Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 11. ágúst 2008
Úlfamamma við píanóið

Jónas Sen
<senjonas [hjá] gmail.com>

Jónas Sen
Ég las nýlega skemmtilega bloggfærslu eftir Árna Matthíasson undir fyrirsögninni „Ekki hitta höfundinn“. Þar segir hann að dáðir og sjarmerandi listamenn séu ekkert endilega svo sjarmerandi þegar maður hittir þá augliti til auglitis.

„Mér er minnisstætt þegar flautuleikarinn snjalli James Galway kom hingað til lands til að leika á listahátíð og blaðakona af Morgunblaðinu, sem vel kunni að meta flautuleik hans, fór spennt til að taka við hann viðtal. Hún sneri aftur úr því viðtali með grátstafinn í kverkunum yfir því hve mikill dóni Galway hafi verið, frekur og afundinn, snúið út úr öllu og ef hann svaraði ekki með svívirðingum þá svaraði hann út í hött. Hún varð svo vitni að því að þegar sjónvarpsmenn mættu með sínar upptökugræjur birti yfir honum, heillandi brosið braust fram og hann skrúfaði frá sjarmanum.

Af hverju, spyr kannski einhver, en gefur augaleið: Hann vissi sem er að blaðamaðurinn myndi gera hið besta út textanum, vinna almennilegt viðtal upp úr öllu saman, en sjónvarpsvélarnar myndu sýna hann eins og hann er og því kaus hann að vera annar.“

Ímynd sjálfsins

Sumir segja að orðsporið sé allt og er nokkuð til í því. Sífellt er klifað á mikilvægi jákvæðrar ímyndar, ekki síst í pólitík. Og maður verður að hafa góða sjálfsmynd. Stundum mætti ætla að við þekkjum ekki annað en ímyndir, ímyndir af sjálfum okkur, mökum, vinum, stjórnmálamönnum, kynþáttum og ríkjum. Við lifum í sýndarveruleika, oftar en ekki fölskum.

Heimspekingar á borð við Jiddu Krishmamurti hafa bent á nauðsyn þess að sjá í gegnum blekkinguna, hætta að búa til ímyndir og sjá sannleikann. Stanslaus ímyndaráróðurinn í kringum okkur gerir þó að verkum að það er hæpið að það takist. Nema kannski stutta stund, en svo hverfur maður aftur í sýndarveruleikann. Af þessum ástæðum skiptir sú ímynd sem fólk hefur af manni miklu fyrir frama og velgengni.

Ímynd Bjarkar

Ímynd Íslands út á við hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, sérstaklega í tengslum við Náttúrutónleika Bjarkar Guðmundsdóttur og annarra í Laugardalnum. Í gegnum tíðina hafa líka margir velt ímynd Bjarkar sjálfrar fyrir sér, hvað það sé við hana (fyrir utan tónlistarhæfileikana) sem hafi gert hana svona fræga. Gestur Guðmundsson hélt því eitt sinn fram að velgengni hennar mætti að nokkru rekja til almenns áhuga á heimstónlist; samkvæmt honum er þessi áhugi ein hliðin á leitinni að leifunum af upprunaleika í heiminum, því sem er óspillt af nútímamenningu og öllu henni fylgjandi. Björk hafi ímynd saklauss náttúrubarns og hún hafi sjálf undirstrikað þessa ímynd með því að láta oftsinnis í ljós að hún sæki gjarnan innblástur í allskonar náttúrufyrirbæri á Íslandi.

Björk er einnig sannur heimsborgari í tónlistinni. Eitt af því sem gerir hana sérstaka er að hún hefur farið ótroðnar slóðir í að skapa hljóðheim algerlega ólíkan þeim er maður á að venjast úr dægurtónlistarheiminum. Auðvitað eru ekki allir popptónlistarmenn eins, vissulega þrífst ákveðin fjölbreytni innan dægurtónlistargeirans en Björk hefur gengið miklu lengra en flestir aðrir, a.m.k. hér á landi. Með tónlist sinni sameinar Björk ekki aðeins há- og lágmenningu, heldur líka brot úr tónlistarhefðum ólíkra landa og sýnir að samvinna mismunandi þjóða getur vel gengið upp, a.m.k. í tónlistinni.

Ímynd hins klassíska

Í klassíska tónlistarheiminum skipta ímyndir gríðarlegu máli. Þar eru flestir uppteknir við að halda lífi í fremur stöðluðum menningararfi, sem þýðir að menn spila oftast sömu músíkina. Íslenska óperan er að miklu leyti safn, hún varðveitir gamlar óperur með því að flytja þær aftur og aftur. Svipaða sögu er að segja um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Óteljandi sjálfstæðir tónlistarmenn spila líka eða syngja sömu lögin og verkin í sífellu. Ég hef stundum kvartað undan því hve lagaval íslenskra söngvara er takmarkað – þótt auðvitað séu til undantekningar. Það hefur hvarflað að mér að sumir söngvarar vilji helst ekki syngja neitt annað en Draumalandið og annað í þeim dúr.

Ímynd píanósnillingsins

Vegna þess hve viðfangsefni tónlistarmanna eru oft einsleit er erfitt fyrir frábæra hljóðfæraleikara eða söngvara að vekja á sér athygli. Það er ekki nóg að hafa þá ímynd að maður sé hrikalega klár, maður verður líka að gera eitthvað alveg einstakt. Eða þá að maður verður bara sjálfur að vera alveg einstakur og öðruvísi en aðrir.

Í gegnum tíðina hefur fólk reynt ýmsar leiðir til að komast á þennan stall. Sumir sigra í keppni, eins og Van Cliburn, sem vann gullverðlaunin í fyrstu Tsjajkovskíj-keppninni sem haldin var í Moskvu árið 1958. Þá var hann hylltur sem þjóðhetja í Bandaríkjunum. Fólk slóst um miða á tónleika hans, jafnvel þótt hann spilaði eingöngu klassík. Þessi kraftmiklu viðbrögð má rekja til þess að kalda stríðið stóð sem hæst og því þóttu það söguleg tíðindi að Bandaríkjamaður, meira að segja Texasbúi, skyldi vinna fyrstu verðlaun í keppni í Sovétríkjunum. Tsjajkovskíj-keppnin var sérstaklega hugsuð til að undirstrika yfirburði Sovétmanna á menningarsviðinu eftir að þeim hafði nokkrum vikum áður tekist að skjóta upp Spútnik-gervitunglinu. Að Texasbúi skyldi vinna Rússana þótti því goðsagnakennt. Platan sem síðar var gefin út með túlkun hans á píanókonsert nr. 1 eftir Tsjajkovskíj varð fyrsta klassíska platan til að seljast í milljón eintökum.

Ímynd hins misskilda

Síðan þetta var hefur tónlistarkeppnum fjölgað gífurlega, og nú þykir það ekki lengur frétt til næsta bæjar þótt einhver vinni fyrstu verðlaun í þessari eða hinni keppninni.

Stundum verða meira að segja þeir sem EKKI vinna mun frægari en sigurvegarinn. Þar á meðal er píanóleikarinn Ivo Porgorelich, en hann gekk fram af sumum dómnefndarmönnum í Chopinkeppninni í Varsjá á sínum tíma fyrir það sem þeim fannst vera afkáraleg Chopintúlkun. Öðrum í nefndinni fannst hann hins vegar frábær og lá við handalögmálum þegar hann komst ekki áfram í keppninni. Það eitt og sér gerði að verkum að Porgorelich varð heimsfrægur, en í dag man enginn eftir sjálfum sigurvegara keppninnar. Porgorelich tókst að skapa sér réttu ímyndina í huga almennings. Hann var snillingurinn sem var svo frumlegur að helmingur möppudýranna í dómnefndinni skildi hann ekki.

Ímynd hins einstaka

Hvernig ber tónlistarfólk sig að í dag? Þar sem svo margir fást við að flytja sömu tónlistina og fæstir ná því að skara fram úr með virkilega einstæðri túlkun reyna listamenn að vekja á sér athygli á annan hátt.

Þær raddir hafa heyrst að franski píanóleikarinn Helene Grimaud noti úlfa til að baða sig í sviðsljósinu. Hvort sem það er meðvitað eða ekki, þá hefur það tekist. Fyrir hundrað árum hefði það hvarflað að manni að hún væri varúlfur. Hún eyðir svo miklum tíma með úlfum að það er hreinlega ekki einleikið. Hún ræktar þá og stofnaði á sínum tíma miðstöð í Bandaríkjunum þeim til verndar.

Þetta byrjaði allt saman þannig: Nótt eina fyrir tæpum tuttugu árum fór hún út til að viðra hund vinar síns. Þá rakst hún á skringilegan náunga sem bjó skammt frá. Hann átti gæludýr sem hún telur að hafi verið hálfur úlfur og hálfur hundur. Úlfhundurinn kom til hennar og hún rétti út höndina. Hann leyfði henni að snerta sig og hún segir að þá hafi rafstraumur farið um sig sem hafi kveikt undarlegan söng í sál hennar. Það var líkt og óþekktur forn kraftur kallaði á hana.

Ímynd varúlfsins

Listamenn hafa auðvitað áður verið bendlaðir við úlfa, jafnvel varúlfa. Afi Egils Skallagrímssonar á t.d. að hafa verið varúlfur eins og kemur fram í skáldsögunni Með titrandi tár eftir Sjón, en þar segir ein persónan: „Sko, ég er kominn af Agli Skallagrímssyni, ekki þú. Það er varúlfablóð í þeirri ætt allri. Afi hans var Kveldúlfur, snarvitlaus á tungli. Nú eru menn að segja að hann hafi verið geðbilaður; manískur depressjóner. Nei, góði minn, hann var kafloðinn varúlfur...“

Ímynd rómantíkersins

Er Grimaud að reyna að gera sig merkilega með því að tengja ímynd sína við úlfa? Eða liggur eitthvað dýpra að baki? Og hver er hún eiginlega?

Um hana sem píanóleikara er ekki margt að segja. Hún er einstaklega fær og fæst fyrst og fremst við að túlka rómantíska tónlist nítjándu aldarinnar. Hún lærði í Tónlistarháskólanum í París og var aðeins fimmtán ára gömul þegar hún gaf út sinn fyrsta geisladisk, en á honum er að finna þekktan fingurbrjót, aðra píanósónötu Rakmaninoffs.

Gallinn er sá að það er hægt að segja eitthvað svipað um ótal marga aðra. Þótt svona hæfileikar myndu vissulega vekja athygli á okkar litla Íslandi er því ekki þannig farið úti í hinum stóra heimi, þar sem samkeppnin er gríðarlega hörð og fjöldinn allur af frábærum píanóleikurum til. Grimaud hefur þó haldið rétt á spöðunum og ferill hennar hefur verið glæsilegur. En það skýrir samt ekki þá miklu athygli sem hún hefur fengið.

Ímynd úlfanna

Nei, það eru úlfarnir sem gera hana spennandi. Þeir hafa bætt ímynd hennar. Og núna segist hún vera að reyna að bæta ímynd þeirra.

Í sjálfsævisögu sinni, Variations Sauvages, bendir hún á að öldum saman hafi úlfar haft á sér slæmt orð. Um þá er til alls kyns alþýðuspeki, ævintýri og goðsagnir. Yfirleitt eru þeir „vondi gæinn“ og oftar en ekki hafa þeir verið réttdræpir. En Grimaud lítur á þá sem nauðsynlegt afl í náttúrunni til að leiðrétta ójafnvægi á milli ýmissa dýra- og plöntutegunda, og hún telur að þeir geti kennt manninum margt. Þeir hafi t.d. frelsað hana, hjálpað henni að nálgast frumkraftana í sjálfri sér.

Ímynd vímunnar

Kannski að það sé einmitt ástæðan fyrir því að gagnrýnandi nokkur sagði í dómi sínum um einn geisladisk Grimaud að maður þyrfti helst að vera fullur eða á ofskynjunarlyfjum til að lesa það sem hún hefði skrifað um verkin í meðfylgjandi bæklingi. Og það er nokkuð til í því, þar er að finna svo langar setningar, í ofurdramatískum andarteppustíl, að það jaðrar við að vera fáránlegt. Manni dettur í hug úlfur að spangóla á fullu tungli.

Ímynd náttúruverndar

Árið 1999 stofnaði Grimaud ásamt þáverandi unnusta sínum Úlfaverndarmiðstöðina (Wolf Conservation Center) í Suður-Salem í Bandaríkjunum, eins og fram kom að nokkru hér að ofan. Markmiðið miðstöðvarinnar er m.a. að fræða almenning um úlfa, og stuðla að vernd þeirra á ýmsan annan hátt. Um tuttugu þúsund manns heimsækja miðstöðina árlega og greinilegt er að mikil vinna liggur þar að baki. Grimaud hefur einmitt sagt að þessi vinna hafi EKKI hjálpað henni á framabrautinni sem píanóleikari því hún hafi verið svo tímafrek. Það sé ekki fyrr en á undanförnum árum að hún hafi getað einbeitt sér að tónleikahaldi víða um heim.

Ímyndin af Brahms

Til er þó nokkuð af geisladiskum með Grimaud. Hún er rómuð fyrir túlkun sína á tónlist Brahms og ég tek persónulega þátt í þeim söng. Ég heyrði nýlega túlkun hennar á þriðju píanósónötunni, en það er erfitt verk, ekki bara í einum skilningi. Brahms bjó yfir stórkostlegri snilligáfu, honum tókst að gæða tónlist sína lýrískri nostalgíu og náttúrustemningu sem er alveg einstök. Þriðju sónötuna samdi hann mjög ungur, aðeins um tvítugt ef ég man rétt. Öll snilldin er samt þegar til staðar, en það er dýpra á henni, maður þarf að kafa eftir henni. Tónlistin er líka svo hvöss að það er vandasamt fyrir túlkandann að tapa ekki flæðinu. Fyrir píanóleikara sem hefur ekki nauðsynlega mýkt er næstum ógerningur að túlka sónötuna á sannfærandi hátt. Ég verð að segja að Grimaud nær einmitt flæðinu, það er eitthvað við stíl hennar sem mýkir tónlistina, gerir hana áheyrilegri og ljóðrænni. Tónlistin fer á flug og það er unaðslegt að hlýða á hana. Ég hvet fólk til að nálgast þessa upptöku, sem er fáanleg í 12 tónum, og kannski víðar í bænum.

Ímynd Rakmaninoffs

Önnur píanósónata Rakmaninoffs er líka skemmtileg í meðförum Grimaud. Eins og áður sagði var hún aðeins fimmtán ára þegar hún tók hana upp, og það er auðheyrt að Rakmaninoff á vel við hana. Tónlistin er myrk og ofsafengin, en einnig tregafull, nánast einmanaleg. Úlfurinn er þar ekki langt undan.

Túlkun Grimaud á Chopin hefur hins vegar ekki fengið eins góða dóma. Einn gagnrýnandi sagði að Chopin hljómaði ekki eins og Chopin í flutningi hennar, hann breyttist í einhvern sem héti Chopinonoff!

Ímyndin á geisladiskinum

Fyrir nokkru gerði Grimaud samning við Deutsche Grammophon. Geisladiskarnir sem síðan hafa komið út eru sérlega vandaðir, hver þeirra byggist á tilteknu tema eða konsefti sem gerir þá afar spennandi. Maður getur ekki annað en borið þá saman við svonefnda „bland í poka“-geisladiska, sem eru furðu algengir. Þetta eru eins konar nafnspjöld sem gefa manni góða hugmynd um getu og hæfileika viðkomandi, en að öðru leyti virðist enginn tilgangur vera með þeim, listrænn heildarsvipur er yfirleitt ekki til staðar. Slíkir diskar eru nokkuð algengir í klassíska geiranum hér á landi, þótt ég sé síður en svo að segja að allir íslenskir geisladiskar séu þannig.

Ímynd persónunnar

Eins og áður sagði hefur Grimaud gefið út endurminningabók, en á ensku ber hún nafnið Wild Harmonies: A Life of Music and Wolves. Við lestur bókarinnar er auðfundið að Grimaud er mjög greind og vel að sér um margt annað en tónlist. Og það er kynstur af fróðleik um úlfa þar. Það er samt eitthvað einkennilegt við persónuna sem kemur í ljós, eða öllu heldur kemur ekki í ljós. Grimaud virðist gæta sín á að halda sjálfri sér og samböndum sínum í ákveðinni fjarlægð við lesandann. Útkoman er sérkennilega ópersónuleg sjálfsævisaga. Maður hefur á tilfinningunni að Grimaud lyndi betur við dýr en manneskjur.

Ímyndin er góð

Ímyndin af Grimaud er vissulega skrýtin. En það er líka morgunljóst að hún er hæfileikamanneskja. Sannleikurinn er sá að hún er frábær píanóleikari og mér finnst ólíklegt að úlfarnir í lífi hennar hafi þann eina tilgang að gera hana frægari en aðra píanóleikara.

Og hverju skiptir það svo sem? Ímynd Grimaud er fyrst og fremst jákvæð, hún vill vernda tiltekið mikilvægt andlit náttúrunnar – og hún er líka fjári góður píanóleikari. Kannski að hún hefði átt að troða upp á Náttúrutónleikunum í Laugardalnum.


Heimildir:

  • Árni Matthíasson (2008): Bloggsíða, arnim.blog.is
  • Dubal, David. (1985 [1984]). The World of the Concert Pianist
  • Frith, S. (2002 [1996]). Performing Rites, Evaluating Popular Music
  • Gestur Guðmundsson. (1999). To find your voice in a foreign language – Authenticity and reflexivity in the anglocentric world of rock. Nordic Journal of Youth Research
  • Grimaud, Helene (2006): Wild Harmonies: A Life of Music and Wolves
  • Grove Music Online
  • Krishnamurti, Jiddu (1973): The Awakening of Intelligence
  • Sjón (2001): Með titrandi tár
  • Wikipedia; Wolf Conservation Center, www.nywolf.orgHöfundur er tónlistargagnrýnandi við Morgunblaðið.

Greinin birtist fyrst Lesbók Morgunblaðsins 9. ágúst 2008.


 ©  2008  Músa