|
Tónlistarspegill Sigfríður Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenskrar tónverkamiðstöðvar Íslensk tónlist af öllu tagi hefur sennilega aldrei heyrst víðar um heiminn og
verið notið af fleirum en á síðustu árum. Árið 2005 var enginn eftirbátur áranna
á undan að þessu leyti. Fjörleg sköpun og kraftmikill flutningur styrkir stöðugt
ímynd þeirra sem starfa á tónlistarsviði hér á landi. Nýsköpun á sviði niðurritaðrar tónlistar var viðunandi á nýliðnu ári. Íslensk
tónverkamiðstöð þjónar flytjendum þeirrar tónlistar, skráir verkin og býr þau
til flutnings. Rétt ríflega hálft hundrað verka voru skráð inn í gagnagrunn Íslenskrar
tónverkamiðstöðvar á síðastliðnu ári. Það þýðir að í safnið bættist ríflega eitt
verk í viku hverri að jafnaði. Ljóst er að ekki skila öll niðurrituð verk sér
í safn Tónverkamiðstöðvarinnar og jafn ljóst að enn hafa ekki komið í hús verk
sem er verið að fínpússa og munu sum verða skráð á árið 2005 þar sem þau hafa
að megninu til verið skrifuð á því ári. Hér er rétt að geta þess að sveiflur
í innskilum verka eru miklar og tengjast að því er virðist viðburðum og virkni
á menningarsviði. Þannig var ríflega þrisvar sinnum fleiri verkum skilað inn
á menningarárinu mikla. árinu 2000, þegar menningarstarf í Reykjavík var innblásið
af hlutverki borgarinnar sem einni af menningarborgum Evrópu. En ný verk eru ekki alltaf flutt strax og ekki hafa öll þau verk sem hér hefur
verið getið fengið flutning. Frumflutningur verka fer oft á tíðum fram mánuðum
eða árum eftir að þau eru fullgerð. Samantekt á fjölda frumfluttra verka, bæði
heima og erlendis, mætti ætla að gæfi mynd af svipuðum hlut og nýskráð verk.
Það er ekki svo. Frumflutt íslensk verk af því tagi sem hér um ræðir á árinu
2005 eru á annað hundrað, stór og smá. Það þýðir, ef jafnað er á árið, að þriðja
hvern dag var frumflutt nýtt íslenskt tónverk. Eru þá meðtalin raftónverk og
nafngreind jasstónverk í fjölmiðlum. Rétt er að ítreka að ekki eru talin þau
ótal verk sem tilheyra öðrum sviðum tónlistar en hér eru til umfjöllunar. Endurflutningur stórra verka gefur líka enn eina svipmyndina af áhuga manna á íslenskri nýsköpun á sviði niðurritaðrar tónlistar. Þær stórfréttir fóru víst því miður fram hjá mörgum að Útvarpshljómsveit Bæjaralands í München flutti verkið Orchestra B eftir Atla Ingólfsson á reglulegum tónleikum sínum í febrúar á síðasta ári. Í þeim mánuði var í Noregi líka leikinn konsert fyrir sneriltrommu og hljómsveit eftir Áskel Másson. Svona flutningur kostar tíma og mikla peninga og því má orða það þannig að fjárfestingar í andlegum auði Íslendinga hafi verið verulegar á árinu. Það er kannski óþarfi að taka fram að frumflutningur og endurflutningur íslenskra
verka hér heima og erlendis lægi að mestu leyti niðri ef ekki væru fyrir hendi
hreint ótrúlega góðir hljóðfæraleikarar í landinu. Ótrúlega góðir vegna þess
hve markaður hér er lítill og vinnuálag mikið á flytjendur, meðal annars vegna
lítilla möguleika á endurteknum tónleikum. Þetta gildir ekki síst um flytjendur
samtímatónlistar, en það má vera ljóst að í langflestum tilfellum eru flókin
og erfið verk aðeins flutt einu sinni eftir þrotlausar æfingar í margar vikur.
Margir hafa þó skapað sér tækifæri erlendis og íslenskir flytjendur ferðast með
íslensku verkin í farteskinu um allan heim. Nægir þar að nefna Kammersveit Reykjavíkur,
Caput, Hamrahlíðarkórinn og t.d. einsöngvara eins og Finn Bjarnason og píanóleikarann
Tinnu Þorsteinsdóttur – og er þá fátt eitt talið. Þegar litið er yfir sölu kórnótna úr safni Tónverkamiðstöðvarinnar þá bætist
við enn ein hliðin á þessum málum. Hátt á sjötta þúsund eintök af kórnótum
voru seld úr safni ITM á árinu 2005. Vel ríflega helmingur þessara eintaka rataði
í hendur erlends söngfólks. Titlarnir sem hreyfðust á árinu voru 104, en rétt
er að hafa í huga að ITM sendir fjölda titla til kynningar auk söluefnisins.
Það er þó skýrt af þessum tölum af flutningur íslenskrar kórtónlistar er mjög
mikill og ekki síður erlendis en hér heima. Tónlistarlífið á Íslandi er auðvitað miklum mun fjörlegra en þær tölur sem hér hefur verið leikið með gefa til kynna. Meirihluta tónleikamínútna hér á landi er varið til flutnings á erlendu efni eftir látin tónskáld. Í ljósi þess þunga straums af erlendu eldra efni sem íslensk verk þurfa að synda á móti þá má fullyrða að þessi þjóðarlax er bæði sterkur og hugmyndaríkur í baráttu sinni upp strauminn. Dr. Ágúst Einarsson hefur sett fram greiningu á fjármálahliðinni á tónlistarstarfsemi í landinu í mjög forvitnilegri bók Hagræn áhrif tónlistar, en ritið kom út á vegum Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands árið 2004. Hann hefur með riti sínu frelsað okkur frá því að þurfa aðeins að ræða tónlistina í landinu undir merkjum menningarlegra gilda og geta nú þeir sem vilja notað tölur máli sínu til stuðnings. Í landi þar sem öll gildi virðast mæld með mælistiku ættaðri úr bönkum þá er slík greining ómetanleg. Árið sem nú er hafið er óvenjulega spennandi fyrir íslenskar alætur á tónlist.
Tónlistarhátíð Tónskáldafélags Íslands, Myrkir músíkdagar, hefur verið fest í
sessi sem meginvettvangur íslenskrar samtímatónlistar og mikilvægi hátíðarinnar
sem slíkrar ómælt. Hátíðinni er nýlokið og var hún aftur mjög vel sótt, en samkvæmt
talningu 2005 sóttu hana um 3000 gestir. Í faðmi haustbleikra daga mun svo hljóma
hér á landi norræn samtímatónlist þegar tónlistarhátíðin Norrænir músíkdagar
verða haldnir, en tíu ár eru síðan þessi hátíð fór síðast fram á Íslandi. Að
henni standa tónskáldafélögin á Norðurlöndum. Hátíðin skartar flutningi á EDDU
I eftir Jón Leifs, umfangsmikilli óratóríu eftir höfuðskáld þjóðarinnar á sviði
tónlistar.
Að lokum er rétt að taka fram að hér hefur ekki verið fjallað um það mikilvægasta sem
eru auðvitað gæði verkanna en ekki magn þeirra. Gimsteinar menningarinnar verða
ekki til í óvirku tómi heldur aðeins í samfélagi þar sem fólk hefur svigrúm til
könnunar, sköpunar og tjáningar. Sögunni gömlu um hvað það eru margir kallaðir
en fáir útvaldir verður hins vegar aldrei breytt. Djarfir og forvitnir neytendur
menningarinnar munu svo leika það hlutverk að finna hver er hvað.
|
|