni á tveimur kvæðum. Hið fyrra
varð á síðari tímum langþekktasta kvæði hans, Þó þú langförull legðir.
Lag Sigvalda Kaldalóns er án nokkurs efa „lagið“ við þetta ljóð, þ.e. að segja
miðað við hvaða lag er oftast flutt við ljóðið. Nægir í því sambandi að benda
á að af átján upptökum ýmissa aðila á geisladiskum sem komið hafa út á nokkurra
ára tímabili er lag Sigvalda Kaldalóns leikið í sextán upptökum. Aðrar upptökur eru með lögum tónskáldanna Björgvins Guðmundssonar og Helga Sigurðar
Helgasonar.
Í leit höfundar að sönglögum við ljóðið tafði það fyrir í upplýsingaöfluninni
að þau eru ýmist nefnd Þó þú langförull eða Þótt þú langförull, Langförull, Úr
Íslendingadagsræðu 1904 eða Íslendingadagskveðja. Að hluta má skýra þetta með
því að einhverjir hafa tekið að sér að leiðrétta málvilluna í upphafi ljóðsins,
þar segir „þó“ en málfarslega mun vera rétt að segja þótt eða þó að.
Ljóðið Stephans, Þó þú langförull, er ort í hinum afskekktu byggðum Kanada, á
býli í Alberta-fylki þar sem ljóðskáldið bjó. Lagið er samið á ekki síður afskekktum
stað í Ármúla við Ísafjarðardjúp, þar sem Sigvaldi Kaldalóns starfaði sem læknir.
Lífið í landinu var að stærstum hluta í sveitum lands, þéttbýli lítið og vanmáttugt.
Búskaparhættir samfélagsins náðu ekki að skapa þau lífsskilyrði sem vaxandi hluti
þjóðarinnar vænti. Fréttir bárust af landi í vestri sem lokkaði allt að 20% þjóðarinnar
á 45 ára tímabili til Vesturheims. Fargjald nokkurs hóps þeirra sem fóru var
greitt af viðkomandi sveitarsjóði til þess að létta á framfærslu þeirra – losa
sig við vandamálið. Í þessu umróti var Þó þú langförull ort. Ljóðið fjallar um
hlutskipti þessa fólks og hátíðlegur og tregafullur hljómur tónskáldsins gefur
okkur innsýn í tilfinningalíf þeirra sem eftir voru.
Í ævisögu Sigvalda Kaldalóns segir að hann hafi samið lagið 9 árum eftir að ljóðið
var fyrst flutt árið 1904, eða árið 1913. Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að
lag Sigvalda sé fyrsta og elsta lagið sem flutt er við ljóðið, allavega hér á
landi.
Leitin að lögunum Leit að fleiri lögum við ljóðið bar þann árangur í fyrsta umgangi að fljótt fundust
upplýsingar um að eftirtalin fimm tónskáld hefðu gert lag við þetta þekktasta
ljóð Stephans G. Stephanssonar: Sigfús Einarsson, Helgi Helgason, Jón Laxdal,
Björgvin Guðmundsson og Þórarinn Jónsson frá Háreksstöðum.
Við frekari leit í nótnasafni Landsbókasafnsins fundust fjögur lög til viðbótar
við þetta ljóð eftir jafnmörg tónskáld. Þetta eru: Jón Friðfinnsson, Steingrímur
J. Hall og Elís Einar Einarsson, allt Vestur-Íslendingar. Auk séra Halldórs Jónssonar
frá Reynivöllum. Í æviminningum Björgvins Guðmundssonar segirað Mundi Guðmundsson
í Kanada hafi gert lag við þetta ljóð. Þess má geta að á forsíðu nótnaheftis
með lagi Jóns Friðfinnssonar stendur: Tilvonandi þjóðsöngur Íslendinga. Er ef
til vill komin skýring á áhuga tónskálda á að semja lag við þetta ljóð?
Í ritsafninu Haugaeldum eftir Gísla Jónsson er að finna upplýsingar um vestur-íslensk
tónskáld á fyrri hluta 20. aldar og verk þeirra. Í þessari bók er einnig að finna
skrár um helstu verk þessara tónskálda. Við skoðun þessarar bókar bættust í safnið
tvö tónskáld til viðbótar sem samið höfðu lag við ljóðið Þó þú langförull legðir.
Þetta voru Helgi Sigurður Helgason, sonur Helga Helgasonar, og Sigurbjörn Sigurðsson.
Lagið eftir Halldór Jónsson í raddsetningu fyrir harmóníum eða píanó er að finna
í Söngvasafni fyrir alþýðu, III.
Tryggvi M. Baldvinsson er yngstur þeirra er gert hefur lag fyrir rödd og píanó
við ljóðið Þótt þú langförull legðir.
Ekki hafa fundist nótur með lögum eftir Munda Guðmundsson og Sigurbjörn Sigurðsson.
Lítið er vitað frekar um aldursröð laganna en lag Sigfúsar Einarssonar kom út
árið 1915 í Íslensku söngvasafni. Þess er ekki getið í ævisögu Sigfúsar hvaða
ár það var samið. Lag Jóns Laxdals var gefið út árið 1917. Í ævisögu Björgvins
Guðmundssonar tónskálds, Minningum, kemur fram að lag Jóns Friðfinnssonar hafi
verið til á undan hans lagi. Um aldursröð annarra laga er ekki vitað, nema um
yngsta lagið, lag Tryggva M. Baldvinssonar tónskálds, sem samið var árið 1994.
Fjórtán lög við ljóðið Alls eru þetta 14 tónskáld, íslensk og vestur-íslensk, sem hafa gert lag við
ljóðið Þó þú langförull legðir.
Það er vel þekkt að fleiri en eitt tónskáld reyni sig í tónsmíðum við sama ljóðið,
en að svo mörg tónskáld skuli hafa reynt að fanga þetta ljóð í lagasmíð sinni
vekur vissulega athygli.
Í ljósi þess að ljóðið átti 100 ára afmæli árið 2004, síðasta tónsmíð við það
er 90 árum yngri og ljóðið er til í flutningi margra flytjenda verður ekki annað
sagt en að þetta merka ljóð sé en lifandi í vitund þjóðarinnar.
Átta af tónskáldunum teljast til tónskálda Vesturheims og þá er Helgi Helgason
ekki talinn til þeirra þótt hann hafi dvalið þar hluta úr ævi sinni. Hann telst
til hérlendra brautryðjenda á tónlistarsviðinu og starfaði lengst á Íslandi.
Björgvin Guðmundsson er hins vegar talinn til tónskálda Vesturheims, þótt hann
hafi starfað í á þriðja áratug á Akureyri, þar sem hann hlaut sitt tónlistarlega
uppeldi í Kanada. Sama á við um Þórarin Jónsson frá Háreksstöðum sem flutti heim
og bjó á Seyðisfirði síðustu æviár sín. Í þessari skiptingu milli móðurlandsins
og Vesturheims er tekið mið af bók Gísla Jónssonar, Haugaeldar. Þessi flokkun
tónskáldanna vekur upp spurningar um það hversu ónákvæm þessi skipting í Íslendinga
og Vestur-Íslendinga getur verið. Hin vestur-íslensku tónskáldin eru Elís Einar
Einarsson, Helgi Sigurður Helgason, Jón Friðfinnsson, Mundi Guðmundsson, Sigurbjörn
Sigurðsson og Steingrímur J. Hall.
Boðskapurinn Sigurður Nordal fjallar nánast ekkert um Þó þú langförull legðir í bók sinni
um Stephan G. Stephansson, manninn og skáldið. Í sérstökum kafla fjallar hann
þó um afstöðu Stephans G. til heimalandsins og fósturlandsins sem gefur okkur
mikilsverðar upplýsingar um afstöðu skáldsins til þessara tveggja landa og þann
mann sem yrkir Þó þú langförull legðir:
„Hið furðulega þrek til þess að skapa sér samræmi úr sundurleitni, sem Stephani
var gefið, kemur fram í sambúð hans við Ísland og Ameríku. Hann var nógu víðfaðma
til þess að skipta sér milli tveggja heimkynna, föðurlands og fósturlands, og
vera báðum góður sonur. Ísland var honum heimalandið sem hafði óað hug hans og
hjarta. “Íslands hvíta móðurhönd” sleppti honum aldrei frá vöggu til grafar.
Það er óskalandið, sem skín í minningunni, og þó léztu að fjölmörgum betur en
mér. Hann þarf ekki að hugsa sér það fullkomið til þess að elska það: Kom þú
blessað óskaland og lýður ljóða minna, hvernig sem þú ert. Um heimþrá sína er
hann fáorður. Ættjarðarástin verður honum brýning í útlegðinni, að vera í senn
landi sínu og sjálfum sér trúr, þjóð sinni til sóma...[ ].“?
Hvað má ráða af lagaflutningi „Lag eitt og sér segir ekkert,“ sagði Jónas Ingimundarson píanóleikari á tónleikum sem hann hélt á vegum Háskóla Íslands árið 2004. „Það er ljóðið sem segir eitthvað. Þess vegna eru allflest lög samin við ljóð, því í þeim segir eitthvað.“? En hvaða umgjörð búa þessi tónskáld ljóðinu og hvað segja þessar umbúðir í lagaformi okkur um ljóðið?
Ennfremur segir Jónas Ingimundarson í viðtali við Morgunblaðið fyrr á þessu ári.:
„Náttúran er uppspretta tónlistarinnar að mínu mati, og þá tilfinningin og hugsunin.
Þess vegna er ég mjög hændur að ljóðasöngvum. Ef gott ljóðskáld framkallar hugsanir
sínar í því knappa formi sem ljóðið er, og síðan kemur ekki síðra tónskáld og
nær að ljá ljóðinu vængi – þar finnst mér tónlistin kvikna. Tónninn er handan
við orðið, hann tekur við af því.“
Margir hafa orðið til þess að túlka þetta ljóð síðastliðin 100 ár. Það fer ekki
milli mála að langflestir gera það með lagi Sigvalda Kaldalóns. En það þýðir
ekki að önnur lög verðskuldi að falla í gleymskunnar dá vegna þess. Í þeim mörgum
felast fagrir tónar sem áhugavert verður að fylgjast með hvort nái auknum hljómgrunni.
Hvað þýðir ljóðið fyrir mig? Hvað er það sem fær mann til að setjast niður og taka saman upplýsingar af þessu
tagi? Líklega er einfaldasta svarið: hughrif. Hvað þýða ljóðið og lögin fyrir
þig, kann einhver að spyrja. Það var venjuleg forvitni, tilviljun að festast
við þetta ljóð vegna vesturfarar með Rótarý-félögum árið 2004. Tilviljun sem
leiðir til uppgötvunar, sem leiðir til leitar – og lærdómsferðar. Ævintýraferð
sem maður veit ekki fyrirfram hvar endar. Eru það ekki svoleiðis ferðir sem okkur
dreymir helst um í lífinu?
Það er ekki auðvelt að læra þetta ljóð. Það situr ekki eftir fyrsta og annan
lestur. Ljóðið ávarpar einstaklinginn þig og mig. Það segir okkur eitthvað um
okkur sjálf, hvernig er að vera Íslendingur fjarri heimalandinu. Það speglar
okkur sem einstaklinga og þjóð. Það hjálpar okkur að læra að þekkja okkur sjálf.
Maður þarf ekki að hafa verið fjarri heimahögum til þess að skilja hvert skáldið
er að fara í ljóðinu. Það auðveldar mönnum þó örugglega að skilja þennan boðskap
ljóðsins, því þeir deila að hluta til reynsluheimi skáldsins í því að vera fjarri
uppeldisslóðum sínum. Ekki er þar með sagt að þetta sé hinn eini boðskapur ljóðsins.
Það getur sagt og verið öðrum eitthvað allt annað. En síðast en ekki síst hjálpa
tónskáldin með tónum sínum við að klæða ljóðið í búning sem gefur vel til kynna
mismunandi hughrif ljóðsins. Þess vegna þarf að koma fleiri lögum við ljóðið
á framfæri. Höfundur er rekstrarhagfræðingur.
Greinin birtist fyrst í Lesók Morgunblaðsins, laugardaginn 26. júlí 2006. |