Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 18. mars 2006
Ekki benda á mig

Sigurður Flosason, tónlistarmaður og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla FÍH
Grein Sigurðar svarar grein Stefnáns Jóns Hafstein, „Tónlistarskólarnir í borginni“, sem birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar 2006.

„Ekki benda á mig, segir varðstjórinn“. Þessi ljóðlína gúanórokkarans góða kom upp í hugann þegar ég las svargrein Stefáns Jóns Hafstein við grein minni um ógöngur íslenskra tónlistarskóla. Ekki benda á Reykjavíkurborg, ekki benda á mig er síendurtekið viðlagið sem virðist vera megininntakið í málflutningi Stefáns Jóns. Kostnaðarskiptingarkarpið og afleiðingar þess virðist hann telja alfarið á ábyrgð ríkisins og þegar kemur að aldurstakmörkunum og átthagafjötrum bendir hann á önnur sveitarfélög sem hann segir verri en Reykjavík. Hann drepur á nokkur þeirra atriða sem ég gagnrýni, en þegir þunnu hljóði um óásættanlegt ástand upplausnar og óöryggis sem ríkir í skólunum. Hann segir ekki orð um hlutfallslega lítinn nemendafjölda og lág útgjöld í Reykjavík. Ekki múkk um skerðingu framlaga til einstakra skóla.

Nú vil ég leyfa mér að minna á þá einföldu staðreynd að með verkaskiptalögunum 1989 tóku sveitarfélögin við tónlistarskólunum með manni og mús. Þau lög gilda enn. Öll viðleitni til breytinga á þeim er að frumkvæði sveitarfélaga með Reykjavík í broddi fylkingar. Það eru menntamálayfirvöld í Reykjavík sem hafa ýtt þessum báti úr vör og þar stendur í stafni Stefán Jón, eðli málsins samkvæmt enda formaður menntaráðs. Það er af þessari ástæðu sem reykvískir tónlistarkennarar og nemendur benda á yfirvöld menntamála í höfuðborginni. Niðurfelling greiðslna með nemendum annarra sveitarfélaga, oft afburða fólki á viðkvæmu skeiði menntunarinnar, er auðvitað skýr ákvörðun Reykjavíkurborgar en ekki annarra sveitarfélaga. Þetta er sömuleiðis klárlega breyting á þeirri stöðu sem fyrir var. Nú er staðan sú að sum sveitarfélög styðja sitt fólk, önnur ekki. Hér hefði þurft að ganga betur frá samningum á milli sveitarfélga og tryggja hag nemenda áður en snjóboltanum var rúllað af stað. Hvernig vogar maðurinn sér að halda því fram að Reykjavíkurborg „beri enga sök á“?

Stefán Jón fagnar því að ég sé sammála honum um sumt og syrgir að ég taki ekki undir með honum um annað. Nú vil ég taka fram að persónulegar skoðanir mínar skipta hér litlu. Þó undir niðri kunni ég að hafa einhverjar skoðanir á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga koma þær lítið við sögu þegar ég tala sem tónlistarkennari, stjórnandi í tónlistarskóla og foreldri. Sem slíkur vil ég einfaldlega ekki vita af þessum deilum. Sem slíkur krefst ég þess að fá að stunda störf mín óáreittur og að börnin mín geti stundað sitt nám án þess að merjast í áðurnefndum núningi ólíkra stjórnvalda. Ég fer fram á að skólarnir og nemendur þeirra líði ekki fyrir deilur tveggja félaga sem tæpur helmingur landsmanna tilheyrir báðum; sveitarfélaginu Reykjavík og íslenska ríkinu. Ég krefst þess að hæfileikaríkir nemendur mínir, 25 ára og eldri fái að stunda nám og ég krefst þess að lofandi nemendur annara sveitarfélaga sem óska eftir sérhæfðu námi geti stundað það án þess að þurfa að ganga frá Pontíusi til Pílatusar, án þess að upplifa höfnun og án þess að Stefán Jón Hafstein yppi öxlum og segi „ekki ég“. Sem kennara reykvísks tónlistarskóla er mér slétt sama hver borgar. Þeim sem til greina koma ber að semja um það sín á milli án þess að við, fólkið í tónlistarskólunum, finni fyrir því. Er það ekki einmitt fyrir úrlausn svona mála sem við greiðum stjórnmálamönnum laun?

Stefán Jón segir að það „dugi ekki að kenna Reykjavíkurborg um það sem önnur sveitarfélög aðhafast“. Það er lyginni líkast að vel gefinn maður eins og Stefán Jón haldi fram annarri eins firru. Öllu heilvita fólki hlýtur að vera ljóst að önnur sveitarfélög breyta eins og þau gera til að bregðast við harkalegum aðgerðum Reykjavíkurborgar, hversu skiljanlegar sem þær kunna að vera. Þetta er einföld spurning um orsök og afleiðingu. Það að grípa til aðgerða sem skaða námsmenn og stofnanir áður en deilur hafa verið settar niður er einfaldlega með öllu óverjandi. Á þetta óyndisráð hefur Reykjavíkurborg því miður brugðið og undan því verður ekki vikist. Í heildina tekið hafa reykvísk menntayfirvöld hagað sér líkast fíl í posulínsbúð þegar kemur að brothættu umhverfi tónlistaruppeldis. Hver ber ábyrgðina á því?

Ég fagna því að Stefán Jón hafi stigið fram á ritvöllinn og vonast eftir viðbrögðum fleiri stjórnmálamanna. Fólkið í tónlistarskólunum bíður spennt. Íslenskir tónlistarkennarar eru, ótrúlegt en satt, ekki hávær stétt. Þeir eru seinþreyttir til vandræða og vilja helst af öllu vinna störf sín í friði. Nú er þetta góða fólk, hvar í flokki sem það stendur, ekki bara mætt og þreytt heldur líka reitt. Nemendurnir eru forviða. Stefán Jón telur gagnrýni mína ómarkvissa og beinast ranglega að Reykjavíkurborg; “Sigurður Flosason ætti að beina gagnrýni sinni að þeim sem ekki standa sig að hans mati“ segir Stefán Jón. Svo skemmtilega vill til að það er nákvæmlega það sem ég er að gera, bæði í þessar grein og hinni fyrri. Íslenskir tónlistarkennarar benda á borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík, yfirvöld menntamála borgarinnar og varðstjóra reykvískra mennta; Stefán Jón Hafstein.


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. mars 2006.


 ©  2006  Músa