Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 17. maí 2005
Það sem ekki drepur okkur... drepur okkur

Jónas Sen
<sen@mbl.is>

Hér er fjallar um hvernig stjórnvöld nota menningu sem félagslegt stjórntæki, aðallega á Íslandi í dag, en með vísan í aðstæður í Þriðja ríkinu og í Sovétríkjunum. Megineinkenni íslenskrar menningarstefnu virðast vera tvö, áherslan á að listin sé fyrir alla og áherslan á mikilvægi hins þjóðlega. Bæði eru dæmi um hvernig hið opinbera reynir að stjórna almenningi með tilteknu markmiði í huga. Þessu fylgja ákveðnar hættur; fjölhyggjan getur auðveldlega leitt til stöðnunar og áherslan á upphafningu hins þjóðlega getur hæglega valdið kynþáttafordómum og einangrun.

Á Listahátíð í ár virðist eitthvað vera fyrir alla. Við fáum að heyra Beethoven, heimstónlist, Pacifica kvartettinn, Barða Jóhannsson og margt fleira; allt mögulegt mun bera fyrir sjónir almennings í myndlistinni auk þess sem aðrar listgreinar fá að njóta sín líka. Að vísu fer lítið fyrir kvikmyndum og óneitanlega er svokölluð hámenningartónlist meira áberandi en dægurtónlist og djass. Kollegi minn á Morgunblaðinu, Arnar Eggert Thoroddsen, gerði athugasemd við þetta í grein um síðustu Listahátíð þar sem hann sagði: "Hátíðin var þreytt og fúl og svo gott sem ekkert var gert til að höfða til hins almenna listunnanda, hvað þá þess sem vogar sér að vera svo framsækinn að hugnast eitthvað annað en hinar rangnefndu "æðri" listir” (20. júní 2005). Samkvæmt Arnari var fyrst og fremst verið að hampa hámenningunni á Listahátíð, a.m.k. í tónlist. Ég get ekki séð að Listahátíðin í ár sé mikið öðruvísi, og ef það er rétt, þá má spyrja afhverju. Er “æðri” tónlist hollari fyrir almenning en önnur tónlist?

Félagslegt stjórntæki

Þáttur menningararfs og lista í mótun sjálfsmyndar þjóða og áhrif hans á hegðun þjóðfélagsþegna hefur löngum verið talinn mikilvægur, listum hefur oft verið stýrt í þeim tilgangi að hafa áhrif á hugsunarhátt almennings, t.d. í Þýskalandi á tímum Þriðja ríkisins og í Sovétríkjunum. En þó Sovétríkin séu hrunin og Nazisminn yfirbugaður er ekki þar með sagt að tilraunir hins opinbera til að stjórna almenningi með menningarstefnu að vopni séu fyrir bí. Enn þann dag í dag notar hið opinbera menningu sem félagslegt stjórntæki og má sjá dæmi um það á Listahátíð, á Menningarnótt, á Vetrarhátíðinni og í lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þetta þarf auðvitað ekki að vera neikvætt. Stjórnvöld í frjálslyndum nútímasamfélögum hafa það meðal annars að markmiði að hjálpa fólki að lifa fullnægjandi lífi og til þess reka þau menntakerfi, heilbrigðisþjónustu og fleira. Listamenn og listviðburðir eru þó ekki bara styrktir af tómri góðmennsku; æ sér gjöf gjalda segir máltækið. Valdið vill fá eitthvað fyrir snúð sinn, en hvað?

Listgagnrýni bönnuð

Í nóvember árið 1936 gaf Josef Goebbels, áróðursmeistari Þriðja ríkisins, út eftirfarandi yfirlýsingu: „Þar sem árið 1936 hefur liðið án nokkurra fullnægjandi framfara í listgagnrýni, þá banna ég hér með iðkun listgagnrýni eins og hún hefur verið stunduð hingað til. Héðan í frá munu fréttir af listum koma í stað listgagnrýni. Á tímabili gyðinglegra yfirráða í listum eyðilögðu gagnrýnendur hugmyndina um „gagnrýni“ og tóku á sig hlutverk dómara lista. Listgagnrýnandinn mun nú víkja fyrir menningarritstjóranum... Í framtíðinni verður aðeins þeim menningarritstjórum leyft að fjalla um listir sem nálgast verkefni sitt með hreint hjarta og fullvissu [um réttmæti] þjóðernissósíalismans.“

Þessi ákvörðun Goebbels hafði illar afleiðingar, eins og fram kemur í gagnrýni eftir John Russel, þar sem bókin Art in the Third Reich eftir Berthold Hinz var til umfjöllunar: „Af þeim ... hræðilegu atburðum sem áttu sér stað í Þýskalandi á milli áranna 1933 og 1945 finnast varla nokkur ummerki í hundruðum mynda sem Hr. Hinz hefur safnað saman. Eilífur smáborgarakeimur ríkir í hvívetna. Ung ást er alltaf heilbrigð, fjölskyldulífið er jarðnesk paradís, verkamannavinna er ánægjuleg og frelsandi, allar orrustur enda vel, náttúran er í hlutverki vinar...“

Svipað var uppi á teningnum í menningarlífinu í Sovétríkjunum sálugu; hið opinbera stjórnaði listamönnum landsins á jafnvel enn beinskeyttari hátt en í Þýskalandi. Listamönnum var sagt hvernig verk þeir áttu að skapa; valdamenn Sovétríkjanna trúðu því almennt að listaverk gætu ekki verið hlutlaus pólitískt séð; listaverk var annað hvort með eða á móti gildum byltingarinnar. Möppudýr og kerfiskarlar gátu því hafnað verkum fyrir að styðja ekki hugmyndafræðina sem lá að baki byltingunni. Þeir vildu frekar tónlist fyrir kóra og kammerhópa en einleiksverk því hin fyrrnefndu samsvöruðust betur hugmyndinni um rússneskan samvinnuanda. Almennt talað voru yfirborðsleg verk tekin fram yfir þau djúpu vegna þess að þau höfðuðu meira til fjöldans.

Gegn spilltum fegurðarsmekk

Þó að valdbeiting af þessu tagi hafi ekki tíðkast á Íslandi nema í undantekningartilvikum (eins og þegar Jónas frá Hriflu háði hetjulega baráttu gegn „úrkynjaðri list“ undir miðbik síðustu aldar), hefur hugmyndin um menningu sem félagslegt stjórntæki löngum verið ríkjandi. Jakob Möller fjármálaráðherra sagði t.d. árið 1924 að leikhús ætti ekki bara að vera skemmtun heldur líka skóli og dr. Páll Ísólfsson organisti hafði háleitar hugmyndir um tilganginn með stofnun fyrsta tónlistarskóla landsins sex árum síðar: „Gæti hann orðið til þess að glæða áhuga manna fyrir því sem best er og göfugast á því sviði og gæti hann jafnframt vakið andúð gegn öllu því fánýti og föndri, sem nú veður hjer uppi á ýmsum stöðum og gerspillir öllum fegurðarsmekk og dómgreind mann um það, hvað gott er, eða ekki gott, já, þá væri stofnun slíks skóla sem þessa, þarfari og þýðingarmeiri, en við ef til vill getum látið okkur óra fyrir í dag.“

Þessi hugmynd um að hámenningin þroski einstakinginn er ekki eins áberandi í dag, enda mörkin á milli há- og lágmenningar orðin óljósari. Á árum áður „átti“ hástéttin hámenninguna, hina svokallaða æðri list; lágstéttirnar hneigðust til lágmenningarinnar. Þetta endurspeglaðist í menningarstefnu hins opinbera, sem fyrst og fremst studdi við hámenninguna. Á síðustu árum hefur þetta verið að breytast, stjórnvöld hafa hægt og rólega að taka lágmenninguna upp á arma sína líka. Hámenningin í tónlist virðist þó enn eiga vinninginn á Listahátíð í Reykjavík.

Tónlist fyrir alla

Hér má spyrja afhverju hið opinbera móti og framfylgir menningarstefnu enn þann dag í dag. Nú er nazisminn horfinn (að mestu leyti) og Sovétríkin eru hrunin; afhverju þarf hið opinbera að hafa áhyggjur af listum og menningu yfirleitt? Afhverju ekki bara að leyfa markaðslögmálunum að ráða?

Í grein sinni Cultural Policy – Issues of Culture and Governance heldur menningarfræðingurinn Tony Bennett því fram að stjórnvöld gegni lykilhlutverki í mótun menningar. Menningarstefna sé tilraun hins opinbera til að afla, stjórna og koma skipulagi á menningarauð, sem viðbrögð við tilteknum aðstæðum á borð við auknum innflytjendafjölda og hnattvæðingu. Svo dæmi sé tekið þá hefur Reykjavíkurborg valið að bregðast við þessum aðstæðum með því að leggja áherslu á fjölbreytni og fjölmenningu í menningarstefnu sinni, þar sem m.a. stendur: „Reykjavík eflist sem höfuðborg mennta og menningar í landinu; alþjóðleg borg með frjóu, metnaðarfullu listalífi og fjölbreyttu mannlífi. Menningarbragur borgarinnar styrki sjálfsvirðingu og treysti samkennd allra landsmanna.“ Þetta kemur hvað skýrast fram í hátíðum á borð við Menningarnótt og vetrarhátíð, þar sem allt er “…að gerast, úti um allt. Þar hefur maður á tilfinningunni að þeir sem vettlingi geta valdið fari af stað, sýni sína list - sama úr hvaða geira þeir koma - og slái upp hátíð”, eins og Arnar Eggert orðaði það í greininni sem nefnd var hér í upphafi.

Menningarstefna er því ekki bara eitthvert „plott“ til að kúga almenning. En jafnvel þó hún sé aðallega viðbrögð við aðstæðum þá byggist hún líka á ákveðnu vali og er ekki hafin yfir gagnrýni. Þess vegna er vert að líta aðeins betur á það sem hið opinbera á Íslandi vill með menningarstefnu sinni.

Skoðum tvö megineinkenni hennar, annars vegar kröfuna um fjölbreytni og að menning eigi að vera aðgengileg fyrir alla; hinsvegar áberandi þjóðernishyggju, áherslu á að velja íslenskt. Bæði þessi atriði fela í sér ákveðnar hættur. Varðandi hið fyrra þá þurfa stofnanir eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan nú að ná til sem flestra, það virðast vera skilyrðin fyrir áframhaldandi fjárstuðningi hins opinbera.

Hverjar eru afleiðingarnar af því? Jú, vissulega verður listin alþýðlegri, hún er aðgengilegri fyrir allan þorra almennings, ólíkir þjóðfélagshópar sameinast, listin er ekki lengur athöfn sem aðeins hástéttin tekur þátt í, eins og tíðkaðist fyrr á tímum (þó rándýrir tónleikar José Carreras og Placido Domingo og sýningar Íslensku óperunnar virðast vera undantekningarnar frá þessu). Gallinn er sá að vinsæl verk verða stöðugt fyrirferðarmeiri, a.m.k. hjá stærri stofnunum tónlistarheimsins; tilraunamennska er litin hornauga (a.m.k. í klassíkinni), nýsköpun fellur í skuggann vegna þess hve áhættusöm hún er; listin staðnar.

Leiðrétt: ÍSLENSK tónlist fyrir alla

Hér er nauðsynlegt að benda á að það er ekki tónsmíðaaðferðin, hvort sem það er raðtækni eða einhver önnur, sem gerir útslagið um hvort tónlist sé merkileg eða ekki. Eins og fyrrnefndur Atli Heimir benti á í grein hér í Lesbókinni fyrir rúmum áratug þá „eru það ekki kerfin sem geta af sér meistarastykkin. Þau verða til á annan hátt. (...) rím eða rímleysa skiptir ekki sköpum um gildi ljóða. Þó einhverjum takist að berja saman dýrt kveðna ferskeytlu, er ekki þar með sagt að hún hafi hið minnsta bókmenntagildi. Og þó eitthvert skáld „varpi af sér oki“ hefðbundins forms, og „brjótist úr fjötrum ríms og stuðla“ er ekki þar með sagt að meistaraverk verði til. Í listsköpuninni eru margir kallaðir en fáir útvaldir, og þar eru mikil afföll; meistarastykkin miklu færri en hrákasmíðarnar. Svona hefir það verið og ég hef ekki trú á því að það breytist. Að mínu mati hafa verið uppi alveg eins merkilegt tónskáld á 20stu öld og þeirri 19du. Ég get ekki séð, að Lutoslawsky, Messiaen, Nono, Zimmermann, Feldman og Cage (...) standi starfsnautum sínum frá fyrri öldum neitt að baki.“

Á skjön við ríkjandi hefðir

Hitt einkenni íslenskrar menningarstefnu, þjóðernishyggjan, er upprunnin á síðari hluta 19. aldar þegar Íslendingar hófu að berjast fyrir sjálfstæði sínu. Hún er enn við lýði, kannski vegna þess hve lítil þjóðin er. Í lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands segir að hljómsveitinni beri að leggja sérstaka áherslu á íslenskar tónsmíðar, Rás 2 spilar aðallega íslenska popptónlist, o.s.frv.

Hvernig stendur á þessu? Jú, hið opinbera er hér enn og aftur að nota menningu sem félagslegt stjórntæki, ekki til að menn láti af drykkjuskap og hagi sér betur, heldur til að styrkja þjóðernisvitund okkar og til að hvetja til innlendrar nýsköpunar. Í sjálfu sér er það rökrétt hvað tónlistarheiminn varðar; tónlistarmenningin er ein af forsendum þess að við getum kallað okkur menningarþjóð og þjóðlegi hluti íslenskrar tónlistarmenningar er það sem gefur henni sérstöðu. Því er nauðsynlegt að hlúa að sérkennum íslenskrar tónlistarmenningar og hið opinbera stuðlar að því með því að styrkja fremur íslenska tónlist en útlenska. Vandamálið er að þetta getur leitt til kynþáttafordóma og þjóðernisrembings, rétt eins og áhersla Þjóðverja á menningararf sinn var hluti af ferli sem leiddi m.a. til þess að Gyðingar voru fyrirlitnir og Seinni heimstyrjöldin skall á. Auðvitað er lítil hætta á að við komum af stað heimstyrjöld, en smáþjóð sem heldur að hún sé best, sterkust, gáfuðust og fallegust (eins og í Thule auglýsingunum!) er varla tekin alvarlega á alþjóðavettvangi.

Niðurstaða

Eins og áður sagði eru listamenn og listviðburðir ekki bara styrktir af tómri góðmennsku.  Helstu ástæðurnar sem virðast liggja að baki opinberum stuðningi við listir á Íslandi er annarsvegar sú fjölmenning sem verður stöðugt meira áberandi í þjóðfélaginu; hinsvegar skoðunin að sterk þjóðernisvitund sé mikilvæg. Auk þess eimir enn eftir af þeirri hugmynd að hámenning sé almenningi holl. Allt þetta flokkast undir beitingu menningar sem félagslegs stjórntækis. Það er verið að stuðla að sameiningu ólíkra þjóðfélagshópa, upphefja okkur sem Íslendinga, fylla okkur stolti yfir uppruna okkar, styrkja okkur í samskiptum við aðrar þjóðir, gerir okkur að ”betri” þjóðfélagsþegnum og glæða áhuga okkar fyrir því sem er ”best og göfugast”, eins og dr. Páll Ísólfsson orðaði það.

Í sjálfu sér er ekkert að þessu. Ég persónulega er t.d. hallur undir svokallaða hámenningartónlist og ég sé ekkert að því að hvetja til innlendrar nýsköpunar, hvað þá að tilraunum til að gera listina aðgengilegri almenningi og sameina ólíka þjóðfélagshópa. Hinsvegar má deila um öll þessi atriði; menningarstefna getur auðveldlega verið tvíeggjað sverð. Rándýrir tónleikar og óperusýningar undirstrika stéttaskiptinguna í þjóðfélaginu því ekki hafa allir efni á þeim; krafan um að listin nái til allra getur auðveldlega leitt til stöðnunar og yfirborðsmennsku, og það sem styrkir þjóðarvitund okkar getur hæglega valdið kynþáttafordómum, hroka, einangrun og enn meiri stöðnun. Fræg eru orð Nietszches, ”það sem ekki drepur okkur gerir okkur sterkari.” Í ljósi íslenskrar menningarstefnu mætti líka segja að ef við höldum ekki vöku okkar þá getur það sem styrkir okkur rétt eins drepið okkur – og listina með.Heimildir:

  • www.althingi.is
  • Bennett, Tony (2001): Cultural Policy – Issues of Culture and Governance
  • Besharov, Gregory (2003): The Outbreak of the Cost Disease: Baumol and Bowen’s  Case for Public Support of the Arts
  • Bjarki Bjarnason (2000): Sinfóníuhljómsveit Íslands
  • Menningarstefna Reykjavíkurborgar
  • Naremore, James and Brantlinger, Patrick, ritstj. (1991): Modernity and Mass Culture
  • Ólafur Rastrick (2005): Fyrirlestrar í samtímagreiningu í mennta- og menningarstjórnun við Viðskiptaháskólann á Bifröst
  • Schick, Robert J. (1996): Classical Music Criticism.


Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 7. maí 2005.


 ©  2005  Músa