Pistillinn

18. mars 2002

Spurning um aðferð: Hugleiðingar um listamannalaun

Atli Ingólfsson
<atli.ingolfsson@tin.it>

Atli IngólfssonLengi vel var eins og það væri feimnismál hvernig farið væri með almannafé á Íslandi. Þetta var helst viðrað rétt fyrir kosningar til að koma höggi á pólitíska andstæðinga en lítið rætt þess á milli og allra síst að einstakir menn væru dregnir til ábyrgðar fyrir frjálslega meðferð opinberra sjóða. Það mátti engan særa. Eitthvað hefur breyst í þessum efnum undanfarið. Almenningur sýnir meiri árvekni og innan stjórnkerfisins er hert eftirlit með frammistöðu þeirra sem treyst er fyrir fé landsmanna.

Líklega mundu flestir samsinna því að umsýsla opinbers fjár eigi að fullnægja einu skilyrði: Að skýrt og skilmerkilega megi réttlæta hverja þá krónu sem er eytt. Til að svo megi vera þurfa að vera til greinargóðar reglur um hvernig og til hvers krónunum er eytt. Þessi hugmynd er væntanlega að styrkjast innan stjórnkerfisins þótt enn virðist hún ekki einhlít. Á sumum sviðum virðast fjárveitingar einungis stjórnast af góðum vilja án þess að þeim vilja fylgi reglur um framkvæmdina og því er hætta á að hinn góði vilji nái ekki markmiði sínu. Það er naumast nóg að segja "sjóðurinn er ætlaður til eflingar xyz í landinu" ef engin hugmynd er að baki um það hvernig fjárveitingin nýtist best til þess arna. Það mætti til dæmis spyrja: Er sjóðurinn ætlaður til aðstoðar xyz sem eru að fara á hausinn eða til að byggja upp xyz sem ekki fara á hausinn? Og er hann til stuðnings xyz í sjálfu sér eða til að styrkja þá sem stunda xyz, eða kannski þá sem vildu gjarnan stunda xyz?

Hvert er markmið sjóðsins?
Þegar nefnd er skipuð til að ráðstafa fé úr einhverjum sjóði er eðlilegt að hún fái greinargóða lýsingu á því hvert markmið sjóðsins er og sem allra nákvæmastar leiðbeiningar um hvernig á að ráðstafa fénu, hvað hefur forgang um fjárveitingu og hvað mætir afgangi. Nefndin ætti að vera skipuð einungis til að meta hvað það er sem best samsvarar forskrift hins opinbera. Það getur að sjálfsögðu verið mikið álitamál, en nefndarmenn fá þó í það minnsta tæki eða forsendur til að gera grein fyrir fjárveitingum: "Við veittum fé til A af því við álitum það uppfylla best skilyrðið B".

Því miður gerist það enn að nefndirnar fái enga forskrift og hafi því ekki annað að segja en "við veittum fé til A". Punktur. Og ekki er hægt að krefja þær skýringa ef þær hafa ekki fengið neinar vinnureglur.Engum dylst að það er alltaf einhver ástæða fyrir valinu, einhver rök liggja að baki hverri ákvörðun ef hún ræðst ekki af hlutkesti. Ef nefndin starfar án gefinna fyrirmæla er þó viðbúið að forsendur fjárveitinganna breytist eftir því hver á sæti í nefndinni eða eftir því hvernig þrýst er á meðlimina utan frá. Þannig getur niðurstaðan eitt árið orðið "A hlaut styrk til að forða xyz hans frá gjaldþroti" en árið eftir "A var hafnað um styrk, enda rekstur hans á xyz í molum". Á endanum er síðan hægt að réttlæta hvaða fjárveitingu sem er með hverju sem er. Ætlunin er að sjálfsögðu að nefndin starfi eftir bestu samvisku en svo vill til að við þessar aðstæður er ekki til neitt sem heitir besta samviska. Ég á við að nefndin sjálf er sett í aðstöðu þar sem hvaða ákvörðun sem er fær á sig blæ handahófs eða duttlunga.

Þetta ástand - að til skuli vera sjóðir sem vantar reglur um ráðstöfun - eru leifar af gömlum afþvíbarisma sem átti sér mikið fylgi í landinu á árum áður og sem vonandi er í rénun. Ágætt meðal við honum eru einfaldar spurningar eins og: Hvert er markmið sjóðsins og hver á að njóta hans? Ef ekki er hægt að svara þessu er hætta á að réttmæti sjóðsins sé dregið í efa. Erum við ekki sammála um að landsmenn eigi heimtingu á að sem allra bestur árangur náist með opinberum fjárveitingum eða að þær séu stöðvaðar ella?
Efasemdir alþýðunnar
Ég hef heyrt fólk úr ýmsum stéttum lýsa efasemdum um réttmæti tveggja opinberra sjóða sem ég hef notið góðs af, Lánasjóði íslenskra námsmanna og Starfslaunasjóði listamanna. Oft er þvílíkum efasemdum svarað með kveinstöfum um óupplýstan almúgann sem skilur ekki neitt. Það er óþarfi. Sérhver maður hefur rétt á að spyrja og ef ekki er hægt að gefa greinargóð svör er eitthvað að. Til að svara þessum efasemdum reyni ég jafnan að lýsa því án alls hroka hvernig þessir sjóðir eru tveir af mikilvægustu burðarbitunum í sterku og frjósömu samfélagi. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér en ég bíð þess að einhver gefi sér tíma til að gefa út skilmerkilega greinargerð um samband þessarra sjóða og lífsgæða í landinu, því ég held að það samband verði auðveldlega sýnt. Og það verði auðveldlega sýnt hvernig þessir sjóðir eru ekki til að hjálpa námsmönnum eða listamönnum heldur til að styrkja samfélagið allt.

Lánasjóðurinn starfar eftir ákveðnum reglum þar sem ákvæði eru um hverjir eiga rétt á láni og um námsárangur sem þeir þurfa að ná. Hann uppfyllir því skilyrðið sem áður var nefnt um starfsreglur opinberra sjóða. Starfslaunasjóður listamanna er vissulega allt annars eðlis og ætla ég ekki að bera þá frekar saman en geri hann nú að umræðuefni.
Af því bara
Það er fastur liður í dagblöðunum að eftir hverja úthlutun starfslauna til listamanna birtast misjafnlega harðorðar athugasemdir við niðurstöður úthlutunarnefndanna. Þar, eða í annarri umræðu, fjúka orð eins og "undarleg vinnubrögð" eða jafnvel "lágkúra", "spilling" eða "hneyksli". Það sem fundið er að niðurstöðum nefndanna er ýmist að listamaður hafi fengið úthlutun fram að þessu og hvers vegna hann sé skyndilega sviptur henni eða að listamaðurinn hafi aldrei fengið og hvort ekki sé komið að honum. Iðulega eru síðan tilteknir einhverjir þeirra sem hlutu starfslaun það árið og fullyrt að þeir þurfi ekkert á þeim að halda, þá einhverjir sem þykja ekki nógu góðir listamenn, síðan talað um áhugamennsku og atvinnumennsku, hvort um sig ýmist talið af hinu góða eða til ills, talað um afköst, sem heita ýmist "framleiðsla" eða "vinnusemi" eftir því hvort þau eru talin viðkomandi til hróss eða lasts, lítil afköst heita ýmist "vandvirkni" eða "leti"og svona mætti lengi telja. Kvartað er yfir að listamenn sem eru búnir að "sanna sig" fái ekki laun eða að aðrir fái ekki tækifæri til að sanna sig. "Klíka" er vinsælt orð í þessum umræðum og menn eru utan eða innan klíkunnar eftir því hvort þeir fá úthlutun eða ekki.

Það er því nokkuð erfitt að fá heillega mynd af því hvers menn vænta af starfslaunum listamanna. Það er ekki nema von þegar ríkið veit það ekki heldur. Í gildandi reglugerð um listamannalaun segir: "Við veitingu starfslauna og styrkja úr öllum sjóðum skulu úthlutunarnefndir gæta þess vandlega að allar umsóknir fái sanngjarna umfjöllun og ákvarðanir séu ávallt reistar á faglegum sjónarmiðum." Þetta er vel meint en ekki kemur það nefndunum að miklu gagni og engin raunveruleg hugmynd er gefin um framkvæmdina: Úthlutunarnefndirnar starfa því ekki eftir neinum sérstökum reglum. Væntanlega leyfist mér hér að grípa til þversagna: Nefndirnar eru berskjaldaðar fyrir allri gagnrýni, og því algerlega brynjaðar. Úrskurðurinn er óverjandi og því óvefengjanlegur. Frammi fyrir öllum kröfum um skýringar stendur bjargfast svar sem eyðir nöldrinu með einkennilegum, næstum dulspekilegum krafti sínum: "Af því bara".
Hvað skiptir máli?
Líklega reyna meðlimirnir að koma sér saman um einhverjar reglur í hvert sinn, reyna að réttlæta valið fyrir sjálfum sér og hver öðrum og reyna að ímynda sér hvað þessi klausa um "faglegu sjónarmiðin" þýðir, en þá kann að fara svo að hver fylgi sinni stefnu eða sem fyrr segir að forsendur fjárveitinganna breytist frá ári til árs. Eiga umsækjendur ekki heimtingu á að vita fyrirfram hvernig er úthlutað úr þessum sjóðum? Eða almenningur? Eða einfaldlega þeir sem valdir eru í nefndirnar? Þeir síðastnefndu eru ekki öfundsverðir að lenda í starfi sem ekki er hægt að vinna eftir bestu samvisku.

Í stuttu máli sagt þá hlýtur alltaf einhver ástæða að vera fyrir því að umsækjandi er valinn eða honum hafnað. Það ætti að vera áhugamál allra aðila að þessar ástæður sé hægt að gera opinberar. Að öðrum kosti er eins og hæðst sé að þeim sem sækja um. Sá sem heldur að mestu máli skipti að vinna af vandvirkni kemst að því að þetta árið skipti meira máli að vinna hratt, sá sem starfar eingöngu að listgrein sinni kemst að því að hitt árið komust þeir frekar að sem störfuðu jafnframt við eitthvað annað, sá sem hélt að starfsaldur hans væri hátt metinn kemst kannski að því að mun vænlegra var að vera ungur, sá sem seldi vel kemst að því að það þótti gott í fyrra en dregur menn niður í ár, sá sem fékk úthlutun undanfarin ár kemst að því að í ár var það honum hindrun og svona mætti lengi telja.
Að vera sýnilegur
Í viðleitni til að komast að því hvort eitthvað sérstakt skipti máli fyrir umsækjendur hef ég stundum innt starfsbræður og aðra sem þekkja til eftir þessu. Svörin eru margvísleg en eitt virðast þó allir sammála um: Til að eiga möguleika á starfslaunum þarf listamaðurinn að vera "sýnilegur" og flestir bæta við í huganum eða orðum: "Þetta er bara svona". Að vera sýnilegur þýðir væntanlega að láta andlit sitt sjást sem víðast, bæði í fjölmiðlum og á þeim götum sem nefndarmenn ganga.

Ef ég reyni að skilja hvers vegna þetta er svona dettur mér helst í hug eftirfarandi: Nefndirnar leitast við að greiða fyrir þeim sem þær sjá oftast, hvort sem það er í blöðum eða á götu. Hugsanlega auðveldar þetta meðlimunum að réttlæta valið fyrir almenningi: "Já C fékk. Hann er nú búinn að vera svo mikið í blöðunum, hann hlýtur að eiga þetta skilið". En ástæðan er líka einfaldlega sú að þegar nefndarmaður hefur ekkert leiðarljós er hann mjög veikur fyrir mætti auglýsinganna. Allt er þetta ósköp mannlegt og skiljanlegt, en er það réttmætt? Eru menn sammála um að þetta sé besta leiðin til að efla íslenska list? Ef svo er ætti í það minnsta að taka það fram í auglýsingu: "Umsækjandi skal kappkosta um að vera sýnilegur" en það er listgrein út af fyrir sig og hefur ekkert með venjulegan listrænan metnað eða hæfileika að gera. Ef rétt er að þetta skipti mestu máli þýðir það: 1) að nefndirnar taka hvorki mark á þeim upplýsingum sem felast í umsókninni né á verkum listamannsins og þurfa í raun ekki að fylgjast með íslenskri list 2) að listamenn sem búa á Reykjavíkursvæðinu eru líklegri til að fá launin 3) að þeir sem stjórna fjölmiðlum hafa geysileg áhrif á úthlutun starfslauna og bera því mikla ábyrgð 4) að úthlutunin byggir á óheyrilega óskýru og afstæðu hugtaki: Hvernig er það mælt hversu sýnilegur listamaðurinn er? Sýnilegur fyrir hvern? Hvernig er sýnileiki tveggja listamanna borinn saman?

Leyfist ekki að spyrja hér: Hvort er farsælla fyrir listalífið að fjölmiðlar fylgist með listunum eða listirnar með fjölmiðlum?
Gagnlegt tæki
Nú vill svo til að í eitt af þeim tíu skiptum undanfarin tólf ár sem ég hef ekki fengið starfslaun til árs reyndi ég þá hugarleikfimi að setja mig í spor nefndarmanns sem ætti að fara að skoða umsóknir. Ég gekk út frá þeirr forsendu að ég ætti að skoða umsóknirnar og gleyma öðru. Í einfeldni minni spurði ég mig fyrst hvað í lífi og starfi listamannsins skipti máli fyrir mat mitt á honum og hvað hvert atriði vægi þungt. Til þess að tryggja að allir umsækjendur væru mældir á sama kvarða sá ég fljótt að ég yrði að útbúa einhvers konar punktakerfi þar sem hvert það atriði sem metið var breyttist í hlutfall af heildareinkunn. Þetta eru ekki flókin vísindi heldur einungis verkfæri til að auðvelda hlutlaust eða að minnsta kosti réttlætanlegt mat umsækjenda. Þetta þekkjum við af öðrum sviðum þar sem leggja þarf mat á umsóknir.

Hugsanlega heldur einhver því fram að listin sé allt annars eðlis, hún sé öll svo huglæg og afstæð að ekki megi beita þvílíkum aðferðum. Með því er sagt að listrænt gildi eigi að vera það eina sem skiptir máli við úthlutun. En ef tveir umsækjendur eru taldir jafngildir að þessu leyti og aðeins er unnt að veita öðrum þeirra þarf að vera hægt að velja á milli, væntanlega á heldur hlutlægari grunni en því einu hvor er "sýnilegri".

Við verðum að horfast í augu við að margt annað en hreint listrænt gildi hefur áhrif á mat nefndanna og full ástæða er til að koma því þannig fyrir að það sé þó ekki of margt annað. Ég einsetti mér að smíða einhvers konar líkan að réttlátri úthlutun og eftir dálitlar vangaveltur varð niðurstaðan reikningsformúla sem miðaðist við umsækjendur í tónskáldasjóð, en vitanlega hljóta forsendur að breytast nokkuð eftir því hver listgreinin er. Ég var engan veginn viss um að ég hefði gefið hverju atriði rétt vægi í heildareinkunninni en áleit mig þó kominn með gagnlegt tæki sem listamenn eða ráðuneyti gætu sniðið til eins og rétt þætti og sem svaraði loksins þeim spurningum um sem brunnu á vörum mér, og væntanlega margra annarra.
Listrænt gildi og fleira
Svo ég rifji í stuttu máli upp þá þætti sem ég tók inn í formúluna þá voru það listrænt gildi (metið af verkum síðustu 5 ára), afköst, starfsaldur, lífaldur, kynning/dreifing, menntun og fyrri úthlutanir. Við nánari umhugsun má spyrja hvort tekjur ættu ekki jafnframt að hafa sitt að segja. Þá virðist eins og umsækjendur séu í raun oft látnir njóta framlags þeirra til félagsstarfa í þágu listamanna. Ef samkomulag er um það er ekkert athugavert að taka þau með í reikninginn, aðalatriðið er að það sé opinbert og yfirlýst hversu þungt þau vega. Margt annað getur komið til álita við úthlutun og þyrfti einfaldlega að ræða og skilgreina alla þessa þætti. Hvað er réttlát úthlutun er einungis samkomulagsatriði, en samkomulagið þarf að sjálfsögðu að gera áður en úthlutað er.

Ef ég man rétt vóg mat á listrænu gildi verkanna langþyngst í mínu líkani, milli 40 og 50 %, þannig að ef umsækjandi fékk háa einkunn á því sviði átti hann strax nokkuð góðar líkur á hárri aðaleinkunn. Ástæða er til að taka skýrt fram að ég geri mér engar grillur um að til sé rétt hlutlægt mat á þessum þætti, notast verður við þá meðaleinkunn sem kemur út úr mati nefndarmanna. Í þau skipti sem ég hef starfað í dómnefndum sem eingöngu áttu að leggja mat á listræn gæði tónverka er reynslan þó sú að þegar notast er við vel sniðið einkunnakerfi og nefndarmenn tjá sig eingöngu í tölum verður forgangsröðunin jafnan þannig að nefndarmenn geta nokkurn veginn sætt sig við hana. Í eitt skipti náðist ekki samkomulag um þessa aðferð og frekar reynt að "ræða málin". Þá hafði sá mest áhrif sem frekastur var og fæstir voru sáttir við niðurstöðuna.

Til að hafa í heiðri visst jafnræðissjónarmið var því þannig farið í líkaninu áðurnefnda að úthlutanir undanfarinna 5 ára lækkuðu lítið eitt aðaleinkunnina. Ég man ekki vægi hinna þáttanna en á einhvers staðar forritið fyrir hvern sem kynnast vill. Ég tek fram að þeir eiginleikar sem ég gaf formúlunni skipta ekki máli hér. Það er merking hennar sem ég vil undirstrika: Að hægt sé að svara því hvernig eigi að forgangsraða listamönnum við úthlutun starfslauna.
Er áhugi á breytingum?
Ég kynnti þessar hugmyndir lítillega fyrir starfsbræðrum mínum en hafði ekki tök á að fylgja þeim eftir. Reyndar er ég ekki viss um að listamenn séu einhuga um að betur beri að skilgreina starfsreglur nefndanna. Hvers vegna? Getur verið að meirihluti þeirra sé því fylgjandi að alls ekkert eigi að meta listamenn? Hugsanlega trúa þeir því þá að allir geti fengið "þegar komið er að þeim" og það sé réttast þannig. Eins og málin standa er það ekki einu sinni raunin: Úthlutanirnar eru undirorpnar einkennilegum og ósegjanlegum lögmálum sem eru listalífi landsins alls ekki til framdráttar.

Ég neita því ekki að mér þætti vænt um að vita hvort listamenn og almenningur hafa einhverja skoðun á þessu eða hvort ég er á algerum villigötum og í raun vilji menn helst búa áfram við hið gamla og góða afþvíbara.

Á Vefnum frá mars 2002©  2002  Músa